Keppið að markinu!
Höfuðatriði Filippíbréfsins
PÁLL postuli vildi að kristnir menn í Filippí héldu áfram að keppa að markinu til að öðlast launin sem eru eilíft líf. Því skrifaði hann þeim bréf um árið 60 eða 61 meðan hann var fangi í Róm. Bréfið var sent söfnuði sem hann hafði stofnað um tíu árum áður í Filippí, borg sem Filippus frá Makedóníu (faðir Alexanders mikla) hafði reist. Á fyrstu öld okkar tímatals var hún orðin „helsta borg í þessum hluta Makedóníu“ sem nú er hluti af Norður-Grikklandi og Suður-Júgóslavíu. — Postulasagan 16:11, 12.
Hinir trúuðu í Filippí voru fátækir en örlátir. Oftar en einu sinni höfðu þeir sent Páli eitthvað til nauðsynja hans. (Filippíbréfið 4:14-17) En bréf hans var miklu meira en aðeins þakkarbréf. Það var hvatningarbréf þar sem Páll tjáði Filippímönnum kærleika sinn og gaf þeim ýmis heilræði.
Kristnir eiginleikar augljósir
Páll hóf bréf sitt með því að vísa til þess kærleika sem hann bar til hinna trúuðu í Filippí. (1:1-30) Hann þakkaði Jehóva fyrir framlag þeirra til eflingar fagnaðarerindinu og bað þess að kærleikur þeirra mætti vaxa. Það var Páli fagnaðarefni að fangavist hans skyldi hafa fengið þá til að sýna ‚meira hugrekki til að tala orð Guðs óttalaust.‘ Hann þráði að vera með Kristi en fannst hann enn geta veitt þeim þjónustu. Páll vildi líka að þeir héldu áfram að ‚berjast áfram með einni sál fyrir trúnni á fagnaðarerindið.‘
Þessu næst réð Páll þeim heilt varðandi viðhorf og hegðun. (2:1-30) Filippímenn voru hvattir til að hafa persónulegan áhuga á öðrum og sýna auðmýkt líkt og Kristur. Þeir ‚skinu eins og ljós í heiminum‘ og voru hvattir til að ‚halda fast við orð lífsins.‘ Páll vonaðist til að geta sent Tímóteus til þeirra og treysti því að hann myndi brátt geta komið sjálfur. Páll sendi til þeirra hinn trúfasta þjón Epafrodítus sem hafði verið mjög sjúkur.
Keppið að markinu
Þessu næst benti postulinn á hvar Filippímenn ættu að setja traust sitt er þeir kepptu að markinu. (3:1-21) Þeir ættu að setja traust sitt á Jesú Krist, ekki holdið eða umskurn eins og sumir gerðu. Páll leit á ávinning sinn að holdinu sem sorp í samanburði við ‚þá yfirburði að þekkja Krist Jesú.‘ Postulinn ‚keppti að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur kallað oss til fyrir Krist Jesú,‘ og hvatti Filippímenn til að vera með sama hugarfari.
Lokaheilræði Páls gátu hjálpað Filippímönnum að hafa markið og verðlaunin í sjónmáli. (4:1-23) Hann hvatti þá til að fela Guði áhyggjur sínar í bæn og fylla hugi sína heilnæmum hugsunum. Páll hrósaði þeim enn á ný fyrir örlæti þeirra og lauk svo bréfinu með kveðju og ósk um að náð Drottins Jesú Krists mætti vera með þeim anda sem þeir sýndu.
Bréf Páls til Filippímanna hvetur til örlætis, kærleika og auðmýktar. Það hvetur til trausts á Kristi og innilegra bæna til Guðs. Og orð Páls eru tvímælalaust hjálp fyrir votta Jehóva til að halda áfram að keppa að markinu og verðlaununum sem eru eilíft líf.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 30]
Að markinu: „Ég gleymi því, sem að baki er,“ skrifaði Páll, „en seilist eftir því, sem framundan er, og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur kallað oss til fyrir Krist Jesú.“ (Filippíbréfið 3:13, 14) Postulinn lagði sig fram eins og þátttakandi í kapphlaupi. Hann sóaði ekki tíma eða kröftum í að horfa um öxl heldur sótti kappsfullur að markinu — líkt og hlaupagarpur sem streitist við að komast í mark. Fyrir Pál og aðra smurða kristna menn voru verðlaunin himneskt líf vegna upprisu, eftir að þeir hefðu lokið jarðnesku skeiði sínu trúfastir Guði. Hvort sem von okkar er himnesk eða jarðnesk skulum við varðveita ráðvendni við Jehóva og keppa að markinu sem vottar hans. — 2. Tímóteusarbréf 4:7.