Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w90 1.3. bls. 4-7
  • Er gullna reglan enn í fullu gildi?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Er gullna reglan enn í fullu gildi?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „Lögmálið og spámennirnir“
  • Kristur leiðir söfnuð sinn
  • Gullna reglan dugir enn
  • Lifað eftir gullnu reglunni
  • Hver er gullna reglan?
    Biblíuspurningar og svör
  • Gullna reglan er enn í gildi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2001
  • Gullna reglan — algild lífsregla
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2001
  • Fylgjum gullnu reglunni í boðunarstarfinu
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2014
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
w90 1.3. bls. 4-7

Er gullna reglan enn í fullu gildi?

HREINT gull tapar aldrei gljáa sínum. Þess vegna eru skartgripir úr gulli verðmætir og eftirsóttir. Þar eð gull heldur verðgildi sínu er skartgripum eða munum úr gulli ekki hent þótt þeir skaddist heldur smíðað úr þeim á nýjan leik.

Þótt nánast 2000 ár séu liðin síðan Jesús setti fram gullnu regluna er hún enn í fullu gildi, líkt og gull heldur verðgildi sínu. Við gerum okkur gleggri grein fyrir því hvers virði hún er fyrir okkur núna ef við kynnum okkur nánar ástæðurnar fyrir gildi hennar.

Þegar Jesús setti fram gullnu regluna, „allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra,“ bætti hann við: „Þetta er lögmálið og spámennirnir.“ (Matteus 7:12) Hvernig skildu Jesús og áheyrendur hans þessi orð?

„Lögmálið og spámennirnir“

„Lögmálið“ vísaði til hinna fornu rita sem við köllum nú 1. til 5. Mósebók. Þær greina frá þeim tilgangi Jehóva að leiða fram sæði sem á að útrýma hinu illa. (1. Mósebók 3:15) Í þessum fyrstu bókum Biblíunnar er að finna lögmálið eða lagasafnið sem Jehóva gaf Ísraelsmönnum árið 1513 f.o.t. við Sínaífjall og Móse miðlaði.

Lög Guðs mynduðu skýr mörk milli Ísraelsmanna og heiðnu þjóðanna umhverfis þá og Ísraelsmenn máttu ekkert gera sem spillt gæti velþóknanlegri stöðu þeirra frammi fyrir Jehóva. Þeir voru einkaeign hans og áttu að hljóta blessun hans. (2. Mósebók 19:5; 5. Mósebók 10:12, 13) En auk þess að lýsa skyldum Ísraelsmanna gagnvart Guði tíunduðu Móselögin þá ábyrgð þeirra að gera gott útlendingum sem bjuggu í Ísrael. Til dæmis sagði lögmálið: „Útlendan mann, sem hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi. Ég er [Jehóva], Guð yðar.“ (3. Mósebók 19:34) Á því tímabili er Ísrael átti sér konunga nutu útlendingar búsettir í landinu ýmissa sérréttinda, svo sem þeirra að taka þátt í byggingu musteris Guðs í Jerúsalem. — 1. Kroníkubók 22:2.

Lögmálið lagði bann við hórdómi, morði, þjófnaði og ágirnd. Þessi boðorð og „hvert annað boðorð“ var hægt að draga saman í meginregluna: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Síðan bætti Páll postuli við: „Kærleikurinn gjörir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn fylling lögmálsins.“ — Rómverjabréfið 13:9, 10.

Þannig var lögmálið grundvöllur gullnu reglunnar, en hvað um ‚spámennina‘?

Spádómsbækur Hebresku ritninganna staðfesta á sama hátt að gullna reglan sé enn í fullu gildi. Þær opinbera Jehóva sem Guð er uppfyllir tilgang sinn án þess að hvika. Hann blessar trúfasta þjóna sína sem reyna að gera vilja hans, þótt þeir séu ófullkomnir, og láta í ljós sanna iðrun vegna rangrar breytni sinnar. „Þvoið yður, hreinsið yður. Takið illskubreytni yðar í burt frá augum mínum. Látið af að gjöra illt, lærið gott að gjöra! Leitið þess, sem rétt er. Hjálpið þeim, sem fyrir ofríki verður. Rekið réttar hins munaðarlausa. Verjið málefni ekkjunnar.“ — Jesaja 1:16, 17.

Jehóva hét þjónum sínum stuðningi þegar þeir gerðu það sem rétt var gagnvart honum og meðbræðrum sínum. „Svo segir [Jehóva]: Varðveitið réttinn og gjörið það, sem rétt er, . . . sæll er sá maður, sem gjörir þetta, og það mannsbarn, sem heldur fast við það.“ — Jesaja 56:1, 2.

Kristur leiðir söfnuð sinn

Kristur kom til að uppfylla lögmálið og spámennina og síðan hefur eilífur tilgangur Jehóva haldið áfram að fullnast skref fyrir skref. (Matteus 5:17; Efesusbréfið 3:10, 11, 17-19) Hið gamla Móselögmál hefur verið látið víkja fyrir nýjum sáttmála sem nær til smurðra kristinna manna bæði úr hópi Gyðinga og heiðingja. (Jeremía 31:31-34) Eigi að síður fylgir kristni söfnuðurinn gullnu reglunni enn þann dag í dag. Við höfum einnig þá ástæðu til að viðurkenna gullnu regluna sem góða og gilda að Kristur er höfuð kristna safnaðarins, einnig nú á tímum. Hann hefur ekki breytt fyrirmælum sínum. Innblásin heilræði hans eru enn í fullu gildi.

Áður en Jesús yfirgaf jörðina bauð hann fylgjendum sínum að gera menn úr öllum þjóðum að lærisveinum og kenna þeim ‚að halda allt það sem hann hefði boðið þeim.‘ Gullna reglan var hluti af því sem Jesús bauð. Hann fullvissaði lærisveina sína um að hann myndi vera með þeim „alla daga allt til enda veraldar.“ — Matteus 28:19, 20.

Samkvæmt frásögn Lúkasar 6:31 bauð Jesús: „Og svo sem þér viljið, að aðrir menn gjöri við yður, svo skuluð þér og þeim gjöra.“ Jesús gaf gott fordæmi í því að gera öðrum gott að eigin frumkvæði.

Meðan Jesús þjónaði hér á jörð fylgdist hann náið með því sem fólk mátti þola og kenndi í brjósti um það. Í einni af prédikunarferðum sínum sá hann mannfjölda og kenndi í brjósti um hann. En hann lét ekki þar við sitja heldur gerði jákvæðar ráðstafanir til hjálpar fólkinu. Þær fólust í miklu prédikunarátaki þar sem lærisveinarnir heimsóttu fólk. Hann sagði þeim: „Sá sem tekur við yður, tekur við mér, og sá sem tekur við mér, tekur við þeim, er sendi mig. . . . Og hver sem gefur einum þessara smælingja svaladrykk vegna þess eins, að hann er lærisveinn, sannlega segi ég yður, hann mun alls ekki missa af launum sínum.“ — Matteus 9:36-10:42.

Við annað tækifæri rökræddi Jesús eftir þeim nótum að augljóst má vera að gullna reglan felur í sér frumkvæði og jákvæð verk í þágu annarra: „Og þótt þér elskið þá, sem yður elska, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar elska þá líka, sem þá elska. Og þótt þér gjörið þeim gott, sem yður gjöra gott, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar gjöra og hið sama. Nei, elskið óvini yðar, og gjörið gott . . . og laun yðar munu verða mikil.“ (Lúkas 6:32, 33, 35) Ef við viljum fylgja gullnu reglunni, sem er enn í fullu gildi, þurfum við þess vegna að eiga frumkvæðið að því að gera gott, jafnvel fólki sem við þekkjum ekki.

Gullna reglan dugir enn

Einhver besta sönnunin fyrir því að gullna reglan sé enn í fullu gildi er fólgin í reynslu þeirra sem lifa eftir henni. Kristnir menn, sem lifa dag hvern í samræmi við lög Guðs, njóta mikillar gleði og oft óvæntrar blessunar. Kristin kona veitti til dæmis því athygli að hjúkrunarkonur og læknar á heilsugæslustöð, sem hún leitaði til, lögðu sig í framkróka til að hjálpa henni, vegna þess eins að hún var kurteis og vingjarnleg við þau.

Vottar Jehóva, sem hafa tekið þátt í að reisa Ríkissali á fáeinum dögum, geta einnig staðfest gildi gullnu reglunnar. Íbúar í grennd við byggingarstaðinn hafa yfirleitt brugðist jákvætt við þegar bræður hafa heimsótt þá og skýrt fyrir þeim með vinsemd hvað væri á döfinni. Þannig hefur fólk, sem áður var andsnúið vottunum, kynnst af eigin raun hvernig þjónar Guðs vinna saman. Sumir hafa jafnvel boðið fram hjálp sína við byggingarframkvæmdirnar, annaðhvort með vinnu eða framlögum af öðru tagi. — Samanber Sakaría 8:23.

Íranskur vottur, búsettur í Lundúnum, var að kaupa inn til heimilisins þegar verslunareigandinn hreytti í hann ónotum af því að hann var útlendingur. Votturinn lét það ekki koma sér úr jafnvægi heldur sagði vingjarnlega og háttvíslega frá því að hann væri vottur Jehóva og bæri engan kala til fólks af öðrum þjóðernum heldur heimsækti alla í hverfinu til að segja því frá boðskap Biblíunnar. Afleiðingarnar urðu þær að verslunareigandinn gaf vottinum smávegis lostæti í kaupbæti.

Gullna reglan takmarkast að sjálfsögðu ekki við góðverk af smáu tagi eins og hér hafa verið nefnd. Hún birtist langsamlega skýrast í því hvernig vottar Jehóva um allan heim gera mönnum gott með því að heimsækja þá reglulega til að færa þeim fagnaðarerindið um Guðsríki.

Lifað eftir gullnu reglunni

Það að lifa eftir gullnu reglunni felur í sér að sýna öðrum áhuga. Hún krefst frumkvæðis og athafna. Þú þarft að hafa augun opin fyrir tækifærum til að gera gott þeim sem kringum þig eru. Vertu vingjarnlegur og umhyggjusamur og sýndu öðrum persónulegan áhuga. (Filippíbréfið 2:4) Ef þú gerir það munt þú uppskera ríkulega blessun. Þú munt þá fylgja heilræði Jesú: „Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.“ (Matteus 5:16) Jehóva mun síðan umbuna þér er þú leitast við í einlægni að lifa dag hvern eftir gullnu reglunni. — Hebreabréfið 11:6.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila