Andrúmsloft þessa heims er banvænt!
„Og ykkur lífgaði Guð þótt þið væruð dauðir í yfirtroðslum ykkar og syndum sem þið eitt sinn genguð í . . . að vilja stjórnandans yfir valdi loftsins..“ — EFESUSBRÉFIÐ 2:1, 2, NW.
1. Hvers vegna er andrúmsloftið sums staðar orðið lífshættulegt?
HVERSU hressandi er ekki að komast út í ferskt loft eftir að hafa verið í herbergi þar sem loftið er þungt og þjakandi! En jafnvel úti undir berum himni er loftmengun mikil. Víða um heim er eiturefnum spúið út í andrúmsloftið í ógnvekjandi magni. Eitraðar gufur, geislavirkt ryk, sýklar og ýmsar veirur berast með loftinu. Græðgi mannsins og kæruleysi er smám saman að gera andrúmsloftið, sem okkar ástríki skapari gaf okkur af slíku örlæti, banvænt.
2. Hvaða ‚loft‘ er enn hættulegra en hið mengaða loft sem við öndum að okkur?
2 Þótt loftmengun sé hættuleg er til önnur og enn banvænni ‚loftmengun.‘ Þar er ekki um að ræða mengað loft eftir kjarnorkuslysið í Chernobyl eða reykmettað stórborgarandrúmsloft eins og í Los Angeles. Við eigum á hættu að anda að okkur miklu banvænna ‚andrúmslofti.‘ Páll postuli minntist á það þegar hann sagði kristnum bræðrum sínum: „Þér voruð eitt sinn dauðir vegna afbrota yðar og synda, sem þér lifðuð í samkvæmt aldarhætti þessa heims, að vilja valdhafans í loftinu [stjórnandans yfir valdi loftsins, NW], anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa.“ — Efesusbréfið 2:1, 2.
3, 4. (a) Hver er ‚stjórnandinn yfir valdi loftsins‘? (b) Hvers vegna er ‚loftið‘ í Efesusbréfinu 2:1, 2 ekki bústaður illra anda?
3 Hvaða ‚loft‘ er þetta? Páll segir að það hafi ‚vald‘ eða afl og að yfir því sé ‚stjórnandi.‘ Við þurfum ekki að vera í vafa um hver þessi stjórnandi er. Það er Satan djöfullinn, hann sem Jesús Kristur kallaði „höfðingja þessa heims.“ (Jóhannes 12:31) Biblíufræðingum er það ljóst og því hafa sumir haldið því fram að Páll hafi tekið hér að láni tungutak Gyðinga eða heiðingja og talað um andrúmsloftið sem bústað illra anda er djöfullinn fer með völd yfir. Margar biblíuþýðingar endurspegla þetta sjónarmið. En þetta ‚loft‘ er ekki hið sama og ‚himingeimurinn‘ þar sem „andaverur vonskunnar“ búa. — Efesusbréfið 6:11, 12.
4 Þegar Páll skrifaði kristnum mönnum í Efesus voru Satan og illir andar hans enn á himnum, þótt velþóknun Guðs næði ekki til þeirra. Enn var ekki búið að kasta þeim niður af himnum í nágrenni við jörðina. (Opinberunarbókin 12:7-10) Loftið beinist meira að mönnum en andaverum. Það voru mennirnir sem áttu að finna fyrir því þegar síðustu reiðiskál Guðs yrði úthellt „yfir loftið.“ — Opinberunarbókin 16:17-21.
5. Hvaða ‚loft‘ er hér um að ræða og hvaða áhrif hefur það á fólk?
5 Svo er að sjá sem Páll noti hér hið bókstaflega loft, andrúmsloftið, til tákns um hinn almenna anda, hið ríkjandi hugarfar eigingirni og óhlýðni sem einkennir þá er ekki þekkja Guð. Það er hið sama og ‚andi þess sem nú starfar í þeim sem ekki trúa,‘ og ‚andi heimsins.‘ (Efesusbréfið 2:2; 1. Korintubréf 2:12) Á sama hátt og hið bókstaflega andrúmsloft er alls staðar og bíður þess að við öndum því að okkur, eins er ‚andi heimsins‘ alls staðar. Hann gagnsýrir og mótar hugsunarhátt manna frá vöggu til grafar og birtist í því hvernig þeir reyna að láta vonir sínar, óskir og metnaðarlanganir rætast.
