Hvað hamlar þér að skírast?
„Hér er vatn, hvað hamlar mér að skírast?“ — Postulasagan 8:36.
1. Hvað gerðist á veginum milli Jerúsalem og Gasa?
ENGILL Jehóva hafði talað og athyglisverður atburður var að eiga sér stað á eyðimerkurveginum á milli Jerúsalem og Gasa. Þar var Eþíópíumaður á ferð í vagni sínum og var að lesa í Ritningunni. Allt í einu var kominn að maður sem hljóp með vagninum. „Hvort skilur þú það, sem þú ert að lesa?“ spurði hann. „Hvernig ætti ég að geta það,“ svaraði Eþíópíumaðurinn, „ef enginn leiðbeinir mér?“ Filippus trúboði tók þá að leiðbeina honum en til þess hafði engillinn sent hann. Þegar Filippus var stiginn upp í vagninn hóf hann máls á spádómi, sem Jesaja hafði fært í letur, og boðaði „fagnaðarerindið um Jesú.“
2, 3.(a) Hver voru viðbrögð Eþíópíumannsins við fagnaðarerindinu? (b) Hvaða spurningar vekur þetta atvik?
2 Þegar komið var nokkuð áleiðis eftir veginum spurði Eþíópíumaðurinn: „Hér er vatn, hvað hamlar mér að skírast?“ Síðan lét hann stöðva vagninn. Mennirnir tveir gengu út í vatnið og Filippus skírði hann. Andi Jehóva leiddi síðan trúboðann annað og Eþíópíumaðurinn fór fagnandi leiðar sinnar. — Postulasagan 8:26-39.
3 Ef þú hefur félagsskap við votta Jehóva en hefur enn ekki látið skírast gætu þessir atburðir komið þér til að spyrja: Hvers vegna lét Eþíópíumaðurinn skírast svona fljótt? Hvernig ætti skírn að fara fram? Hvað er hún tákn um? Og hvað hamlar mér að skírast?
Ekki skírður of fljótt
4. Hver var þessi Eþíópíumaður?
4 Þar eð Eþíópíumaðurinn „hafði farið til Jerúsalem til þess að biðjast fyrir“ var hann greinilega umskorinn trúskiptingur. Hann var ‚geldingur‘ (Ísl. bi. 1859), þó ekki í líkamlegum skilningi því að geltir menn voru útilokaðir frá söfnuði Ísraelsmanna. (5. Mósebók 23:1) ‚Geldingur‘ merkir hér embættismaður, því að hann var „höfðingi hjá Kandake, drottningu Eþíópa, og settur yfir alla fjárhirslu hennar.“ — Postulasagan 8:27.
5. Hvernig gat Eþíópíumaðurinn látið skírast svona fljótt?
5 Eþíópíumaðurinn var maður af þjóðunum. Með því að hann hafði snúist til gyðingatrúar gat hann hins vegar látið skírast sem lærisveinn Krists áður en boðskapurinn um Guðsríki tók að ná til óumskorinna heiðingja líkt og Kornelíusar árið 36. Sem trúskiptingur bjó Eþíópíumaðurinn yfir þekkingu á Guði og orði hans þótt hann þarfnaðist andlegrar hjálpar. Filippus fékk því bendingu um að prédika fyrir þessum manni og gat skírt hann áður en fagnaðarerindið náði til heiðingjanna.
Hin frumskristna skírn
6. Hvernig var Eþíópíumaðurinn skírður? Rökstyddu svarið.
6 Hvernig var Eþíópíumaðurinn skírður? Orðið, sem hér er þýtt „að skírast,“ er komið af gríska orðinu baptiso sem merkir „að dýfa, kaffæra.“ Í grísku Sjötíumannaþýðingunni er notuð ein mynd sama orðs í 2. Konungabók 5:14 í merkingunni ‚að dýfa.‘ Eftirtektarvert er að Eþíópíumaðurinn bað um að láta skírast þegar þeir Filippus komu að „vatni nokkru.“ Þeir stigu „niður í vatnið“ til skírnarinnar og stigu síðan „upp úr því aftur.“ (Postulasagan 8:36-39) Eþíópíumaðurinn var því skírður á þann hátt að hann var færður í kaf í vatnið.
7. Hvaða fordæmi var fyrir niðurdýfingarskírn?
7 Jesús sjálfur var skírður niðurdýfingarskírn. Því er sagt eftir skírn hans í Jórdan að hann hafi stigið „upp úr vatninu.“ (Matteus 3:13, 16) Jóhannes skírari hafði meira að segja valið sér stað í Jórdandalnum í nánd við Salím til að skíra fólk. Hvers vegna? Vegna þess að „þar var mikið vatn.“ (Jóhannes 3:23) Ritningin mælir því fyrir um skírn í vatni.
8. Hvaða ályktun má draga varðandi skírn af siðum farísea og annarra Gyðinga?
8 Við getum dregið ýmsar ályktanir varðandi skírnina með því að skoða ýmsar siðvenjur farísea og annarra Gyðinga. Guðspjallaritarinn Markús sagði: „Þegar þeir koma heim af markaði borða þeir ekki fyrr en þeir hafa stökkt á sig vatni [á grísku rantiso] í hreinsunarskyni; og margar aðrar erfðavenjur hafa þeir fengið sem þeir eiga að halda, skírn [baptismous] bikara og kanna og eirkatla.“ (Markús 7:3, 4, NW) Með skinhelgi stökktu þeir á sig vatni áður en þeir mötuðust þegar þeir komu heim af markaðstorginu. En þeir skírðu eða dýfðu á bólakaf í vatn hinum ýmsu hlutum sem þeir notuðu þegar þeir mötuðust.
9. Hvað sagði Tertúllíanus um skírn?
9 Jafnvel eftir að fráhvarfið var farið að segja til sín sagði kirkjufaðirinn Tertúllíanus (um 160-230) um skírnina: „Það er hreinlega ekkert sem forherðir hugi manna meira en einfaldleiki verka Guðs sem eru sýnileg í athöfninni, þegar þau eru borin saman við þann mikilfengleik sem er heitið vegna áhrifanna; þannig að sú eilífð, sem af þeim hlýst, er álitin enn ótrúlegri þegar manni er dýft í vatn með slíkum einfaldleik, án viðhafnar, án sérlegs nýjabrums vegna undirbúnings, og að síðustu án útgjalda, og rís svo upp aftur, meðan sögð eru fáein orð, ekki miklu (eða alls ekkert) hreinni.“ Veittu athygli að Tertúllíanus sagði að ‚manni væri dýft í vatn og hann risi svo upp aftur.‘
10. Hvað segja fræðimenn um fyrsta form kristinnar skírnar?
10 Fræðimenn benda einnig á að kristnir menn hafi upprunalega skírt fólk niðurdýfingarskírn. Kunn frönsk alfræðibók segir: „Hinir fyrstu kristnu menn hlutu skírn með niðurdýfingu hvar sem vatn var að finna.“ Og The Catholic Encyclopedia segir: „Elsta myndin, sem venjulega var notuð, var tvímælalaust niðurdýfing.“ — 2. bindi, bls. 261 (útg. 1907).
Að kenna og skíra
11. Hvaða fyrirmæli gaf Jesús lærisveinum sínum?
11 Áður en einstaklingur lætur skírast þarf hann að afla sér nákvæmrar þekkingar og fara eftir henni. Það var greinilega tekið fram þegar Kristur sagði fylgjendum sínum: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.“ — Matteus 28:19, 20.
12. Hvað merkir það að skírast ‚í nafni föður‘?
12 Að láta skírast „í nafni föður“ merkir að skírnþeginn viðurkennir stöðu Guðs og yfirvald. Jehóva er viðurkenndur sem „Hinn hæsti yfir allri jörðinni,“ sem skapari og drottinvaldur alheimsins. (Sálmur 36:10; 83:19; 2. Konungabók 19:15) Slíkir einstaklingar viðurkenna einnig Jehóva sem dómara sinn, löggjafa og konung. — Jesaja 33:22; Sálmur 119:102; Opinberunarbókin 15:3, 4.
13. Hvað merkir það að skírast ‚í nafni sonarins‘?
13 Að láta skírast ‚í nafni sonarins‘ merkir að viðurkenna embætti og yfirvald Krists og viðurkenna hann sem þann er Guð gaf „til lausnargjalds.“ (1. Tímóteusarbréf 2:5, 6) Eftir dauða Jesú sem ráðvandur maður ‚hóf Guð hann hátt upp,‘ og þeir sem vilja láta skírast verða að viðurkenna Krist sem ‚Drottin, Guði föður til dýrðar.‘ (Filippíbréfið 2:9-11) Þeir verða líka að viðurkenna Jesú sem ‚trúan vott‘ Jehóva og sem ‚konung konunga.‘ — Opinberunarbókin 1:5; 19:16.
14. Hvers er krafist til að skírast ‚í nafni heilags anda‘?
14 Menn verða líka að láta skírast ‚í nafni heilags anda.‘ Þeir verða að gera sér ljóst að heilagur andi er ekki persóna heldur starfskraftur Guðs, notaður við sköpunina, til að innblása ritun Biblíunnar og margt fleira. (1. Mósebók 1:2; 2. Samúelsbók 23:1, 2; 2. Pétursbréf 1:21) Við verðum að viðurkenna að andi Jehóva sé lífsnauðsynlegur ef við eigum að skilja „djúp Guðs“ og bera ávöxt andans sem er „kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi.“ (1. Korintubréf 2:10; Galatabréfið 5:22, 23) Við verðum líka að viðurkenna að við þörfnumst anda Guðs til að prédika Guðsríki. — Jóel 3:1, 2.
Það sem skírnin táknar
15. Hvers vegna þvær kristin skírn ekki burt syndir?
15 Það var með stuðningi heilags anda að Jóhannes skírari skírði fólk. (Postulasagan 13:24) Hann skírði menn ekki til að þvo burt syndir þeirra heldur til tákns um iðrun. (Postulasagan 19:4) Jóhannes skírði einnig Jesú sem „drýgði ekki synd.“ (1. Pétursbréf 2:22) Og Ananías hvatti Sál frá Tarsus: „Stattu upp, láttu skírast og þvoðu burt syndir þínar með því að ákalla nafn [Jesú].“ (Postulasagan 22:12-16, NW) Kristin vatnsskírn þvær því ekki burt syndir. Það er ekki skírnin heldur úthelling blóðs Jesú og það að „ákalla nafn hans“ sem gerir fyrirgefningu mögulega. — Hebreabréfið 9:22; 1. Jóhannesarbréf 1:7.
16.(a) Hvað táknar skírnin úr því að hún þvær ekki burt syndir? (b) Hvað gerist táknrænt þegar einstaklingurinn skírist?
16 Enda þótt kristin vatnsskírn þvoi ekki burt syndir er hún tákn þess að einstaklingurinn, sem verið er að dýfa niður í vatnið, hafi vígst Jehóva Guði skilyrðislaust fyrir milligöngu Jesú Krists. (Samanber Matteus 16:24.) Að vígjast merkir, eins og það er notað hér, að helga, tileinka, gefa sig allan að. Vígsla til Guðs er sú athöfn einstaklings sem helgar hann með samkomulagi skilyrðislaust til að gera vilja Guðs fyrir milligöngu Krists. Í táknrænum skilningi deyr skírnþeginn sinni fyrri lífsstefnu og er reistur upp til nýs lífsvegar, til að gera vilja Guðs skilyrðislaust, þegar hann er „grafinn“ skamma stund undir vatninu og síðan lyft upp úr því. — Samanber Rómverjabréfið 6:4-6.
17. Hvers vegna er ungbarnaskírn óviðeigandi?
17 Skírn er greinilega alvarlegt skref. Ungbarnaskírn er röng vegna þess að ungbarn getur ekki skilið, tekið ákvarðanir og gerst lærisveinn. (Matteus 28:19, 20) Þeir sem skírðust meðan þjónusta Filippusar í Samaríu stóð yfir voru „bæði karlar og konur,“ ekki ungbörn. (Postulasagan 8:4-8, 12) Skírn er handa þeim sem eru nógu gamlir til að geta lært, trúað og iðkað trú. (Jóhannes 17:3; Postulasagan 5:14; 18:8; Hebreabréfið 11:6) Sagnfræðingurinn Augustus Neander skrifaði um þetta efni: „Það var alltaf samband á milli trúar og skírnar; og því er afar sennilegt . . . að ungbarnaskírn hafi verið óþekkt [á fyrstu öld okkar tímatals]. . . . Að hún skuli fyrst hafa verið viðurkennd sem postulleg hefð á þriðju öld eru frekar rök á móti en með því að hún sé af postullegum uppruna.“ — History of the Planting and Training of the Christian Church by the Apostles, (New York, 1864) bls. 162.
18.(a) Hvaða kröfur gerir Ritningin til þeirra sem vilja verða vottar Jehóva? (b) Hvaða merki um trú gefa til kynna að einstaklingur sé hæfur til að láta skírast? (c) Hvernig er trú á lausnargjaldið undirstrikuð við skírnþega?
18 Ritningin minnist oftsinnis á skírn trúaðra. (Postulasagan 4:4; 5:14; 8:13; 16:27-34; 18:8; 19:1-7) Sá sem vill gerast einn af vottum Jehóva þarf því að hafa tekið trú — að iðka trú og láta skírast. Jafnvel fyrir skírnina birtist slík trú í guðrækilegri breytni, trausti til Jehóva, þátttöku í prédikun Guðsríkis og viðurkenningu á lausnarfórn Jesú. Lögð er áhersla á trú á lausnarfórnina við skírnþegana, því að fyrri spurningin af tveim, sem ræðumaðurinn spyr þá, er þessi: „Hefur þú á grundvelli fórnar Jesú Krists iðrast synda þinna og vígt þig Jehóva til að gera vilja hans?“ Aðeins ef einstaklingurinn svarar játandi og skilur einnig að vígsla hans og skírn auðkennir hann sem einn votta Jehóva er hefur samfélag við skipulag Guðs, sem hann leiðir með anda sínum, er hægt að taka við honum til skírnar.
Vígsla í bæn
19. Hvers vegna ber að vígjast Jehóva í bæn?
19 Þeir sem láta skírast verða að hafa trú á Guð og Krist. En hvers vegna segja vottar Jehóva að menn eigi að vígjast Guði í bæn? Vegna þess að viðeigandi er að tjá Jehóva í bæn þá ákvörðun okkar að veita honum þá algeru hollustu sem hann verðskuldar. (5. Mósebók 5:8, 9; 1. Kroníkubók 29:10-13) Það var greinilega í bæn sem Jesús lét í ljós löngun sína til að veita himneskum föður sínum heilaga þjónustu. (Hebreabréfið 10:7-9) Jesús „gjörði bæn sína“ meira að segja meðan hann var að skírast! (Lúkas 3:21, 22) Ljóst er því að vígsla til Guðs á að fara fram í bæn.
20. Hvernig má vita að frumkristnir menn hafa líklega hvatt nýja lærisveina til að vígjast Guði í bæn?
20 Frumkristnir menn virðast hafa hvatt nýja lærisveina til að vígjast Guði í bæn því að Tertúllíanus sagði jafnvel síðar: „Þeir sem eru í þann mund að láta skírast ættu að biðja endurtekinna bæna, fasta og krjúpa á kné.“ Nokkru fyrr skrifaði Jústínus píslarvottur (um 100-165): „Ég vil einnig segja frá því hvernig við vígðum okkur Guði þegar við höfðum endurnýjast vegna Krists . . . svo mörgum sem láta sannfærast og trúa því sem við kennum og segjum vera rétt, og skuldbinda sig til að geta lifað samkvæmt því, er boðið að biðja og ákalla Guð með föstuhaldi um uppgjöf synda fortíðarinnar, og við biðjum og föstum með þeim.“
21. Hvað var líklega gert, enda þótt ekki hafi verið lögð áhersla á vígslu í bæn, þegar þú lést skírast fyrir allnokkrum árum?
21 Ef ekki var lögð áhersla á það að vígjast Guði í bæn þegar þú lést skírast fyrir mörgum árum þarf það þó ekki sjálfkrafa að ógilda skírn þína. Jafnvel á þeim tímum hafa vafalaust margir verið eins og maðurinn sem man það enn greinilega hvernig hann kraup á kné og vígðist Jehóva í innilegri bæn meðan hann var enn þá drengur fyrir meira en fjórum áratugum. Sá sem ekki hafði formlega vígst Guði í bæn fyrr gerði það á þeim dögum að minnsta kosti þegar skírnþegar og aðrir báðu saman við skírnarræðuna á skírnardegi hans.
Hvers vegna sumir veigra sér við því
22. Hvers vegna veigra sumir sér við því að láta skírast?
22 Hvers vegna skyldu sumir veigra sér við því að láta skírast úr því að það eru svona mikil sérréttindi að vera vígður vottur Jehóva? Hjá sumum er vöntun á sönnum kærleika ástæðan fyrir því að þeir hlýða ekki orði Guðs, fylgja forystu Jesú og láta skírast. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Þeir sem óskírðir eru segja auðvitað yfirleitt ekki að þeir vilji ekki fylgja fordæmi Jesú eða hlýða Guði. Þess í stað halda þeir áfram að vera svo uppteknir af veraldlegum málum að þeir hafa lítinn tíma til að sinna andlegum hugðarefnum. Ef það er þitt vandamál, væri þá ekki viturlegt að gera breytingu á metnaðarlöngunum þínum, áhugamálum og kærleikshug? Þeir sem í sannleika elska Guð geta ekki einnig elskað þennan heim. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Og leyfðu ekki ‚táli auðæfanna‘ að fylla þig falskri öryggiskennd. (Matteus 13:22) Ósvikið öryggi er aðeins að finna vegna vígslusambands við Jehóva Guð. — Sálmur 4:9.
23. Hvers vegna draga sumir það á langinn að vígjast Jehóva og gefa tákn um það með vatnsskírn?
23 Aðrir fullyrða að þeir elski Guð en veigra sér við að vígjast honum vegna þess að þeim finnst þeir þannig geta sneitt hjá ábyrgð. Þá langar til að lifa í paradís en gera enn sem komið er lítið eða ekkert til að mega hlotnast það. (Orðskviðirnir 13:4) Slíkir einstaklingar geta ekki skotið sér undan ábyrgð vegna þess að þeir gengust undir hana er þeir heyrðu orð Jehóva. (Esekíel 33:7-9) Ef þeir vígðust Guði myndu þeir með því láta í ljós að þeir skildu vilja Guðs og væri mikið í mun að fylgja honum. Í stað þess að leggja á þá þyngri ábyrgð myndi slík hlýðni færa þeim blessun Jehóva og hafa í för með sér gleði, vegna þess að þá væru þeir að lifa í samræmi við þá fullyrðingu sína að þeir elski hann.
24. Af hvaða ástæðu veigra sumir sér við því að láta skírast?
24 Sumir forðast skírnina af því að þeim finnst þeir ekki vita nógu mikið til að geta útskýrt Ritninguna. En Eþíópíumaðurinn var reiðubúinn til að gefa tákn um vígslu sína til Guðs eftir að hafa rætt við Filippus í vagninum. Auðvitað gat Eþíópíumaðurinn ekki í byrjun svarað öllum spurningum þeirra sem hann talaði við um sannleikann. En hjarta hans var yfirfullt af þakklæti fyrir það sem hann hafði heyrt og hann skaut sér ekki óttasleginn undan því að skírast. „Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann.“ (1. Jóhannesarbréf 4:18) Það sem kemur manni til að vígjast Guði og láta skírast er ekki höfuð fullt af þekkingu heldur hjarta fullt af kærleika. — Lúkas 10:25-28.
25. Til hvers ætlast Jehóva Guð af þeim sem segjast elska hann?
25 Ef þú ert enn óskírður skaltu spyrja þig: Hvers ætlast Guð til af þeim sem segjast elska hann? Hann ætlast til algerrar hollustu og er að leita þeirra sem vilja tilbiðja hann „í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:23, 24; 2. Mósebók 20:4, 5; Lúkas 4:8) Eþíópski hirðmaðurinn dýrkaði Guð þannig og hann skaut því ekki á frest að láta skírast þegar tækifæri bauðst. Ættir þú ekki nú þegar að ræða við Jehóva í innilegri bæn um vígslu og spyrja þig: „Hvað hamlar mér að skírast?“
Upprifjun
◻ Hvers vegna gat eþíópski hirðmaðurinn skírst svona fljótt?
◻ Hvernig skírn tíðkaðist meðal frumkristinna manna?
◻ Hvað merkir það að skírast ‚í nafni föður, sonar og heilags anda‘?
◻ Hvað táknar kristin skírn?
◻ Hvers vegna ber að vígjast Jehóva í bæn?
◻ Hvers vegna veigra sumir sér við því að vígjast og láta skírast?