Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w89 1.3. bls. 3-5
  • Má túlka Biblíuna hvernig sem er?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Má túlka Biblíuna hvernig sem er?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Leyfum höfundinum að segja sitt álit
  • Hver er refsingin fyrir synd?
  • Hver verða örlög jarðarinnar?
  • Hvers vegna má ekki túlka hana hvernig sem er?
  • Eru gleðifréttirnar í raun og veru frá Guði?
    Gleðifréttir frá Guði
  • Er Biblían í mótsögn við sjálfa sig?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Hver getur þýtt spádóma?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2012
  • Biblían er hún í raun heilög?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1991
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
w89 1.3. bls. 3-5

Má túlka Biblíuna hvernig sem er?

„ÞÚ hleypur bara fram og aftur um Biblíuna og velur úr þá ritningarstaði sem passa við þína túlkun á henni,“ sagði konan í kvörtunartón þegar einn votta Jehóva kvaddi dyra hjá henni.

En er sjálfgefið að sá sem vitnar í ritningargreinar á ýmsum stöðum í Biblíunni sé að reyna að túlka hana í samræmi við sínar eigin hugmyndir? Og ef svo er, merkir það þá að túlka megi Biblíuna hreinlega hvernig sem er — að ein túlkun á henni sé fullkomlega jafngóð og hver önnur?

Leyfum höfundinum að segja sitt álit

Biblían á sér aðeins einn höfund, Jehóva Guð, en fjölmarga ritara. Þessir ritarar, um 40 talsins, eru aldrei ósammála innbyrðis — sem er reyndar sönnun fyrir því að Guð sé höfundur hennar — enda þótt enginn einstakur biblíuritari segi allt sem segja þarf um hvert mál. Til að skilja það sem höfundur Biblíunnar segir um eitthvert mál er nauðsynlegt að draga saman alla ritningarstaði sem varða það. Áðurnefndur vottur var að reyna það.

Fyrir því átti hann sér góða fyrirmynd. Opnaðu til dæmis biblíu þína við 9. kafla Rómverjabréfsins. Þar er að finna ágætis dæmi um hvernig Páll postuli, sem var trúfastur kristinn maður, gerði slíkt hið sama. Í þessum eina kafla vitnar Páll 11 sinnum í aðra hluta Biblíunnar. Sumir kynnu jafnvel að finna Páli það til foráttu að hann hafi ‚hlaupið talsvert fram og aftur um Biblíuna.‘ Hann byrjar á að vitna í fyrstu bók Biblíunnar, hleypur svo aftur í 39. bókina áður en hann vitnar í 2. bók hennar, síðan 28. og loks þá 23.a

Að sjálfsögðu hefði verið rangt af Páli að taka ritningarstaðina úr samhengi og rangsnúa þeim til að hæfa sínum eigin hugmyndum. En Páll gerðist ekki sekur um það. Svo er þó að sjá sem sumir frumkristnir menn hafi verið sekir um slíkt, því að Pétur postuli talar um að í Biblíunni sé „sumt þungskilið, er fáfróðir og staðfestulausir menn rangsnúa, eins og öðrum ritum, sjálfum sér til tortímingar.“ — 2. Pétursbréf 3:16.

Auðvelt er að misskilja það sem er „þungskilið.“ Jafnvel verk frægra rithöfunda, svo sem Shakespeares, eru túlkuð með ýmsum hætti — og augljóslega ekki öllum jafnnákvæmum. Það er því ekkert undarlegt að svo skuli vera um Biblíuna. Ef Shakespeare væri enn á lífi gætum við spurt hann hvað hann ætti nákvæmlega við. En það er ekki hægt frekar en hægt er að biðja biblíuritarana um nánari skýringu. Til allrar hamingju getum við þó spurt höfund Biblíunnar því að hann lifir. (Sálmur 90:1, 2) Og hann hefur lofað að veita slíka andlega leiðsögn trúuðum mönnum sem biðja um hana. — Lúkas 11:9-13; Jakobsbréfið 1:5, 6.

Meðan trúr þjónn Guðs, Jósef, var í Egyptalandi, gerði hann sér grein fyrir nauðsyn þess að biðja um leiðsögn Guðs þegar honum var ætlað að ráða draum sem Guð hafði sent valdhafanum í Egyptalandi: „Er það ekki Guðs að ráða drauma?“ hafði hann áður spurt. Eftir að Jósef hafði ráðið drauminn rétt fann Faraó sig knúinn til að segja: „Munum vér finna slíkan mann sem þennan, er Guðs andi býr í?“ Og við Jósef sagði hann: „Með því að Guð hefir birt þér allt þetta, þá er enginn svo hygginn og vitur sem þú.“ — 1. Mósebók 40:8; 41:38, 39.

Hinar fjölmörgu ólíku túlkanir Biblíunnar, sem nú er að finna meðal margra svonefndra kristinna manna, eru hvorki höfundi Biblíunnar að kenna né riturum hennar. Sem spámenn Guðs ‚töluðu þeir orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.‘ (2. Pétursbréf 1:20, 21) Ólíkar túlkanir eru sök þeirra lesenda Biblíunnar sem hafa ekki fylgt leiðsögn heilags anda og leyfa Guði þar með ekki að túlka sitt eigið orð. Þeir hafa leyft fyrirfram ákveðnum hugmyndum að rugla sig í því hvað höfundur Biblíunnar er að segja. Við skulum taka tvö dæmi.

Hver er refsingin fyrir synd?

Sumum hefur verið kennt að refsingin fyrir synd sé eilíf, meðvituð kvöl í helvíti. Þeir sem því trúa lesa kannski Opinberunarbókina 20:10 þar sem talað er um að djöflinum hafi verið „kastað í díkið elds og brennisteins“ og finnst það styðja skoðun sína. Að sjálfsögðu kemur það ekki heim og saman við Prédikarann 9:5 sem segir að hinir dauðu ‚viti ekki neitt‘ eða Rómverjabréfið 6:23 þar sem stendur að ‚laun syndarinnar séu dauði,‘ ekki eilífar kvalir. En sumir benda kannski á að Opinberunarbókin 20:10 segi að Satan (og þá sennilega menn sem láta hann afvegaleiða sig) „munu kvaldir verða dag og nótt um aldir alda.“

Gríska sögnin basaníso, sem Jóhannes notar hér og þýdd er ‚að kvelja,‘ hafði á fyrstu öld sérstaka aukamerkingu eða meðtak. Samsvarandi nafnorð, basanistes, var notað um fangaverði sem stundum kvöldu fanga (þótt það bryti í bága við lög Guðs).

Annar biblíuritari vísar til hins sama þegar hann talar um ótrúan þjón sem húsbóndinn ‚afhenti böðlunum [tois basanistais] uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum.‘ (Matteus 18:34) The International Standard Bible Encyclopedia segir í athugasemd um þennan ritningartexta: „Sennilega var fangavistin sjálf skoðuð sem kvöl‘ (sem hún vafalaust var), og með ‚kvölurunum‘ [eða böðlunum] var vafalaust einungis átt við fangaverðina.“

Við sjáum þannig að með samanburði á ritningarstöðum og með því að taka tillit til merkingar einstakra orða á þeim tungumálum, sem Biblían var skrifuð, er hægt að túlka þá svo að þeir samræmist öðrum hlutum Biblíunnar. Þegar við lesum Opinberunarbókina 20:10 án þess að vera fyrirfram ákveðin í hvernig beri að skilja ritningarstaðinn sjáum við að hann er alls enginn sönnun fyrir eilífri kvöl í helvíti. Örlög allra uppreisnarmanna gegn Guði er eilíf fangavist í dauðanum. Tortíming þeirra er jafnalger og væri þeim kastað í bókstaflegt eldsdíki.

Hver verða örlög jarðarinnar?

Samkvæmt 2. Pétursbréfi 3:10 á „jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp [að] brenna.“ Sumir túlka þessi orð svo að hnötturinn eigi eftir að farast, ef til vill í kjarnorkustríði. En hvernig getur það staðist í ljósi þess sem höfundur Biblíunnar segir annars staðar? Í Sálmi 104:5 segir sálmaritarinn undir innblæstri frá Guði að Guð hafi ‚grundvallað jörðina á undirstöðum hennar svo að hún haggist eigi um aldur og ævi.‘ Hinn vitri konungur Salómon, sem einnig fékk innblástur, sagði í Prédikaranum 1:4: „Ein kynslóðin fer og önnur kemur, en jörðin stendur að eilífu.“

Er þetta mótsögn? Nei, höfundur Biblíunnar, Guð sannleikans, getur ekki verið í mótsögn við sjálfan sig. Hvernig er þá hægt að samrýma það sem þessi vers segja? Við skulum skoða samhengi 2. Pétursbréfs 3:10.

Í 5. og 6. versi talar Pétur um flóðið á dögum Nóa, og líkir því í 7. versi við þann dag „er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.“ Hvað tortímdist í flóðinu? Sjötta versið segir að ‚sá heimur, sem þá var, hafi farist.‘ Það sem fórst var ekki hnötturinn sjálfur heldur hinn illi mannheimur. Og þegar Guð hét Nóa í 1. Mósebók 9:11 að ‚aldrei framar myndi flóð koma til að eyða jörðina‘ var hann greinilega ekki að tala um reikistjörnuna jörð því að henni hefur ekki verið tortímt. „Jörðin,“ sem á að farast samkvæmt 2. Pétursbréfi 3:10, er því sama „jörðin“ og tortímdist í flóðinu — ekki reikistjarnan jörð heldur óguðlegt, jarðneskt mannfélag. — Samanber 1. Mósebók 11:1 þar sem „jörðin“ er notuð í sömu merkingu.

Þótt þú leitir um hvern krók og kima Biblíunnar finnur þú hvergi ritningargrein sem stríðir gegn þessari túlkun. Hún hlýtur því að vera rétta túlkunin, sá skilningur sem höfundur Biblíunnar vill að við leggjum í orð hans.

Hvers vegna má ekki túlka hana hvernig sem er?

Hvað ætli húsmóður myndi finnast um matreiðslubók er mætti túlka hvernig sem verkast vildi? Hvaða vit væri í því að eyða fé í kaup á orðabók sem eftirléti lesandanum að túlka sjálfur merkingu orðanna? Er það þess konar leiðsögubók sem ætla mætti að Guð léti sköpunarverum sínum í té? Ef svo væri mætti jafnvel telja vafasamt að tala um hana sem leiðsögubók.

Heiðarlegir og guðhræddir menn hafa engan áhuga á að rangsnúa ritningunni „sjálfum sér til tortímingar.“ (2. Pétursbréf 3:16) Til að forðast það leita þeir uppi alla ritningarstaði er fjalla um það efni sem þeir eru að reyna að skilja. Þegar þeir finna ritningarstaði, sem eru greinilega í mótsögn við þær hugmyndir sem þeir gerðu sér áður, leggja þeir slíkar hugmyndir sem skjótast á hilluna úr því að þær geta ekki verið réttar.

Milljónir manna, sem áður höfðu ólíkar hugmyndir í trúmálum, hafa nú eignast trúarlega einingu með vottum Jehóva, því að þeir hafa haft til að bera þá auðmýkt sem þurfti. Í stað þess að túlka Biblíuna á þann hátt sem samræmdist þeirra eigin hugmyndum hafa þeir verið fúsir til að samstilla sig augljósri túlkun höfundar Biblíunnar.

Það er traustvekjandi að ekki skuli vera hægt að túlka Biblíuna hvernig sem er. Þegar við leyfum höfundi hennar að túlka hana fyrir okkur er hún í sannleika „nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti.“ Aðeins með þeim hætti getur hún gert okkur ‚albúin og hæf til sérhvers góðs verks.‘ — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

[Neðanmáls]

a Þessar tilvitnanir er að finna í 9. kafla Rómverjabréfsins, 7. versi (1. Mósebók 21:12), 9. (1. Mósebók 18:14), 12. (1. Mósebók 25:23), 13. (Malakí 1:2, 3), 15. (2. Mósebók 33:19), 17. (2. Mósebók 9:16), 25. (Hósea 2:23), 26. (Hósea 1:10), 27. og 28. (Jesaja 10:22, 23), 29. (Jesaja 1:9) og 33. (Jesaja 28:16).

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila