Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w88 1.9. bls. 8-12
  • Jesús Kristur elskaður sonur Guðs

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Jesús Kristur elskaður sonur Guðs
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Ekki ‚Guð sonurinn‘ heldur „sonur Guðs“
  • Faðirinn er syninum æðri
  • Heilagur andi — persóna eða starfskraftur?
  • Er Guð alltaf Jesú æðri?
    Ættum við að trúa á þrenninguna?
  • Nákvæm þekking á Guði og syni hans leiðir til lífs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Sannleikurinn um föðurinn, soninn og heilagan anda
    Hvað kennir Biblían?
  • Hver er Jesús Kristur?
    Hvað kennir Biblían?
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
w88 1.9. bls. 8-12

Jesús Kristur elskaður sonur Guðs

„Og rödd kom af himnum: ‚Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.‘“ — MATTEUS 3:17.

1, 2. (a) Hvaða einfaldan sannleika kennir Biblían um alvaldan Guð og Jesú Krist? (b) Hvað kenna trúfélög kristna heimsins?

JESÚS Kristur var skírður niðurdýfingarskírn þrítugur að aldri. Þegar hann steig upp úr vatninu heyrðist rödd af himni sem sagði: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ (Matteus 3:17) Þetta var rödd Guðs. Við annað tækifæri sagði Jesús í bæn til Guðs: „Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt!“ Og þegar Jesús hafði mælt þessi orð „kom rödd [Guðs] af himni: ‚Ég hef gjört það dýrlegt og mun enn gjöra það dýrlegt.‘“ — Jóhannes 12:28.

2 Jafnvel barn getur skilið af þessum frásögum að samband hins alvalda Guðs og Jesú Krists var samband tveggja einstaklinga, föður og elskaðs sonar hans. Samt sem áður afneita trúfélög kristna heimsins þessum einfalda sannleika Biblíunnar. Þau standa á því fastara en fótunum að Jesús Kristur sé Guð alvaldur sjálfur, önnur persóna þrenningar. Heilagur andi á að vera þriðja persónan.

3. Hvernig birtist ráðvilla kristna heimsins í sambandi við þrenningarkenninguna?

3 Þessi kenning hefur valdið þeim sem tilheyra trúfélögum kristna heimsins miklum heilabrotum. Er það vafalaust þess vegna sem alfræðibókin New Catholic Encyclopedia kallar þrenningarkenninguna leyndardóm. Meira að segja veldur hún ringulreið meðal klerkastéttarinnar því að sama alfræðibók segir: „Það eru fáir kennarar þrenningarguðfræði í prestaskólum rómversk-kaþólskra sem hafa ekki einhvern tíma verið hrelldir með spurningunni: ‚En hvernig á að prédika þrenninguna?‘ Og ef spurningin er einkennandi fyrir ráðvillu nemendanna er hún kannski ekkert síður einkennandi fyrir samskonar ráðvillu prófessora þeirra.“

4. Hver er hin opinbera kenning kirknanna um þrenninguna?

4 Þessi torræða kenning er einn af hornsteinum trúar kaþólskra og mótmælenda. The Catholic Encyclopedia segir: „Þrenning er hugtak notað um höfuðkenningu kristinnar trúar . . . Því er sagt með orðum aþanasíönsku trúarjátningarinnar: ‚Faðirinn er Guð, sonurinn er Guð og heilagur andi er Guð og þó eru þeir ekki þrír guðir heldur einn Guð.‘“ Gríska rétttrúnaðarkirkjan tók í sama streng við málaferli í Grikklandi sem vottar Jehóva áttu hlut að: „Þrenningin, það að Guð sé einn í þrem persónum, er undirstöðukenning kristninnar sem allir kristnir menn játa trú á . . . óháð trúarsöfnuði eða kenningafræði.“ Gríska rétttrúnaðarkirkjan sagði einnig: „Kristnir menn eru þeir sem viðurkenna Krist sem Guð.“ Hún sagði að þeir sem ekki viðurkenndu þrenningarkenninguna væru ekki kristnir heldur trúvillingar.

5, 6. Hvers vegna er mikilvægt að vita sannleikann í þessu máli?

5 En ef þessi „undirstöðukenning,“ þrenningarkenning kristna heimsins, er ekki sönn, ef hún er lygi, þá væri hið gagnstæða uppi á teningnum. Sannkristnir menn mundu hafna henni. Þeir sem hefðu gert fráhvarf frá kristinni trú myndu ríghalda í hana. Hvaða afleiðingar myndi það hafa fyrir þá? Í síðustu bók Biblíunnar, „opinberun Jesú Krists, sem Guð gaf honum,“ lesum við um þá sem eru óhæfir til að hljóta eilíft líf í ríki Guðs: „Úti gista hundarnir og töframennirnir [þeir sem iðka andatrú, NW] og frillulífismennirnir og manndrápararnir og skurðgoðadýrkendurnir og hver sem elskar og iðkar lygi.“ — Opinberunarbókin 1:1; 22:15.

6 Sökum þess hve stóru hlutverki þrenningarkenningin gegnir ættum við að vera upplýst um hvaðan hún er upprunnin og hvernig hún kom til skjalanna. Hver stendur í raun að baki henni? Hvað hafa biblíufræðingar okkar daga um hana að segja? En áður en við ræðum þessi mál skulum við athuga nánar hvað innblásið orð Guðs segir. — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

Ekki ‚Guð sonurinn‘ heldur „sonur Guðs“

7. Hvað leiðir óhlutdræg athugun í ljós í sambandi við Jesú?

7 Aldrei sagðist Jesús vera sjálfur alvaldur Guð. Hver sem les Biblíuna hlutdrægnislaust, án þess að hafa ákveðið fyrirfram hvaða hugmyndir hún eigi að geyma, getur staðfest það. Til dæmis sagði Jesús í Jóhannesi 3:16: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn.“ Aðeins tveim versum síðar sagði Jesús aftur að hann væri ‚guðs-sonurinn eingetni.‘ (Jóhannes 3:18, Ísl. bi. 1912) Þegar Gyðingar sökuðu Jesú um guðlast svaraði hann: „Segið þér þá við mig, sem faðirinn helgaði og sendi í heiminn, að ég guðlasti, af því ég sagði: ‚Ég er sonur Guðs‘?“ (Jóhannes 10:36) Jesús sagðist ekki vera „Guð sonurinn“ heldur „sonur Guðs.“

8. Hvaða vitnisburð gaf herforingi og þeir sem með honum voru?

8 Þegar Jesús dó vissu jafnvel rómversku hermennirnir, sem stóðu þar nærri, að Jesús var ekki Guð. „Þegar hundraðshöfðinginn og þeir, sem með honum gættu Jesú, sáu landskjálftann og atburði þessa, hræddust þeir mjög og sögðu: ‚Sannarlega var þessi maður sonur Guðs.‘“ (Matteus 27:54) Þeir sögðu ekki ‚Þetta var Guð‘ eða ‚Þetta var Guð sonurinn,‘ vegna þess að Jesús og lærisveinar hans kenndu að Jesús væri sonur Guðs, ekki Guð hinn alvaldi í mennskri mynd.

9, 10. Hvaða kröftugan vitnisburð gefa guðspjöllin um samband Guðs við Jesú?

9 Guð bar því sjálfur vitni að Jesús væri ástkær sonur hans eins og biblíuritarinn Matteus tók fram í sambandi við skírn Jesú. (Matteus 3:17) Aðrir biblíuritarar létu hins sama getið. Markús skrifaði: „Rödd kom af himnum: ‚Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.‘“ (Markús 1:11) Lúkas sagði: „Rödd kom af himni: ‚Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.‘“ (Lúkas 3:22) Og Jóhannes skírari, sem skírði Jesú, vitnaði: „Þetta sá ég, og ég vitna, að hann [Jesús] er sonur Guðs.“ (Jóhannes 1:34) Þannig sögðu Guð sjálfur, allir guðspjallaritararnir fjórir og Jóhannes skírari greinilega að Jesús væri sonur Guðs. Og síðar, við ummyndun Jesú, gerðist hið sama: „Rödd [Guðs] kom úr skýinu og sagði: ‚Þessi er sonur minn, útvalinn, hlýðið á hann!‘“ — Lúkas 9:35.

10 Sagði Guð við þessi tækifæri að hann væri sinn eigin sonur, að hann hafði sent sjálfan sig og hefði velþóknun á sjálfum sér? Nei, Guð faðirinn, skaparinn, var að segja að hann hefði sent son sinn Jesú, sjálfstæðan og aðgreindan einstakling, til að vinna verk Guðs. Þess vegna eru orðin „sonur Guðs“ notuð út í gegnum Grísku ritningarnar um Jesú. Orðin ‚Guð sonurinn‘ koma hvergi fyrir því að Jesús var ekki alvaldur Guð. Hann var sonur Guðs. Þeir eru tveir sjálfstæðir einstaklingar og enginn guðfræðilegur „leyndardómur“ fær breytt þeim sannindum.

Faðirinn er syninum æðri

11. Hvernig sýndi Jesús fram á að Guð væri honum æðri?

11 Jesús vissi að hann var ekki jafn föður sínum heldur undir hann settur á alla vegu. Hann vissi að hann var ástkær sonur sem elskaði föður sinn heitt og innilega. Þess vegna sagði Jesús aftur og aftur eitthvað í þessa veru: „Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra.“ (Jóhannes 5:19) „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig.“ (Jóhannes 6:38) „Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig.“ (Jóhannes 7:16) „Ég þekki hann [Guð], því ég er frá honum og hann sendi mig.“ (Jóhannes 7:29) Sá sem sendir annan einhverra erinda er honum æðri. Sá sem er sendur er undir hann settur, þjónn. Guð er sá sem sendi; Jesús sá sem sendur var. Þeir eru ekki einn og hinn sami. Eins og Jesús orðaði það: „Þjónn er ekki meiri en herra hans né sendiboði meiri þeim, er sendi hann.“ — Jóhannes 13:16.

12. Hvaða dæmisaga lýsir hinni óæðri stöðu Jesú gagnvart föður sínum?

12 Þetta er einnig ljóst af dæmisögu sem Jesús sagði. Hann líkti föður sínum, Jehóva Guði, við víngarðseiganda sem fór til annars lands og skildi víngarðinn eftir í umsjá vínyrkja — sem augljóslega tákna klerkastétt Gyðinga. Síðar sendi eigandinn þjón sinn til að fá hluta af ávexti víngarðsins, en vínyrkjarnir börðu hann og sendu hann burt tómhentan. Þá sendi eigandinn annan þjón og allt fór á sömu leið. Þá sendi hann þriðja þjóninn sem fékk sams konar meðferð. Þá sagði eigandinn (Guð): „Ég sendi son minn elskaðan [Jesú]. Má vera, þeir virði hann.“ En hinir gjörspilltu vínyrkjar sögðu: „‚Þetta er erfinginn. Drepum hann, þá fáum vér arfinn.‘ Og þeir köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.“ (Lúkas 20:9-16) Enn sem fyrr er auðsætt að Jesús er undirgefinn föður sínum, sendur af föðurnum til að gera vilja föðurins.

13. Hvaða skýr orð Biblíunnar sýna að Guð var Jesú æðri?

13 Jesús sagði sjálfur: „Faðirinn er mér meiri.“ (Jóhannes 14:28) Við ættum að trúa Jesú því að hann þekkti örugglega sannleikann um samband sitt við föður sinn. Páll postuli vissi líka að Guð væri æðri Jesú og sagði: „Þá mun og sonurinn sjálfur [Jesús] leggja sig undir . . . Guð.“ (1. Korintubréf 15:28) Þetta má enn fremur sjá af orðum Páls í 1. Korintubréfi 11:3: „Guð [er] höfuð Krists.“ Jesús viðurkenndi að hann ætti sér Guð, er væri honum æðri, þegar hann sagði við lærisveinana: „Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar.“ — Jóhannes 20:17.

14. Hvaða aðrar ritningargreinar sýna að Jesús var ekki alvaldur Guð?

14 Jesús minntist einnig á að Guð væri honum æðri þegar móðir tveggja lærisveina beiddist þess að synir hennar mættu sitja annar á hægri hönd og hinn á vinstri hönd Jesú þegar hann kæmi í ríki sínu. Hann svaraði: „Mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri.“ (Matteus 20:23) Ef Jesús hefði verið alvaldur Guð hefði það verið hans að veita það. En svo var ekki. Það tilheyrði föður hans að veita slíkt. Eins sagði Jesús í spádómi sínum um endalok þessa heimskerfis: „Þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn.“ (Markús 13:32) Hefði Jesús verið Guð hinn alvaldi hefði hann vitað þann dag og stund. En hann þekkti ekki tímann vegna þess að hann var ekki Guð sem allt veit. Hann var sonur Guðs og vissi ekki allt sem faðir hans vissi.

15. Hvernig lét Jesús í ljós undirgefni sína við Guð rétt áður en hann dó?

15 Þegar Jesús var í þann mund að deyja sýndi hann undirgefni við föður sinn með því að biðja: „Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“ (Lúkas 22:42) Til hvers var Jesús að biðja? Til sjálfs sín? Nei, hann var að biðja til föður síns á himnum. Það er ljóst af orðum hans: „Verði þó ekki minn, heldur þinn vilji.“ Og síðan, á dauðastundinni, hrópaði Jesús: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ (Markús 15:34) Til hvers var Jesús að hrópa? Til sjálfs sín? Nei, hann var að hrópa til föður síns sem var á himnum.

16. Hvernig sést af dauða og upprisu Jesú að hann getur ekki hafa verið alvaldur Guð sjálfur?

16 Eftir að Jesús dó lá hann í gröfinni í nokkuð á þriðja dag. Hver reisti hann upp? Úr því að hann var dáinn gat hann ekki reist sjálfan sig upp. Og ef hann hefði ekki verið raunverulega dáinn hefði hann ekki greitt lausnargjaldið fyrir synd Adams. En hann dó og var ekki til í um það bil þrjá daga. Pétur postuli segir okkur hver reisti Jesú upp: „Guð leysti hann úr nauðum dauðans og reisti hann upp.“ (Postulasagan 2:24) Sá hinn æðri, alvaldur Guð, reisti upp frá dauðum hinn óæðri, ástkæran son sinn, Jesú. Lýsum þessu með dæmi: Hvor var æðri þegar Jesús reisti Lasarus upp frá dauðum? Jesús var honum æðri því hann gat vakið Lasarus upp frá dauðum. (Jóhannes 11:41-44) Hið sama má segja um það er Guð reisti Jesú upp. Guð var honum æðri því hann gat vakið Jesú upp frá dauðum.

17. Hvaða önnur rök hníga að því að Jesús hafi ekki verið Guð?

17 Jesús gat engan veginn verið Guð sjálfur því að Jesús var skapaður af Guði. Veittu athygli hvernig Emphatic Diaglott eftir Benjamin Wilson orðar Opinberunarbókina 3. kafla 14. vers: „Þetta segir Amen, hinn trúfasti og sanni vottur [Jesús], byrjun sköpunar Guðs.“ Kólossubréfið 1:15, 16 segir á svipaðan hátt um Jesú: „Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar. Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni . . . allt er skapað fyrir hann og til hans.“ Á himnum skapaði alvaldur Guð son sinn beint og síðan „fyrir hann“ eða fyrir milligöngu hans skapaði hann alla aðra hluti, mjög svo líkt og iðnaðarmaður getur látið reyndan starfsmann vinna fyrir sig. Jesús sjálfur var undanskilinn því sem skapað var fyrir hans milligöngu, því að Guð hafði þá þegar skapað hann. Því er hann kallaður „frumburður“ og „eingetinn.“ Þótt barn sé frumgetið eða einkabarn merkir það aldrei að barnið sé sama persónan og faðirinn. Það er alltaf um að ræða tvær aðgreindar persónur, föður og barn.

Heilagur andi — persóna eða starfskraftur?

18. Hvað kennir Biblían um heilagan anda?

18 Hvað um hina ímynduðu þriðju persónu þrenningarinnar, heilagan anda, sem sagður er jafn föðurnum og syninum að mætti, eðli og eilífð? Hvergi í Biblíunni er heilagur andi sagður jafn Guði og Kristi. Til dæmis segir Markús 1:10 að heilagur andi hafi komið yfir Jesú ‚eins og dúfa,‘ ekki í mannsmynd, þegar Jesús skírðist. Heilagur andi var ekki einhver persóna sem var að koma yfir Jesú heldur starfskraftur Guðs. Þessi kraftur frá Guði gerði Jesú fært að lækna sjúka og reisa upp dána. Eins og Lúkas 5:17 segir í Emphatic Diaglott: „Hinn máttugi kraftur Drottins [Guðs] var yfir honum [Jesú] til að lækna.“ Síðar, á hvítasunnunni, var postulunum einnig gefinn máttur frá Guði til að lækna sjúka og reisa upp dána. Urðu þeir þar með hluti af einhverjum guðdómi? Nei, þeim var einfaldlega gefinn kraftur frá Guði fyrir milligöngu Krists til að gera það sem menn gátu venjulega ekki gert.

19. Hvers vegna getur heilagur andi ekki verið þriðja persóna þrenningar?

19 Þessi sami starfskraftur er nefndur í Efesusbréfinu 5:18 þar sem Páll ráðleggur: „Fyllist . . . andanum.“ Postulasagan 7:55 segir að Stefán hafi verið „fullur af heilögum anda.“ Á hvítasunnunni „fylltust“ fylgjendur Jesú „allir heilögum anda.“ (Postulasagan 2:4) Geta menn fyllst annarri persónu? Nei, en þeir geta fyllst krafti sem kemur frá Guði. Þessi heilagi andi er sami krafturinn og Guð notaði til að skapa alheiminn. 1. Mósebók 1:2 segir: „Andi Guðs sveif yfir vötnunum.“

20. Hvað sá Stefán í sýn sem ber því vitni að þrenningarkenningin sé ekki sönn?

20 Eftir að Jesús var upprisinn sá Stefán inn í himininn í sýn og „leit dýrð Guðs og Jesú standa til hægri handar Guði.“ (Postulasagan 7:55) Tvær aðgreindar persónur sáust á himnum: (1) Guð og (2) hinn upprisni Jesús Kristur. Heilags anda er ekki getið í þessari sýn vegna þess að hann var ekki þriðja persóna þrenningar. Heilagur andi, starfskraftur Guðs, kemur frá Guði en ekki sem sjálfstæð vera. Þess vegna sá Stefán aðeins tvær persónur á himnum, ekki þrjár.

21, 22. (a) Hvað viðurkennir trúarleg alfræðibók um heilagan anda? (b) Hvað verður fjallað um í greininni á eftir?

21 Alfræðibókin New Catholic Encyclopedia viðurkennir í sambandi við heilagan anda: „Gamla testamentið sér ekki anda Guðs fyrir sér sem persónu, hvorki í hreinum heimspekilegum skilningi né í semískum skilningi. Andi Guðs er einfaldlega máttur Guðs. Sé honum stundum lýst sem aðgreindum frá Guði stafar það af því að andi Jahve verkar út á við.“ Þar segir einnig: „Stærstur hluti texta Nýja testamentisins lýsir anda Guðs sem fyrirbæri, ekki persónu; það sést einkum af samsvöruninni milli andans og máttar Guðs.“

22 Í ljósi þessara staðreynda getur þessi „undirstöðukenning“ kristna heimsins, þrenningarkenningin, ekki verið sönn. Guðs eigið orð hrekur þá fullyrðingu. Það sýnir skýrt og greinilega að Jehóva Guð er ástríkur faðir og að Jesús Kristur er elskaður sonur, sonur sem bar slíkan kærleika til föður síns að hann var fús til að vera hlýðinn allt til dauða. En sumir halda því fram að til séu ritningargreinar sem virðist styðja þrenningarhugmyndina. Við munum nú skoða sumar þeirra í greininni sem á eftir fer. Við munum líka ræða um hvers vegna þessi kenning varð svona mikilvægt atriði í kenningafræði kristna heimsins og hvaðan hún er upprunnin.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvað kennir Biblían um Guð og Jesú?

◻ Hverning lýsir Ritningin sambandi föðurins og sonarins?

◻ Nefndu nokkra ritningarstaði sem sýna að Guð er Jesú æðri

◻ Hvers vegna getur heilagur andi ekki verið hluti af þrenningu?

[Mynd á blaðsíðu 11]

Jesús lýsti yfir: „Faðirinn er mér meiri.“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila