Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w89 1.6. bls. 3-4
  • Réttlæti handa öllum — mun það einhvern tíma verða?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Réttlæti handa öllum — mun það einhvern tíma verða?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Svipað efni
  • „Allir vegir hans eru réttlátir“
    Nálgastu Jehóva
  • Jehóva hefur mætur á réttlæti
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2007
  • Verður ákalli eftir réttlæti svarað?
    Fleiri viðfangsefni
  • Réttlæti handa öllum frá skipuðum dómara Guðs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
w89 1.6. bls. 3-4

Réttlæti handa öllum — mun það einhvern tíma verða?

ÞEIR sem sækja heim hina sögufrægu byggingu Old Bailey í Lundúnum, sem hýsir aðalafbrotadómstól Englands, sjá þar á mæni styttu af konu er táknar réttlætið. Í annarri hendinni heldur hún á skálavog til tákns um að sönnunargögnin skuli vegin og metin vandlega. Í hinni heldur hún á sverði til verndar saklausum og refsingar sekum. Víða annars staðar má sjá þetta sama tákn réttvísinnar í ýmsum myndum, og sums staðar er konan með bundið fyrir augun til tákns um óhlutdrægni sína.a

Þegar tákni réttlætisins er stillt upp með þessum hætti er eðlilegt að spyrja hvort til sé eitthvert land þar sem allir njóta raunverulegs réttlætis. Að sjálfsögðu hafa öll lönd sín lög og einhverja til að framfylgja þeim. Öll lönd hafa réttarfarskerfi, dómara og dómstóla. Vissulega hafa margir réttsýnismenn reynt að tryggja eðlileg mannréttindi og sjá til þess að allir fengju notið jafnræðis og réttlætis. Engu að síður er augljóst að þeir hafa að stærstum hluta ekki haft erindi sem erfiði. Nánast daglega sjáum við, heyrum eða lesum um spillingu, misrétti og ranglæti.

Nefnum sem dæmi konu er var leidd fyrir rétt. Áður en sekt hennar eða sakleysi var sannað lét dómarinn hana vita að hann skyldi „sjá um“ kæruna gegn henni ef hún myndi koma til fundar við hann á gistihúsi, bersýnilega til að hafa kynmök við hann. Þeir sem ætlað er að gæta réttarins hafa oft reynst spilltir eða óhæfir til að gegna stöðu sinni. Tímaritið Time sagði frá einu fylki í Bandaríkjunum þar sem þrír fimmtu allra milliréttardómara voru sakaðir um siðferðilega ranga breytni við að hjálpa starfsbróður sínum.

Þegar fólk verður þess áskynja að afbrotamenn komast hjá refsingu getur það slævt réttlætisvitund þess og látið það finnast auðveldara að brjóta lögin sjálft. (Prédikarinn 8:11) Við lesum þetta frá Hollandi: „Margir Hollendingar kenna stjórnmálamönnum um að hvetja til undanlátssemi sem leiðir af sér glæpi. Aðrir ásaka dómstólana, sér í lagi dómara . . . sem halda áfram að fella mildustu dóma, stundum fáránlega væga.“ En hin sára þörf okkar fyrir réttlæti nær til fleiri atriða en aðeins bættrar löggæslu og betra dómskerfis.

Þú veist að í fjölmörgum löndum er auðugur minnihlutahópur sem verður sífellt auðugari en hinn fátæki fjöldi má þola mikið efnahagslegt ranglæti. Slíkt óréttlæti heldur velli þegar fólk hefur litla möguleika á að bæta stöðu sína, eða jafnvel framfleyta sér, sökum litarháttar, þjóðernis, þjóðfélagsstöðu, tungumáls, kynferðis eða trúarbragða. Afleiðingarnar eru þær að milljónir manna eru fórnarlömb fátæktar, hungurs og sjúkdóma. Þótt fjöldi manna í hinum auðugari ríkjum heims geti notið góðs af dýrum lyfjum og lækningaaðferðum þjást og deyja ótaldar milljónir vegna þess að þær hafa ekki efni á nauðsynlegustu lyfjum eða einu sinni hreinu vatni. Talaðu við þetta fólk um réttlæti! Það býr við magnað óréttlæti frá vöggu til grafar. — Prédikarinn 8:9.

Og hvað má segja um það ranglæti sem ekki er á valdi manna að bæta úr? Hugsaðu um börnin sem fæðast fötluð — blind, vangefin eða vansköpuð. Finnst konu hún búa við réttlæti ef barnið hennar fæðist bæklað eða andvana en hinar konurnar í kring halda á heilbrigðum börnum í fangi sér? Eins og sýnt verður fram á hér á eftir mun verða bætt úr slíku ranglæti.

En miðað við þá tíma sem við nú lifum getur þú vafalaust tekið undir orð Biblíunnar í Prédikaranum 1:15. Þar játaði vitur og reyndur konungur að frá mannlegum bæjardyrum séð litu málin svona út: „Hið bogna getur ekki orðið beint, og það sem skortir verður eigi talið.“

Jesús Kristur er enn kunnari en þessi konungur. Í Lúkasi 18:1-5 lesum við dæmisögu hans um dómara sem „hvorki óttaðist Guð né skeytti um nokkurn mann.“ Ekkja nauðaði í dómaranum um að láta hana ná rétti sínum sem henni bar lögum samkvæmt. En Jesús sagði að óguðlegi dómarinn hefði hjálpað henni einungis af því að hann fékk ekki frið fyrir henni. Af þessu er auðsætt að Jesús gerði sér ljóst að ranglæti væri útbreitt og magnað. Meira að segja var hann sjálfur pyndaður síðar og tekinn af lífi fyrir uppspunnar sakir. Hann var enn eitt fórnarlamb grófs réttarmorðs!

Margir trúa að til sé Guð sem stendur ekki á sama um ranglætið. Jóhannes Páll páfi II sagði við messu í einu landi Mið-Ameríku: „Þegar troðið er á manni, þegar réttur hans er brotinn, þegar hann má þola himinhrópandi ranglæti, þegar hann er pyndaður, þegar brotist er inn til hans og honum rænt eða réttur hans til lífs er að engu hafður, þá er framinn glæpur og gróft brot gegn Guði.“ Þetta eru fögur orð, en þrátt fyrir þau heldur óréttlætið velli. Í þessu sama landi eru 8 börn af hverjum 10 undir fimm ára aldri vannærð. Tveir af hundraði landsmanna eiga 80 af hundraði ræktanlegs lands.

Er þá í rauninni til Guð sem stendur ekki á sama um slíkt hróplegt ranglæti, Guð sem stendur jafnvel ekki á sama um það ranglæti sem snertir þig? Mun hann sjá til þess að öllum verði tryggt réttlæti?

[Neðanmáls]

a Forsíðumyndin er frá Justitia-gosbrunninum í Frankfurt am Main í Þýskalandi. Styttan, sem mynd er af hér á síðunni, er frá opinberri byggingu í Brooklyn í New York.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila