Eining tryggð fyrir milligöngu Krists
Höfuðatriði Efesusbréfsins
SNEMMA árs 52 prédikaði Páll postuli í Efesus. Þessi auðuga verslunarborg í Litlu-Asíu var einnig miðstöð falskrar guðsdýrkunar. En kristnin blómgaðist þar eftir að Páll sneri aftur til Efesus, líklega veturinn 52-53. Hann flutti daglega ræður í skóla einum og bar vitni hús úr húsi þau um það bil þrjú ár sem hann dvaldi þar. — Postulasagan 19:8-10; 20:20, 21, 31.
Meðan Páll var fangi í Róm um árið 60-61 skrifaði hann kristnum mönnum í Efesus bréf. Stef bréfsins er eining við Jesú Krist og fyrir hans milligöngu. Orðin „í Kristi“ koma 13 sinnum fyrir í bréfinu, oftar en í nokkru öðru bréfi Páls. Við getum, líkt og Efesusmenn, haft gagn af orðum Páls um hlutverk Krists, um það að forðast siðleysi og standa gegn illum andaverum.
Eining er tilgangur Guðs
Páll byrjar á því að lýsa því hvernig Guð myndi koma á einingu fyrir milligöngu Krists. (Ef 1:1-23) Sá var tilgangur Jehóva að safna öllu á himni og jörð saman á ný með hjálp stjórnar eða stjórnarfyrirkomulags. Fyrir milligöngu Krists ætlaði Guð að sameinast þeim er valdir væru til lífs á himnum og öðrum er lifa myndu á jörðu. Nú á dögum hefur Guð sameinað í eina hjörð hina smurðu og ‚mikinn múg,‘ og ‚samansöfnun alls sem er á jörðu‘ mun halda áfram uns þeir sem hvíla í minningargröfunum heyra rödd Jesú og ganga út. (Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 5:28, 29) Við ættum að vera þakklát fyrir það eins og Páll bað að Efesusmenn myndu meta að verðleikum ráðstöfun Guðs í þeirra þágu.
Þessu næst var athyglinni beint að kristnum mönnum af þjóðunum sem einu sinni voru dauðir í syndum sínum. (2:1-3:21) Vegna Krists hafði lögmálið verið numið úr gildi og grundvöllur lagður að því að Gyðingar og heiðingjar mættu sameinast og verða musteri þar sem andi Guðs byggi. Páli var falin sú ráðsmennska að kunngera þann heilaga leyndardóm að heiðingjar mættu verða eitt með Kristi, og að fyrir hans milligöngu mættu þeir nálgast Guð með djörfung. Páll bar aftur fram bæn í þágu Efesusmanna, nú um að Jehóva gæfi þeim staðfestu í trú og kærleika.
Það sem stuðlar að einingu
Páll benti á að Guð hafði gert margt til að stuðla að einingu. (4:1-16) Þar má meðal annars nefna hinn eina andlega líkama sem er söfnuðurinn. Þessi líkami starfar í einingu undir höfðinu sem er Kristur. Og hann gefur gjafir í mönnum til að hjálpa öllum að ná einingu í trúnni.
Jehóva gerir okkur líka kleift að sýna af okkur kristna eiginleika sem stuðla að einingu. (4:17-6:9) Eftir að hafa íklæðst „hinum nýja manni“ eða persónuleika forðast kristnir menn óguðleika svo sem siðlaust tal. Þeir framganga viturlega, bera virðingu fyrir Kristi og sýna tilhlýðilega undirgefni.
Enn fremur gerir Guð kristnum mönnum kleift að standa gegn áhrifum illra anda sem reyna að spilla einingu okkar. (6:10-24) Andlegt alvæpni frá Guði veitir slíka vernd. Við skulum því nota því nota það og biðja í einlægni, meðal annars fyrir trúbræðrum okkar.
Páll gaf Efesusmönnum sannarlega góð ráð! Megum við fara eftir þeim með því að forðast siðleysi og standa gegn óguðlegum andaverum. Og megum við meta mjög mikils þá einingu sem við njótum fyrir milligöngu Jesú Krists.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 29]
Eldleg skeyti: Hinn stóri ‚skjöldur trúarinnar‘ er hluti þess andlega alvæpnis sem við getum notað til að slökkva „hin eldlegu skeyti“ Satans. (Efesusbréfið 6:16) Rómverjar notuðu stundum örvar úr holum reyrstönglum og var lítil járndós undir oddinum sem í var brennandi nafta. Þeim var skotið af slökum boga til að slökkva ekki eldinn, og eldurinn magnaðist einungis við það að ausa á hann vatni. En hermenn gátu skýlt sér fyrir slíkum skeytum með skildinum, líkt og trú á Jehóva hjálpar þjónum hans að ‚slökkva öll hins eldlegu skeyti hins vonda.‘ Já, trú hjálpar okkur að standast meðal annars árásir illra anda og freistingar til að gera það sem rangt er, að eltast ekki við lífshætti efnishyggjunnar og láta ekki bugast af ótta og efasemdum.