Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.1. bls. 14-19
  • Óttist Jehóva og vegsamið heilagt nafn hans

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Óttist Jehóva og vegsamið heilagt nafn hans
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Guðsótti gengur með sigur af hólmi
  • Breytni í ótta Jehóva
  • Elskaðu gott, hataðu illt
  • Óttastu Jehóva og lofaðu hann
  • Vegsamaðu Jehóva að eilífu
  • Glæddu hjá þér slíkt hugarfar að þú óttist Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • Lærum að hafa unun af ótta Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Guðsótti — getur hann gagnað þér?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Óttastu Jehóva og haltu hans boðorð
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.1. bls. 14-19

Óttist Jehóva og vegsamið heilagt nafn hans

„Hver skyldi ekki óttast, [Jehóva], og vegsama nafn þitt? — OPINBERUNARBÓKIN 15:4.

1, 2. (a) Hvernig opnaði Jehóva himneskar flóðgáttir árið 1991? (b) Hvaða lífsreynsla kom trúföstum trúboða til að gefa ráðið: „Óttist Jehóva“? (Sjá einnig Árbókina 1991 bls. 187-9.)

JEHÓVA ‚lauk upp flóðgáttum himinsins og úthellti yfirgnæfanlegri blessun.‘ Þessi orð mætti heimfæra aftur og aftur á nútímavotta Jehóva. (Malakí 3:10) Til dæmis var eldmóður gestkomandi votta og heimamanna á þjónustuárinu 1991 takmarkalaus í kristnu samfélagi á sérmótunum sem haldin voru víða um lönd — frá mótunum „Hið hreina tungumál“ í Búenos Aíres í Suður-Ameríku og Maníla, Taípeí og Bangkok í Austurlöndum fjær, til mótanna „Frelsisunnendur“ í Búdapest, Prag og Sagreb (16.-19. ágúst 1991) í Austur-Evrópu.

2 Það var aðkomnum mótsgestum mikið fagnaðarefni að hitta votta á þessum stöðum sem áttu að baki áralanga, trúfasta þjónustu. Í Bangkok sagði Frank Dewar — sem á sínum tíma var eini boðberinn í Taílandi — til dæmis frá 58 ára trúboðsstarfi sínu. Á ferli sínum hafði hann starfað allt frá Kyrrahafseyjunum til Suðaustur-Asíu og jafnvel í Kína. Hann hafði lent í hættum vegna skipbrots, villidýra í frumskógunum, hitabeltissjúkdóma og grimmdarstjórnar japanskra herstjóra. Er hann var spurður hvaða ráð hann vildi gefa mótsgestum var svar hans einfalt: „Óttist Jehóva!“

3. Hvers vegna ættum við að sýna guðsótta?

3 „Óttist Jehóva!“ Það er sannarlega þýðingarmikið fyrir okkur öll að rækta með okkur þennan heilnæma ótta. „Upphaf speki er ótti [Jehóva].“ (Sálmur 111:10) Þessi ótti er ekki lamandi ótti við Jehóva. Hann er djúp virðing fyrir ógnþrunginni hátign hans og guðlegum eiginleikum, byggð á því innsæi sem við hljótum gegnum nám í orði Guðs. Í Opinberunarbókinni 15:3, 4 segir í söng Móse og lambsins: „Mikil og dásamleg eru verkin þín, [Jehóva] Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna. Hver skyldi ekki óttast, [Jehóva], og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur.“ Jehóva er tryggur tilbiðjendum sínum og hefur „minnisbók fyrir þá, sem óttast [Jehóva] og virða hans nafn.“ Þeim er umbunað með eilífu lífi. — Malakí 3:16; Opinberunarbókin 20:12, 15.

Guðsótti gengur með sigur af hólmi

4. Hvaða frelsun til forna ætti að hvetja okkur til að óttast Jehóva?

4 Er Ísraelsmenn gengu fylktu liði út af Egyptalandi Faraós sýndi Móse greinilega að hann óttaðist einungis Jehóva. Áður en langt um leið voru Ísraelsmenn innikróaðir milli Rauðahafsins og hervélar Egypta. Hvað gátu þeir gert? „Þá sagði Móse við lýðinn: ‚Óttist ekki. Standið stöðugir, og munuð þér sjá hjálpræði [Jehóva], er hann í dag mun láta fram við yður koma, því að eins og þér sjáið Egyptana í dag, munuð þér aldrei nokkurn tíma framar sjá þá. [Jehóva] mun berjast fyrir yður, en þér skuluð vera kyrrir.‘“ Með undraverðum hætti opnaði Jehóva hafið. Ísraelsmenn gengu fylktu liði yfir sjávarbotninn. Síðan steyptist sjórinn aftur á sinn stað. Her Faraós þurrkaðist út. Jehóva bjargaði þessari guðhræddu þjóð og fullnægði um leið dómi á Egyptalandi sem hafði svívirt Guð. Á sama hátt mun hann nú á dögum sýna hollustu sína er hann frelsar guðhrædda votta sína úr heimi Satans. — 2. Mósebók 14:13, 14; Rómverjabréfið 15:4.

5, 6. Hvaða atburðir á dögum Jósúa sýna að við ættum að óttast Jehóva frekar en menn?

5 Eftir burtförina af Egyptalandi sendi Móse 12 njósnamenn inn í fyrirheitna landið. Tíu þeirra voru skelfingu lostnir er þeir sáu risavaxna íbúa landsins og reyndu að letja Ísraelsmenn þess að fara inn í landið. En hinir tveir, þeir Jósúa og Kaleb, sögðu: „[Landið] er mesta ágætisland. Ef [Jehóva] hefir á oss velþóknun, þá mun hann flytja oss inn í þetta land og gefa oss það, landið, sem flýtur í mjólk og hunangi. Gjörið aðeins ekki uppreisn móti [Jehóva] og hræðist ekki landsfólkið, því að þeir eru brauð vort. Vikin er frá þeim vörn þeirra, en [Jehóva] er með oss! Hræðist þá eigi!“ — 4. Mósebók 14:7-9.

6 En þessir Ísraelsmenn létu undan ótta við menn. Af því leiddi að þeir komust aldrei inn í fyrirheitna landið. Jósúa og Kaleb, ásamt nýrri kynslóð Ísraelsmanna, fengu hins vegar þau sérréttindi að ganga inn í þetta úrvalsland og rækta víngarða þess og olíuviðarlundi. Í kveðjuræðu sinni yfir Ísraelsmönnum samankomnum gaf Jósúa eftirfarandi ráð: „Óttist því [Jehóva] og þjónið honum einlæglega og dyggilega.“ Og Jósúa bætti við: „En ég og mínir ættmenn munum þjóna [Jehóva].“ (Jósúa 24:14, 15) Þetta eru hvetjandi orð fyrir fjölskylduhöfuð og alla aðra um að óttast Jehóva er við búum okkur undir að ganga inn í nýjan, réttlátan heim Guðs!

7. Hvernig lagði Davíð áherslu á mikilvægi þess að óttast Guð?

7 Pilturinn Davíð, sem var fjárhirðir, sýndi einnig eftirbreytniverðan ótta við Jehóva er hann skoraði Golíat á hólm í nafni Guðs. (1. Samúelsbók 17:45, 47) Á dánarbeði sínu gat Davíð lýst yfir: „Andi [Jehóva] talaði í mér og hans orð er á minni tungu. Ísraels Guð talaði, bjarg Ísraels mælti við mig: ‚Sá sem ríkir yfir mönnum með réttvísi, sá sem ríkir í ótta Guðs, hann er eins og dagsbirtan, þegar sólin rennur upp á heiðríkju-morgni.‘“ (2. Samúelsbók 23:2-4) Áberandi er hve stjórnendur þessa heims hefur vantað þennan ótta við Guð og afleiðingarnar hafa verið hörmulegar. Það verður sannarlega ólíkt er Jesús, ‚sonur Davíðs,‘ ríkir yfir jörðinni í ótta Jehóva! — Matteus 21:9.

Breytni í ótta Jehóva

8. Af hverju vegnaði Júdamönnum vel undir stjórn Jósafats, og hvað má ráða af því varðandi nútímann?

8 Um hundrað árum eftir dauða Davíðs varð Jósafat konungur í Júda. Nú sat þar aftur konungur sem þjónaði í ótta Jehóva. Hann endurreisti guðræðisreglu í Júda, skipaði dómara út um landið og gaf þeim þessi fyrirmæli: „Eigi dæmið þér í umboði manna, heldur [Jehóva], og hann er með yður í dómum. Veri þá ótti [Jehóva] yfir yður, hafið gát á breytni yðar, því að hjá [Jehóva], Guði vorum, er ekkert ranglæti eða manngreinarálit, né mútur þegnar. . . . Svo skuluð þér breyta í ótta [Jehóva], með trúmennsku og af heilum hug.“ (2. Kroníkubók 19:6-9) Þannig dafnaði Júda í ótta Jehóva, alveg eins og þjónar Guðs njóta góðs af þjónustu umhyggjusamra umsjónarmanna nú á tímum.

9, 10. Hvernig hrósaði Jósafat sigri í ótta Jehóva?

9 En Júda átti sér óvini. Þeir afréðu að afmá þjóð Guðs. Sameinaður her Ammons, Móabs og Seírfjalla streymdi inn á yfirráðasvæði Júda og ógnaði Jerúsalem. Þetta var öflugur her. Jósafat sneri sér til Jehóva í bæn meðan „allir Júdamenn stóðu frammi fyrir [Jehóva], ásamt ungbörnum þeirra, konum og sonum.“ Til svars við bæninni kom andi Jehóva yfir levítann Jehasíel sem sagði: „Svo segir [Jehóva] við yður: Hræðist eigi né skelfist fyrir þessum mikla mannfjölda, því að eigi er yður búinn bardaginn, heldur Guði. Farið í móti þeim á morgun. . . . En eigi þurfið þér að berjast við þá, skipið yður aðeins í fylkingu, standið kyrrir og sjáið liðsinni [Jehóva] við yður, þér Júdamenn og Jerúsalembúar. Óttist eigi og skelfist eigi. Farið í móti þeim á morgun, og [Jehóva] mun vera með yður.“ — 2. Kroníkubók 20:5-17.

10 Næsta morgun risu Júdamenn árla úr rekkju. Er þeir gengu til fundar við óvininn, hlýðnir Jehóva, stóð Jósafat upp og mælti: „Heyrið mig, þér Júdamenn og Jerúsalembúar! Treystið [Jehóva], Guði yðar, þá munuð þér fá staðist, trúið spámönnum hans, þá munuð þér giftudrjúgir verða!“ Á undan hermönnunum fóru söngvarar sem sungu Jehóva lofsöng í kór: „Lofið [Jehóva], því að miskunn hans varir að eilífu.“ Jehóva sýndi þá miskunn með því að skapa slíka ringulreið meðal óvinanna að þeir gereyddu hver öðrum. Er Júdamenn komu að varðturninum í eyðimörkinni fundu þeir ekkert annað en lík óvinahermannanna. — 2. Kroníkubók 20:20-24.

11. Hvernig eru þjóðirnar ólíkar þjónum Guðs hvað ótta varðar?

11 Þegar grannþjóðirnar fréttu af þessari undraverðu björgun kom „ótti við Guð“ yfir þær. Hins vegar bjó þjóðin sem óttaðist Jehóva við „frið allt um kring.“ (2. Kroníkubók 20:29, 30) Eins verður það er Jehóva fullnægir dómi sínum við Harmagedón að þjóðirnar munu skelfast þann sem fullnægir dóminum, son hans Jesú Krist, og ekki fá staðist á hinum mikla reiðidegi Guðs. — Opinberunarbókin 6:15-17.

12. Hvernig hefur mönnum verið umbunaður ótti Jehóva fyrr á tímum?

12 Heilnæmur ótti við Jehóva hefur ríkulega umbun í för með sér. Nói „óttaðist Guð og smíðaði örk til björgunar heimilisfólki sínu.“ (Hebreabréfið 11:7) Og um frumkristna söfnuðinn er sagt að hann hafi, eftir að ofsóknaralda var gengin yfir, ‚haft frið, byggst upp og gengið fram í ótta Jehóva og vaxið við styrkingu heilags anda.‘ — Postulasagan 9:31.

Elskaðu gott, hataðu illt

13. Hvernig aðeins getum við notið blessunar Jehóva?

13 Jehóva er algóður. Þess vegna er ‚ótti Jehóva að hata hið illa.‘ (Orðskviðirnir 8:13) Um Jesú er ritað: „Þú hefur elskað réttlæti og hatað ranglæti. Því hefur Guð, þinn Guð, smurt þig gleðinnar olíu fram yfir þína jafningja.“ (Hebreabréfið 1:9) Ef við þráum blessun Jehóva, líkt og Jesús, verðum við að hafa andstyggð á hinu illa, siðleysinu, ofbeldinu og ágirndinni í drambsömum heimi Satans. (Samanber Orðskviðina 6:16-19.) Við verðum að elska það sem Jehóva elskar og hata það sem hann hatar. Við verðum að óttast að gera nokkuð það er myndi misþóknast Jehóva. „Fyrir ótta [Jehóva] forðast menn hið illa.“ — Orðskviðirnir 16:6.

14. Hvernig er Jesús okkur fyrirmynd?

14 Jesús lét okkur eftir fyrirmynd til að líkja sem nákvæmast eftir. „Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir.“ (1. Pétursbréf 2:21-23) Í ótta Jehóva getum við líka þolað svívirðingarnar, háðsglósurnar og ofsóknirnar sem heimur Satans dembir yfir okkur.

15. Hvers vegna ættum við að óttast Jehóva í stað þeirra sem geta drepið líkamann?

15 Í Matteusi 10:28 áminnir Jesús okkur: „Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti [Gehenna].“ Jafnvel þótt óvinurinn dræpi þann sem óttast Jehóva eru fjötrar dauðans einungis stundlegir. (Hósea 13:14) Þegar slíkur einstaklingur rís upp getur hann sagt: „Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?“ — 1. Korintubréf 15:55.

16. Hvernig sýndi Jesús að hann óttaðist Jehóva og vegsamaði hann?

16 Sjálfur er Jesús afbragðsfordæmi öllum sem elska réttlæti Jehóva og hata hið illa. Ótti hans við Jehóva endurspeglast í síðustu orðum hans við lærisveina sína eins og þau standa í Jóhannesi 16:33: „Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ Frásaga Jóhannesar heldur síðan áfram: „Þetta talaði Jesús, hóf augu sín til himins og sagði: ‚Faðir, stundin er komin. Gjör son þinn dýrlegan, til þess að sonurinn gjöri þig dýrlegan. . . . Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum, sem þú gafst mér úr heiminum.‘“ — Jóhannes 17:1-6.

Óttastu Jehóva og lofaðu hann

17. Á hvaða vegu getum við líkt eftir fordæmi Jesú?

17 Getum við líkt eftir hugrökku fordæmi Jesú núna? Vissulega getum við það í ótta Jehóva! Jesús hefur opinberað okkur hið mikilfenglega nafn Jehóva og eiginleika. Með því að óttast Jehóva sem alvaldan Drottin okkar upphefjum við hann hátt yfir alla aðra guði, þeirra á meðal hinn nafnlausa, dularfulla þrenningarguð kristna heimsins. Jesús þjónaði Jehóva með heilnæmum ótta og neitaði að láta festast í þeirri snöru sem ótti við dauðlega menn er. „Á jarðvistardögum sínum bar hann fram með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða, og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar.“ Megum við, líkt og Jesús, óttast Jehóva er við höldum áfram að læra hlýðni af þjáningum okkar — alltaf með eilíft hjálpræði sem markmið okkar. — Hebreabréfið 5:7-9.

18. Hvernig getum við veitt Guði heilaga þjónustu með guðsótta?

18 Síðar í bréfi sínu til kristinna Hebrea hvetur Páll smurða kristna menn: „Þar sem vér því fáum ríki, sem ekki getur bifast, skulum vér þakka það og þjóna Guði, svo sem honum þóknast, með lotninu og ótta.“ Núna á ‚múgurinn mikli‘ hlutdeild í þessari heilögu þjónustu. Og í hverju er hún fólgin? Eftir að hafa rætt um þá óverðskulduðu náð Jehóva að sjá fyrir fórn sonar síns, Jesú Krists, segir Páll: „Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.“ (Hebreabréfið 12:28; 13:12, 15) Sökum þakklætis vegna óverðskuldaðrar náðar Jehóva ættum við að vilja helga hverja einustu klukkustund sem við getum til heilagrar þjónstu hans. Múgurinn mikli er drottinhollur félagi þeirra sem eftir eru af smurðum kristnum mönnum og innir af hendi langstærstan hluta þeirrar þjónustu. Hann tilreiknar Guði og Kristi hjálpræði sitt er hann stendur táknrænt frammi fyrir hásæti Guðs og ‚þjónar honum dag og nótt.‘ — Opinberunarbókin 7:9, 10, 15.

Vegsamaðu Jehóva að eilífu

19, 20. Hvaða tvenns konar ótti mun koma í ljós á ‚degi Jehóva‘?

19 Hinn dýrlegi dagur er Jehóva upphefur sig nálgast óðfluga! „Sjá, dagurinn kemur, brennandi sem ofn, og allir hrokafullir og allir þeir er guðleysi fremja, munu þá vera sem hálmleggir, og dagurinn sem kemur mun kveikja í þeim — segir [Jehóva] allsherjar.“ Sá umbrotatími er „hinn mikli og ógurlegi dagur [Jehóva].“ (Malakí 4:1, 5) Hann mun vekja ‚skelfingu‘ í hjörtum óguðlegra og þeir „munu alls ekki undan komast.“ — Jeremía 8:15; 1. Þessaloníkubréf 5:3.

20 Þjónar Jehóva eru hins vegar hvattir áfram af annars konar ótta. Engillinn, sem trúað var fyrir „eilífum fagnaðarboðskap,“ hefur kallað þá til með hárri röddu og sagt: „Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans.“ (Opinberunarbókin 14:6, 7) Við munum fyllast lotningarblöndnum ótta við þann dóm er brennandi hiti Harmagedón brennir heim Satans upp til agna. Heilnæmur ótti við Jehóva mun innprentast óafmáanlega í hjörtu okkar. Megum við njóta þeirrar blessunar að verða í hópi þeirra sem ‚ákalla nafn Jehóva og verða hólpnir‘! — Jóel 3:4, 5; Rómverjabréfið 10:13.

21. Til hvaða blessunar mun ótti Jehóva leiða?

21 Undursamleg blessun mun fylgja í kjölfarið, meðal annars ‚ár lífs‘ um alla eilífð! (Orðskviðirnir 9:11; Sálmur 37:9-11, 29) Þess vegna skulum við, hvort heldur von okkar er sú að erfa ríkið eða þjóna á valdasvæði þess á jörðinni, halda áfram að veita Guði heilaga þjónustu með guðsótta og lotningu. Við skulum halda áfram að vegsama heilagt nafn hans. Og með hvaða blessunarríkum afleiðingum? Með þakklæti að eilífu fyrir það að við skyldum taka til okkar hið viturlega ráð að óttast alltaf Jehóva!

Hvert er svar þitt?

◻ Hvað er átt við með „ótta Jehóva“?

◻ Hvernig var ótti við Guð fortíðarþjónum hans til góðs?

◻ Hvaða fyrirmynd í guðsótta gaf Jesús okkur?

◻ Hvernig getum við varðveitt ráðvendni í ótta Jehóva?

[Mynd á blaðsíðu 14]

Í Opinberunarbókinni sjást bræður Jesú syngja „söng Móse“ sem er lofsöngur til Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Her Jósafats hrósar sigri í ótta Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Þeim sem óttast Jehóva verður umbunað með árum lífs að eilífu.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila