Getur mikil vinna veitt þér hamingju?
„ER ÞAÐ ekki vinnan sem skiptir öllu máli fyrir manninn?“ spurði Bunpei Otsuki, mikill áhrifamaður í viðskiptalífi Japana. Hann var að skýra fyrir viðmælanda sínum hvers vegna hann vildi ekki taka sér sumarleyfi. Orð hans eru dæmigerð fyrir þá kynslóð Japana sem endurreisti landið úr rústum síðari heimsstyrjaldarinnar. Japönum hefur alla tíð verið lýst sem iðjusamri þjóð síðan bandaríski sjóliðsforinginn Perry rauf hina löngu einangrun Japana frá umheiminum. Japanir leggja metnað sinn í að vera atorkusamir verkamenn.
En nú eru Japanir gagnrýndir fyrir að vinna of mikið, enda skila þeir lengsta ársverki meðal hinna svonefndu iðnríkja heims. Japönsk stjórnvöld eru að reyna að breyta þeirri ímynd að Japanir séu vinnusjúklingar. Í fyrirsögn í dagblaði sagði: „Atvinnumálaráðuneytið segir: ‚Hættið að vinna svona mikið.‘“ Fyrir sumarleyfistímann árið 1987 rak ráðuneytið áróður sinn með slagorðinu: „Taktu þér sumarleyfi — það ber vitni um hæfni þína.“ Stjórnvöld eru með öðrum orðum að biðja þjóðina að hægja aðeins ferðina.
Að sjálfsögðu eru ekki allir Japanir jafnvinnusamir. Í könnun, sem gerð var nýlega og náði til liðlega 7000 ungra verkamanna, kom í ljós að einungis 7 af hundraði tóku starf sitt fram yfir einkalíf. Þessarar þróunar gætir einnig í öðrum löndum. Stofnunin Allensbacher Institut für Demoskopie í Vestur-Þýskalandi komst að raun um að einungis 19 af hundraði Þjóðverja á aldursbilinu 18 til 29 ára sögðust gera sitt besta í vinnunni, óháð launum.
Í samanburði við léttlynd ungmenni eru erlendir verkamenn í Japan mjög vinnusamir. Vinnuveitandi í Tokyo hrósar til dæmis mjög alsírskum starfsmanni sínum sem vinnur erfiðisvinnu. Hann segir: „Japanir sækja ekki um þess konar starf, og jafnvel ef þeir gerðu það myndu þeir strax segja því upp.“ Jafnvel hinir iðjusömu Japanir eru þá ekki iðjusamir að eðlisfari. Til að leggja hart að sér við vinnu þurfa menn að hafa sterka áhugahvöt.
Tilefni til iðjusemi
„Auðlegð, öryggi, efnislegar eigur og að komast áfram í heiminum“ — þetta er það sem fær marga Þjóðverja til að leggja hart að sér við vinnu, að sögn þýska vikuritsins Der Spiegel. Já, margir leggja hart að sér til að efnast þannig að þeir geti notið ákveðins öryggis í lífinu. Aðrir leggja hart að sér með það að markmiði að „komast áfram í heiminum“ eða til að fá stöðuhækkun. Margir sem láta samkeppnisanda menntakerfisins koma sér til að keppa að slíkum markmiðum enda því miður í tilbreytingarlausu striti iðnaðarþjóðfélagsins — þeir slíta sér út en komast ekkert áfram.
Það eru þó ekki alltaf peningar eða staða sem koma mönnum til að leggja hart að sér. Sumir vinna vinnunnar vegna. Vinnan er þeim allt. Aðrir hafa yndi af starfi sínu. „Ég hafði svo brennandi áhuga á því sem ég var að gera á rannsóknastofunni,“ segir Haruo, „að andleg hugðarefni sátu á hakanum.“
Þá má ekki gleyma þeim sem hafa helgað sig verðugum málstað, þjóna velferð annarra í starfi sínu og eiga jafnvel þátt í að bjarga mannslífum. Eru þetta heilbrigðar ástæður fyrir því að leggja hart að sér við vinnu? Stuðlar vinnan að hamingju manna ef þessar hvatir liggja að baki? Hvaða starf getur eiginlega veitt manninum hamingju?