Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w88 1.6. bls. 12-17
  • Einhleypi — umbunarrík lífsstefna

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Einhleypi — umbunarrík lífsstefna
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Umbunarríkt einhleypi
  • Kostir hreinlífis og einhleypis
  • Dæmi úr fortíðinni
  • Nútímadæmi
  • Hreinleiki varðveittur
  • Blessunarrík framtíð
  • Einhleypur en alger til þjónustu Guðs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Hvernig er hægt að nýta sér einhleypi sem best?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • ‚Þeir geri það er geta‘
    Ríkisþjónusta okkar – 2003
  • Einhleypi — dyr að ótrufluðu starfi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1996
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
w88 1.6. bls. 12-17

Einhleypi — umbunarrík lífsstefna

„Henni [er] frjálst að giftast hverjum sem hún vill, aðeins að það sé í Drottni. Þó er hún sælli, ef hún heldur áfram að vera eins og hún er.“ — 1. KORINTUBRÉF 7:39, 40.

1. Hvað skuldum við Jehóva, hvort sem við erum einhleyp eða gift?

JEHÓVA verðskuldar að allir, sem eru honum vígðir, þjóni honum af allri sálu. Hvort sem við erum einhleyp eða í hjónabandi ættum við að elska Guð af öllu hjarta, sálu, huga og mætti. (Markús 12:30) Að vísu er færra sem dreifir athygli þess sem ógiftur er en hins, en getur ógiftur þjónn Jehóva verið hamingjusamur í raun?

2, 3. (a) Hver er kjarninn í orðum Páls í 1. Korintubréfi 7:39, 40? (b) Hvaða spurningar eru íhugunarverðar?

2 Páll postuli svarar því játandi. Hann sagði um þá sem voru í hjónabandi en búa nú við breyttar aðstæður: „Konan er bundin, meðan maður hennar er á lífi. En ef maðurinn deyr, er henni frjálst að giftast hverjum sem hún vill, aðeins að það sé í Drottni. Þó er hún sælli, ef hún heldur áfram að vera eins og hún er, það er mín skoðun. En ég þykist og hafa anda Guðs.“ — 1. Korintubréf 7:39, 40.

3 Úr því að Páll gefur til kynna að ógift fólk geti verið hamingjusamt er eðlilegt að spyrja hverjir mættu hugsa alvarlega um að vera einhleypir, að minnsta kosti um tíma. Hvað stuðlar að hamingju ógiftra kristinna manna? Hvernig getur einhleypi verið umbunarrík lífsstefna?

Umbunarríkt einhleypi

4. Hvað er hægt að segja um yngri ár ævinnar?

4 Hinn vitri konungur Salómon hvatti: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir [elliárin] koma og þau árin nálgast, er þú segir um: ‚Mér líka þau ekki.‘“ (Prédikarinn 12:1) Ungt fólk er að jafnaði tiltölulega hraust og þróttmikið. Það er vel við hæfi að nota þá hæfileika í þjónustu Jehóva, án þess að annað dreifi athyglinni! Þessi ár eru auk þess sá tími er fólk aflar sér lífsreynslu og þroskar með sér staðfestu. En þetta er líka sá tími er ungt fólk í heiminum verður gjarnan ástfangið. Það má til dæmis sjá af könnun sem náði til 1079 einstaklinga á aldrinum 18 til 24 ára. Þeir höfðu að meðaltali orðið sjö sinnum fyrir „rómantískri lífsreynslu“ og sögðu ófrávíkjanlega að yfirstandandi reynsla væri sönn ást, ekki stundleg ástarhrifning.

5. Hvaða persónulegar spurningar viðvíkjandi hjónabandi eru íhugunarverðar fyrir ungt fólk?

5 Talnaskýrslur um hjúskaparslit, hjónaskilnaði og sundruð heimili gefa til kynna hve óhyggilegt er að fólk stofni mjög ungt til hjónabands. Í stað þess að rjúka út í tilhugalíf og hjónaband er hyggilegt af kristnum ungmennum að hugsa eftir jákvæðum nótum um það hvernig þau geti notað að minnsta kosti nokkur af ungdómsárum sínum í að þjóna Jehóva án þess að annað dreifi athyglinni. Ef þú ert ungur getur þú lagt mat á þína eigin möguleika með því að spyrja þig til dæmis: Hef ég núna náð tilfinningaþroska og er reiðubúinn að hugsa alvarlega um hjónaband? Bý ég yfir nægri lífsreynslu til að vera góður maki? Get ég axlað þá ábyrgð sem er samfara hjónabandi og hugsanlega barneignum? Ætti ég ekki, með tilliti til vígslu minnar til Jehóva, að helga honum krafta mína meðan ég er ungur, án þess að láta hjónaband dreifa athygli minni frá því?

Kostir hreinlífis og einhleypis

6, 7. (a) Nefndu nokkra kosti þess að vera einhleypur. (b) Hvað sagði einhleypur trúboði í Afríku?

6 Ógiftir kristnir menn geta verið „síauðugir í verki Drottins.“ (1. Korintubréf 7:32-34; 15:58) Í stað þess að beina athygli sinni að ákveðnum einstaklingi af hinu kyninu getur kristinn einhleypingur látið kærleika sinn ná til margra í söfnuðinum, þeirra á meðal aldraðra og annarra sem hafa þörf fyrir kærleiksríka hjálp. (Sálmur 41:2) Yfirleitt hefur einhleypt fólk meiri tíma til náms og hugleiðingar um orð Guðs en aðrir. (Orðskviðirnir 15:28) Það hefur gott tækifæri til að rækta náið samband við Jehóva, læra að reiða sig á hann og leita leiðsagnar hans. (Sálmur 37:5; Filippíbréfið 4:6, 7; Jakobsbréfið 4:8) Ókvæntur maður, sem hefur þjónað Jehóva um árabil sem trúboði í Afríku, segir:

7 „Lífið hefur verið einfalt þessi ár í afrísku þorpunum. Ég hef verið laus við margt tilheyrandi nútímasiðmenningu sem dreifir athyglinni. Þar eð ég hef verið laus við slíkt hef ég haft kappnóg tækifæri til að nema og hugleiða orð Guðs. Það hefur haldið mér sterkum. Trúboðsstarfið hefur verið mér sönn blessun og vernd gegn efnishyggju. Á góðviðriskvöldum hitabeltisins hef ég haft feikinógan tíma til að ígrunda sköpunarverk Jehóva og nálægja mig honum. Mínar mestu hamingjustundir eru á kvöldin þegar hugurinn er enn vel vakandi og ég get farið einn saman í gönguferð undir stjörnumprýddum himninum og talað við Jehóva. Það hefur gefið mér nánara samband við hann.“

8. Hvað sagði ógift systir, sem á að baki áralanga þjónustu í aðalstöðvum Félagsins, um einhleypi?

8 Einnig er eftirtektarverð athugasemd einhleyprar systur sem á að baki margra ára þjónustu í aðalstöðvum Varðturnsfélagsins: „Ég hef kosið að vera einhleyp í þjónustu minni við Jehóva. Hvort ég verði einhvern tíma einmana? Alls ekki. Í rauninni eru dýrmætustu stundir lífsins þær þegar ég er ein. Þá get ég talað við Jehóva í bæn, hugleitt málin og numið truflunarlaust. . . . Einhleypi hefur stuðlað mjög að gleði minni.“

9. Hvaða þjónustusérréttindi geta staðið einhleypum kristnum manni til boða?

9 Einhleypur einstaklingur getur auk þess þegið þjónustusérréttindi sem fjölskyldumaður hefði ekki tök á að þiggja. Til dæmis geta opnast tækifæri til að starfa sem brautryðjandi á svæði þar sem þörfin fyrir boðbera Guðsríkis er mikil. Einhleypur ungur maður gæti fengið þau sérréttindi að tilheyra Betelfjölskyldu við eitt af útibúum Varðturnsfélagsins. Ung, ógift systir gæti átt náið samstarf við eilítið eldri, einhleypa systur í brautryðjandastarfi í heimasöfnuði sínum eða annars staðar þar sem þörfin er meiri. Hví ekki að ræða slíka möguleika við farandhirðinn? Sért þú einhleypur skalt þú bjóða þig fram til aukinnar þjónustu til lofs Jehóva. Ef þú gerir það mun hann blessa þig ríkulega. — Malakí 3:10.

Dæmi úr fortíðinni

10. Hver var besta fordæmið um einhleypan þjón Jehóva og hvers vegna heldur þú að það hafi verið kostur fyrir hann að vera einhleypur?

10 Jesús Kristur er fremsta dæmið um ógiftan þjón Jehóva. Hann var algerlega upptekinn af því að gera vilja Guðs. „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans,“ sagði Jesús. (Jóhannes 4:34) Hann var sífellt önnum kafinn — við að prédika, lækna sjúka og svo mætti lengi telja. (Matteus 14:14) Jesús hafði ósvikinn áhuga á fólki og leið vel í félagsskap karla, kvenna og barna. Hann ferðaðist mikið í þjónustu sinni, stundum í félagsskap annarra. (Lúkas 8:1-3) Það hefði verið býsna erfitt ef hann hefði þurft að hafa konu og ung börn með sér. Tvímælalaust var það kostur fyrir Jesú að vera einhleypur. Nú á dögum getur einhleypur, kristinn maður notið sams konar frjálsræðis, ekki síst ef þess er óskað að hann boði Guðsríki á afskekktum eða hættulegum slóðum.

11, 12. Hvaða fordæmi blasa við einhleypum konum í þjónustu Jehóva?

11 En fleiri sáu kosti þess að vera einhleypir og hlutu blessun fyrir. Dóttir Jefta gekkst af fúsu geði undir heit föður síns um að vera einhleyp í þjóðfélagi sem lagði mikla áherslu á hjónaband og barneignir. Hún hafði gleði af þjónustu sinni við Jehóva og það er eftirtektarvert að aðrir gáfu henni reglubundið hvatningu. „Ár frá ári fara Ísraelsdætur að lofsyngja dóttur Jefta.“ (Dómarabókin 11:34-40) Giftir kristnir menn og aðrir ættu með sama hætti að hrósa og hvetja einhleypar konur sem þjóna Jehóva hugdjarfar nú á dögum.

12 Filippus átti fjórar ógiftar dætur sem „spáðu.“ (Postulasagan 21:8, 9) Þessar ógiftu konur hljóta að hafa haft mikla ánægju af starfi sínu til lofs Jehóva. Með sama hætti njóta margar ungar og einhleypar nútímakonur ánægjulegra sérréttinda sem brautryðjendur eða boðberar Guðsríkis í fullu starfi. Þær eru hluti af þeim mikla ‚kvennaher sem boðar fagnaðarerindið‘ og eiga hrós skilið. — Sálmur 68:12.

13. Hvernig er Páll dæmi um að einhleypi getur haft mikla blessun í för með sér?

13 Páll postuli sá ýmsa kosti við það að vera einhleypur. Hann ferðaðist þúsundir kílómetra í þjónustu sinni og lenti í margs kyns þrengingum og hættum, átti svefnlausar nætur og þoldi nagandi hungur. (2. Korintubréf 11:23-27) Vafalaust hefði allt þetta orðið mun erfiðara ef Páll hefði verið kvæntur og valdið honum meiri áhyggjum. Auk þess er alls ekki líklegt að hann hefði nokkurn tíma notið þeirra sérréttinda að vera ‚postuli heiðingjanna‘ ef hann hefði verið fjölskyldufaðir. (Rómverjabréfið 11:13) Þrátt fyrir þær þrengingar, sem Páll mátti þola, fékk hann sjálfur að reyna að einhleypi getur verið umbunarrík lífsstefna.

Nútímadæmi

14. Hvernig var líf bóksalanna sem flestir voru einhleypir?

14 Líkt og Páll og aðrir ógiftir kristnir menn á fyrstu öld voru margir, sem tóku þátt í bóksölustarfinu (allt frá 1881), einhleypingar sem áttu ekki fyrir fjölskyldu að sjá. Þeir fóru fúslega til ókunnra bæja, borga og sveitahéraða og leituðu uppi þá sem höfðu gott hjarta og fengu þeim biblíurit í hendur. Þeir ferðuðust með járnbrautarlest, reiðhjóli, hestvagni eða bifreið, en oftast fóru þeir fótgangandi hús úr húsi. (Postulasagan 20:20, 21) „Stundum gáfu þeir [biblíurit] í skiptum fyrir landbúnaðarvörur, svo sem kjúklinga, sápu og hvaðeina sem þeir notuðu sjálfir eða seldu öðrum,“ segir einn af vottum Jehóva þegar hann rifjar upp liðna tíð. Hann bætir við: „Á strjálbýlum svæðum gistu þeir stundum hjá bændum og búgarðseigendum næturlangt, og stundum sváfu þeir í heystakki . . . Þessir trúföstu þjónar [sem flestir voru ógiftir] héldu áfram ár eftir ár svo lengi sem þeir gátu vegna aldurs.“ Einn þeirra talar vafalaust fyrir munn þeirra alla þegar hann segir: „Við vorum ungir og hamingjusamir í þjónustunni og nutum þess að eyða kröftum okkar í þjónustu Jehóva.“

15. Hvaða dyr til aukinna verka opnuðust einhleypum brautryðjendum fyrir um það bil 45 árum?

15 Margir brautryðjendur síðari tíma voru líka ógiftir. Þeir báru oft vitni á einangruðum svæðum, hjálpuðu til við að stofna nýja söfnuði og nutu annarra blessana í þjónustu Jehóva. Þeim opnuðust nýjar dyr til meiri og spennandi verka þegar biblíuskóli Varðturnsins, Gíleað, tók til starfa árið 1943 meðan síðari heimsstyrjöldin var í algleymingi. (1. Korintubréf 16:9) Margir þessara ógiftu brautryðjenda hlutu þjálfun í Gíleaðskólanum til brautryðjandastarfs og voru innan tíðar farnir að útbreiða boðskapinn um Guðsríki á nýjum slóðum. Lausir undan skyldum hjúskapar og hjónabands buðu þeir sig Jehóva til þjónustu, og sumir af þeim, sem Gíleaðskólinn útskrifaði fyrstu árin, eru enn einhleypir og önnum kafnir á trúboðsakrinum eða í annarri grein fullrar þjónustu.

16. Hvað sýnir að einhleypum meðlimum Betelfjölskyldunnar hefur fundist einhleypi vera umbunarrík lífsstefna?

16 Margir ógiftir kristnir menn hafa þjónað um árabil í aðalstöðvum Varðturnsfélagsins eða útibúum þess annars staðar í heiminum. Hefur þeim fundist ævin umbunarrík þrátt fyrir einhleypi sitt? Já, svo sannarlega. Einhleypur bróðir, sem hefur þjónað á Betel í Brooklyn í fjöldamörg ár, segir: „Sú gleði að sjá milljónir tímarita og annarra rita, sem bera boðskap orðs Guðs, útbreiðast til endimarka jarðar hefur í sjálfu sér verið stórkostleg umbun.“ Eftir um 45 ára Betelþjónustu sagði annar ókvæntur bróðir: „Ég bið okkar ástkæra himneska föður dag hvern í bæn um hjálp og visku til að halda mér andlega og líkamlega hraustum og sterkum til þess að ég geti haldið áfram að gera hinn helga vilja hans. . . . Ég hef sannarlega notið hamingjuríkrar, umbunarríkrar og blessunarríkrar ævi.“

Hreinleiki varðveittur

17. Nefndu tvennt sem getur hjálpað einhleypu fólki að varðveita hreinleika.

17 Dæmi bæði úr Biblíunni og nútímanum sýna fram á að einhleypi getur verið umbunarríkt. Að sjálfsögðu verða þeir sem eru einhleypir, hvort heldur um skamman tíma eða langan, að vera ‚staðfastir í hjarta sínu.‘ (1. Korintubréf 7:37) En hvað getur hjálpað þér að varðveita hreinleika meðan þú ert einhleypur? Mesta og besta hjálpin er Jehóva, hann sem „heyrir bænir.“ (Sálmur 65:3) Gerðu þér að venju að biðja oft til hans. Vertu ‚staðfastur í bæninni‘ og biddu um anda Guðs og hjálp hans til að bera ávöxt andans, þar á meðal frið og sjálfstjórn. (Rómverjabréfið 12:12; Lúkas 11:13; Galatabréfið 5:22, 23) Þá skaltu líka gera þér að reglu að ígrunda og fylgja leiðbeiningum orðs Guðs og ræða um þær í bænum þínum.

18. Hvernig er 1. Korintubréf 14:20 tengt því að varðveita hreinleika?

18 Önnur hjálp til að halda sér hreinum er að forðast hvaðeina sem vekur upp kynferðislegar langanir. Það tekur augljóslega til kláms og siðlausra skemmtana. Páll sagði: „Verið . . . sem ungbörn í illskunni, en fullorðnir í dómgreind.“ (1. Korintubréf 14:20) Leitaðu ekki þekkingar eða reynslu í hinu illa heldur haltu þér óreyndum og saklausum sem barni í því efni. Hafðu í huga að Jehóva hefur vanþóknun á siðleysi og rangsleitni.

19. Hvaða ritningarstaðir benda á aðrar leiðir til að halda sér hreinum?

19 Önnur hjálp til að halda sér hreinum er að gæta að félagsskap sínum. (1. Korintubréf 15:33) Forðastu félagsskap við þá sem tala mikið um kynlíf og hjónaband. Forðastu fyrir alla muni ósæmilega eða klúra fyndni. Páll ráðlagði: „Frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum. Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þess í stað komi miklu fremur þakkargjörð.“ — Efesusbréfið 5:3, 4.

Blessunarrík framtíð

20. Hvaða árangri mun það skila að nota þau ár, sem fólk er einhleypt, sem best má verða?

20 Ef þú notar sem best má verða þau ár sem þú ert einhleypur, það er að segja í þjónustunni við Jehóva, mun það veita þér bæði lífsfyllingu og hugarró. Það mun stuðla að andlegum þroska þínum og staðfestu. Ef þú heldur þér einhleypum sakir Guðsríkis allt til endaloka þessa illa heimskerfis mun Jehóva ekki gleyma fórnfýsi þinni í heilagri þjónustu hans.

20 Þú munt njóta margvíslegrar blessunar ef þú vinnur kostgæfur að hag Guðsríkis sem einhleypingur. (Orðskviðirnir 10:22) Ef þú skyldir síðar ganga í hjónaband munt þú verða ríkari að reynslu og andlegu atgervi. Þar við bætist að ef þú fylgir ráðum Ritningarinnar munt þú velja þér fyrir maka vígðan og ráðvandan einstakling sem getur hjálpað þér að þjóna Guði í trúfesti. Þar til að því kemur getur einhleypi reynst þér umbunarrík lífsstefna í þjónustu okkar ástríka Guðs, Jehóva.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvaða blessanir geta þjónar Jehóva uppskorið með því að vera einhleypir?

◻ Hvaða dæmi úr Ritningunni sýna að einhleypi getur verið umbunarríkt?

◻ Hvaða nútímadæmi höfum við um að einhleypi sé umbunarríkt?

◻ Hvað getur hjálpað kristnum manni að halda sér hreinum meðan hann er einhleypur?

21. Hvað munt þú hafa að bakhjarli ef þú gengur í hjónaband eftir að hafa verið einhleypur og hreinlífur um eitthvert árabil?

[Rammi á blaðsíðu 16]

Hjálp til að halda sér hreinum:

◆ Biddu reglulega um anda Guðs og hjálp hans til að sýna ávöxt andans.

◆ Íhugaðu og fylgdu alltaf ráðum orðs Guðs.

◆ Forðastu klám og siðlaust skemmtiefni.

◆ Gættu að félagsskap þínum.

◆ Forðastu óhreint tal og klúra fyndni.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Dóttir Jefta, Páll postuli og fleiri þjónar Jehóva fengu að reyna að einhleypi hefur margar blessanir í för með sér. Getur þú fylgt fordæmi þeirra?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila