Útkljáðu málin milli Guðs og þín
„Þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll.“ — JESAJA 1:18.
1, 2. (a) Hvað gætir þú séð fyrir þér ef einhver bæði þig að koma og ræða málin við sig? (b) Hvers vegna ættum við ekki að búast við að geta gert málamiðlun við Guð?
EF einhver mistök eða ágreiningur hefði valdið spennu milli þín og annars manns, hvernig myndir þú bregðast við ef hann segði: „Komdu, við skulum ræða málin“? Það gæti verið boð um að ræða málin rólega og yfirvegað og reyna að ná samkomulagi. Báðir gætu sagt sína skoðun og síðan kynni hvor um sig að fallast á að sér hefði orðið á einhver mistök eða misskilningur.
2 En gætir þú ímyndað þér að skaparinn myndi í slíkum skilningi biðja menn að ‚koma og ræða málin‘ við sig eins og ætla má af orðalagi Jesaja 1:18 í mörgum biblíum? Auðvitað ekki. Ekkert okkar getur búist við því að fá „að rökræða málin til lykta“ (The New English Bible) við Jehóva eða komast að einhverri málamiðlun við hann, rétt eins og hann þyrfti að játa á sig mistök og gefa eftir. En hvað er Jesaja 1:18 þá að segja að við þurfum að gera til að eiga frið við Guð?
3. Hver er grunnmerking hebreska orðsins í Jesaja 1:18 sem stundum er þýtt „að ræða saman“?
3 Grunmerking hebreska orðsins, sem þýtt er ‚að ræða málin,‘ ‚að eigast lög við,‘ er sú „að útkljá, úrskurða, sanna.“ Það ber keim af lagamáli og gefur til kynna meira en það að tveir einstaklingar einungis ræði málin. Orðið felur í sér að felldur sé úrskurður eða tekin ákvörðun.a (1. Mósebók 31:37, 42; Jobsbók 9:33; Sálmur 50:21; Jesaja 2:4) Wilson’s Old Testament Word Studies gefur merkinguna „að hafa á réttu að standa, rökræða, að sýna fram á hvað sé rétt og satt.“ Guð var hér að bjóða okkur: „Eigumst lög við“ í þeirri merkingu að „við skulum koma hlutunum í lag“ (The New American Bible), eða „við skulum leiðrétta málin.“ (NW).
4-6. Hver var Jesaja og hvenær þjónaði hann sem spámaður?
4 Jehóva Guð notaði spámanninn Jesaja til að flytja þennan magnþrungna boðskap. Hver var Jesaja og hvers vegna var boðskapur hans við hæfi á sínum tíma? Getum við líka haft gagn af þessum boðskap og þá hvernig?
5 Orðið „spámaður“ fær kannski suma til að hugsa sér ungan meinlætamann sem boðaði öðrum sína eigin brengluðu mynd af veruleikanum. Aðrir sjá ef til vill fyrir sér gamlan sérvitring sem er sjálfskipaður dómari um ríkjandi aðstæður. En Jesaja, þessi öfgalausi og rökfasti maður sem Jehóva Guð notaði til að skrifa biblíubókina er ber nafn hans, var ekkert í líkingu við það!
6 ‚Jesaja Amozson‘ bjó í Júda og þjónaði Jehóva „á dögum Ússía, Jótams, Akasar og Hiskía, konunga í Júda“ — í meira en fjóra áratugi. Í hæversku sinni segir Jesaja fátt um sjálfan sig. Sagngeymd segir að hann hafi verið skyldur konungaætt Júda. Við vitum með vissu að hann var kvæntur og kona hans ól honum tvo syni. Hann kann að hafa kvænst aftur eftir dauða hennar og eignast þriðja soninn er fékk hið spádómlega nafn Immanúel. — Jesaja 1:1; 7:3, 14; 8:3, 18.
7. Hvers vegna ættum við að sýna spádómum Jesaja áhuga?
7 Margt er líkt með tímum Jesaja og okkar. Auðsætt er að við lifum tíma mikillar spennu á alþjóðavettvangi, tíma styrjalda og styrjaldarógnunar. Leiðtogar trúmála og stjórnmála, sem láta í veðri vaka að þeir þjóni Guði, stilla sér upp sem fyrirmynd öðrum til eftirbreytni — en fjölmiðlar nefna síðan nöfn þeirra í sambandi við siðferðis- eða fjármálahneyksli. Hvernig lítur Guð á slíka leiðtoga, einkum þá sem tengdir eru kristna heiminum? Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir þá og fylgjendur þeirra? Í Jesajabók finnum við yfirlýsingar Guðs sem koma þessum spurningum mjög við. Hún geymir einnig lærdóm sem eitt og sérhvert okkar getur tekið til sín í þjónustu sinni við Guð.
Spámaður yfir sekri þjóð
8. Hvað geymir Jesajabók og með hvaða hætti er hún rituð?
8 Við lestur Jesajabókar rekumst við á boðskap tengdan sekt Júda og Jerúsalem, sögulegar upplýsingar um innrásir óvina, yfirlýsingar um eyðingu þjóðanna umhverfis og hvetjandi forspár um endurreisn og hjálpræði til handa Ísrael. Bókin er skrifuð á líflegu og hrífandi máli. Dr. I. Slotki segir: „Fræðimenn bera mikið lof á snilldarlegt ímyndunarafl Jesaja og litríkar, myndrænar lýsingar hans, vald hans á áhrifamiklum myndlíkingum, stafrími, hljóðlíkingum og hina fáguðu nákvæmni og lipurt hljóðfall setninganna.“ Við skulum sérstaklega beina athygli okkar að inngangi Jesajabókar — fyrsta kaflanum.
9. Hvað vitum við um þann tíma og aðstæður er 1. kafli Jesajabókar var skrifaður?
9 Spámaðurinn tiltekur ekki nákvæmlega hvenær hann skrifaði þennan kafla. Jesaja 6:1-13 var skrifað sama ár og Ússía konungur dó. Hafi Jesaja skrifað kaflana á undan fyrir þann tíma kann að vera að þeir lýsi því ástandi sem var undir yfirborðinu í konungstíð Ússía. Ússía (829-777 f.o.t.) gerði í meginatriðum „það, sem rétt var í augum [Jehóva]“ þannig að Guð blessaði stjórnartíð hans með velsæld. Ekki var þó allt með felldu því að „enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum“ áður en Guð sló Ússía (öðru nafni Asaría) með holdsveiki fyrir að bera drembilátur fram reykelsisfórn í musterinu. (2. Kroníkubók 26:1-5, 16-23; 2. Konungabók 15:1-5) Sú illska, sem undir bjó á dögum Ússía, kann að hafa verið undirrót þeirrar miklu illsku sem við lesum um í tengslum við sonarson Ússía, Akas konung, (762-745 f.o.t.) og það kann einnig að vera ástandið í stjórnartíð hins síðarnefnda sem Jesaja er að lýsa. En það er þó þýðingarmeira að kanna hvað það var sem fékk Guð til að segja: „Eigumst lög við,“ en að vita með öruggri vissu hvenær 1. kafli bókarinnar var skrifaður.
10. Hvert var ástandið í Júda á dögum Akasar konungs, einkum meðal leiðtoga þjóðarinnar?
10 Jesaja sagði opinskátt: „Vei hinni syndugu þjóð, þeim lýð, sem misgjörðum er hlaðinn, afsprengi illræðismanna, spilltum sonum! Þeir hafa yfirgefið [Jehóva], smáð Hinn heilaga í Ísrael og snúið baki við honum. . . . Höfuðið er allt í sárum og hjartað allt sjúkt. Frá hvirfli til ilja er ekkert heilt.“ (Jesaja 1:4-6) Hin 16 ára stjórnartíð Akasar einkenndist af grófri skurðgoðadýrkun. Hann „lét sonu sína ganga gegnum eldinn [fórnaði þeim], og drýgði þannig sömu svívirðingarnar og [þjóðirnar] . . . Hann fórnaði og sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum og hólunum og undir hverju grænu tré.“ (2. Kroníkubók 28:1-4; 2. Konungabók 16:3, 4) Ranglæti, mútur og siðleysi voru í algleymingi meðal höfðingjanna sem hefðu betur hæft til að fara með völd í Sódómu en Júda. (Jesaja 1:10, 21-23; 1. Mósebók 18:20, 21) Það liggur í augum uppi að Guð gat ekki haft velþóknun á þeim. Og hvernig skyldi þjóðinni þá hafa vegnað með svona leiðtoga?
11. Hvernig ber okkur að skilja Jesaja 1:29, 30?
11 Jesaja spámaður notfærði sér hin helgu tré og lundi, sem Ísraelsmenn notuðu til að færa skurðgoðum fórnir og brenna reykelsi handa heiðnum guðum, til að lýsa því hve illa var komið fyrir þjóðinni. Þessar voldugu ‚eikur‘ yrðu þeim til skammar. (Jesaja 1:29; 65:3) Jesaja yfirfærði síðan myndmálið á skurðgoðadýrkendurna sjálfa og sagði: „Þér munuð verða sem eik með visnuðu laufi og eins og vatnslaus lundur.“ (Jesaja 1:30) Já, þeir menn sem yfirgáfu Jehóva skyldu „fyrirfarast.“ Þeir myndu verða eins og strý, (eldfimir hörþræðir) og skurðgoð þeirra að eldsneista sem hvort tveggja myndi upp brenna. — Jesaja 1:28, 31.
12, 13. Nefndu nokkrar hliðstæður með dögum Jesaja og okkar.
12 Berðu þessa lýsingu saman við ástand okkar daga. Á innan við eins mánaðar tímabili skýrðu bandarískir fjölmiðlar frá eftirfarandi: Forsetaframbjóðandi í fremstu röð dró framboð sitt til baka eftir að ástarævintýri hans utan hjónabands komust í hámæli; þekktur prédikari varð að víkja eftir að hafa játað á sig hjúskaparbrot og verið sakaður um kynvillu, konuskipti og misnotkun kirkjulega fjármuna til að þagga málið niður („hermt er að hann hafi dregið sér hvorki meira né minna en 4,6 milljónir dollara í fébætur frá því 1984,“ segir í Time 11. maí 1987) Ábótanum í Rein í Austurríki var árið 1986 ‚vikið úr starfi og sakaður um að hafa sólundað nálægt 240 milljónum króna í veiðihús og veisluhöld handa meðlimum fyrrverandi keisarafjölskyldu og konum af ógöfugri ættum.‘ Þú gætir sennilega tíundað fleiri dæmi um leiðtoga af þessu tagi. Hvaða augum heldur þú að Guð líti þá?
13 Í vaxandi mæli skiptist fólk í tvo andstæða hópa í afstöðu sinni til trúarbragðanna. Sumir snúa með fyrirlitningu eða áhugaleysi baki við trú af hverju tagi. Til dæmis sækja aðeins 3 af hundraði Englendinga ríkiskirkjuna. Á hinum pólnum finnum við ofstækiskenndan trúaráhuga. Hann birtist í vexti vakningarsafnaða sem höfða til tilfinninga fólks og hvetja það til að láta „frelsast,“ tala tungum eða að sjá sjúkt fólk „læknast.“ Fólk streymir til helgra staða og dóma í von um kraftaverk. Aðrir færa fórnir af einu eða öðru tagi til að tjá trú sína, svo sem að skríða á blæðandi hnjám til að sjá meyna af Guadelupe í Mexíkóborg. Dagblað sagði: „Í hugum gestkomandi fólks kann tilvist hennar og sá trúarhiti, sem hún er dýrkuð með, að virðast gróft sambland kristni og heiðni, en þrátt fyrir það er mærin vafalaust þýðingarmesta persónan í kaþólskri trú Mexíkóbúa.“
Hvernig getur þú öðlast hylli hans?
14. Hvernig sýndi Jehóva fyrir munn Jesaja að hann hefði ekki velþóknun á öllum sem segjast dýrka hann?
14 Jehóva Guð lætur okkur ekki vera í neinum vafa um hvernig hann líti á þá sem segjast vera hans megin en ‚tilbiðja ekki föðurinn í anda og sannleika.‘ (Jóhannes 4:23) Ef þjóð, trúarhópur eða einstaklingur hegðar sér ekki í samræmi við opinberaða staðla Guðs eru trúarverk hans tilgangslaus. Til dæmis var þess krafist í Ísrael til forna að halda trúarhátíðir og færa fórnir. Það var þáttur í sannri guðsdýrkun. (3. Mósebók 1.-7. og 23. kafli) En Jesaja vakti athygli ótrúrra Gyðinga á því að ekki væri nóg í augum Guðs að halda þessar hátíðir. Guð sagði: „Er þér fórnið upp höndum, byrgi ég augu mín fyrir yður, og þótt þér biðjið mörgum bænum, þá heyri ég ekki.“ (Jesaja 1:11-15) Svo er einnig nú á dögum. Guð vill ekki innantóma viðhafnarsiði, trúarjátningar lærðar utan að eða bænir lesnar af bók, heldur bænir og athafnir sem koma beint frá hjartanu.
15. Hvers vegna gefur Jesaja 1:18 okkur tilefni til vonar og hvað merkja orðin „komið, eigumst lög við“?
15 Þessi vitneskja veitir okkur von. Menn geta áunnið sér hylli Guðs. Hvernig? Jesaja hvatti: „Þvoið yður, hreinsið yður. Takið illskubreytni yðar burt frá augum mínum. Látið af að gjöra illt, lærið gott að gjöra!“ Síðan kemur þetta boð frá Guði: „Komið, eigumst lög við!“ Jehóva var ekki að biðja menn að mæta sér á miðri leið og ræða um einhverja málamiðlun. Guð vissi hvað var rétt, hvað var lögum samkvæmt. Dómur hans var þessi: Það eru mennirnir sem þurfa að breyta sér; þeir þurfa að samstilla sig réttum og réttlátum stöðlum Guðs. Svo er einnig nú á dögum. Það er hægt að gera breytingar og ávinna sér hylli Guðs. Jafnvel þeir sem stundað hafa illa breytni geta snúið við. Jesaja skrifaði: „Þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll.“ — Jesaja 1:16-18.
16. Hvernig hafa sumir brugðist við ráðum frá Biblíunni varðandi ranga breytni?
16 Mönnum er hins vegar gjarnt að álíta að leiðbeiningar, sem þeir fá, eigi við alla aðra en þá sjálfa. Ljóst er að margir samtíðarmenn Jesaja voru þeirrar skoðunar. Í raun ætti hver og einn að skoða sjálfan sig. Ef kristinn maður er sekur um alvarlega synd, hvort heldur lygi, svik, siðleysi eða aðra grófa rangsleitni, er honum lífsnauðsyn að iðrast og vinna verk samboðin iðruninni. (Postulasagan 26:20) Sumir hafa gert það sem þeir gátu til að útkljá málin milli sín og Jehóva og eiga hrós skilið fyrir. Til dæmis ræddi Varðturninn þann 1. september 1985 um það að bæta úr ágöllum sem aðrir menn vita ekki af en Guð sér. (Matteus 6:6; Filippíbréfið 4:13) Þar var athyglinni beint að þrem atriðum: því að þiggja blóðgjöf með leynd, sjálfsfróun og misnotkun áfengis. Eftir að þetta efni kom út skrifuðu allmargir lesendur þakkarbréf og játuðu að þeir hefðu haft þessa veikleika en fundið sig knúna til að iðrast og snúið við.
17. Hvernig getur Jesaja 1:18 átt við okkur og hjálpað, jafnvel þótt við séum ekki að fremja grófa rangsleitni?
17 Að sjálfsögðu er þorri kristinna manna, sem les þetta efni, ekki sekur um grófa rangsleitni. Engu að síður ætti boðskapur Jesaja að fá okkur til að rannsaka hjörtu okkar gaumgæfilega. Getur hugsast að við þurfum að útkljá eitthvert mál gagnvart Guði? Réttar áhugahvatir hjartans var þýðingarmikið atriði í boðskap Jesaja. Við gætum spurt í sambandi við bænina: ‚Koma bænir mínar frá hjartanu og geri ég allt sem ég get til að breyta í samræmi við þær?‘ Sumir hafa prófað sig með þeim hætti og komið auga á að þeir gætu bætt sig. Þeir höfðu beðið um aukna þekkingu á vilja Guðs en litlum tíma varið til að nema Biblíuna og kristin hjálparrit. Aðrir höfðu beðið um að geta átt aukinn þátt í þjónustunni en lifað með þeim hætti að þeir höfðu ekki tök á að draga úr útgjöldum sínum og þar með veraldlegri vinnu. Hefur þú beðið Guð að blessa þátttöku þína í að gera menn að lærisveinum? Í hvaða mæli leggur þú þig þá fram um að verða betri kennari? Hefur þú af samviskusemi farið í fleiri endurheimsóknir og verið fús til að verja meiri tíma í að nema Biblíuna reglulega með einhverjum? Ef þú leggur þig fram í samræmi við bænir þínar sýnir þú að þú vilt í einlægni að Guð hlusti á þær.
18. Hvers vegna ber okkur að gefa því gaum að útkljá málin milli okkar og Guðs?
18 Það er rétt og viðeigandi að eitt og sérhvert okkar kappkosti að vera á öllum sviðum lífsins í friði við Guð, skapara okkar. Taktu eftir hvernig Jesaja kom með rök í þessa veru: „Uxinn þekkir eiganda sinn og asninn jötu húsbónda síns, en Ísrael þekkir ekki, mitt fólk skilur ekki.“ (Jesaja 1:3) Enginn vill láta lýsa sér svo að hann sé fávísari eða vanþakklátari en uxi eða asni. Sú lýsing ætti þó við ef okkur fyndist við ekki þurfa að leggja okkur fram til að kynnast lífgjafa okkar og kröfum hans og reyna síðan í einlægni að lifa í samræmi við þær.
19. Hvaða framtíðarhorfur sagði Jesaja þá eiga í vændum sem útkljáðu málin milli sín og Guðs og hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur?
19 Jesaja gaf þjóð sinni tilefni til bjartsýni. Hann sagði að þeir myndu geta staðið hreinir frammi fyrir Guði. Það væri eins og purpuraklæði skipti litum og yrði hvítt sem ull eða sem snjórinn á tindi Hermonfjalls. (Jesaja 1:18; Sálmur 51:9; Daníel 7:9; Opinberunarbókin 19:8) Jafnvel þótt þorri manna tæki ekki við boðskapnum og þjóðin yrði því slegin sverði og hneppt í fjötra gátu trúfastar leifar snúið aftur heim. Á sama hátt getum við öðlast hylli Jehóva, ef til vill með aðstoð samviskusamra umsjónarmanna sem gegna hlutverki ástríkra ‚dómara og ráðgjafa‘ í söfnuðinum. (Jesaja 1:20, 24-27; 1. Pétursbréf 5:2-4; Galatabréfið 6:1, 2) Þú mátt því treysta að þú getir útkljáð málin milli Guðs og þín. Ef þú nýtur nú þegar hylli Guðs getur þú styrkt samband þitt við hann. Það er sannarlega erfiðisins virði.
[Neðanmáls]
a Dr. E. .H. Plumtre segir um orðalag King James-Biblíunnar: „[Þýðingin] gefur til kynna umræður milli jafningja. Hebreskan gefur aftur á móti í skyn tónblæ þess sem með myndugleik setur öðrum úrslitakosti, líkt og dómari setur ákærðum.“
Upprifjun
◻ Hvað felst í því boði Guðs að ‚koma og eigast lög við‘?
◻ Hvað er líkt með tímum Jesaja og okkar?
◻ Hvað sýndi Jesaja fram á að einstaklingar þyrftu að gera til að öðlast hylli Guðs?
◻ Á hvaða sviðum gætum við, auk alvarlegrar syndar, þurft að útkljá málin milli okkar og Guðs?
[Mynd á blaðsíðu 18]
Horft frá snævipöktum hliðum Hermonfjalls til suðvesturs yfir innri hluta Jórdandals og Galíleuhæðir.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Jesaja sagði að ‚asninn þekkti jötu húsbónda síns.‘ Hvaða lærdóm getum við dregið af því?