Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w90 1.8. bls. 29-31
  • Rómverjar heyra bestu fréttirnar

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Rómverjar heyra bestu fréttirnar
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • PÁLL OG RÓMVERJAR
  • TRÚ OG LÖGMÁLIÐ
  • RÉTTLÆTI VEGNA TRÚAR
  • MÓTBÁRUM SVARAÐ
  • RÉTTLÆTI OG GYÐINGAR AÐ HOLDINU
  • MEGINREGLUR RÉTTLÆTISINS
  • FYRIR HINA SMURÐU OG HINA AÐRA SAUÐI
  • Lýstir réttlátir „til lífs“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Hafðu yndi af réttlæti Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • Fagnaðarerindið sem allir þurfa að heyra
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Lýstir réttlátir sem vinir Guðs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
w90 1.8. bls. 29-31

Rómverjar heyra bestu fréttirnar

HVERNIG getur syndugur maður verið réttlátur í augum Guðs og þar með öðlast eilíft líf? Þessi spurning varð tilefni heitra umræðna á fyrstu öld okkar tímatals. Veistu svarið? Hvort sem þú veist það eða ekki áttu það inni hjá sjálfum þér að lesa hina meistaralegu umfjöllun Páls um þetta mál í Rómverjabréfinu. Það mun hjálpa þér að skilja hið mikilvæga samband milli trúar, verka, réttlætis og lífs.

PÁLL OG RÓMVERJAR

Rómverjabréfið er bréf sem Páll skrifaði kristnum mönnum í Róm um árið 56. Hvers vegna skrifaði hann bréfið? Þótt Páll hefði enn ekki komið til Rómar árið 56 virðist hann hafa þekkt marga kristna menn þar, því hann ávarpaði marga með nafni í bréfi sínu. Auk þess þráði Páll mjög innilega að fara til Rómar til að uppörva kristna bræður sína þar og hann virðist einnig hafa áformað að nota Róm sem stökkpall fyrirhugaðrar trúboðsferðar til Spánar. — Rómverjabréfið 1:11, 12; 15:22-24.

Aðalmarkmið Páls með bréfinu var þó að svara spurningunni: Hvernig geta menn öðlast réttlæti sem leiðir til lífs? Svarið er einhver bestu tíðindi sem hugast getur. Réttlæti tilreiknast á grundvelli trúar. Páll sýnir fram á það og gefur bréfi sínu eins konar stef er hann ritar: „Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir, Gyðingum fyrst, en einnig Grikkjum. Því að réttlæti Guðs opinberast í því fyrir trú til trúar eins og ritað er: ‚Hinn réttláti mun lifa fyrir trú.‘“ — Rómverjabréfið 1:16, 17.

TRÚ OG LÖGMÁLIÐ

Á fyrstu öldinni voru ekki allir þeirrar skoðunar að réttlæti tilreiknaðist á grundvelli trúar. Hávær minnihluti hélt því fram að meira væri krafist. Hafði ekki Jehóva gefið Móselögmálið? Gat nokkur verið réttlátur sem ekki beygði sig undir þá ráðstöfun Guðs? (Sjá Galatabréfið 4:9-11, 21; 5:2.) Árið 49 ræddi hið stjórnandi ráð í Jerúsalem þá spurningu hvort nauðsynlegt væri að halda sér við lögmálið og komst að þeirri niðurstöðu að menn af þjóðunum, sem tækju við fagnaðarerindinu, þyrftu ekki að láta umskerast og halda ákvæði lögmáls Gyðinga. — Postulasagan 15:1, 2, 28, 29.

Um það bil sjö árum síðar skrifaði Páll bréf sitt til Rómverja og studdi þessa tímamótaákvörðun. En hann gekk skrefi lengra. Lögmálið var ekki bara óþarft fyrir kristna menn af þjóðunum. Gyðingar, sem reiddu sig á hlýðni við það, myndu ekki heldur verða lýstir réttlátir til lífs.

RÉTTLÆTI VEGNA TRÚAR

Er þú lest gegnum Rómverjabréfið muntu veita athygli hve rækilega Páll grundvallar málflutning sinn og styður orð sín fjölmörgum tilvitnunum í Hebresku ritningarnar. Er hann talar til Gyðinga, sem gætu átt erfitt með að viðurkenna innblásna kenningu hans, sýnir hann ástúð og umhyggju. (Rómverjabréfið 3:1, 2; 9:1-3) Eigi að síður er málflutningur hans skýr og rökvís.

Í 1. til 4. kafla Rómverjabréfsins ræðir Páll þau grundvallarsannindi að allir séu sekir um synd. Þess vegna er það eingöngu á grundvelli trúar sem hægt er að lýsa menn réttláta. Gyðingar reyndu að vísu að vera réttlættir með því að halda Móselögmálið, en mistókst það. Þess vegna sagði Páll djarfmannlega: ‚Bæði Gyðingar og Grikkir eru allir undir synd.‘ Hann færir sönnur á þessi óvinsælu sannindi með fjölmörgum tilvitnunum í Ritninguna. — Rómverjabréfið 3:9.

„Með því að enginn lifandi maður réttlætist fyrir [Guði] af lögmálsverkum“ má spyrja hvaða von menn hafi. Guð lýsir menn réttláta án endurgjalds á grundvelli lausnarfórnar Jesú. (Rómverjabréfið 3:20, 24) Til að notfæra sér slíkt verða þeir að hafa trú á þá fórn. Er sú kenning einhver nýlunda að menn séu lýstir réttlátir á grundvelli trúar? Alls ekki. Sjálfur Abraham var lýstur réttlátur vegna trúar sinnar áður en lögmálið kom til skjalanna. — Rómverjabréfið 4:3.

Eftir að hafa sýnt fram á mikilvægi trúarinnar ræðir Páll í 5. kafla um grundvöll kristinnar trúar. Sá grundvöllur er Jesús sem með réttlæti sínu ógildir hin slæmu áhrif syndar Adams í þágu þeirra sem hafa trú á hann. Þannig leiðir „af réttlætisverki eins,“ ekki með hlýðni við Móselögin, „sýknun og líf fyrir alla menn.“ — Rómverjabréfið 5:18.

MÓTBÁRUM SVARAÐ

En ef kristnir menn eru ekki undir lögmálinu, hvað kemur þá í veg fyrir að þeir syndgi óhindrað og reiði sig á það að verða lýstir réttlátir hvort eð er vegna óverðskuldaðrar góðvildar Guðs? Páll svarar þessari mótbáru í 6. kafla Rómverjabréfsins. Kristnir menn eru dánir syndugri lífsstefnu sinni fyrrum. Hið nýja líf þeirra í Jesú gerir þeim skylt að berjast gegn veikleikum holdsins. Hann hvetur: „Látið því ekki syndina ríkja í dauðlegum líkama yðar.“ — Rómverjabréfið 6:12.

En ættu ekki Gyðingarnir að minnsta kosti að halda sér áfram við Móselögmálið? Í 7. kafla gerir Páll rækilega grein fyrir því að svo sé ekki. Alveg eins og gift kona er laus undan lögmáli eiginmanns síns er hann deyr, þannig hefur dauði Jesú frelsað trúaða Gyðinga undan oki lögmálsins. Páll segir: „Þér eruð dánir lögmálinu fyrir líkama Krists.“ — Rómverjabréfið 7:4.

Merkir það að lögmálið hafi verið gallað á einhvern hátt? Engan veginn. Lögmálið var fullkomið. Vandinn var sá að ófullkomnir menn gátu ekki hlýtt lögmálinu. „Vér vitum, að lögmálið er andlegt,“ skrifaði Páll, „en ég er holdlegur, seldur undir syndina.“ Ófullkominn maður getur ekki haldið fullkomið lögmál Guðs og er því dæmdur af því. Það er því stórkostlegt að ‚engin fordæming skuli vera fyrir þá sem tilheyra Kristi Jesú‘! Smurðir kristnir menn hafa verið getnir með anda Guðs sem synir hans. Andi Jehóva hjálpar þeim að berjast gegn ófullkomleika holdsins. „Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Guð sýknar.“ (Rómverjabréfið 7:14; 8:1, 33) Ekkert getur gert þá viðskila við kærleika Guðs.

RÉTTLÆTI OG GYÐINGAR AÐ HOLDINU

Hvar stendur þá Ísraelsþjóðin ef lögmálið er ekki lengur nauðsynlegt? Og hvað um allar þær ritningargreinar sem gáfu fyrirheit um endurreisn Ísraels? Fjallað er um þessar spurningar í 9. til 11. kafla Rómverjabréfsins. Hebresku ritningarnar sögðu fyrir að einungis minnihluti Ísraelsmanna myndi verða hólpinn og að Guð myndi beina athygli sinni að þjóðunum. Í samræmi við það rætast spádómarnir um hjápræði Ísraels ekki á Ísrael að holdinu heldur kristna söfnuðinum sem er myndaður af kjarna trúaðra Gyðinga að holdinu og fylltur mönnum af þjóðunum sem hneigjast til réttlætis. — Rómverjabréfið 10:19-21; 11:1, 5, 17-24.

MEGINREGLUR RÉTTLÆTISINS

Í 12. til 15. kafla Rómverjabréfsins útskýrir Páll hvernig smurðir kristnir menn geti á raunhæfan hátt lifað í samræmi við það að þeir séu lýstir réttlátir. Til dæmis segir hann: „Bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi. Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins.“ (Rómverjabréfið 12:1, 2) Við ættum að treysta á mátt hins góða og ekki berjast gegn illu með illu. „Lát ekki hið vonda yfirbuga þig,“ skrifaði postulinn, „heldur sigra þú illt með góðu.“ — Rómverjabréfið 12:21.

Róm var miðdepill stjórnmálaveldis á dögum Páls. Því gaf Páll kristnum mönnum þessi viturlegu ráð: „Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn. Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði.“ (Rómverjabréfið 13:1) Samskipti kristinna manna hver við annan tilheyra einnig því að lifa í samræmi við réttlætið. „Skuldið ekki neinum neitt,“ segir Páll, „nema það eitt að elska hver annan, því að sá, sem elskar náunga sinn, hefur uppfyllt lögmálið.“ — Rómverjabréfið 13:8.

Enn fremur ættu kristnir menn að taka tillit til samvisku annarra og vera ekki dómharðir. Páll hvetur: „Keppum þess vegna eftir því, sem til friðarins heyrir og til hinnar sameiginlegu uppbyggingar.“ (Rómverjabréfið 14:19) Þetta eru góð ráð til að fylgja á öllum sviðum kristins lífs! Síðan lýkur Páll máli sínu í 16. kafla með persónulegum kveðjum, hvatningarorðum og heilræðum að skilnaði.

FYRIR HINA SMURÐU OG HINA AÐRA SAUÐI

Viðfangsefni Rómverjabréfsins var þýðingarmikið á fyrstu öld og hefur enn mikla þýðingu. Réttlæti og eilíft líf eru afarmikilvæg mál fyrir alla þjóna Jehóva. Rómverjabréfið var að vísu skrifað söfnuði smurðra kristinna manna en nú á dögum er yfirgnæfandi meirihluti votta Jehóva af ‚múginum mikla“ og hefur jarðneska von. (Rómverjabréfið 7:9) Eigi að síður geymir þetta bréf lífsnauðsynlegan boðskap fyrir þá einnig. Hver er hann?

Rómverjabréfið sannar að kristnir menn eru lýstir réttlátir vegna trúar. Fyrir hina smurðu er það í því augnamiði að þeir verði meðstjórnendur Jesú í ríkinu á himnum. En þeir sem tilheyra hinum mikla múgi eru einnig lýstir réttlátir sem ‚vinir Guðs‘ eins og ættfaðirinn Abraham. (Jakobsbréfið 2:21-23) Réttlæti þeirra miðar að því að þeir lifi af þrenginguna miklu, og það byggist á trú á blóð Jesú alveg eins og er hjá hinum smurðu. (Sálmur 37:11; Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 7:9, 14) Rökfærsla Páls í Rómverjabréfinu hefur því mikla þýðingu bæði fyrir hina aðra sauði og hina smurðu. Og hin góðu ráð Rómverjabréfsins um að lifa í samræmi við það að við séum lýstir réttlátir er nauðsynlegt öllum kristnum mönnum.

Bókin The Book of Life, í ritstjórn dr. Newtons Marshalls Halls og Irvings Francis Woods, segir: „Í [Rómverjabréfinu] nær rökfærsla og kenningafræði Páls sínu æðsta veldi. Hún er kurteisleg, háttvís en engu að síður valdsmannsleg. . . . Það hefur ríkuleg laun í för með sér að rannsaka þetta bréf.“ Hvers vegna ekki að lesa bókina sjálfur og gleðjast yfir því ‚fagnaðarerindi‘ sem hún inniheldur sem er „kraftur Guðs til hjálpræðis.“ — Rómverjabréfið 1:16.

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 30]

„Ekki er neitt [veraldlegt] yfirvald til nema frá Guði.“ Þessi orð merkja ekki að Guð hafi skipað hvern einstakan valdhafa í embætti. Þau merkja að veraldlegir valdhafar standa einungis vegna þess að Guð leyfir það. Í mörgum tilvikum sá Guð fyrir og sagði fyrir um komu mennskra valdhafa og því voru þeir ‚skipaðir af Guði.‘ — Rómverjabréfið 13:1.

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 31]

Kristnum mönnum er sagt: „Íklæðist . . . Drottni Jesú Kristi.“ Það merkir að þeir eigi að feta nákvæmlega í fótspor Jesú, líkja eftir honum með því að láta andleg mál en ekki holdleg ganga fyrir í lífi sínu og ekki ‚ala önn fyrir holdinu.‘ — Rómverjabréfið 13:14.

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 31]

Páll sagði Rómverjum að ‚heilsa hver öðrum með heilögum kossi.‘ Með því var hann þó ekki að koma á nýrri siðvenju eða trúarlegum helgisið meðal kristinna manna. Á dögum Páls var algengt að kyssa á enni, varir eða hönd í kveðjuskyni eða til tákns um ástúð eða virðingu. Páll var því einungis að vísa til algengrar siðvenju samtíðarinnar. — Rómverjabréfið 16:16.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila