Boðun fagnaðarerindisins um víða veröld
GUÐSRÍKI stjórnar! Það eru bestu tíðindi sem hugsast getur. Það er þeirra vegna sem yfir 3,5 milljónir votta Jehóva boðuðu ‚fagnaðarerindið,‘ sem Jesús spáði um, og ‚fagnaðarboðskapinn‘ sem engillinn í sýn Jóhannesar boðaði, af miklum eldmóði um víða veröld árið 1989. (Matteus 24:14; Opinberunarbókin 14:6) Eins og Páll postuli sagði: „Raust þeirra hefur borist út um alla jörðina og orð þeirra til endimarka heimsbyggðarinnar.“ (Rómverjabréfið 10:18) Og fólk af nær öllum þjóðum og kynkvíslum, tungum og lýðum hlýddi fagnandi hvatningu þeirra um að ‚óttast Guð og gefa honum dýrð.‘ — Opinberunarbókin 14:7.
Engar líftryggingar framar
Einn þeirra var maður á Englandi sem hafði viðurværi sitt af óvissunni í lífinu. Ken var tryggingasali og þegar hann knúði dyra hjá fjölskyldu, sem var vottar Jehóva, var hann spurður: „Gætir þú hugsað þér að búa í heimi þar sem líftryggingar verða óþarfar?“ Hvað áttu húsráðendur við? Það að samkvæmt Biblíunni mun margt af því sem gerir lífið svo óöruggt núna, meðal annars veikindi og dauði, heyra fortíðinni til.
Er nokkur möguleiki á slíku? Já, Guð hefur sjálfur heitið því. Til dæmis segir Biblían: „Guð sjálfur mun vera hjá þeim [mannkyninu], Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:3, 4) Hvað mun valda slíkri breytingu? Guðsríki. Samkvæmt orði Guðs mun það bráðlega „knosa og að engu gjöra öll þessi ríki [hin pólitísku sem nú eru], en sjálft mun það standa að eilífu.“ — Daníel 2:44.
Í prédikun sinni um allan heim hafa vottar Jehóva vakið athygli hundruða milljóna manna á ritningarstöðum eins og þessum. Margir hafa gert sér ljóst, líkt og Ken, að þetta er ekki bara óskhyggja. Sönnunargögnin fyrir því eru óyggjandi. Þessi loforð Guðs eru trúverðug og munu bráðlega verða að veruleika.
Breytt verðmætamat
Þeir sem hlýða á votta Jehóva er þeir enduróma hinn gleðilega boðskap engilsins gera sér ljóst að það að óttast Guð og gefa honum dýrð felur meira í sér en aðeins að trúa á fyrirheit Biblíunnar. Það gerbreytir viðhorfum þeirra og léttir af þeim mörgum af vonbrigðum lífsins.
Rafael og kona hans komust að raun um það. Þau búa í Argentínu og þegar þau giftust fyrir meira en fjórum áratugum settu þau sér það sem aðalmarkmið í lífinu að vinna mikið til að geta lagt fyrir fé og tryggt sér örugga framtíð. Eftir 21 ár hafði vinna þeirra ekki skilað öðru en litlu húsi sem þarfnaðist stöðugra viðgerða. Þeim fannst þau ekkert öruggari en daginn sem þau giftust.
Þá heyrðu þau fagnaðarerindið frá vottum Jehóva og uppgötvuðu að til var betri auður og betra öruggi. Jesús talaði um það í fjallræðu sinni er hann sagði: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.“ — Matteus 6:19, 20.
Enda þótt Biblían kenni okkur ekki að vera óhagsýn í umgengni við efnislegan auð hvetur hún okkur til að binda ekki vonir okkar slíkum auði. (Prédikarinn 7:12) Við ættum þess í stað að leggja okkur fram við að afla okkur andlegs auðs með því að nema Biblíuna, kynnast vilja Guðs og láta það síðan vera forgangsatriði í lífi okkar að gera þann vilja. (Matteus 6:33) Rafael og kona hans byrjuðu að safna sér þessum andlega auði og nú finnst þeim þau í sannleika rík, ekki af efnislegum gæðum heldur vegna sambands síns við Guð. (Opinberunarbókin 3:17, 18) Boðskapurinn um Guðsríki var sannarlega fagnaðartíðindi fyrir þau.
Hjónabandi bjargað
Fagnaðarerindið er mjög öflug áhrif til góðs. John, sem bjó á Englandi, hafði ekki áhuga á Biblíunni eins og kona hans og börn. Þau fóru því að sækja samkomur votta Jehóva meðan John sat að drykkju með vinum sínum. Hann drakk mikið, byrjaði að reykja og leiddist loks út í siðleysi. Að síðustu yfirgaf hann fjölskyldu sína og fór að búa með annarri konu.
Undirbúningur var hafinn að lögskilnaði, en John kom það á óvart að konan hans — sem hafði lært kristna breytni af biblíunámi sínu — var enn tillitssöm við hann. Hann gat ómögulega skilið ástæðuna. Þrem vikum áður en hjónaskilnaðurinn átti að vera frágenginn hafði kristin framkoma eiginkonu Johns sín áhrif. Hann lét í ljós ósvikna iðrun vegna breytni sinnar og hætt var við hjónaskilnaðarmálið. John tók nú sjálfur að kynna sér fagnaðarerindið og nema Biblíuna með vottum Jehóva. Núna er hann líka kristinn maður og segir öðrum frá fagnaðarerindinu um Guðsríki.
Nú á dögum, þegar siðferðisgildi fjölskyldulífsins eru á hröðu undanhaldi, þarfnast margir þeirrar hjálpar sem fagnaðarerindi Biblíunnar getur veitt. Einn af vottum Jehóva í Perú var á ferð í flugvél og sat við hliðina á ofursta í hernum. Þeir tóku tal saman og ofurstinn fór að segja honum frá fjölskylduvandræðum sínum, meðal annars því að konan hans væri fíkniefnaneytandi og væri í þann mund að yfirgefa hann til að taka upp sambúð við yngri mann. Votturinn benti honum háttvíslega á að Biblían gefi traust og góð ráð um fjölskyldumál og að hún hefði hjálpað honum persónulega að leysa sín eigin fjölskylduvandamál. — Efesusbréfið 5:21-6:4.
Ofurstinn þakkaði vottinum fyrir þessi hughreystandi orð og þáði áskrift að tímaritunum Varðturninn og Vaknið! til að hann gæti aflað sér frekari þekkingar á fagnaðarerindinu. Þegar votturinn var að yfirgefa flugvélina hlupu ung hjón á eftir honum og báðu um að fá að tala við hann. „Við sátum í næstu sætaröð fyrir framan þig,“ sögðu þau, „og við heyrðum samtal þitt og mannsins. Okkur langar líka til að gerast áskrifendur að þessum tímaritum.“ Þau vildu líka kynnast fagnaðarerindinu sem getur breytt lífi fólks til betri vegar.
Fagnaðarerindið breytir fólki
Fagnaðarerindi Biblíunnar breytir fólki. „Orð Guðs er lifandi og kröftugt“ eins og Páll postuli sagði. (Hebreabréfið 4:12) Sú var reynsla ungs manns í Makedóníu á Grikklandi. Honum brá mjög er hann uppgötvaði að nafn Guðs er Jehóva samkvæmt Biblíunni. Hann bað því vin sinn að koma sér í samband við votta Jehóva eins fljótt og auðið væri. Hann átti tvívegis viðræður við vottana, um fjórar klukkustundir í senn. Síðan fór ungi maðurinn að nema Biblíuna reglulega, og stóð fyrsta námsstundin fram til klukkan tvö að nóttu!
Eftir þetta fyrsta nám gerði ungi maðurinn skjótar breytingar til að samræma líf sitt stöðlum Biblíunnar. Hann tók að sækja samkomur þar sem vottar Jehóva dýrka Guð og fékk mikla ást á skaparanum. Og Jehóva blessaði hann á móti. Fyrstu vikuna, sem hann nam Biblíuna, lét hann klippa af sér síða hárið. Í annarri vikunni hætti hann að stunda kaffihús og dansstaði til að leita sér spennandi félagsskapar. Í þriðju vikunni kastaði hann frá sér síðasta vindlingnum. Eftir tveggja mánaða nám byrjaði hann að taka þátt með vottunum í því að boða öðrum fagnaðarerindið um Guðsríki. Hann fagnaði því mjög að vottar Jehóva skyldu hafa flutt fagnaðarerindið til þess heimshluta sem hann bjó í.
Fagnaðarerindið innan fangelsismúra
Fangelsismúrar fá ekki einu sinni stöðvað fagnaðarerindið. Á Spáni sat ungur maður að nafni José af sér langan fangelsisdóm vegna vopnaðs ráns og annarra afbrota. Vottar Jehóva höfðu þá tækifæri til að segja honum frá fagnaðarerindinu og boðskapur Biblíunnar gerbreytti viðhorfum hans. Jehóva ‚gerði hann styrkan.‘ — Filippíbréfið 4:13.
José segir að svo kunni vel að fara að hann eyði því sem eftir er ævinnar í fangelsi vegna sinna fyrri afbrota. Nú er hann hins vegar skírður kristinn maður. Konan hans styður hann dyggilega, og hún leitast núna við að veita ungum syni þeirra kristilegt uppeldi. José segir samföngum sínum frá fagnaðarerindinu, fólki sem erfitt er að ná til fyrir þá sem búa utan fangelsismúra. Núna er klefafélagi hans einnig skírður kristinn maður.
Þetta eru aðeins fáein dæmi sem sýna hvaða árangri prédikun votta Jehóva um allan heim skilar. Svo sannarlega hafa vottar Jehóva endurómað gleðitíðindin sem hinn ósýnilegi engill boðaði, og þau eru ‚fagnaðarboðskapur til allra sem á jörðinni búa, og sérhverri þjóð, kynkvísl, tungu og lýð.‘
Þetta eru bestu tíðindi sem hugsast getur og eina von mannkynsins. Við hvetjum þig til að hlusta á þennan boðskap og hlýða honum. Líkt og Ken og John á Englandi, líkt og Rafael og kona hans í Argentínu, líkt og José á Spáni og líkt og þúsundir annarra manna tökum við undir með englinum í því að hvetja alla menn til að ‚óttast Guð og gefa honum dýrð, því að kominn er stund dóms hans, og tilbiðja þann, sem gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna.‘ — Opinberunarbókin 14:7.