6. (a) Hvað eykur áhrif þessa ‚lofts‘ heimsins og hvernig fer það með eins konar yfirvald? (b) Hvernig getur það fengið menn til að líkja eftir uppreisnarhug djöfulsins ef þeir anda að sér þessu ‚lofti‘?
6 Þessi andi syndar og uppreisnar drottnar yfir ófullkomnu mannfélagi. Menn anda að sér þessu ‚lofti‘ og eituráhrif þess magnast vegna þvingunar og þrýstings frá öðrum mönnum og síaukinnar löngunar í holdlegan munað. Því er þetta loft eins og ‚valdhafi‘ yfir fólki. (Samanber Rómverjabréfið 6:12-14.) Djöfullinn er að sjálfsögðu frumkvöðull alls þess sem illt er. (Jóhannes 8:44) Hann hefur því þau áhrif á menn að þeir líkja eftir uppreisnargirni hans, og hann innblæs, mótar og stýrir þessum ‚anda‘ eða ‚lofti‘ samfélagsins. Satan er ‚valdhafinn‘ eða ‚stjórnandinn‘ yfir þessu óhugnanlega afli og notar það til að stýra hugsun manna. Frumefni þess eru þannig gerð að þau haldi fólki uppteknu við að fullnægja löngunum holdsins og keppa eftir veraldlegum hagsmunamálum, þannig að það hafi engan tíma eða tilhneigingu til að kynnast Guði og beygja sig fyrir heilögum anda hans, ‚andanum sem lífgar.‘ (Jóhannes 6:63) Í andlegum skilningi eru þeir dauðir.
7. (a) Í hvaða skilningi voru kristnir menn einu sinni „börn reiðinnar“? (b) Hvaða breyting átti sér stað þegar við tókum kristna trú?
7 Kristnir menn höfðu líka verið undir yfirvaldi eða stjórn þessa mengaða ‚lofts‘ áður en þeir lærðu sannleikann í orði Guðs og fóru að samlaga sig réttlátum stöðlum hans. „Vér lifðum fyrrum allir eins og þeir [veraldlegt fólk] í mannlegum girndum vorum. Þá lutum vér vilja holdsins og hugsana vorra og vorum að eðli til reiðinnar börn alveg eins og hinir.“ En þegar við gerðumst kristin hættum við að anda að okkur þessu banvæna ‚lofti‘ heimsins. Við ‚afklæddumst hinum gamla persónuleika ásamt okkar fyrri breytni og íklæddumst nýjum persónuleika sem var skapaður eftir vilja Guðs í réttlæti og heilagleika sannleikans.‘ — Efesusbréfið 2:3; 4:22-24.
8. Hvernig er líkt komið fyrir okkur núna og Ísraelsmönnum í eyðimörkinni?
8 Sú hætta er á ferðum að við látum tælast aftur út í hið mengaða andrúmsloft heimsins, eftir að vera sloppin úr því. Nú er langt liðið á tíma endalokanna og við stöndum á þröskuldi nýs heims. (Daníel 12:4) Við viljum sannarlega ekki missa af honum með því að falla í sömu gildruna og Ísraelsmenn. Eftir að þeir höfðu með undraverðum hætti verið frelsaðir úr Egyptalandi og voru komnir að landamærum fyrirheitna landsins voru þúsundir þeirra ‚fallnar í eyðimörkinni.‘ Hvers vegna? Vegna þess að sumir höfðu farið að dýrka skurðgoð, aðrir gerst sekir um saurlifnað og enn aðrir freistað Jehóva með mögli sínu. Páll bendir á mikilvægt atriði þegar hann segir: „Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði, og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir.“ — 1. Korintubréf 10:1-11.
9. (a) Hvernig er hægt að vera í heiminum án þess að tilheyra honum? (b) Fyrir hverju þurfum við að gæta okkar?
9 Jesús bað fyrir lærisveinum sínum: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa.“ (Jóhannes 17:14, 15) Jehóva Guð mun vernda okkur og gæta, en hann leggur ekki „skjólgarð“ um okkur eða skýlir okkur með undraverðum hætti fyrir ‚andrúmslofti‘ þessa heims. (Jobsbók 1:9, 10) Sú áskorun, sem við þurfum að taka, er að vera í heimi Satans án þess að vera hluti af honum, að vera umkringd menguðu ‚lofti‘ hans án þess að anda því að okkur. Þegar við lesum veraldleg blöð og tímarit, horfum á sjónvarpið eða förum eitthvað okkur til skemmtunar er líklegt að ‚andrúmsloft‘ þessa heims mæti okkur. Við getum ekki komist hjá því að hafa einhver tengsl við fólk heimsins — í vinnu, skóla og við önnur tækifæri — en við verðum að vera vökul til að láta ekki sogast aftur út í hið banvæna andrúmsloft þessa heims. — 1. Korintubréf 15:33, 34.
10, 11. (a) Hvað er líkt með því að vera í andlegri paradís Jehóva og á svæði ætlað þeim sem ekki reykja? (b) Hvað ber okkur að gera ef eitthvað af ‚lofti‘ þessa heims berst fyrir vit okkar?
10 Við gætum líkt aðstöðu okkar við það að við sætum í veitingasal sem er skipt milli reykingamanna og þeirra sem ekki reykja. Eins og okkur ber höldum við okkur í þeim hluta salarins þar sem reykingar eru ekki leyfðar, í andlegri paradís Jehóva, fjarri anda þessa heims. Við myndum örugglega ekki af ásettu ráði fá okkur sæti á reykingasvæði. Það væri heimskulegt. En hvað gerist oft þegar við sitjum á reyklausu svæði í veitingahúsi? Reykmettað, óhreint loft berst yfir til okkar. Njótum við þess? Drögum við djúpt að okkur andann með velþóknun? Reynum við ekki frekar að koma okkur burt þaðan eins fljótt og við getum?
11 En hvað gerir þú þegar eimur af ‚lofti‘ þessa heims berst fyrir vit þér? Forðar þú þér samstundis frá slæmum áhrifum þess? Ef þú dokar við og andar því að þér, þá máttu vera viss um að það hefur áhrif á hugsun þína. Því lengur sem þú andar því að þér, þeim mun betur þolir þú það. Smám saman hættir þér að finnast það óþægilegt; þér fer að finnast það lokkandi, ölvandi og höfða til holdsins. Það getur magnað með þér einhverja leynda löngun sem þú hefur verið að berjast gegn.
12. Hvað þarf að gera til að láta ekki þá efnisþætti þessa ‚lofts,‘ sem erfitt er að greina, hafa áhrif á okkur?
12 Sum hinna banvænu mengunarefna í ‚lofti‘ þessa heims eru ekki auðgreind. Sum bókstafleg mengunarefni, svo sem kolsýringur, eru lyktar- og bragðlaus. Sú hætta er því fyrir hendi að við greinum ekki hin banvænu mengunarefni fyrr en þau hafa bugað okkur. Við þurfum því að vera sívakandi til að undanlátsöm viðhorf þessa heims og óhlýðni við réttláta staðla Guðs leiði okkur ekki í dauðagildru. Páll hvatti kristna bræður sína til að ‚áminna hver annan hvern dag til þess að enginn forhertist af táli syndarinnar.‘ — Hebreabréfið 3:13; Rómverjabréfið 12:2.
Hvernig er ‚loft‘ þessa heims samsett?
13. (a) Nefnið einn efnisþátt í ‚lofti‘ heimsins sem við þurfum að vara okkur á. (b) Af hverju er ljóst að þetta ‚loft‘ hefur haft áhrif á suma þjóna Jehóva?
13 Hvaða algeng viðhorf gætum við farið að tileinka okkur, jafnvel án þess að gera okkur það ljóst, vegna sterkra áhrifa frá andrúmslofti þessa heims? Af þeim má nefna löngun til að leika sér að því sem siðlaust er. Hugmyndir þessa heims um siðferði og kynlíf eru alls staðar í kringum okkur. Margir segja: ‚Það er allt í lagi að vera lauslátur, eignast börn utan hjónabands eða vera kynvillingur. Við erum bara að gera það sem er eðlilegt.‘ Hefur þetta andrúmsloft, þessi veraldlegi andi haft áhrif á þjóna Jehóva? Já, því miður. Á þjónustuárinu 1986 þurfti að gera 37.426 einstaklinga ræka úr kristna söfnuðinum, flesta vegna siðleysis. Og þá eru ekki taldir þeir mörgu sem fengu áminningu fyrir siðleysi en voru ekki gerðir rækir sökum einlægrar iðrunar sinnar. Þeir voru enn fleiri. — Orðskviðirnir 28:13.
14. Hvers vegna fara sumir kristnir menn á villigötur í siðferðismálum og hvaða ráðum Ritningarinnar hafna þeir?
14 Hvernig ber það til að sumir skuli láta leiða sig út í siðleysi? Þegar málsatvik eru skoðuð kemur oft í ljós að þeir hafa byrjað aftur að anda að sér banvænu andrúmslofti þessa heims. Þeir hafa leyft veraldlegum viðhorfum að breyta þeim stöðlum sem þeir fylgja. Til dæmis gætu þeir farið að horfa á kvikmyndir sem þeir hefðu ekki viljað sjá nokkrum árum áður. Enn verra er að þeir gætu farið að horfa á kvikmyndir af myndböndum heima hjá sér sem eru alls ekki við hæfi kristinna manna. Það að leika sér þannig að siðleysi gengur þvert á hvatningarorð Biblíunnar: „Frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum. Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé.“ — Efesusbréfið 5:3, 4.
15. Hvernig gæti freistingin til að gæla við siðleysi byrjað ‚sakleysislega‘?
15 Þú værir kannski fljótur til að segja nei ef einhver byði þér beint og opinskátt að fremja saurlifnað með sér. En hvað gerir þú ef einhver í skólanum eða á vinnustað reynir að daðra við þig, er nærgöngull eða biður þig að fara út með sér? Þá slær andrúmslofti þessa heims fyrir vit þér. Leyfir þú þér að njóta þeirrar athygli sem þú færð, eða jafnvel að hvetja til hennar? Samkvæmt skýrslum öldunga hefst röng breytni oft með svona ‚meinleysislegum‘ hætti. Maður úr heiminum segir kannski við kristna konu: „Þú lítur vel út í dag!“ Henni fellur það kannski vel, einkanlega ef hún er eilítið einmana. Enn alvarlegra er að sumar kristnar konur hafa ekki hagað sér viturlega þegar menn úr heiminum hafa reynt að snerta þær með óviðeigandi hætti. Þær hafa kannski hreyft andmælum en með svo hálfum huga að veraldlegir menn skoða það sem hvatningu til að halda áfram. Hvað á kristin kona að gera ef slíkir siðlausir tilburðir við hana halda áfram, líkt og stór ský af menguðu lofti verði á vegi hennar? Með einurð ætti hún að segja manninum að hún kæri sig ekki um athygli hans og vilji að hann hætti þessu. Ef hún heldur áfram að anda að sér þessu ‚lofti‘ er líklegt að mótspyrna hennar bresti. Hún gæti leiðst út í siðleysi eða jafnvel óhyggilegt hjónaband. — Samanber Orðskviðina 5:3-14; 1. Korintubréf 7:39.
16. Hvað þarf til að geta verið ‚góðilmur Krists‘?
16 Vertu því skjótur til að hafna siðlausu, banvænu ‚lofti‘ þessa heims. Í stað þess að láta undan lokkandi angan þess og setja smánarblett á nafn Jehóva og skipulag, þá skalt þú vera þægilegur ilmur fyrir Guði með guðhræddum viðhorfum þínum og breytni. Páll orðaði það þannig: „Vér erum góðilmur Krists fyrir Guði meðal þeirra, er hólpnir verða, og meðal þeirra, sem glatast; þeim síðarnefndu ilmur af dauða til dauða, en hinum ilmur af lífi til lífs.“ (2. Korintubréf 2:15, 16) Hvaða máli skiptir það þótt einhverjir fitji upp á nefið gagnvart kristinni lífsbreytni? (1. Pétursbréf 4:1-5) Við skulum láta heiminn fara sína leið og uppskera sinn slæma ávöxt í mynd sundraðra heimila, barna utan hjónabands, samræðissjúkdóma svo sem alnæmis, og fjölda annarra tilfinningalegra og líkamlegra hörmunga. Þú munt ekki aðeins fá umflúið margs kyns kvöl og sársauka heldur líka njóta hylli Guðs. Auk þess munu í það minnsta sumir verða snortnir af góðri breytni þinni og boðskapnum um Guðsríki, sem þú flytur, og finnast ‚ilmurinn af lífi til lífs‘ aðlaðandi.
Andrúmsloft veraldlegra tískufyrirbæra
17. Hvernig getur klæðaburður gefið til kynna að við höfum látið anda þessa heims hafa áhrif á okkur?
17 Annar þáttur í andrúmslofti þessa heims snýr að klæðaburði. Margir í heiminum reyna að vera lokkandi og tælandi í klæðaburði. Jafnvel börn, sem enn hafa ekki náð táningaaldri, reyna að klæða sig þannig að þau líti út fyrir að vera eldri en þau eru, og að leggja áherslu á hið kynferðislega. Lætur þú þetta andrúmsloft hafa áhrif á þig? Reynir þú að klæðast þannig að hinu gagnstæða kyni finnist þú kynferðislega lokkandi? Ef svo er ert þú að leika þér að eldinum. Ef þú andar að þér þessu ‚lofti‘ mun það kæfa hæversku þína og sómatilfinningu, löngun þína til að vera hreinlífur. (Míka 6:8) Þá munu þeir sem hafa anda heimsins laðast að þér. Af háttarlagi þínu munu þeir draga þá ályktun að þú sért til í að taka þátt í siðleysi. En hvaða ástæða er til að fara inn á þessa braut, með því að láta andrúmsloft heimsins lokka þig til að gera það sem er illt í augum Guðs?
18. Hvernig getur það að hafa alltaf í huga að við erum fulltrúar Jehóva hjálpað okkur til að velja viðeigandi klæðnað?
18 Við þurfum ekki að vera illa til fara eða óaðlaðandi í klæðaburði til að vera látlaus. Líttu á hvernig yfirgnæfandi meirihluti votta Jehóva klæðist. Þeir forðast öfgar þessa heims en eru snyrtilega til fara og hafa stöðugt í huga að þeir eru þjónar og fulltrúar æðsta drottinvalds alheimsins, Jehóva. Hvaða máli skiptir það þótt gamli heimurinn gagnrýni snyrtilegan og smekkvísan klæðaburð þeirra? Þeir voga sér ekki að láta viðhorf þessa heims breyta þeim stöðlum sem þeir hafa sett sér. „Þetta segi ég þá og vitna í nafni Drottins,“ skrifaði Páll postuli. „Þér megið ekki framar hegða yður eins og heiðingjarnir hegða sér. Hugsun þeirra er allslaus, skilningur þeirra blindaður . . . Þeir eru tilfinningalausir og hafa ofurselt sig lostalífi, svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi.“ (Efesusbréfið 4:17-19) Þroskaðir kristnir menn eru sómasamlega til fara og hegða sér ekki eins og þjóðirnar gera. — 1. Tímóteusarbréf 2:9, 10.
19. Hvernig er ljóst af því sem við höfum þegar rætt um ‚loft‘ heimsins að það er hættulegt að anda því að sér?
19 Enn sem komið er höfum við athugað aðeins tvennt sem einkennir andrúmsloft þessa heims. Þó höfum við séð að þetta andrúmsloft er mjög skaðlegt andlegri heilsu manna. Í greininni á eftir munum við ræða ýmsa aðra efnisþætti þessa banvæna ‚lofts‘ sem djöfullinn og heimur hans blása stöðugt í áttina til kristinna manna í von um að þeir verði því að bráð. Sannarlega er þýðingarmikið að við forðumst slíkt ‚loft‘ því að ef við öndum að okkur anda þessa heims er það eins og að anda að sér banvænum eiturgufum!
Hverju svarar þú?
◻ Hvað er ‚loft‘ þessa heims og hver er stjórnandi þess?
◻ Hvers konar ‚vald‘ fer ‚loft‘ heimsins með yfir fólki?
◻ Í hvaða skilningi má segja að kristnir menn séu á svæði ætlað þeim sem ekki reykja?
◻ Hvernig getur ‚loft‘ þessa heims tælt þjóna Jehóva til að gæla við það sem siðlaust er?
◻ Hvernig getur háttvísi hjálpað okkur að láta ekki ‚loft‘ þessa heims hafa áhrif á klæðaburð okkar?
[Mynd á blaðsíðu 7]
Neitar þú að anda að þér banvænu ‚lofti‘ þessa heims?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Hvað gerir þú þegar ‚loft‘ þessa heims berst að vitum þér?