„Hvað á ég að gjöra til að verða hólpinn?“
„HVAÐ á ég að gjöra til að verða hólpinn?“ spurði fangavörður í Filippí í Makedóníu árið 50. Það hafði orðið mikill jarðskjálfti sem opnaði allar dyr þess fangelsis sem var í hans umsjá. Fangavörðurinn gerði ráð fyrir að allir fangarnir væru sloppnir og ætlaði að fyrirfara sér, en einn af föngunum, Páll postuli, hrópaði til hans: „Gjör þú sjálfum þér ekkert mein, vér erum hér allir!“ — Postulasagan 16:25-30.
Páll og meðfangi hans, Sílas, höfðu komið til Filippí til að prédika hjálpræðisboðskap og voru nú í fangelsi vegna þess að þeir höfðu verið bornir upplognum sökum. Fangavörðurinn var glaður og þakklátur fyrir að fangarnir skyldu ekki hafa flúið og vildi nú heyra hvaða boðskap Páll og Sílas voru að boða. Hvað þyrfti hann að gera til að öðlast það hjálpræði sem þessir tveir kristnu trúboðar prédikuðu?
Nútímamenn hafa jafnmikla þörf fyrir hjálpræði eða frelsun eins og þessi maður. Því miður eru margir mjög tortryggnir þegar það málefni að verða hólpinn, öðlast hjálpræði eða frelsast ber á góma. Mönnum finnst hroki og fégræðgi margra, sem prédika hjálpræði, fráhrindandi. Aðra hryllir við hinu hóflausa hrifnæmni margra evangelískra trúfélaga sem leggja áherslu á það að láta frelsast. Enski blaðamaðurinn Philip Howard segir að hinir svokölluðu vakningarprédikarar „spili á tilfinningar og gjafmildi fólks í stað þess að höfða til skynseminnar.“ — Samanber 2. Pétursbréf 2:2.
Öðrum þykir nóg um hinar skyndilegu breytingar á persónuleika fólks sem segist hafa „frelsast.“ Í bókinni Snapping fjalla Flo Conway og Jim Siegelmann um trúarreynslubylgju síðustu áratuga — meðal annars það að „frelsast.“ Þau ræða um „skuggahliðar“ slíkrar trúarreynslu og segja að fólk sé „gripið“ skyndilegri persónuleikabreytingu sem hefur í för með sér sjálfsblekkingu, fordóma og vanhæfni til að horfast í augu við veruleikann, í stað þeirrar lífsfyllingar og upplýsingar sem lofað hafði verið. Höfundarnir bæta við: „Það er hægt að lýsa því þannig að huganum sé lokað, hugsunin tekin úr sambandi.“
Þannig var það ekki þegar frumkristnir menn tóku á móti hjálpræðinu. Fangavörðurinn í Filippí lokaði ekki huganum þegar Páll postuli svaraði spurningunni: „Hvað á ég að gjöra til að verða hólpinn?“ Og Páll og Sílas hvorki ‚spiluðu á tilfinningar hans‘ né báðu hann um peninga. Þess í stað ‚fluttu þeir honum orð Jehóva.‘ Þeir rökræddu við manninn og hjálpuðu honum að fá skýran skilning á hjálpræðisráðstöfun Guðs. — Postulasagan 16:32.
„Trú þú á Drottin Jesú“
Þessir kristnu trúboðar opnuðu huga fangavarðarins fyrir frumsannindum hjálpræðisins. Þetta voru sömu sannindi og Pétur postuli skýrði frá þegar kristni söfnuðurinn var stofnsettur. Pétur postuli benti á aðalhlutverk Jesú Krists í hjálpræðinu og kallaði hann „höfðingja lífsins.“ Postulinn sagði einnig: „Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss.“ (Postulasagan 3:15; 4:12) Páll og Sílas bentu fangaverðinum í Filippí á þennan sama höfðingja lífsins er þeir sögðu: „Trú þú á Drottin Jesú, og þú munt verða hólpinn.“ — Postulasagan 16:31.
En hvað felur það í sér að trúa á Drottinn Jesú? Hvers vegna er ekkert annað nafn en nafn Jesú sem getur frelsað okkur? Munu allir hljóta hjálpræði? Trúði postulinn á hugmyndina „einu sinni hólpinn, alltaf hólpinn?“ Mikilvægt er að fá svör við þessum spurningum því að við þörfnumst enn hjálpræðis eða frelsunar, þótt þeir sem mikið fer fyrir á vettvangi trúmálanna hafi með orðum sínum og athöfnum gefið þessum hugtökum neikvæðan hljóm. Við þurfum öll að fá viðunandi og skynsamlegt svar við spurningunni: „Hvað á ég að gjöra til að verða hólpinn?“