Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w90 1.4. bls. 5-7
  • Friður — veruleikinn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Friður — veruleikinn
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Boðskapur Jesaja
  • Fræðsla frá Guði
  • Sönn guðsdýrkun
  • Tími ákvörðunar
  • Hús Jehóva upphafið
    Spádómur Jesaja — ljós handa öllu mannkyni 1. bindi
  • Hvernig kemst heimsfriður á?
    Biblíuspurningar og svör
  • Friður frá Guði fyrir þá sem Jehóva kennir
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Ástundaðu sannan frið og kepptu eftir honum!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
w90 1.4. bls. 5-7

Friður — veruleikinn

FÁIR gagnrýna hugsjónirnar að baki friðarviðleitni Sameinuðu þjóðanna. Alfræðibókin „The World Book Encyclopedia“ segir: „Með orðunum ‚Vér skulum smíða plógjárn úr sverðum‘ lýsa Sameinuðu þjóðirnar því markmiði sínu að tryggja frið í heiminum.“ Hún bætir við: „Sameinuðu þjóðirnar hafa tvö meginmarkmið: frið og mannlega reisn.“

Áletrunin á stalli styttunnar hér að ofan endursegja orð Biblíunnar í spádóminum í Jesaja 2. kafla, 4. versi. Þau hljóða svo í íslenskri þýðingu Biblíunnar:

„Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum.“

Þessi tignarlegu orð hefðu svo sannarlega átt að örva aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til að vinna heilshugar að varanlegum friði og afvopnun. Því miður hefur saga Sameinuðu þjóðanna frá stofnun þeirra við lok síðari heimsstyrjaldarinnar árið 1945 verið með öðrum hætti. Hvers vegna? Fyrst og fremst vegna þess að ekki er hægt að hampa orðunum hér að ofan einum sér eins og mannastjórnir hafa gert. Samhengi orðanna skiptir öllu máli. Við skulum skoða ástæðuna fyrir því.

Boðskapur Jesaja

Jesaja var spámaður. Hann segir frá stórkostlegri sýn þar sem ríkir friður og eining meðal manna af öllum kynþáttum. Eigi þessi sýn að verða að veruleika þurfa menn að gera eitthvað. Hvað er það? Hugleiddu hvað vers 2 og 3 fela í sér í tengslum við vers 4.

„[2] Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús [Jehóva] stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu allir lýðirnir streyma. [3] Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall [Jehóva], til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér vegum ganga á hans stigum,‘ því að frá Síon mun kenning út ganga og orð [Jehóva] frá Jerúsalem. [4] Og hann mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“

Í fyrsta lagi verðum við að viðurkenna að skapari okkar, Jehóva, hefur rétt til að ‚kenna okkur sína vegu‘ sem eru, eins og Jesaja sagði síðar, ‚hærri okkar vegum.‘ (Jesaja 55:9) Margir, einkum sjálfsbirgingslegir veraldarleiðtogar, eiga erfitt með að viðurkenna það. Ekkert nema þeirra vegir eru réttir í þeirra augum. Sú staðreynd að þeirra vegir hafa ekki leitt heiminn til friðar og afvopnunar sýnir þó berlega hve gagnslaust er að halda slíkri stefnu til streitu.

Í öðru lagi skulum við veita athygli einlægri þrá þeirra manna sem samstilla sig lögum Guðs: „Svo að . . . vér megum ganga á hans stigum.“ Það er aðeins á þeim grundvelli sem smíðuð verða plógjárn úr sverðum og sniðlar úr spjótum út um víða veröld. Hvernig verður nokkurn tíma hægt að ná slíku markmiði?

Fræðsla frá Guði

Margir eiga eintak af Biblíunni, bókinni sem inniheldur fyrirmæli og fræðslu Jehóva Guðs. Ekki er þó nægilegt einungis að eiga hana. Jesaja segir að lög Jehóva og orð komi frá „Jerúsalem.“ Hvað merkir það? Á dögum Jesaja var borgin Jerúsalem það konungssetur sem allir trúfastir Ísraelsmenn horfðu til. (Jesaja 60:14) Síðar, á tímum postula Jesú Krists, var Jerúsalem enn sá miðpunktur þaðan sem fræðsla kom frá hinu stjórnandi ráði kristna safnaðarins þar í borg. — Postulasagan 15:2; 16:4.

Hvað um okkar daga? Tökum eftir inngangsorðunum að boðskap Jesaja: „Það skal verða á hinum síðustu dögum.“ Á síðum þessa tímarits er bent reglulega á rök fyrir því að við höfum lifað síðustu daga núverandi heimsskipanar frá árinu 1914. Hverju eigum við þá að búast við samkvæmt 3. og 4. versi?

Við ættum að sjá mikinn fjölda manna sem temur sér ekki hernað framar og hefur nú þegar ‚smíðað plógjárn úr sverðum sínum.‘ Þetta sjáum við líka. Yfir 3,7 milljónir karla, kvenna og barna af öllum kynþáttum í liðlega 200 löndum eru sameinuð, búa í friði hvert við annað og prédika friðarboðskap Biblíunnar fyrir nágrönnum sínum. Þetta fólk er þekkt út um allan heim sem vottar Jehóva.

Það á sér stjórnandi ráð aldraðra kristinna manna úr ýmsum heimshornum sem hefur yfirumsjón með starfi þjóna Guðs um víða veröld. Þessir menn eru, líkt og postularnir og öldungarnir í Jerúsalem á fyrstu öld, smurðir anda Guðs og tilheyra hópi hins trúa og hyggna þjóns sem Jesús fól umsjón með öllum hagsmunum Guðsríkis hér á jörð. Sagan hefur sýnt að þeim má treysta til að fylgja handleiðslu heilags anda og að þeir reiða sig ekki á visku manna til að kenna hjörð Guðs vegu ósvikins friðar. — Matteus 24:45-47; 1. Pétursbréf 5:1-4.

Sönn guðsdýrkun

Hvorki þekking né löngun til að lifa samkvæmt fyrirmælum Guðs nægir ein sér til að lifa í friði. Til þess þarf hollustu hjartans og tilbeiðslu á skapara okkar, Jehóva, eins og Jesaja sýnir greinilega fram á.

Spámaðurinn segir að ‚fjall það, er hús Jehóva stendur á, muni grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar.‘ Til forna voru fjöll og hæðir stundum setur skurðgoðadýrkunar og þar voru reistir helgidómar falsguða. Þegar Davíð konungur flutti sáttmálsörkina helgu í tjaldbúðina, sem hann hafði reist á Síonfjalli (Jerúsalem), um 760 metrum yfir sjávarmáli, fór hann þar greinilega eftir fyrirmælum Guðs. Síðar meir, þegar hið mikla musteri Jehóva var reist á Móríafjalli, var nafnið „Síon“ látið innifela musterissvæðið. Musterið stóð hærra en margir af helgistöðum heiðingja. Borgin Jerúsalem var einnig kölluð ‚hið heilaga fjall Guðs‘ og þannig var tilbeiðslan á Jehóva hátt upp hafin. — Jesaja 8:18; 66:20.

Eins er það nú á dögum að tilbeiðslan á Jehóva Guði er hátt upp hafin eins og táknrænt fjall. Hún er svo áberandi að allir geta séð hana því að hún hefur gert nokkuð sem engin önnur trúarbrögð hafa getað. Hvað er það? Hún hefur sameinað alla tilbiðjendur Jehóva sem hafa fúslega smíðað plógjárn úr sverðum sínum og temja sér ekki hernað framar. Landamæri og kynþáttafordómar sundra þeim ekki framar. Þeir eru sameinuð þjóð, bræðrafélag, þótt þeir séu dreifðir meðal allra þjóða heims. — Sálmur 33:12.

Tími ákvörðunar

Hvaða áhrif hefur þetta á þig? Hér eiga við orð annars hebresks spámanns: „Flokkarnir þyrpast saman í dómsdalnum, því að dagur [Jehóva] er nálægur í dómsdalnum.“ (Jóel 3:19) Nú eru áríðandi ákvörðunartímar fyrir allt mannkynið um annaðhvort að læra vegu friðarins af Guðs hendi eða halda áfram að styðja það vopna- og vígbúnaðarbrölt sem brátt mun taka enda.

Jesús sagði fyrir að mikil prédikun myndi fara fram á okkar tímum. Þetta er prédikun ‚fagnaðarerindisins‘ um að ríki Guðs muni bráðlega koma á friði á þessari stríðshrjáðu jörð. (Matteus 24:14) Á síðastliðnu ári héldu vottar Jehóva langt yfir þrjár milljónir reglubundinna biblíunámskeiða í heiminum. Sum þessara námskeiða, sem haldin voru vikulega, voru haldin með einstaklingum en mörg með fjölskyldum. Þar með er milljónum barna gefin örugg framtíðarvon og foreldrar þeirra fá vissu fyrir því að styrjaldir, líkt og þær sem þeir hafa orðið vitni að og kannski jafnvel tekið þátt í, muni ekki tilheyra þeim nýja heimi sem Jehóva Guð myndar.

Í þeim heimi mun ríkja gagnkvæmt traust og friður! Þar munu menn ekki framar þurfa að gera sér áhyggjur af afvopnun því að stríðsvopn munu heyra fortíðinni til. Og allt er þetta að þakka Jehóva, ‚Guði friðarins,‘ sem fræðir okkur á kærleiksríkan hátt núna þannig að við getum búið okkur undir það að njóta lífsins til fulls í réttlætisríki hans. — Rómverjabréfið 15:33.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila