Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.4. bls. 30-31
  • „Þú skalt vera með mér í paradís“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Þú skalt vera með mér í paradís“
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Svipað efni
  • „Sjáumst í paradís!“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2018
  • „Þú verður með mér í paradís“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
  • Hverjir verða reistir upp og hvar munu þeir búa?
    Lærum af kennaranum mikla
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.4. bls. 30-31

„Þú skalt vera með mér í paradís“

AFBROTAMAÐURINN hékk á aftökustaur þar sem hann var að deyja kvalafullum dauðdaga. Hann sárbændi manninn við hlið sér: „Jesús, minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt!“ Þótt Jesús væri líka sárkvalinn og deyjandi svaraði hann: „Sannlega segi ég þér í dag: Þú skalt vera með mér í paradís.“ (Lúkas 23:42, 43, NW) Hvílík hughreysting deyjandi manni!

En tókst þú eftir að Nýheimsþýðingin, sem vitnað er í hér á undan, fer öðruvísi með orð Jesú en margir eiga að venjast? Þetta orðalag lýsir þeirri hugmynd að jafnvel á dánardegi sínum hafi Jesús getað heitið þessum afbrotamanni lífi í paradís. Á hinn bóginn setur íslenska biblían frá 1981 tvípunktinn á annan stað: „Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís.“ Flestar aðrar biblíuþýðingar eru efnislega samhljóða þeirri íslensku og gefa þá hugmynd að Jesús og hinn deyjandi afbrotamaður væru á leið til paradísar þennan sama dag. En af hverju stafar þessi munur og hvor útgáfan er rétt?

Í elstu grískum handritum Biblíunnar voru engin greinarmerki. Þegar greinarmerkjasetning var tekin upp urðu þeir sem afrituðu og þýddu Biblíuna að setja greinarmerkin inn eftir sínum skilningi á sannleika Biblíunnar. Er hið hefðbundna orðalag þá rétt? Fóru illvirkinn og Jesús til paradísar daginn sem þeir dóu?

Nei, að sögn Biblíunnar fóru þeir til staðar sem var á grísku kallaður Hades og á hebresku Séol. Bæði þessi orð vísa til hinnar almennu grafar mannkynsins. (Lúkas 18:31-33; 24:46; Postulasagan 2:31) Biblían segir um þá sem þar eru: „Þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt . . . í dánarheimum [á grísku Hades], þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ Varla er það nokkur paradís! — Prédikarinn 9:5, 10.

Það var ekki fyrr en á þriðja degi sem Jesús var reistur upp úr Hades eða Helju. Síðan birtist hann fylgjendum sínum margsinnis víða um Palestínu í nálega sex vikur. Við eitt tækifæri sagði hann Maríu: „Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns.“ (Jóhannes 20:17) Jafnvel þá var hann ekki kominn á neinn þann stað sem hægt var að kalla paradís. — Opinberunarbókin 2:7.

Á þriðju öld okkar tímatals — þegar kristnar kenningar blönduðust mjög grískri heimspeki — fór Origenes þannig með orð Jesú: „Í dag munt þú vera með mér í Paradís Guðs.“ Á fjórðu öld okkar tímatals komu kirkjulegir ritarar með rök gegn því að setja greinarmerki á eftir orðunum „í dag.“ Það sýnir að hið hefðbundna orðalag á svari Jesú á sér langa sögu, en það sýnir jafnframt að jafnvel á fjórðu öld lásu sumir orð Jesú á sama hátt og þau eru þýdd í Nýheimsþýðingunni.

Þótt margir nútímaþýðendur fari með orð Jesú í samræmi við kirkjulega hefð nota sumir sams konar greinarmerkjasetningu og gert er í Nýheimsþýðingunni. Til dæmis orðar prófessor Wilhelm Michaelis svar Jesú þannig í þýskri þýðingu sinni: „Sannlega fullvissa ég þig í dag: Þú munt (dag einn) vera með mér í paradís.“

Hvað merkja þá orð Jesú við illvirkjann? Hann kann að hafa heyrt fullyrt að Jesús væri hinn fyrirheitni konungur. Vafalaust vissi hann um titilinn „konungur Gyðinga“ sem Pílatus hafði látið hengja yfir höfði Jesú. (Lúkas 23:35-38) Þótt trúarleiðtogarnir hafi í þrjósku sinni hafnað Jesú lét þessi iðrunarfulli afbrotamaður í ljós trú og sagði: „Jesús, minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt.“ Hann bjóst ekki við því að ríkja með Jesú heldur vildi hann njóta góðs af stjórn hans. Þess vegna hét Jesús, meira að segja á þessum erfiða degi, að þessi illvirki myndi vera með honum í paradís.

Í hvaða paradís? Hin upprunalega paradís Biblíunnar var Edengarðurinn sem fyrstu foreldrar okkar glötuðu. Biblían heitir því að jarðnesk paradís verði endurreist undir stjórn Guðsríkis sem Jesús er konungur yfir. (Sálmur 37:9-11; Míka 4:3, 4) Þess vegna mun Jesús vera með þessum illvirkja og ótal öðrum mönnum, sem dánir eru, þegar hann reisir þá upp frá gröfinni til að lifa í paradís á jörð og þeir fá tækifæri til að læra að gera vilja Guðs og lifa að eilífu. — Jóhannes 5:28, 29; Opinberunarbókin 20:11-13; 21:3, 4.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila