Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.3. bls. 4-7
  • Falsspámenn nútímans

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Falsspámenn nútímans
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Sannleikurinn um Guðsríki
  • Hvers vegna er það mikilvægt?
  • Mannkynið undir Guðsríki
  • Það sem Jesús kenndi um ríki Guðs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Guðsríki er við völd
    Þekking sem leiðir til eilífs lífs
  • Hvað er Guðsríki?
    Hvað kennir Biblían?
  • Það sem Guðsríki getur þýtt fyrir þig
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.3. bls. 4-7

Falsspámenn nútímans

JEREMÍA þjónaði sem spámaður Guðs í Jerúsalem á tímum þegar skurðgoðadýrkun og siðleysi var í algleymingi í borginni og saklausu blóði var úthellt. (Jeremía 7:8-11) Hann var að vísu ekki eini spámaðurinn sem starfaði á þeim tíma, en flestir hinna voru eigingjarnir og spilltir. Hvernig þá? Jehóva lýsti yfir: „Bæði spámenn og prestar, allir hafa þeir svik í frammi. Þeir hyggjast að lækna áfall þjóðar minnar með hægu móti, segjandi: ‚Heill, heill!‘ þar sem engin heill er.“ — Jeremía 6:13, 14.

Falsspámennirnir reyndu að láta líta svo út sem allt væri í himnalagi og alþýða manna ætti frið við Guð, þrátt fyrir alla spillinguna í landinu. En svo var ekki. Dómur Guðs beið þeirra eins og Jeremía boðaði óttalaust. Það var hinn sanni spámaður, Jeremía, sem var réttlættur, ekki falsspámennirnir, er hermenn Babýlonar jöfnuðu Jerúsalem við jörðu árið 607 f.o.t., eyðilögðu musterið og annaðhvort drápu landslýð eða fluttu hann sem bandingja til hinnar fjarlægu Babýlonar. Þeir sárafáu, sem voru skildir eftir í landinu, flúðu til Egyptalands. — Jeremía 39:6-9; 43:4-7.

Hvað höfðu falsspámennirnir gert? „Sjá, þess vegna skal ég finna spámennina — segir [Jehóva] — sem stela orðum mínum hver frá öðrum.“ (Jeremía 23:30) Falsspámennirnir stálu krafi og áhrifum orða Guðs með því að hvetja fólk til að hlusta á lygar í stað hinna sönnu aðvarana frá Guði. Þeir voru ekki að boða „stórmerki Guðs“ heldur eigin hugmyndir, það sem fólk langaði til að heyra. Boðskapur Jeremía var sannarlega frá Guði og hefðu Ísraelsmenn hlýtt orðum hans hefðu þeir bjargast. Falsspámennirnir ‚stálu orðum Guðs‘ og leiddu fólkið út í ógæfu. Það var alveg eins og Jesús sagði um hina svikulu trúarleiðtoga sinnar samtíðar: „Þeir eru blindir, leiðtogar blindra. Ef blindur leiðir blindan, falla báðir í gryfju.“ — Postulasagan 2:11; Matteus 15:14.

Eins og á dögum Jeremía eru uppi falsspámenn nú á dögum sem staðhæfa að þeir séu fulltrúar Biblíunnar; en þeir stela líka orðum Guðs með því að prédika það sem dregur athygli fólks frá því sem Guð segir í raun og veru gegnum Biblíuna. Hvernig þá? Við skulum svara þeirri spurningu með því að nota undirstöðukenningu Biblíunnar um ríkið sem prófstein.

Sannleikurinn um Guðsríki

Ríki Guðs var meginstefið í kenningu Krists og það er nefnt yfir hundrað sinnum í guðspjöllunum. Snemma á þjónustuferli sínum sagði Jesús: „Mér ber og að flytja . . . fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur.“ — Lúkas 4:43; 11:2.

Hvað er þá ríkið? Samkvæmt The New Thayer’s Greek English Lexicon merkir gríska orðið, sem þýtt er „ríki“ í Biblíunni, í fyrsta lagi „konunglegt vald, konungdómur, yfirráð, stjórn,“ og í öðru lagi „það svæði sem er undir konungsstjórn.“ Út frá þessari skilgreiningu er rökrétt að álykta að ríki Guðs sé bókstafleg stjórn í höndum konungs. Er raunin sú?

Já, og konungurinn er enginn annar en Jesús Kristur. Engillinn Gabríel sagði við Maríu fyrir fæðingu Jesú: „Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. [Jehóva] Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans.“ (Lúkas 1:32) Að Jesús skuli fá hásæti sannar að hann er konungur, stjórnandi. Spádómur Jesaja sannar einnig að ríkið er bókstafleg stjórn: „Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. . . . Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka.“ — Jesaja 9:6, 7.

Hvar ríkir Jesús? Í Jerúsalem? Nei. Spámaðurinn Daníel sá í sýn hvernig Jesús fékk ríkið í hendur og í sýn hans er Jesús á himnum. (Daníel 7:13, 14) Þetta kemur heim og saman við það hvernig Jesús talaði um ríkið. Hann kallaði það oft „himnaríki.“ (Matteus 10:7; 11:11, 12) Það er einnig í samræmi við orð Jesú við Pílatus er Pílatus yfirheyrði hann: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ (Jóhannes 18:36) Hefur presturinn þinn kennt þér að ríki Jesú sé raunveruleg stjórn sem ríkir frá himnum, eða hefur hann kennt þér að Guðsríki sé bara eitthvað sem er til í hjörtum manna? Ef svo er hefur hann verið að stela orðum Guðs frá þér.

Hvert er sambandið milli Guðsríkis og allra hinna ólíku stjórnarforma manna? Að sögn The Encyclopedia of Religion, í ritstjórn Mircea Eliade, kom siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther fram með þessa tillögu í umræðu sinni um um Guðsríki: „Hin veraldlega stjórn . . . getur einnig kallast Guðsríki.“ Sumir kenna að menn geti af eigin rammleik fært stjórn manna nær ríki Guðs. Árið 1983 fullyrti Alkirkjuráðið: „Er við berum í verki vitni um friðarlöngun okkar getur andi Guðs notað veikburða viðleitni okkar til að færa ríki þessa heims nær ríki Guðs.“

Við skulum þó taka eftir að í „Faðirvorinu“ kenndi Jesús fylgjendum sínum að biðja um að ríki Guðs kæmi og það var ekki fyrr en eftir það sem hann sagði þeim að biðja: „Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Með öðrum orðum geta menn ekki látið Guðsríki koma með því að gera vilja Guðs. Það er koma Guðsríkis sem veldur því að vilji Guðs verður gerður á jörðinni. Hvernig þá?

Taktu eftir hvað spádómur Daníels segir í 2. kafla versi 44: „Á dögum þessara konunga [mennskra valdhafa á endalokatímanum] mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, . . . Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki.“ Það er engin furða að Jesús skyldi segja að ríki hans tilheyrði ekki þessum heimi! Ríki hans átti þess í stað að eyða öllum ríkjum eða stjórnum hér á jörð og koma í þeirra stað sem stjórn yfir mannkyninu. Sem stjórn Guðs yfir mannkyninu mun það síðan sjá til þess að vilji Guðs verði gerður á jörðinni.

Við skiljum betur ástæðuna fyrir þessum róttæku aðgerðum af hálfu Guðsríkis ef við höfum í huga hver stjórnar þessum heimi. Jóhannes postuli ritaði: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) ‚Hinn vondi‘ er Satan djöfullinn sem Páll kallaði „guð þessarar aldar.“ (2. Korintubréf 4:4) Það er enginn möguleiki á því að stofnanir í heimi, sem á sér Satan að guði, geti verið eitt og hið sama og ríki Guðs.

Þetta er ein ástæðan fyrir því að Jesús blandaði sér ekki í stjórnmál. Þegar þjóðernissinnaðir Gyðingar reyndu að gera hann að konungi forðaðist hann þá. (Jóhannes 6:15) Eins og við höfum séð sagði hann Pílatusi hreinskilnislega: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi.“ Og í samræmi við þetta sagði hann um fylgjendur sína: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:16) Þess vegna eru þeir trúarleiðtogar falsspámenn sem kenna að það sé hægt að hraða komu Guðsríkis með umbótum á þessu heimskerfi og hvetja söfnuði sína til að vinna að þeim. Þeir stela krafti og áhrifum þess sem Biblían raunverulega segir.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Er allt þetta einungis fræðilegar rökræður? Alls ekki. Rangar kenningar um Guðsríki hafa leitt marga á villigötur og hafa jafnvel haft áhrif á gang sögunnar. Til dæmis segir Théo, rómversk-kaþólsk alfræðibók: „Þjónar Guðs stefna fram á við í átt að ríki Guðs sem Kristur kom á laggirnar á jörðinni . . . Kirkjan er sáðkorn þessa ríkis.“ Það að segja kaþólsku kirkjuna vera nánast eitt og hið sama og Guðsríki gaf kirkjunni gífurleg, veraldleg völd á miðöldum þegar hjátrú var útbreidd. Enn þann dag í dag reyna kirkjuleg yfirvöld að hafa áhrif á gang heimsmála með því að vinna að viðgangi eins stjórnmálakerfis og gegn öðru.

Einn skýrandi kom fram með annað viðhorf, sem á fylgi að fagna nú á dögum, er hann sagði: „Bylting er Guðsríki vegna þess að byltingin er það þegar fólkið kemur saman í nýju mannfélagi tendruðu af guðlegu tákni sem er gefið gegnum mann sannleikans — Jesú . . . Gandhi . . . Berrigan-bræður [tveir kaþólskir prestar sem mótmæltu Víetnamstríðinu í Bandaríkjunum].“ Sú kenning að það sé hægt að styrkja hag Guðsríkis með pólitískum aðgerðum, og það að loka augunum fyrir hinum raunverulegu staðreyndum um Guðsríki, hefur komið trúarleiðtogum til að bjóða sig fram til pólitískra embætta. Hún hefur komið öðrum til að taka þátt í almennri ólgu og jafnvel skæruhernaði. Ekkert af þessu samræmist þeim sannleika að Guðsríki sé ekki hluti af þessum heimi. Og trúarleiðtogar, sem sökkva sér niður í stjórnmál, eru fjarri því að tilheyra ekki heiminum eins og Jesús sagði að lærisveinar hans myndu gera. Þeir sem kenna að Guðsríki komist á með pólitískum aðgerðum eru falsspámenn. Þeir eru að stela orði Guðs frá fólkinu.

Ef trúarleiðtogar kristna heimsins kenndu í raun og veru það sem Biblían segir myndu söfnuðir þeirra vita að Guðsríki mun í raun og veru leysa vandamál svo sem fátækt, sjúkdóma, kynþáttamisrétti og kúgun. En það verður gert á þann hátt sem Guð vill og á þeim tíma sem hann vill. Það verður ekki gert með umbótum á stjórnmálakerfum sem munu líða undir lok þegar Guðsríki kemur. Ef þessir prestar væru sannir spámenn hefðu þeir kennt söfnuðum sínum að þeir gætu fengið ósvikna, raunhæfa hjálp frá Guði til að takast á við þau vandamál, sem fylgja misréttinu í heiminum, meðan þeir bíða þess að Guðsríki láti til skarar skríða.

Loks hefðu þeir kennt söfnuðum sínum að Biblían hafi spáð hinu versnandi ástandi á jörðinni sem er svo þjakandi og er tákn þess að Guðsríki sé nærri. Já, ríki Guðs mun bráðlega skerast í leikinn og ryðja núverandi stjórnmálakerfi úr vegi. Hvílík blessun verður það ekki! — Matteus 24:21, 22, 36-39; 2. Pétursbréf 3:7; Opinberunarbókin 19:11-21.

Mannkynið undir Guðsríki

Hvað mun koma Guðsríkis þýða fyrir mannkynið? Getur þú ímyndað þér sjálfan þig vakna hvern morgun fullan af lífsþrótti? Enginn sem þú þekkir er sjúkur eða deyjandi. Jafnvel látnir ástvinir þínir eru komnir aftur til þín vegna upprisunnar. (Jesaja 35:5, 6; Jóhannes 5:28, 29) Engar fjárhagsáhyggjur af völdum eigingjarnar kaupsýslu eða ósanngjarnra efnahagskerfa eru til framar. Þú átt þægilegt heimili og kappnóg landrými til að framleiða allt sem þú þarfnast til að sjá fjölskyldunni farborða. (Jesaja 65:21-23) Þú getur óhræddur gengið hvar sem er á degi eða nóttu án þess að eiga á hættu að á þig verði ráðist. Engin stríð eru háð framar — ekkert ógnar öryggi þínu. Allir vilja hag þinn sem bestan. Hinir óguðlegu eru horfnir. Kærleikur og réttlæti ríkja. Getur þú ímyndað þér slík skilyrði? Það er þess konar heimur sem Guðsríki mun koma á. — Sálmur 37:10, 11; 85:11-14; Míka 4:3, 4.

Eru þetta aðeins draumórar? Nei. Lestu ritningarstaðina sem vitnað er til hér á undan; þá sérð þú að allt sem þar er sagt endurspeglar ákveðin fyrirheit Guðs. Ef þér hefur ekki hingað til verið gefin þessi sanna mynd af því sem Guðsríki mun gera fyrir mannkynið, þá hefur einhver stolið orðum Guðs frá þér.

Sem betur fer þarf það ekki vera þannig áfram. Jesús sagði að á okkar tímum yrði „þetta fagnaðarerindi um ríkið . . . prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Þetta tímarit, sem þú ert að lesa, er þáttur í þeirri prédikun. Við hvetjum þig til að láta ekki falsspámenn villa þér sýn. Rýndu betur í orð Guðs og leitaðu uppi sannleikann um ríki hans. Síðan skalt þú beygja þig undir þetta ríki sem er ráðstöfun hirðisins mikla, Jehóva Guðs. Það er í sannleika eina von mannkynsins og sú von mun ekki bregðast.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Lúther kenndi að líta mætti á mennska stjórn sem ríki Guðs.

[Rétthafi]

Birt með leyfi forstöðumanna Breska þjóðminjasafnsins.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Eins og elskuríkur hirðir mun Jehóva láta ríki sitt koma á skilyrðum sem enginn maður gæti gert.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila