‚Hönd Jehóva var með þeim‘
„Þannig breiddist orð [Jehóva] út og efldist í krafti hans.“ — Postulasagan 19:20.
1. (a) Undan hverju kvörtuðu óvinir kristninnar á fyrstu öld? (b) Hver voru áhrifin alls staðar þar sem kristniboðinn Páll prédikaði fagnaðarerindið um Guðsríki og hvað var alltaf með frumkristnum mönnum?
FYRIR meira en 1900 árum kvörtuðu óvinir hins kristna boðskapar og andstæðingar trúboðans Páls postula: „Mennirnir, sem komið hafa allri heimsbyggðinni í uppnám, þeir eru nú komnir hingað, . . . allir þessir breyta gegn boðum keisarans, því þeir segja, að annar sé konungur og það sé Jesús.“ (Postulasagan 17:6, 7) Hvar sem kristni trúboðinn Páll kunngerði fagnaðarerindið um ríki Jehóva var mikið um að vera, eindregin viðbrögð við starfi hans og oft ofsóknir. Aðrir frumkristnir menn voru einnig ofsóttir. En ‚hönd Jehóva var alltaf með þeim.‘ — Postulasagan 11:21.
2. Hver kom hinu kristna trúboðsstarfi af stað og hvernig?
2 Hver hafði komið þessu áríðandi, kristna trúboðsstarfi af stað? Það var Jesús, einstakur maður sem flutti hrífandi boðskap og notaði óvenjulega aðferð til að koma honum á framfæri. Við munum að Jesús, sonur Guðs, kom til Gyðinganna og flutti þeim yfirlýsingu um ríki Guðs sem gerði þeim hverft við. En þeir höfðu einungis áhuga á sínu eigin hjálpræði vegna lögmálsverka. — Matteus 4:17; Lúkas 8:1; 11:45, 46.
„Prédikað . . . öllum þjóðum“
3. Hvaða spádómur Jesú hlýtur að hafa vakið undrun lærisveina hans og hvers vegna?
3 Við getum því ímyndað okkur undrun lærisveina Jesú, sem voru Gyðingar, þegar hann sagði þeim þrem dögum fyrir dauða sinn: „Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar.“ Lærisveinum hans hlýtur að hafa verið spurn hvernig þeir gætu nokkurn tíma prédikað fagnaðarerindið „öllum þjóðum.“ Hvernig gat svona smár hópur trúaðra nokkurn tíma risið undir svo viðamiklu verkefni? — Matteus 24:14; Markús 13:10.
4. Hvaða fyrirmæli gaf hinn upprisni Jesús lærisveinum sínum?
4 Síðar bætti hinn upprisni Jesús við þessu boðorði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ Þeim var þannig fyrirskipað að flytja boðskap meistara síns til manna af ‚öllum þjóðum.‘ — Matteus 28:18-20.
5, 6. (a) Hvernig náði prédikun fagnaðarerindisins um Guðsríki til heiðingjanna og með hvaða árangri? (b) Hver urðu viðbrögð öldunganna í Jerúsalem þegar Pétur sagði þeim frá prédikun sinni fyrir Kornelíusi?
5 Þetta boð fól einnig í sér að prédikað skyldi fyrir heiðingjum sem átti eftir að reynast krefjandi verkefni. Viðhorf Péturs meira en þrem árum síðar sýna það. Í sýn var Pétri sagt að leggja sér óhrein dýr til munns. Pétur var ráðvilltur þegar Guð gaf honum bendingu um að það sem áður hefði verið talið óhreint væri nú talið hreint. Þá gaf andi Guðs honum bendingu um að heimsækja heiðingjann Kornelíus sem var rómverskur hundraðshöfðingi. Þar skildi hann að það væri vilji Guðs að hann prédikaði fyrir Kornelíusi, þótt hann hefði áður litið á það sem lögbrot að leggja lag sitt við fólk af öðrum þjóðum. Meðan Pétur var að tala kom heilagur andi yfir þessa fjölskyldu af þjóðunum, og það gaf í raun til kynna að núna ætti hinn kristni trúboðsakur að stækka og ná einnig yfir þann heim sem ekki var byggður Gyðingum. — Postulasagan 10:9-16, 28, 34, 35, 44.
6 Þegar Pétur greindi öldungunum í Jerúsalem frá þessari þróun mála „stilltust þeir, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: ‚Guð hefur þá einnig gefið heiðingjunum afturhvarf til lífs.‘“ (Postulasagan 11:18) Nú gat fagnaðarerindið um Krist og ríki hans borist óhindrað til heiðingjaþjóðanna!
Trúboðar þjóðanna
7. Hvernig breiddist hið kristna trúboðsstarf út til landanna umhverfis Miðjarðarhaf og hvernig leit Jehóva á það?
7 Prédikunarstarfinu hafði vaxið fiskur um hrygg eftir píslarvættisdauða Stefáns en nú jókst það að miklum mun. Söfnuðurinn í Jerúsalem hafði tvístrast, að postulunum frátöldum. Í fyrstu prédikuðu þessir ofsóttu, kristnu Gyðingar aðeins fyrir Gyðingum í Fönikíu, Kýpur og Antíokkíu. En „nokkrir þeirra voru frá Kýpur og Kýrene, og . . . tóku þeir einnig að tala til Grikkja og boða þeim fagnaðarerindið um Drottin Jesú.“ Hvernig leit Jehóva á þetta trúboðsstarf meðal þjóðanna? „Hönd [Jehóva] var með þeim, og mikill fjöldi tók trú og sneri sér til Drottins.“ Svo var djörfung þessara frumkristnu manna fyrir að þakka að trúboðsstarfið var byrjað að breiðast út til landanna umhverfis Miðjarðarhaf. En meira var í vændum. — Postulasagan 4:31; 8:1; 11:19-21.
8. Hvernig gaf Guð til kynna að gera skyldi markvissa ráðstöfun til eflingar trúboðsstarfinu?
8 Í kringum árin 47-48 gaf Guð, fyrir tilstilli heilags anda, bendingu um markvissa ráðstöfun trúboðsstarfinu til eflingar. Frásagan í Postulasögunni 13:2-4 segir okkur: „Heilagur andi [sagði]: ‚Skiljið frá mér til handa þá Barnabas og Sál til þess verks, sem ég hef kallað þá til.‘ . . . Þeir fóru nú, sendir af heilögum anda, til Selevkíu [hafnarborgar Antíokkíu í Sýrlandi] og sigldu þaðan til Kýpur.“ Það hlýtur að hafa verið spennandi fyrir Pál og Barnabas að sigla til síns fyrsta starfssvæðis á erlendri grund! Páll postuli veitti hinu kristna trúboðsstarfi forystu. Hann var einnig að leggja grundvöllinn að starfi sem yrði fullgert núna á 20. öldinni.
9. Hverju áorkaði Páll postuli með trúboðsferðum sínum?
9 Páll fór í alls þrjár trúboðsferðir, sem greint er frá, auk ferðar sinnar til Rómar sem fangi. Á þessum ferðum sínum kom hann af stað trúboðsstarfi í allmörgum borgum Evrópu og prédikaði boðskapinn um Guðsríki í löndum og á eyjum sem við þekkjum núna undir heitunum Sýrland, Kýpur, Krít, Tyrkland, Grikkland, Malta og Sikiley. Vera kann að hann hafi komist alla leiðina til Spánar. Hann átti þátt í að stofna söfnuði í fjölda borga. Hver var leyndardómurinn á bak við þann árangur sem trúboðsstarf hans skilaði?
Áhrifarík kennsla
10. Hvers vegna náði Páll svona góðum árangri í trúboðsstarfi sínu?
10 Páll líkti eftir kennsluaðferð Krists. Hann kunni að höfða til fólks og setja sig í spor þess. Hann kunni að kenna og þjálfa aðra sem kennara. Hann byggði kennslu sína á Ritningunni. Hann reyndi ekki að vekja aðdáun annarra vegna sinnar eigin visku heldur rökræddi hann út af Ritningunni. (Postulasagan 17:2, 3) Páll kunni líka að aðlaga sig áheyrendum sínum og notfæra sér staðbundnar aðstæður sem stökkpall til að koma boðskap sínum á framfæri. Eins og hann sagði: „Ég . . . hef . . . gjört sjálfan mig að þræli allra, til þess að ávinna sem flesta. Ég hef verið Gyðingum sem Gyðingur . . . hinum lögmálslausu hef ég verið sem lögmálslaus . . . hinum óstyrku hef ég verið óstyrkur til þess að ávinna hina óstyrku. Ég hef verið öllum allt, til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra.“ — 1. Korintubréf 9:19-23; Postulasagan 17:22, 23.
11. Hvað gefur til kynna að Páll og félagar hans hafi verið skilvirkir trúboðar, og hversu útbreidd var hin kristna þjónusta?
11 Páll og samstarfsmenn hans voru skilvirkir trúboðar. Með þolgæði og þrautseigju stofnuðu þeir og styrktu kristna söfnuði hvar sem þeir voru á ferð. (Postulasagan 13:14, 43, 48, 49; 14:19-28) Svo útbreidd var hin kristna þjónusta að Páll gat síðar talað um ‚sannleika fagnaðarerindisins sem til yðar er komið, eins og það einnig ber ávöxt og vex í öllum heiminum . . . sem prédikað hefur verið fyrir öllu sem skapað er undir himninum.‘ Trúboðsstarf frumkristinna manna hafði svo sannarlega áhrif á fólk. — Kólossubréfið 1:5, 6, 23.
12. Hvað olli því að ósvikið, kristið trúboðsstarf lagðist niður um tíma?
12 Þegar kom fram á aðra öld okkar tímatals var fráhvarf hins vegar farið að gera vart við sig í kristna söfnuðinum eins og Jesús og postularnir höfðu varað við. (Matteus 7:15, 21-23; Postulasagan 20:29, 30; 1. Jóhannesarbréf 2:18, 19) Á öldunum á eftir drukknaði boðskapurinn um Guðsríki í guðfræði og heiðnum kenningum. Kristni heimurinn sendi út trúboða, ekki til að prédika hið sanna Guðsríki heldur til að þvinga upp á varnarlaust fólk — oft með sverði — ríki sinna pólitísku húsbænda og vildarmanna. Ósvikið, kristið trúboðsstarf hafði lagst niður, þótt ekki væri um alla framtíð.
13. Hvernig hófst trúboðsstarf á okkar tímum og hverju hafði verið áorkað undir árslok 1916?
13 Undir lok 19. aldar gerði Charles T. Russell, fyrsti forseti Varðturnsfélagsins, sér grein fyrir að trúboðsstarfs væri þörf. Hann skipulagði því umfangsmikið prédikunarstarf og heimsótti sjálfur fjölmargar borgir í Bandaríkjunum, auk þess að sigla um heimshöfin til að heimsækja eins mörg lönd og hann gæti. Rit hans, byggð á Biblíunni, voru gefin út á 35 tungumálum. Sagt er að hann hafi ferðast yfir eina og hálfa milljón kílómetra til að flytja fyrirlestra og flutt yfir 30.000 prédikunarræður fyrir dauða sinn árið 1916.
14. Hvað gerði Joseph F. Rutherford til að efla trúboðsstarfið?
14 Arftaki hans, Joseph F. Rutherford, gerði sér einnig grein fyrir mikilvægi trúboðsstarfs. Snemma á þriðja áratug þessara aldar sendi hann út hæfa menn til mismunandi landa til að aðstoða við að koma af stað skipulegu prédikunarstarfi. Trúboðar ruddu þessu starfi Guðsríkis brautina á Spáni, í Suður-Ameríku og Vestur-Afríku. Árið 1931 var lýst eftir sjálfboðaliðum til að efla starfið á Spáni. Þrír ungir menn frá Englandi gáfu sig fram og þjónuðu við afar erfiðar aðstæður í fjögur ár þar til spænska borgarastyrjöldin braust út árið 1936. Þá áttu þeir fótum sínum fjör að launa.
15. Hvað gerðist á fimmta áratugnum sem efldi trúboðsstarfið verulega?
15 Á fimmta áratug aldarinnar urðu enn meiri framfarir í trúboðsstarfinu. Þriðji forseti Varðturnsfélagsins, Nathan H. Knorr, átti sér hóp kostgæfra samstarfsmanna. Það var bersýnilega undir leiðsögn heilags anda að hann gerði sér grein fyrir nauðsyn þess að stofna árið 1942 trúboðsskóla til að mæta þeim krefjandi verkefnum sem biðu að síðari heimsstyrjöldinni lokinni. Meðan síðari heimsstyrjöldin var enn í algleymingi var biblíuskóla Varðturnsins, Gíleað, komið á fót að hans frumkvæði í norðurhluta New Yorkríkis. Það var í febrúar árið 1943. Kennarar voru fjórir og veitti skólinn sex mánaða þjálfun byggða á Biblíunni. Í hverjum nemendahópi voru yfir hundrað kostgæfir brautryðjendur, karlar jafnt sem konur. Hefur starf þeirra skilað tilætluðum árangri?
16. (a) Hve margir vottar voru starfandi árið 1943 og hversu margir eru þeir núna? (b) Hvaða þátt hafa trúboðarnir átt í þessum vexti? Skýrðu svar þitt nánar.
16 Árið 1943 voru aðeins 126.329 vottar sem prédikuðu í 54 löndum. Hve mikil hefur aukningin orðið síðan? Núna, 45 árum síðar, eru starfandi vottar 28 sinnum fleiri, yfir þrjár og hálf milljón í 212 löndum og eyjum hafsins. Töluverður hluti þessarar aukningar er byggður á þeim góða grunni er liðlega 6000 trúboðar, sem Gíleaðskólinn hefur útskrifað, hafa lagt. Þeir hafa komið frá 59 löndum og verið sendir út til 148 landa síðastliðna fimm áratugi. Fyrir 45 árum voru rétt liðlega 100.000 vottar í öllum heiminum, en með þeirra hjálp hafa nú tíu lönd yfir 100.000 votta hvert er vinna að prédikun fagnaðarerindisins og kennslu. Í flestum þessara landa hafa Gíleaðtrúboðarnir verið í fremstu röð í kristniboðsstarfinu.
17. Nefndu þrjú grundvallaratriði sem hafa gert kristið trúboðsstarf áhrifaríkt bæði fyrr og nú.
17 Hvort heldur litið er á trúboðsstarf nú á tímum eða á fyrstu öld eru það sömu grundvallaratriðin sem hafa gert það áhrifaríkt. Eitt grundvallaratriðið eru hin beinu tengsl við fólk sem nást með starfi hús úr húsi og óformlegum vitnisburði, svo og með biblíunámi á einkaheimilum. (Jóhannes 4:7-26; Postulasagan 20:20) Annað grundvallaratriðið er hinn beini og einfaldi boðskapur Biblíunnar sem leggur áherslu á Guðsríki sem einu varanlegu lausnina á vandamálum mannkynsins. (Postulasagan 19:8; 28:16, 23, 30, 31) Og margir af trúboðum okkar starfa nú í vanþróuðum löndum þar sem þörfin fyrir réttláta stjórn Guðs er mjög augljós. Þriðja grundvallaratriðið er kærleikurinn, sem Kristur kenndi, og trúboðar okkar nú á tímum láta í ljós í daglegum samskiptum sínum við alls kyns fólk af alls kyns uppruna. Enginn vafi leikur á því að síðastliðin 45 ár hafa trúboðar Varðturnsfélagsins stuðlað verulega að vexti skipulags Jehóva um víða veröld. — Rómverjabréfið 1:14-17; 1. Korintubréf 3:5, 6.
Brautryðjandaandi grípur um sig
18. Hverjir aðrir hafa tileinkað sér sömu kostgæfni og Gíleaðtrúboðarnir?
18 Vafalaust hefur hið kostgæfa fordæmi Gíleaðtrúboðanna vakið löngun með öðrum til að þjóna Guði í fullu starfi. Hundruð þúsundir annarra votta Jehóva hafa einnig tileinkað sér þennan sama, kostgæfa trúboðsanda. Þeir eru líka brautryðjendur í bókstaflegum skilningi og feta í fótspor Jesú, ‚brautryðjanda hjálpræðis þeirra.‘ — Hebreabréfið 2:10; 12:2, Moffatt.
19. Til hvers hafa margir vottar boðið sig fram og hvernig finnst þeim sér vera umbunað?
19 Síðan á sjöunda áratugnum hefur reynst býsna erfitt að senda trúboða til ýmissa landa. Biblíuskóli Varðturnsins, Gíleað, heldur áfram að fullnægja þörfum ýmissa landa fyrir trúboða, að því marki sem gerlegt er. En fyrir þá votta, sem hafa sannan brautryðjandaanda, stendur opinn gríðarstór starfsakur um víða veröld. Margir hafa boðist til að gera sínar eigin ráðstafanir til að þjóna í löndum þar sem þörfin er meiri. Hefðir þú tök á að leggja þeim lið? Þeir sem slíkt hafa gert hafa oft látið þau orð falla að sú mikla gleði, að geta nært sauðumlíka menn í þróunarlöndunum á sannleikanum um Guðsríki, vegi margfalt upp á móti erfiðleikunum og fórnunum sem þeir þurfi að færa. Þeim er launað hundraðfalt með því að eignast nýja „bræður og systur, mæður, börn,“ og í því að geta gefið þeim hlutdeild í hinni stórfenglegu von um eilíft líf „í hinum komandi heimi.“ — Markús 10:28-30.
20. Hverjir vinna bróðurpart prédikunarinnar í fjölmörgum löndum? (b) Hvernig kemur það til að Japanir verja meiri tíma til þjónustunnar á akrinum ár hvert en næstum allar aðrar þjóðir? (c) Hvaða spurning er íhugunarverð fyrir okkur?
20 Hundruð þúsundir þjóna Jehóva inna af hendi heilaga þjónustu í mánuði hverjum sem reglulegir brautryðjendur eða sem aðstoðarbrautryðjendur. Flestir þeirra starfa kostgæfilega á akrinum í heimalandi sínu. Víða um lönd hvílir stór hluti prédikunarinnar á þeirra herðum og oft knýja þeir dyra hjá sama fólkinu viku eftir viku. Von þeirra um Guðsríki endurspeglast í glaðlegu yfirbragði þeirra er þeir afla sér nýrra vina og rækta mikinn áhuga hjá fólki á starfssvæði sínu. Fleiri brautryðjendur hafa í för með sér að fleiri stundum er varið til að lofsyngja Guð. Flestir vottar Jehóva í Japan voru áður búddhatrúar, en þeir hafa í meira en áratug varið fleiri stundum til þjónustunnar á akrinum ár hvert en nokkurt annað land utan Bandaríkjanna. Það kemur til af því að nálega helmingur allra boðbera Guðsríkis þar í landi er brautryðjendur. Getur þú líka skipulagt einkamál þín svo að þú getir átt hlutdeild í þessum stórkostlegu sérréttindum sem brautryðjandastarf er?
21. (a) Hvernig geta aðrir vottar, sem hafa ekki tök á að gerast reglulegir brautryðjendur, eigi að síður sýnt brautryðjandaanda? (b) Hvernig geta unglingar sýnt brautryðjandaanda?
21 Margir fleiri vottar eru ‚kostgæfir til góðra verka.‘ (Títusarbréfið 2:14) Í þeirra hópi eru aldraðir einstaklingar, heilsutæpir, þeir sem hafa fyrir fjölskyldu að sjá og unglingar sem enn eru í skóla og hafa ekki tök á að láta skrá sig sem reglulega brautryðjendur. Þeir geta líka sýnt brautryðjandaanda með því að styðja brautryðjendurna og hvetja þá, taka þátt með þeim í þjónustunni eins og tök eru á og varðveita jákvæð viðhorf til þeirra tækifæra sem þeir sjálfir hafa til að bera vitni. Ungt fólk getur haft sem markmið að þjóna ríki Guðs í fullu starfi og tekið af og til þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfi eftir að það hefur látið skírast. Það getur, líkt og Tímóteus, verið upptekið af sannleikanum til að það geti tekið andlegum framförum ásamt þjónum Guðs í heild. — 1. Tímóteusarbréf 4:15, 16.
22. Hverju ættum við að vera staðráðin í, óháð aðstæðum okkar í lífinu, og hvaða góðum árangri mun það skila?
22 Hver sem er staða okkar í lífinu, megum við öll láta anda Jehóva koma okkur til að eiga sem fyllstan þátt í þjónustu hans. Megi ‚hönd Jehóva‘ halda áfram að vera með sérhverju okkar, þannig að segja megi að okkar fátæklega framlag stuðli að því að ‚orð Jehóva breiðist út og eflist í krafti hans.‘ — Postulasagan 11:21; 19:20.
Upprifjun
◻ Hvernig hófst hið kristna trúboðsstarf og hve víðtækt átti það að verða?
◻ Hvaða hlutverki gegndi Páll postuli í aukningu trúboðsstarfsins?
◻ Hvernig var trúboðsstarfið endurvakið á okkar tímum?
◻ Hvað hefur stuðlað að árangursríku trúboðs- og brautryðjandastarfi?
◻ Hvernig getum við tileinkað okkur brautryðjandaanda?
[Tafla á blaðsíðu 10]
Starfsemi Guðsríkis í tíu löndum — 1988
(Yfir 100.000 boðberar störfuðu í öllum þessum löndum)
Land Boðberahámark Meðaltal Heildarstarf í Aðsókn að
brautryðjenda klukkustundum minningarhátíð
Bandaríkin 797.104 96.947 161.478.732 1.822.607
Mexíkó 248.822 32.117 58.061.457 1.004.0621
Brasilía 245.610 22.725 44.218.022 718.414
Ítalía 160.584 25.477 43.354.687 330.461
Nígería 134.543 14.022 27.800.623 398.555
Japan 128.817 52.183 60.626.840 297.171
Þýskaland 125.068 8.416 22.029.942 215.385
Bretland 113.412 11.927 22.103.713 211.060
Filippseyjar 107.679 21.320 26.337.621 305.087
Frakkland 103.734 9.189 21.598.308 205.256
[Mynd á blaðsíðu 7]
Páll og Barnabas leggja af stað til að ryðja trúboðsstarfi brautina