Tilbiðjendum Guðs safnað saman
JÓHANNESI postula var veitt að sjá í sýn mikla atburði sem áttu að eiga sér stað „á Drottins degi.“ Hann sá hinn himneska Drottin Jesú Krist ríða fram til að heyja réttlátt stríð, táknað með hvítum gæðingi — „sigrandi og til þess að sigra.“ Hið fyrsta sem hann gerir er að kasta erkióvini Guðs, Satan, út af himnum niður í nágrenni jarðar. Satan tekur þá að þjaka mannkynið með fordæmislausri slátrun, hungursneyð og drepsóttum táknað með riddurum og hestum þeirra — sem eru rauður, svartur og bleikur. (Opinberunarbókin 1:10; 6:1-8; 12:9-12) Þessar hörmungar skullu fyrst á árið 1914 og hafa stigmagnast síðan. Innan skamms munu þær ná hámarki í því sem Jesús kallaði ‚þá miklu þrengingu sem engin hefði þvílík verið frá upphafi heims allt til þess og mun aldrei verða.‘ — Matteus 24:3-8, 21.
Hvernig mun tilbiðjendum Jehóva farnast á þeim tíma? Opinberunarbókin 7. kafli, 1. til 10. vers, talar um englasveitir sem ‚halda‘ eyðingarvindunum uns þessum tilbiðjendum hefur verið safnað saman. Á tímabilinu frá 1914 er safnað saman síðustu andlegu Ísraelsmönnunum sem eru alls 144.000 talsins. Og síðan blasir við „mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ Þessi mikli múgur telst nú þegar í milljónum. Hann stendur frammi fyrir hásæti Guðs og nýtur hylli hans, vegna þess að hann iðkar trú á lausnarblóð Jesú sem var slátrað eins og saklausu lambi. „Og þeir hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ Þessir kostgæfu guðsdýrkendur segja í sífellu: „Kom þú,“ við aðra sem er síðan safnað saman til að bjargast gegnum ‚þrenginguna miklu.‘ — Opinberunarbókin 7:14-17; 22:17.
„Út um alla jörðina“
Segja má um þessa trúu tilbiðjendur Guðs: „Raust þeirra hefur borist út um alla jörðina og orð þeirra til endimarka heimsbyggðarinnar.“ (Rómverjabréfið 10:18) Erfiði þeirra hefur skilað einstæðum ávexti með blessun Guðs. Lítum á dæmi:
Mexíkó greinir nú frá 335.965 virkum tilbiðjendum Jehóva og hefur þeim fjölgað um nálega eitt hundrað þúsund á aðeins þrem árum! Af hverju stafar þessi mikli vöxtur? Eftirfarandi frásaga skýrir það kannski að einhverju leyti. Ungur maður, sem Aurelio heitir, var skrúðhúsvörður í kirkju kaþólskra. Í hvert sinn sem vottar Jehóva komu í þorpið hringdi hann kirkjuklukkunum til að fæla menn frá því að hlusta á þá. Einhverju sinni keypti hann sér kaþólsku Jerúsalembiblíuna og byrjaði að lesa hana, en skildi hana ekki. Þá sá hann vin sinn dag nokkurn með eintak af Nýheimsþýðingunni undir handleggnum. Aurelio ávítaði vin sinn og sagði honum að biblían hans væri fölsuð og fór með hann heim til sín til að sýna honum „alvörubiblíu.“ Vinur hans sagði: „Lestu 2. Mósebók 20. kafla,“ og fór síðan.
Skrúðhúsvörðurinn hóf lesturinn á 1. kafla 2. Mósebókar og las allt út að 4. og 5. versi 20. kaflans. Hann varð steini lostinn yfir því sem kaþólska biblían hans sagði um líkneski. Eftir messu næsta sunnudag lagði hann ritningartextann um líkneski fyrir prestinn sinn. Fyrst sagði presturinn að sjálfur sýndi hann líkneskjunum bara lotningu, hann tilbæði þær ekki. Er hann sá að Aurelio var ekki ánægður með svarið sakaði presturinn hann um að vera að nema biblíuna með vottum Jehóva. Aurelio neitaði því en bætti svo við: „Núna ætla ég að gera það!“
Næst þegar vottarnir komu í þorpið setti Aurelio sig í samband við þá og byrjaði að nema Biblíuna með þeim. Hann hætti störfum við kirkjuna og á þrem mánuðum varð hann hæfur til að taka þátt í hinni opinberu prédikun með vottum Jehóva. Í fyrsta húsinu, þar sem hann knúði dyra, bjó presturinn sem trúði ekki sínum eigin augum er hann sá fyrrum skrúðhúsvörðinn í hlutverki prédikara Guðsríkis. Presturinn hótaði honum bannfæringu en Aurelio svaraði að hún væri ekki nauðsynleg því að hann hefði þegar sagt sig úr kirkjunni. Djarfmannleg stefna hans var mörgum þorpsbúum, sem voru þegar að nema Biblíuna með vottum Jehóva, til hvatningar. Aurelio og 21 í viðbót frá þessu þorpi létu skírast á næsta umdæmismóti. Svo ör er vöxturinn á þessu svæði að það var aðeins einn öldungur á lausu til að fara yfir skírnarspurningarnar með þessum hópi.
„Raust þeirra hefur borist“
Enginn getur forðað sér undan prédikun Guðsríkis. Kaþólskur Ítali fylltist gremju í hvert sinn sem vottar Jehóva knúðu dyra hjá honum. Þegar fyrirtækið, sem hann vann hjá, flutti hann til Singapúr hélt hann að hann yrði loksins laus við þá. En honum til undrunar voru vottarnir þar líka. Hann fékk sér því tvo grimma hunda til að ráðast á vottana næst þegar þeir kæmu til hans. Þegar tveir vottar knúðu dyra hjá honum komu hundarnir stökkvandi út. Skelfingu lostnar tóku konurnar til fótanna og hlupu hvor í sína áttina við næstu gatnamót. Þegar annar hundurinn náði annarri konunni greip hún í örvæntingu sinni tvo bæklinga úr töskunni sinni og stakk þeim upp í opið ginið á hundinum. Hann hætti þá eftirförinni, sneri við og trítlaði heim.
Í vikunni á eftir voru sömu vottar að fara í endurheimsókn í hús handan götunnar. Eigandi hundanna var úti í garðinum hjá sér, og konunum til undrunar heilsaði hann þeim og bauð þeim að koma inn í húsið. Hann sagði þeim að hann hefði aldrei talað við votta Jehóva og aldrei lesið neitt af ritum þeirra. Það hefði hins vegar vakið undrun hans að finna bæklingana í hundskjaftinum. Hann kvaðst hafa lesið bæklingana sama kvöld og orðið mjög hrifinn af þeim. Hann hafði verið kaþólskrar trúar alla ævi en sagði þeim að hann langaði til að nema Biblíuna með vottum Jehóva.
Þar eð maðurinn var í þann mund að flytjast aftur heim til Ítalíu voru gerðar ráðstafanir til að nema með honum þar. Þegar hann og konan hans fóru að sækja samkomur hótaði sóknarpresturinn þeim öllu illu. Þegar kveikt var í garðinum hjá þeim slitu hjónin öll tengsl við kirkjuna. Núna segir maðurinn: „Ég er nú þegar búinn að vitna fyrir mörgum ættingjum mínum vegna þess að ég vil að þeir fái að vita að Jehóva er hinn eini sanni Guð.“
„Til endimarka heimsbyggðarinnar“
Önnur frásaga frá endimörkum heimsbyggðarinnar sýnir hvernig boðskapurinn um Guðsríki er metinn að verðleikum og stuðlar að því að breyta lífi manna. Kona í Ástralíu, sem var vottur, kynntist annarri konu er hún sótti námskeið handa verðandi mæðrum, en síðarnefnda konan hafði margar slæmar venjur. Meðal annars reykti hún og vildi jafnvel ekki hætta reykingum á meðgöngutímanum. Vottinum var órótt í skapi út af viðhorfum hennar. Svo vildi til að þær fæddu báðar á sama tíma og lágu á sömu stofu, þannig að þær höfðu tækifæri til að tala saman. Í ljós kom að konan hafði átt við mörg vandamál að stríða í æsku, og núna var hjónaband hennar í þann veginn að leysast upp. Eftir að þær höfðu útskrifast heimsótti votturinn konuna og hóf biblíunám með henni með hjálp bókarinnar Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt.
Eiginmaður þessarar konu hafði verið að biðja til Guðs um að hann mætti finna hina sönnu trú, þó með eftirfarandi fyrirvara: „Svo framarlega sem það eru ekki vottar Jehóva!“ Þegar hann komst að því að konan hans væri að nema með vottunum fór hann eigi að síður að spyrja spurninga og var þá boðið að taka þátt í náminu. Hann gerði það og byrjaði fljótlega að sækja safnaðarsamkomur. Núna eru bæði hjónin skírð og hjónaband þeirra hefur augljóslega stórbatnað.
Biblíunám á heimilum manna, með hjálp slíkra rita, hefur haft í för með sér að safnað hefur verið saman mörgum nýjum tilbiðjendum Guðs. Í löndum þar sem vottar Jehóva hafa þurft að búa við byltingar, borgarastríð eða bönn af hálfu stjórnvalda hefur heimabiblíunámsstarfið færst í aukana. Borgarastríð geisaði í Angóla í mörg ár og vottarnir máttu þola miklar ofsóknir og þrengingar. Snemma á síðasta ári sýndu skýrslur að hver boðberi stýrði að meðaltali næstum þrem biblíunámum en boðberarnir höfðu lítið af biblíuritum. Farandumsjónarmenn heimsóttu lítinn hóp á hverjum degi, skipulögðu þjónustu á akrinum yfir daginn og samkomur hvert kvöld. Það var þeim mikið gleðiefni er ófriðurinn tók enda og 42 tonn af langþráðum biblíuritum bárust frá Suður-Afríku! Víst er að kærleikur þessara bræðra á eftir að ‚aukast enn þá meir og meir að þekkingu og allri dómgreind‘ með því þeir geta nú „fullvissað sig um þá hluti sem mikilvægari eru.“ (Filippíbréfið 1:9, 10, NW) Hvílík hvatning þeim sem hafa nóg af hjálpargögnum til biblíunáms við hendina og geta notfært sér til fulls þær ráðstafanir sem Jehóva gerir af örlæti sínu! — 1. Tímóteusarbréf 4:15, 16.
Hamingja þessara trúföstu guðsdýrkenda minnir okkur á orð Jesú í fjallræðunni: „Sælir eru þeir sem bera skyn á andlega þörf sína, því að himnaríkið tilheyrir þeim. . . . Sælir eru þeir sem hafa verið ofsóttir fyrir réttlætis sakir, því að himnaríkið tilheyrir þeim. . . . Fagnið og stökkvið af gleði því að laun ykkar eru mikil á himnum.“ (Matteus 5:3-12, NW) Uppskeran í Angóla er ríkuleg að vöxtum!
Víða annars staðar í heiminum er líka verið að slaka á eða aflétta hömlum á starfi votta Jehóva. Jesús sagði um sína daga: „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir.“ (Matteus 9:37) Þessi orð eru í fullu gildi nú á dögum! Það er mikil þörf á fleiri verkamönnum. Við fögnum því mjög að guðsdýrkun okkar skuli fela í sér slíkt uppskerustarf. Ekkert getur veitt meiri gleði nú á dögum en hin frjósama þjónusta við Jehóva Guð.
En hvað er það sem fær tilbiðjendur Jehóva til að sýna slíka gleði og kostgæfni? Við skulum kanna það.