Hvað getum við lært af sköpunarverki Guðs?
DÚFUR rata rétta leið með því að nota sér þyrpingar segulmagnaðra kristalla í höfði og hálsi. Til eru fiskar sem framleiða rafmagn. Allmargar fuglategundir fjarlægja salt úr sjó sem þeir drekka. Sumir skelfiskar hafa holrúm sem þeir geta ýmist fyllt með sjó, til að kafa dýpra, eða gasi til að hækka sundið.
Hvort sem menn gera sér grein fyrir því eða ekki eru þeir í rauninni aðeins að líkja eftir sköpunarverki Guðs þegar þeir nota áttavita, framleiða rafstraum, smíða kafbát eða afselta vatn.
Svo margt getur maðurinn lært af sköpunarverki Guðs að það er stundum kallað „bók náttúrunnar.“ Til er vísindagrein sem fjallar um það hvernig beita megi vitneskju um starfsemi líffræðikerfa sköpunarverksins við úrlausn verkfræðilegra viðfangsefna. Þar má nefna flugvélavængi með líka eiginleika og fuglsvængur, kafbáta með höfrungalagi og steinsteypu er líkist mannsbeinum að gerð. En er úrlausn tæknilegra viðfangsefna það eina sem læra má af „bók náttúrunnar“?
Nei, stundum má draga hagnýtan siðalærdóm af náttúrunni. Orðskviðir Biblíunnar benda okkur á eðlislæga iðni maursins og segir: „Far þú til maursins, letingi! skoða háttu hans og verð hygginn. Þótt hann hafi engan höfðingja, engan yfirboðara eða valdsherra, þá aflar hann sér samt vista á sumrin og dregur saman fæðu sína um uppskerutímann.“ — Orðskviðirnir 6:6-8.
Atferlisfræði, fræðin um atferli dýra sem draga má lærdóm af, hefur þó sín takmörk. Ekki er hægt að setja hátterni manna í nákvæmlega sama flokk og hátterni dýra. Taka verður tillit til veigamikils munar svo sem tungumáls og óendanlegra flóknara hugsanaferlis manna en dýra. Eins og einn vísindamaður orðaði það: „Við erum ekki bara snjallari apar.“ Hugur mannsins „gerir hann að eðli til ólíkan öllum öðrum lífsformum.“
Enn fremur eru ýmsar spurningar sem náin athugun á sköpunarverkinu ein sér getur aldrei svarað. Þær eru meðal annars: Hefur lífið tilgang? Er Guð til, og ef svo er, ber hann þá umhyggju fyrir okkur? Við skulum kanna hvort hægt er að svara slíkum spurningum.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 3]
Sköpunarverkið var á undan með hljóðsjána
Leðurblökur eru búnar líffærakerfi sem líkist hljóðsjá (sónar). Með því að senda út hljóðbylgjur og nema bergmálið geta þær fundið fórnarlömb sín og elt þau uppi. Viss tegund náttfiðrilda getur hins vegar gefið frá sér hljóð sem líkist hljóðum óvinarins. Leðurblökunni gefst ekki tími til að kanna hvort þetta hljóð er endurkast frá einhverri hindrun eða ekki og víkur úr vegi fyrir náttfiðrildinu.
Prófessor James Fullard við University of Toronto í Kanada lýsir aðdáun sinni með svofelldum orðum: „Það sem vekur undrun er hið gríðamikla gagnamagn, sem bæði leðurblakan og náttfiðrildið eru fær um að vinna úr og taka skynsamlegar ákvarðanir eftir með afartakmörkuðum fjölda af taugafrumum. Þessar lífverur ráða yfir hagkvæmni og kunnáttu sem mennskir flughernaðarsérfræðingar mega öfunda þær af.“
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 4]
Sköpunarverkið var á undan með köfunarbjölluna
Leonardo da Vinci er eignuð uppfinning köfunartækis einhvern tíma í byrjun 16. aldar. Kónguló með tegundarheitinu argyroneta aquatica réði þá þegar yfir fullkominni tækni til að anda niðri í vatni. Andrée Tétry greinir frá því í bók sinni Les outils chez les êtres vivants (Notkun verkfæra í heimi dýranna) að þessi kónguló „lifi í lygnum ám meðal vatnaplantna og vefi á milli þeirra fíngerðan, láréttan vef festan með fjölmörgum þráðum. Kóngulóin fer upp á yfirborðið og grípur með snöggum rykk loftbólur með hárum afturbúksins er hrinda frá sér vatni. . . . Kóngulóin syndir niður og sleppir loftbólunni undir silkivef sínum. Loftbólan lyftist þá upp í vefinn og myndar smá bungu í hann. Kóngulóin fer margar ferðir upp og niður þangað til hún hefur safnað nægu lofti til að dvelja daglangt undir köfunarbjöllunni þar sem hún étur bráð sína á nóttunni. Tétry bætir við: „Köfunartæki mannsins svara til sérhæfðustu tegunda sem er að finna í náttúrunni.“