Ástundaðu alltaf elskuríka góðvild
„Sá sem ástundar réttlæti og elskuríka góðvild mun finna líf, réttlæti og heiður.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 21:21, NW.
1. Hvers vegna megum við vænta þess að þeir sem láta leiðast af anda Guðs sýni góðvild?
JEHÓVA er vingjarnlegur og hluttekningarsamur. Hann er „miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.“ (2. Mósebók 34:6, 7) Það er því skiljanlegt að kærleikur og góðvild séu hluti af ávexti anda hans. — Galatabréfið 5:22, 23.
2. Hvaða dæmi skoðum við núna?
2 Þeir sem leiðast af heilögum anda Jehóva eða starfskrafti sýna ávöxt hans sem er meðal annars góðvild. Samband þeirra við aðra einkennist af elskuríkri góðvild. Þeir fylgja fordæmi Páls postula og mæla með sjálfum sér sem þjónum Guðs „með góðvild“ og á aðra vegu. (2. Korintubréf 6:3-10) Vingjarnleiki þeirra, hluttekning og fyrirgefning er í fullu samræmi við persónuleika Jehóva sem er „auðugur að elskuríkri góðvild.“ (Sálmur 86:15, NW; Efesusbréfið 4:32) Orð hans hefur að geyma mörg dæmi um góðvild. Hvað getum við lært af sumum þeirra?
Góðvild gerir okkur óeigingjörn og gestrisin
3. Hvernig var Abraham til fyrirmyndar í því að sýna góðvild og hvaða hvatningu kemur Páll með í þessu sambandi?
3 Ættfaðirinn Abraham (Abram) — ‚vinur Jehóva‘ og „faðir allra þeirra, sem trúa óumskornir,“ — gaf gott fordæmi í því að sýna góðvild. (Jakobsbréfið 2:23; Rómverjabréfið 4:11) Hann og fjölskylda hans, þeirra á meðal Lot bróðursonur hans, yfirgáfu boringa Úr í Kaldeu og fóru til Kanaanlands að boði Guðs. Þótt Abraham væri eldri en Lot og höfuð fjölskyldunnar var hann nógu góðviljaður og óeigingjarn til að leyfa Lot að velja besta beitilandið og tók sjálfur það sem eftir var. (1. Mósebók 13:5-18) Áþekk góðvild getur komið okkur til að leyfa öðrum að ganga fyrir sjálfum okkur. Slík óeigingjörn góðvild er samkvæm leiðbeiningum Páls postula: „Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra.“ Sjálfur reyndi Páll að ‚þóknast öllum og hyggja ekki að eigin hag heldur hag hinna mörgu, til þess að þeir yrðu hólpnir.‘ — 1. Korintubréf 10:24, 33.
4. Hvernig var Abraham og Söru umbunuð góðvild sín sem birtist í gestrisni?
4 Stundum birtist góðvild sem gestrisni. Abraham og kona hans, Sara, voru góðviljuð og gestrisin við þrjá ókunna menn sem áttu leið hjá dag nokkurn. Abraham taldi þá á að staðnæmast hjá þeim um stund meðan hann og Sara flýttu sér að búa gestunum góða máltíð. Þessir ókunnu menn reyndust vera englar Jehóva og einn þeirra flutti þeim það loforð að hin aldurhnigna og barnlausa Sara myndi eignast son. (1. Mósebók 18:1-15) Hvílík umbun fyrir gestrisni þeirra!
5. Á hvaða veg sýndi Gajus góðvild og hvernig gætum við líkt eftir honum?
5 Allir kristnir menn geta sýnt góðvild með því að vera gestrisnir. (Rómverjabréfið 12:13; 1. Tímóteusarbréf 3:1, 2) Þjónar Jehóva sýna til dæmis farandumsjónarmönnum gestrisni. Það minnir á þá góðvild sem Gajus, kristinn maður á fyrstu öld, sýndi. Hann ‚breytti dyggilega‘ með því að sýna aðkomnum bræðrum gestrisni — og þeir voru ‚ókunnir menn‘ sem hann þekkti ekki fyrir. (3. Jóhannesarbréf 5-8) Yfirleitt þekkjum við þá sem við sýnum gestrisni. Ef til vill veitum við athygli að trúsystir okkar er hnuggin í bragði. Maðurinn hennar er kannski ekki í trúnni eða jafnvel brottrekinn. Þá höfum við tilefni til að sýna henni vinsemd með því að bjóða henni af og til að njóta andlega uppbyggjandi samverustundar og máltíðar með fjölskyldu okkar! Við þurfum ekki að halda neina stórveislu en fjölskylda okkar mun örugglega hafa ánægju af því að sýna slíkri systur góðvild. (Samanber Orðskviðina 15:17.) Og hún mun vafalaust láta þakklæti sitt í ljós, annaðhvort munnlega eða með stuttu þakkarkorti.
6. Hvernig sýndi Lýdía góðvild og hvers vegna er mikilvægt að vera þakklátur fyrir auðsýnda góðvild?
6 Eftir að hin guðrækna kona Lýdía lét skírast bað hún Pál og félaga hans: „‚Gangið inn í hús mitt og dveljist þar, fyrst þér teljið mig trúa á [Jehóva].‘ Þessu fylgdi hún fast fram,“ bætti Lúkas við. Vafalaust var góðvild Lýdíu mikils metin. (Postulasagan 16:14, 15, 40) En skortur á þakklæti getur slegið mjög á gleði okkar. Einhverju sinni hafði áttræð systir, sem bæði hafði takmarkaða krafta og fjárráð, lagt hart að sér við að búa fáeinum gestum máltíð. Hún varð sérstaklega vonsvikin þegar einn ungur maður lét hana ekki einu sinni vita að hann gæti ekki komið. Öðru sinni létu tvær systur sig vanta til máltíðar sem ung kona hafði útbúið sérstaklega handa þeim. „Ég var niðurbrotin,“ sagði hún, „því að hvorug þeirra hafði gleymt boðinu. . . . Mér hefði þótt betra að heyra að þær hefðu gleymt matarboðinu, en hvorug systirin var nógu vingjarnleg eða kærleiksrík til að hringja til mín.“ Hefði ávöxtur heilags anda, góðvild, komið þér til að vera þakklátur og hugulsamur við svipaðar aðstæður?
Góðvild gerir okkur tillitssöm
7. Hvað lærum við um góðvild í sambandi við það sem synir Jakobs gerðu til að fara eftir óskum hans?
7 Góðvild ætti að gera okkur tillitssöm gagnvart öðrum og réttmætum óskum þeirra. Tökum dæmi: Jakob (Ísrael) bað Jósef son sinn að sýna sér elskuríka góðvild með því að greftra sig ekki í Egyptalandi. Þótt það hefði í för með sér að lík Jakobs yrði flutt um töluvert langan veg gerðu Jósef og hinir synir Jakobs eins og hann bað um og „fluttu hann til Kanaanlands og jörðuðu hann í helli Makpelalands, sem Abraham hafði keypt ásamt akrinum fyrir grafreit af Efron Hetíta, gegnt Mamre.“ (1. Mósebók 47:29; 49:29-31; 50:12, 13) Sýnir þetta dæmi ekki að elskurík góðvild ætti að koma okkur til að virða óskir kristins ættingja varðandi greftrun sína, svo framarlega sem þær samrýmast Biblíunni?
8. Hvað kennir frásagan af Rahab okkur um að endurgjalda góðvild?
8 Ættum við ekki að sýna að við kunnum að meta elskuríka góðvild annarra og reyna að láta hið sama koma á móti með einhverjum hætti? Vissulega ættum við að gera það. Skækjan Rahab sýndi góðvild með því að fela ísraelsku njósnarana. Þess vegna sýndu Ísraelsmenn elskuríka góðvild með því að þyrma henni og fjölskyldu hennar er þeir lögðu Jeríkó í rúst. (Jósúa 2:1-21; 6:20-23) Þetta er gott dæmi sem sýnir að við ættum að endurgjalda góðvild með því að vera sjálf tillitssöm og góðviljuð!
9. Hvers vegna getur verið viðeigandi að biðja einhvern um að sýna okkur elskuríka góðvild?
9 Reyndar er ekkert óviðeigandi heldur að biðja einhvern að sýna okkur elskuríka góðvild. Það gerði Jónatan, sonur Sáls, fyrsta konungs í Ísrael. Jónatan bað ástkæran yngri vin sinn, Davíð, að sýna sér og heimili sínu elskuríka góðvild. (1. Samúelsbók 20:14, 15; 2. Samúelsbók 9:3-7) Davíð minntist þess er hann hefndi Gíbeonítanna sem Sál hafði beitt órétti. Davíð hafði í huga ‚eiðinn við Jehóva‘ milli sín og Jónatans og sýndi elskuríka góðvild með því að þyrma lífi Mefíbósets Jónatanssonar. (2. Samúelsbók 21:7, 8) Látum við líka ‚já okkar merkja já‘? (Jakobsbréfið 5:12) Og ef við erum safnaðaröldungar, erum við þá jafnhluttekningarsamir þegar trúbræður okkar þarfnast elskuríkrar góðvildar?
Góðvild styrkir bönd
10. Hvernig var Rut blessuð fyrir elskuríka góðvild sína?
10 Elskurík góðvild styrkir fjölskyldubönd og stuðlar að hamingju. Frásagan af Rut hinni móabísku sýnir það. Hún stritaði við eftirtíning á ökrum hins aldurhnigna Bóasar í grennd við Betlehem, og sá þannig sér og þurfandi tengdamóður sinni, ekkjunni Naomí, fyrir nauðþurftum. (Rutarbók 2:14-18) Síðar sagði Bóas við Rut: „Þú hefir nú síðast sýnt elsku þína enn betur en áður, með því að elta ekki ungu mennina, hvorki fátækan né ríkan.“ (Rutarbók 3:10) Fyrst sýndi Rut Naomí elskuríka góðvild. „Nú síðast“ sýndi móabíska stúlkan elskuríka góðvild með því að vera fús til að giftast hinum aldurhnigna Bóasi, þannig að hún gæti aflað látnum eiginmanni sínum og hinni öldruðu Naomí nafns. Með Bóasi eignaðist Rut Óbeð sem var afi Davíðs. Og Guð veitti henni ‚fullkomin laun‘ með því að láta hana verða formóður Jesú Krists. (Rutarbók 2:12; 4:13-17; Matteus 1:3-6, 16; Lúkas 3:23, 31-33) Elskurík góðvild Rutar hafði mikla blessun í för með sér fyrir hana og fjölskyldu hennar! Þegar elskurík góðvild dafnar á guðræknu heimili nú á dögum stuðlar það líka að blessun og hamingju og styrkir fjölskylduböndin.
11. Hvaða áhrif hafði góðvild Fílemons?
11 Góðvild styrkir böndin innan safnaðar þjóna Jehóva. Kristinn maður er Fílemon hét var kunnur fyrir elskuríka góðvild við trúbræður sína. Páll sagði honum: „Ég þakka Guði mínum ávallt, er ég minnist þín í bænum mínum. Því að ég heyri um trúna, sem þú hefur á Drottni Jesú, og um kærleika þinn til hinna heilögu. . . . Ég hlaut mikla gleði og huggun af kærleika þínum, þar eð þú, bróðir, hefur endurnært hjörtu hinna heilögu.“ (Fílemonsbréfið 4-7) Ritningin lætur ósagt hvernig Fílemon endurnærði hjörtu hinna heilögu. Hann hlýtur hins vegar að hafa sýnt smurðum bræðrum sínum elskuríka góðvild á ýmsa vegu sem hresstu þá og það hefur vafalaust styrkt böndin þeirra í milli. Hið sama gerist er kristnir menn sýna elskuríka góðvild nú á dögum.
12. Hvaða afleiðingar hafði góðvild Ónesífórusar?
12 Góðvild Ónesífórusar hafði líka góð áhrif. „Drottinn veiti miskunn heimili Ónesífórusar,“ sagði Páll. „Því að oft hressti hann mig og fyrirvarð sig ekki fyrir fjötur minn, heldur lét sér annt um að leita mín, þegar hann kom til Rómar og fann mig. Gefi Drottinn honum miskunn að finna hjá [Jehóva] Guði á þeim degi! Og þú þekkir manna best, hve mikla þjónustu hann innti af hendi í Efesus.“ (2. Tímóteusarbréf 1:16-18) Ef við leggjum okkur fram við að sýna trúbræðrum okkar elskuríka góðvild, þá verður það okkur til gleði og styrkir bönd bróðurkærleikans innan kristna safnaðarins.
13, 14. Hvernig var söfnuðurinn í Filippí til fyrirmyndar og hvernig brást Páll við góðvild hans?
13 Þegar heill söfnuður sýnir trúbræðrum sínum elskuríka góðvild styrkir það böndin milli þeirra. Slík náin bönd voru milli Páls og safnaðarins í Filippíborg. Eitt tilefni hans með því að skrifa Filippíbréfið var að þakka góðvild safnaðarins og efnislega hjálp. Hann skrifaði: „Þegar ég í upphafi boðaði yður fagnaðarerindið og var farinn burt úr Makedóníu, hafði enginn söfnuður nema þér einir reikning hjá mér yfir gefið og þegið. Meira að segja, þegar ég var í Þessaloníku, senduð þér mér oftar en einu sinni til nauðsynja minna. . . . En nú hef ég fengið allt og hef meira en nóg síðan ég af hendi Epafrodítusar tók við sendingunni frá yður, þægilegum ilm, þekkri fórn, Guði velþóknanlegri.“ — Filippíbréfið 4:15-18.
14 Það er ekkert undarlegt að Páll skyldi minnast Filippímanna í bænum sínum! Hann sagði: „Ég þakka Guði mínum í hvert skipti, sem ég hugsa til yður, og gjöri ávallt í öllum bænum mínum með gleði bæn fyrir yður öllum, vegna samfélags yðar um fagnaðarerindið frá hinum fyrsta degi til þessa.“ (Filippíbréfið 1:3-5) Söfnuður verður aldrei fátækur ef hann styður prédikun Guðsríkis af slíkri góðvild og örlæti. Eftir að Filippímenn höfðu gert það sem þeir gátu í þessu efni fullvissaði Páll þá: „En Guð minn mun af auðlegð dýrðar sinnar í Kristi Jesú uppfylla sérhverja þörf yðar.“ (Filippíbréfið 4:19) Já, Guð endurgeldur góðvild og örlæti. Orð hans segir: „Sérhver mun fá aftur af [Jehóva] það góða, sem hann gjörir.“ — Efesusbréfið 6:8.
Þegar konur sýna góðvild
15, 16. (a) Hvernig var góðvildar Dorkasar minnst og hvað gerðist þegar hún dó? (b) Hvernig eru góðhjartaðar kristnar konur auðugar að góðum verkum nú á dögum?
15 Elskurík góðvild lærisveinsins Dorkasar (Tabíþu) í Joppa var ekki ólaunuð. „Hún var mjög góðgerðasöm og örlát við snauða,“ og er hún ‚tók sótt og andaðist‘ sendu lærisveinarnir eftir Pétri til Lýddu. Er hann kom, „fóru þeir með hann upp í loftstofuna, og allar ekkjurnar komu til hans grátandi og sýndu honum kyrtla og yfirhafnir, sem Dorkas hafði gjört, meðan hún var hjá þeim.“ Sjáðu þennan atburð fyrir þér: Hryggar, tárvotar ekkjur sögðu postulanum frá því hve góðgjörn Dorkas hefði verið og sýndu honum þessi klæði sem sönnun fyrir kærleika hennar og góðvild. Pétur lét alla ganga út, knékraup í bæn og sneri sér svo að líkinu. Hann sagði: „Tabíþa, rís upp.“ Og sjá! Hún opnaði augun, „sá Pétur og settist upp. Og hann rétti henni höndina og reisti hana á fætur, kallaði síðan á hina heilögu og ekkjurnar og leiddi hana fram lifandi!“ (Postulasagan 9:36-41) Hvílík blessun frá Guði!
16 Þetta er fyrsta, þekkta dæmið um að postuli Jesú Krists hafi reist látinn mann upp frá dauðum. Og góðvildin, sem Dorkas var þekkt fyrir, átti sinn þátt í að þetta kraftaverk átti sér stað. Hver veit hvort Dorkas hefði verið reist upp til lífs ef hún hefði ekki verið þekkt fyrir góðgerðasemi og örlæti við snauða — ef hún hefði ekki verið þekkt fyrir elskuríka góðvild? Bæði var þetta kraftaverk henni og ekkjunum til blessunar og auk þess mikill vitnisburður Guði til heiðurs. Já, „þetta varð hljóðbært um alla Joppe, og margir tóku trú á Drottin.“ (Postulasagan 9:42) Góðhjartaðar kristnar konur nú á dögum eru líka auðugar að góðum verkum — sumar sauma kannski föt handa trúsystkinum sínum, elda mat handa hinum öldruðu okkar á meðal og sýna öðrum gestrisni. (1. Tímóteusarbréf 5:9, 10) Það er mikill vitnisburður fyrir öðrum! Framar öllu öðru er það okkur mikið fagnaðarefni að guðrækni og elskurík góðvild skuli koma þessum ‚mikla kvennaher til að boða fagnaðarerindið‘ til dýrðar Guði okkar, Jehóva! — Sálmur 68:12.
Haltu áfram að stunda elskuríka góðvild
17. Hvað er sagt í Orðskviðunum 21:21 og hvernig eiga þessi orð við guðhrædda einstaklinga?
17 Allir sem þrá hylli Guðs verða að ástunda elskuríka góðvild. „Sá sem ástundar réttlæti og kærleika [„elskuríka góðvild,“ NW], hann öðlast líf, réttlæti og heiður,“ segir orðskviður. (Orðskviðirnir 21:21) Guðrækinn maður keppir kostgæfilega eftir réttlæti Guðs og lætur staðla hans alltaf leiða sig. (Matteus 6:33) Hann heldur áfram að sýna öðrum drottinhollan kærleika eða elskuríka góðvild, bæði efnislega og þó sér í lagi andlega. Þannig finnur hann réttlæti því að andi Jehóva hjálpar honum að lifa á réttlátan veg. Hann er meira að segja ‚íklæddur réttlætinu‘ eins og hinn guðrækni Job. (Jobsbók 29:14) Slíkur maður leitast ekki við að upphefja sjálfan sig. (Orðskviðirnir 25:27) Hann fær þann heiður sem Jehóva leyfir honum að fá, ef til vill í mynd virðingar annarra manna sem Guð kemur til að koma vinsamlega fram við hann vegna þeirrar elskuríku góðvildar sem hann hefur sýnt þeim. Enn fremur munu þeir sem gera vilja Guðs í trúfesti öðlast lífið — ekki aðeins um fáein stutt ár heldur að eilífu.
18. Hvers vegna ættum við að stunda elskuríka góðvild?
18 Megi því allir sem elska Jehóva Guð halda áfram að ástunda elskuríka góðvild. Þessi eiginleiki gerir okkur hjartfólgin Guði og öðrum. Hann stuðlar að gestrisni og gerir okkur tillitssöm. Kærleikur styrkir böndin innan fjölskyldunnar og kristna safnaðarins. Konur sem sýna góðvild eru mikils metnar. Og allir sem ástunda þennan frábæra eiginleika eru elskuríkum og góðviljuðum Guði, Jehóva, til heiðurs.
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig var Abraham til fyrirmyndar í því að sýna góðvild?
◻ Hvað lærum við af frásögunni af Rahab um það að endurgjalda góðvild?
◻ Hvernig sýndi söfnuðurinn í Filippí góðvild?
◻ Hvernig eru góðhjartaðar kristnar konur auðugar að góðum verkum nú á dögum?
◻ Hvers vegna ættum við að ástunda elskuríka góðvild?