Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.7. bls. 18-22
  • Sjálfstjórn — hvers vegna svona þýðingarmikil?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Sjálfstjórn — hvers vegna svona þýðingarmikil?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvers vegna sjálfstjórn er svona mikilvæg
  • Fordæmi til viðvörunar
  • Það sem við þurfum að stjórna
  • Hvers vegna sjálfstjórn er svona krefjandi
  • Ræktaðu ávöxt andans — sjálfstjórn
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Iðkum sjálfstjórn og hljótum launin
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
  • Auðsýnið í þekkingunni sjálfstjórn
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
  • Temdu þér sjálfstjórn
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2017
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.7. bls. 18-22

Sjálfstjórn — hvers vegna svona þýðingarmikil?

„Leggið þess vegna alla stund á að auðsýna í trú yðar dyggð, í dyggðinni þekkingu, í þekkingunni sjálfsögun [„sjálfstjórn,“ NW]“ — 2. PÉTURSBRÉF 1:5, 6.

1. Hvaða undraverða líkamsstjórn sýndi maður á 19. öld?

VARLA hefur nokkur maður haldið glæsilegri sýningu í líkamsstjórn en Charles Blondin gerði á síðari helmingi 19. aldar. Samkvæmt einni frásögunni gekk hann margsinnis á línu yfir Niagarafossana, fyrst árið 1859. Línan var 340 metra löng og var strengd í 50 metra hæð yfir vatnsfallinu. Í hvert sinn sem hann endurtók afrek sitt gerði hann það með nýjum tilþrifum: með bundið fyrir augun, í poka, með hjólbörur fyrir framan sig, á stultum og með mann á bakinu. Við annað tækifæri tók hann heljarstökk á stultum á línu í rúmlega 50 metra hæð frá jörðu. Það hlýtur að hafa kostað gríðarlega líkamsstjórn fyrir Blondin að sýna slíka jafnvægislist. Fyrir vikið ávann hann sér bæði frægð og fé.

2. Hvaða aðrar athafnir útheimta mikla líkamsstjórn?

2 Þótt fáir geti komist með tærnar þar sem sem Blondin hafði hælana í list sinni, ætti okkur öllum að vera ljóst hve mikilvægt þeim manni er að hafa fulla stjórn á líkama sínum sem vill skara fram úr í einhverri listgrein eða íþróttum. Til dæmis sagði tónlistarmaður um snilligáfu hins látna píanóleikara Vladimirs Horowitz: „Það sem hreif mig mest var tilfinningin um fullkomna stjórn . . . tilfinningin um ótrúlega orku sem hann réði yfir.“ Í blaðagrein um Horowitz var talað um „fljúgandi fingur undir fullkominni stjórn í átta áratugi.“

3. (a) Hvaða stjórn er erfiðust og hvernig er hún skilgreind? (b) Hvað merkir gríska orðið sem þýtt er „sjálfstjórn“ í Biblíunni?

3 Það kostar mikið erfiði að þroska með sér slíka hæfni. Þó er langtum þýðingarmeira og erfiðara að sýna sjálfstjórn. Sjálfstjórn hefur verið skilgreind sem „vald yfir eigin tilfinningum og ástríðum.“ om Í kristnu Grísku ritningunum hefur orðið, sem þýtt er „sjálfsögun“ eða „sjálfstjórn“ í 2. Pétursbréfi 1:6 og annars staðar, verið skilgreint sem „dyggð þess manns sem ræður yfir löngunum sínum og ástríðum, einkum límamlegum löngunum.“ Persónuleg sjálfstjórn hefur verið kölluð „mesta afrek mannsins.“

Hvers vegna sjálfstjórn er svona mikilvæg

4. Hvaða slæman ávöxt hafa menn uppskorið sökum taumleysis?

4 Greinilegt er hvaða afleiðingar skortur á sjálfstjórn hefur haft. Margir af erfiðleikunum í heimi nútímans stafa fyrst og fremst af taumleysi manna. Við erum svo sannarlega stödd á „síðustu dögum“ í tímans rás og „örðugar tíðir“ standa yfir. Menn eru „taumlausir,“ oft sökum ágirndar sem birtist meðal annars í því að menn ‚elska munaðarlífið meira en Guð.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Það minnir okkur illilega á þennan alvarlega sannleika að yfir 40.000 villuráfandi einstaklingum skuli hafa verið vikið úr kristna söfnuðinum síðastliðið þjónustuár, aðallega vegna grófrar rangsleitni. Þar við má svo bæta þeim mörgu sem fengu áminningu, aðallega fyrir kynferðislegt siðleysi en allir fyrir það að iðka ekki sjálfstjórn. Það er líka umhugsunarvert að sumir, sem verið hafa öldungar um langt árabil, hafa misst öll sérréttindi sem umsjónarmenn af sömu orsökum.

5. Hvaða dæmi má nota til að lýsa mikilvægi sjálfstjórnar?

5 Vel má lýsa mikilvægi sjálfstjórnar með því að taka bifreið sem dæmi. Hún er með fjórum hjólum þannig að hún getur hreyfst úr stað, öflugum hreyfli sem getur snúið þessum hjólum afar hratt og hemlum sem geta stöðvað þau. En stórslys getur hlotist af nema einhver sitji í ökumannssætinu til að ákveða hvert hjólin skuli fara, hve hratt þau skuli snúast og hvenær þau eigi að stansa, og noti stýrið, eldsneytisgjöfina og hemlana til að stjórna þeim.

6. (a) Hvaða viðmiðun mætti vel nota í sambandi við sjálfstjórn? (b) Hvaða önnur ráð verðum við að hafa hugföst?

6 Varla er hægt að leggja nógu þunga áherslu á mikilvægi sjálfstjórnar. Það sem Páll postuli sagði í 1. Korintubréfi 13:1-3 um mikilvægi kærleikans mætti alveg eins segja um sjálfstjórnina. Einu gildir hve málsnjallir ræðumenn við erum, hve mikillar trúar og þekkingar við höfum aflað okkur með góðum námsvenjum, hve mikið við erfiðum öðrum til góðs; ef við iðkum ekki sjálfstjórn er það allt saman til einskis. Við ættum að hafa orð Páls postula hugföst: „Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér hljótið þau. Sérhver, sem tekur þátt í kappleikjum, neitar sér um allt [„iðkar sjálfstjórn í öllu,“ NW].“ (1. Korintubréf 9:24, 25) Varnaðarorð Páls í 1. Korintubréfi 10:12 hjálpa okkur að iðka sjálfstjórn á öllum sviðum: „Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.“

Fordæmi til viðvörunar

7. (a) Hvernig leiddi taumleysi mannkynið út í ógæfu? (b) Hvaða önnur dæmi um taumleysi nefnir Biblían?

7 Adam glataði sjálfstjórninni með því að leyfa tilfinningunum en ekki skynseminni að ráða gerðum sínum. Af því leiddi að „syndin kom inn í heiminn . . . og dauðinn fyrir syndina.“ (Rómverjabréfið 5:12) Fyrsta morðið var líka framið vegna taumlausra tilfinninga því að Jehóva Guð hafði aðvarað Kain: ‚Hvers vegna reiðist þú og hvers vegna ert þú niðurlútur? Syndin liggur við dyrnar en þú átt að drottna yfir henni.‘ (1. Mósebók 4:6-12) Eiginkona Lots sýndi ekki heldur sjálfstjórn. Hún stóðst hreinlega ekki freistinguna að líta um öxl. Taumleysi hennar kostaði hana lífið! — 1. Mósebók 19:17, 26.

8. Hvaða þrír menn í fortíðinni eru okkur viðvörun um mikilvægi sjálfstjórnar?

8 Rúben, frumgetinn sonur Jakobs, glataði frumburðarrétti sínum vegna skorts á sjálfstjórn. Hann vanhelgaði hvílu föður síns með því að eiga kynmök við eina af hjákonum hans. (1. Mósebók 35:22; 49:3, 4; 1. Kroníkubók 5:1) Móse fyrirgerði þeim langþráðu sérréttindum að ganga inn í fyrirheitna landið vegna þess að hann missti stjórn á skapi sínu út af því hvernig Ísraelsmenn mögluðu, kvörtuðu og gerðu uppreisn. (4. Mósebók 20:1-13; 5. Mósebók 32:50-52) Jafnvel hinn trúfasti Davíð konungur, ‚maður eftir Guðs hjarta,‘ bakaði sér mikla erfiðleika vegna taumleysis síns við eitt tækifæri. (1. Samúelsbók 13:14; 2. Samúelsbók 12:7-14) Öll þessi dæmi eru heilnæm viðvörun til okkar um nauðsyn sjálfstjórnar.

Það sem við þurfum að stjórna

9. Nefndu nokkra ritningarstaði sem leggja áherslu á mikilvægi sjálfstjórnar.

9 Sjálfstjórn er í fyrsta lagi það að stjórna hugsunum okkar og tilfinningum. Oft er talað um þær á táknmáli í Ritningunni sem „hjartað“ og „nýrun.“ Það sem við látum hugann dvelja við annaðhvort hjálpar okkur eða hindrar í þeirri viðleitni okkar að þóknast Jehóva. Sjálfstjórn er nauðsynleg til að fara eftir því heilræði Ritningarinnar sem er að finna í Filippíbréfinu 4:8 um að hugfesta stöðugt það sem er satt, hreint og dyggð. Sálmaritarinn Davíð lét svipaða hugmynd í ljós í bæn er hann sagði: „Megi . . . hugsanir hjarta míns verða þóknanlegar frammi fyrir þér, Ó Jehóva, klettur minn og frelsari.“ (Sálmur 19:14, NW) Tíunda boðorðið — um að girnast ekki neitt sem tilheyrði náunganum — útheimti það að stjórna hugsunum sínum. (2. Mósebók 20:17) Jesús lagði áherslu á nauðsyn þess að stjórna hugsunum sínum og tilfinningum er hann sagði: „Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ — Matteus 5:28.

10. Hvaða ritningargreinar leggja áherslu á mikilvægi þess að stýra tungu sinni?

10 Sjálfstjórn tekur einnig til orða okkar og talsefnis. Margir ritningarstaðir ráðleggja okkur að hafa stjórn á tungu okkar. Tökum dæmi: „Guð er á himnum, en þú á jörðu, ver því eigi margorður.“ (Prédikarinn 5:1) „Málæðinu fylgja yfirsjónir, en sá breytir hyggilega, sem hefir taum á tungu sinni.“ (Orðskviðirnir 10:19) „Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar . . . Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður.“ Og Páll ráðleggur okkur síðan að leggja af hvers konar flónskutal og klúrt spaug. — Efesusbréfið 4:29, 31; 5:3, 4.

11. Hvernig fjallar Jakob um það vandamál að hafa taum á tungu okkar?

11 Jakob, hálfbróðir Jesú, fordæmir stjórnlaust tal og bendir á hve erfitt sé að hafa taum á tungu sinni. Hann segir: „Þannig er . . . tungan lítill limur, en lætur mikið yfir sér. Sjá hversu lítill neisti getur kveikt í miklum skógi. Tungan er líka eldur. Tungan er ranglætisheimur meðal lima vorra. Hún flekkar allan líkamann og kveikir í hjóli tilverunnar, en er sjálf tendruð af helvíti. Allar tegundir dýra og fugla, skriðkvikindi og sjávardýr má temja og hafa mennirnir tamið, en tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju, sem er full af banvænu eitri. Með henni vegsömum vér [Jehóva] vorn og föður og með henni formælum vér mönnum, sem skapaðir eru í líkingu Guðs. Af sama munni gengur fram blessun og bölvun. Þetta má ekki svo vera, bræður mínir.“ — Jakobsbréfið 3:5-10.

12, 13. Nefndu nokkra ritningarstaði sem sýna fram á mikilvægi þess að hafa stjórn á orðum okkar og hegðun.

12 Að sjálfsögðu þarf sjálfstjórn einnig að birtast í verkum okkar. Eitt svið, þar sem mikillar sjálfstjórnar er krafist, eru samskipti okkar við hitt kynið. Kristnum mönnum er skipað: „Flýið saurlifnaðinn.“ (1. Korintubréf 6:18) Eiginmenn eru áminntir um að vera eiginkonum sínum trúir, einnig í hugsun. Meðal annars eru þeir áminntir: „Drekk þú vatn úr vatnsþró þinni og rennandi vatn úr brunni þínum.“ (Orðskviðirnir 5:15-20) Okkur er sagt skýrum orðum að ‚Guð muni dæma hórkarla og frillulífismenn.‘ (Hebreabréfið 13:4) Sjálfstjórn er sérstaklega nauðsynleg þeim sem vilja höndla það að vera einhleypir. — Matteus 19:11, 12; 1. Korintubréf 7:37.

13 Jesús dró saman allt sem segja þarf um samband okkar við aðra menn er hann gaf það sem almennt er kallað „gullna reglan“ og sagði: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir.“ (Matteus 7:12) Það kostar sannarlega sjálfstjórn að láta ekki eigingjarnar tilhneigingar okkar fá okkur til að koma öðruvísi fram við aðra en við vildum að þeir komi fram við okkur.

14. Hvað ráðleggur orð Guðs í sambandi við mat og drykk?

14 Þá er að nefna sjálfstjórn hvað varðar mat og drykk. Orð Guðs gefur þessi viturlegu ráð: „Ver þú ekki með drykkjurútum, með þeim, sem hvoma í sig kjöt.“ (Orðskviðirnir 23:20) Sérstaklega með vísan til okkar daga aðvaraði Jesús: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara.“ (Lúkas 21:34, 35) Já, sjálfstjórn tekur jafnt til hugsana okkar og tilfinninga sem orða og verka.

Hvers vegna sjálfstjórn er svona krefjandi

15. Hvernig sýnir Ritningin fram á að andstaða Satans gegn því að kristinn maður sýni sjálfstjórn er raunveruleg?

15 Sjálfstjórn lærist ekki áreynslulaust. Eins og allir kristnir menn vita eigum við í höggi við þrjá öfluga óvini sem berjast gegn því að við iðkum sjálfstjórn. Fyrstan er að nefna Satan og illa anda hans. Ritningin lætur okkur ekki velkjast í vafa um að þeir séu raunverulegir. Þannig lesum við að ‚Satan hafi farið inn í‘ Júdas rétt áður en hann fór út til að svíkja Jesú. (Jóhannes 13:27) Pétur postuli spurði Ananías: „Hví fyllti Satan hjarta þitt, svo að þú laugst að heilögum anda?“ (Postulasagan 5:3) Pétur kom einnig með þessa tímabæru viðvörun: „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.“ — 1. Pétursbréf 5:8.

16. Hvers vegna verður kristinn maður að iðka sjálfstjórn gagnvart þessum heimi?

16 Í viðleitni sinni til að sýna sjálfstjórn eiga kristnir menn líka í höggi við þennan heim sem er „á valdi hins vonda,“ Satans djöfulsins. Um hann skrifaði Jóhannes postuli: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins. Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum. Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ Ef við iðkum ekki sjálfstjórn og spyrnum sterklega við fótum gegn sérhverri tilhneigingu til að elska heiminn lútum við í lægra haldi fyrir áhrifum hans eins og Demas sem verið hafði samstarfsmaður Páls. — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17; 5:19; 2. Tímóteusarbréf 4:10.

17. Hvaða vandi í sambandi við sjálfstjórn er okkur meðfæddur?

17 Sem kristnir menn þörfnumst við líka sjálfstjórnar til að heyja sigurvænlega baráttu gegn arfgengum veikleikum og ófullkomleika sjálfra okkar. Við fáum ekki umflúið þá staðreynd að „hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans.“ (1. Mósebók 8:21) Líkt og Davíð vorum við ‚sek er við urðum til og syndugir er mæður okkar fæddu okkur.‘ (Sálmur 51:7) Sjálfstjórn er nýfæddu barni algerlega framandi. Þegar það vill fá eitthvað grætur það uns það fær það. Í grein um barnauppeldi segir: ‚Börn rökhugsa gerólíkt fullorðnum. Börn eru upptekin af sjálfum sér og rökfastar fortölur hrífa oft ekki á þau vegna þess að þau eru ófær um að „setja sig í spor annarra.“‘ Svo sannarlega ‚situr fíflska föst í hjarta sveinsins.‘ Með því að beita ‚vendi agans‘ er þó hægt kenna honum smám saman að til eru reglur sem hann verður að fylgja og að halda verður eigingirni í skefjum. — Orðskviðirnir 22:15.

18. (a) Hvaða tilhneigingar búa í táknrænu hjarta mannsins að sögn Jesú? (b) Hvaða orð Páls sýna að hann gerði sér grein fyrir því að sjálfstjórn væri erfið?

18 Já, meðfædd tilhneiging okkar til eigingirni er sem áskorun á okkur að iðka sjálfstjórn. Þessar tilhneigingar búa í hinu táknræna hjarta en um það sagði Jesús: „Frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi.“ (Matteus 15:19) Það var þess vegna sem Páll skrifaði: „Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég. En ef ég gjöri það, sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur, sem framkvæmi það, heldur syndin, sem í mér býr.“ (Rómverjabréfið 7:19, 20) Þetta var þó ekki vonlaus barátta því að Páll skrifaði líka: „Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum, til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur verða gjörður rækur.“ — 1. Korintubréf 9:27.

19. Hvers vegna gat Páll réttilega sagt að hann léki líkama sinn hart?

19 Páll gat sagt með góðri samvisku að hann hafi leikið líkama sinn hart, því hár blóðþrýstingur, slæmar taugar, svefnleysi, höfuðverkir, meltingartruflanir og þvíumlíkt getur gert mönnum erfitt að iðka sjálfstjórn. Í næstu grein skulum við skoða eiginleika og hjálpargögn sem geta auðveldað okkur að iðka sjálfstjórn.

Manst þú?

◻ Hvers vegna er sjálfstjórn mikilvæg?

◻ Nefndu dæmi um menn sem liðu fyrir taumleysi sitt.

◻ Á hvaða sviðum verðum við að iðka sjálfstjórn?

◻ Hvaða þrír óvinir gera okkur erfitt fyrir að iðka sjálfstjórn?

[Mynd á blaðsíðu 21]

Kristnir menn þurfa að iðka sjálfstjórn í sambandi við mat og drykk.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Sjálfstjórn hjálpar okkur að forðast skaðlegt slúður.

[Rétthafi á blaðsíðu 18]

Historical Pictures Service

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila