Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.6. bls. 21-26
  • Heilagur andi — gjöf frá Jehóva

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Heilagur andi — gjöf frá Jehóva
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Kraftur heilags anda
  • Kraftaverk
  • Innblásnar ritningar
  • Traust lagt á heilagan anda
  • Andi Guðs á fyrstu öldinni
  • Njótum góðs af heilögum anda Guðs
  • ‚Í nafni Heilags anda‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Leiðsögn anda Guðs á fyrstu öld og núna
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Lifðu í andanum og stattu við vígsluheit þitt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Af hverju ættum við að láta anda Guðs leiða okkur?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.6. bls. 21-26

Heilagur andi — gjöf frá Jehóva

„Hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ — LÚKAS 11:13

1, 2. (a) Hvaða loforð gaf Jesús varðandi heilagan anda og hvers vegna er það svo sannarlega hughreystandi? (b) Hvað er heilagur andi?

HAUSTIÐ 32, er Jesús prédikaði fagnaðarerindið í Júdeu, talaði hann við lærisveina sína um örlæti Jehóva. Hann notaði nokkrar kraftmiklar samlíkingar og gaf svo dásamlegt loforð með orðunum: „Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ — Lúkas 11:13.

2 Hvílík hughreysting eru ekki þessi orð! Okkur hlýnar svo sannarlega um hjartaræturnar að vita að Guð muni styrkja okkur með anda sínum á meðan við höldum út ringulreið síðustu daga þessa heimskerfis, stöndum andspænis fjandskap Satans og illra anda hans og berjumst við okkar eigin syndugu tilhneigingar. Það er í reynd óhugsandi að halda út trúfastur án þessa stuðnings. Hefur þú reynt kraft þessa anda sem er Guðs eigin starfskraftur? Skilur þú hve mikið hann getur hjálpað þér? Notar þú hann til fulls?

Kraftur heilags anda

3, 4. Lýstu með dæmi mætti heilags anda?

3 Athugum fyrst kraft heilags anda. Hugsaðu aftur til ársins 1954. Það var þá sem vetnissprengja var sprengd yfir kóraleyjunni Bikini í Suður-Kyrrahafi. Augnabliki eftir að sprengjan sprakk gleypti risavaxinn eldhnöttur þessa fallegu eyju og yfir hana reið sprenging sem var jafnöflug sprengingu 15 milljóna tonna af TNT. Hvaðan kom allur þessi eyðingarmáttur? Hann kom til af því að litlum hluta þess úrans og vetnis, sem lagði til kjarnann í sprengjunni, var breytt í orku. En hvað nú ef vísindamenn gætu gert öfugt við það sem þeim tókst á Bikini? Setjum sem svo að þeir gætu handsamað allan þann sprengikraft og breytt honum í örfá kíló af úrani og vetni. Hvílíkt afrek yrði það. Jehóva gerði þó eitthvað svipað, aðeins í mun meiri mæli, þegar hann „í upphafi skapaði . . . himin og jörð.“ — 1. Mósebók 1:1.

4 Jehóva ræður yfir gríðarmikilli orku. (Jesaja 40:26) Við sköpunina hlýtur hann að hafa virkjað eitthvað af þessari orku þegar hann bjó til allt það efni sem alheimurinn er gerður úr. Hvað notaði hann við þessa sköpun? Heilagan anda. Við lesum: „Fyrir orð [Jehóva] voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.“ (Sálmur 33:6) Og frásögn 1. Mósebókar af sköpuninni segir: „Andi Guðs [heilagur andi] sveif yfir vötnunum.“ (1. Mósebók 1:2) Heilagur andi er sannarlega ógnarafl.

Kraftaverk

5. Á hvaða háleita vegu vinnur heilagur andi?

5 Heilagur andi vinnur enn á mjög háleita vegu. Hann leiðbeinir og stýrir himnesku skipulagi Jehóva. (Esekíel 1:20, 21) Líkt og orkuna sem vetnissprengjan leysti úr læðingi er hægt að nota hann sem eyðingarmátt til að fullnægja dómi á óvinum Jehóva, en hann hefur einnig starfað á aðra vegu sem vekja undrun okkar. — Jesaja 11:15; 30:27, 28; 40:7, 8; 2. Þessaloníkubréf 2:8.

6. Hvernig studdi heilagur andi Móse og börn Ísrael í samskiptum þeirra við Egypta?

6 Til dæmis sendi Jehóva Móse, um það bil árið 1513 f.o.t., til að koma fyrir Faraó í Egyptalandi og krefjast frelsis til handa börnum Ísrael. Móse hafði verið fjárhirðir í Midíanslandi síðustu 40 árin þar áður, svo að hvers vegna skyldi Faraó hlusta á fjárhirði? Vegna þess að Móse kom í nafni hins eina sanna Guðs, Jehóva. Því til sönnunar veitti Jehóva honum vald til að vinna kraftaverk. Þau voru svo áhrifarík að jafnvel egypsku prestarnir neyddust til að viðurkenna: „Þetta er Guðs fingur.“a (2. Mósebók 8:19) Jehóva leiddi tíu plágur yfir Egyptaland og sú síðasta neyddi Faraó til að leyfa þjóð Guðs að yfirgefa Egyptaland. Þegar Faraó þrjóskaðist við og elti Ísraelsmenn með her sínum komust þeir undan þegar það kraftaverk gerðist að þeim var opnuð leið gegnum Rauðahafið. Egypski herinn fylgdi á eftir og drukknaði í hafinu. — Jesaja 63:11-14; Haggaí 2:4, 5.

7. (a) Nefnið nokkrar ástæður þess að heilagur andi gerði kraftaverk? (b) Hvers vegna eru frásagnir Biblíunnar af kraftaverkum, sem heilagur andi vann, hughreystandi þó að þau gerist ekki lengur?

7 Já, með anda sínum vann Jehóva mörg kraftaverk fyrir Ísraelsmenn á dögum Móse og einnig á öðrum tímum. Hver var ætlunin með þessum kraftaverkum? Þau stuðluðu að framgangi fyrirætlunar Jehóva, gerðu nafn hans kunnugt og sýndu mátt hans. Og stundum, eins og með Móse, sönnuðu þau óvéfengjanlega að viðkomandi hafði stuðning Jehóva. (2. Mósebók 4:1-9; 9:14-16) Samt sem áður hafa kraftaverk unnin af heilögum anda verið sjaldgæf í aldanna rás.b Flestir sem lifðu á tímum Biblíunnar urðu líklega aldrei vitni að kraftaverki og nú á dögum gerast þau ekki lengur. Þegar við glímum nú á tímum við vandamál sem gætu sýnst óyfirstíganleg, er ekki hughreystandi að vita engu að síður að Jehóva muni, ef við biðjum hann í trú, gefa okkur þann sama anda sem styrkti Móse frammi fyrir Faraó og opnaði Ísraelsmönnum leið gegnum Rauðahafið? — Matteus 17:20.

Innblásnar ritningar

8. Hvert var hlutverk heilags anda þegar boðorðin tíu voru gefin?

8 Þegar Ísraelsmönnum hafði verið bjargað úr Egyptalandi leiddi Móse þá að Sínaífjalli þar sem Jehóva gerði við þá sáttmála og gaf þeim lögmál sitt. Þungamiðja þess lögmáls, sem gefið var fyrir milligöngu Móse, voru boðorðin tíu og þau voru upphaflega grafin á steintöflur. Hvernig? Með heilögum anda. Biblían segir: „Þegar [Jehóva] hafði lokið viðræðunum við Móse á Sínaífjalli, fékk hann honum tvær sáttmálstöflur, steintöflur, ritaðar með fingri Guðs.“ — 2. Mósebók 31:18; 34:1.

9, 10. Hvernig var heilagur andi virkur við ritun hebreska hluta Ritningarinnar og hvernig er það ljóst af orðfæri lærisveina Jesú?

9 Auk boðorðanna tíu gaf Jehóva Ísraelsmönnum í gegnum anda sinn hundruð laga og reglna til að leiðbeina trúföstum körlum og konum gegnum lífið. Og meira átti eftir að koma. Öldum eftir daga Móse bar Nehemía vitni í opinberri bæn til Jehóva: „Og þú umbarst þá í mörg ár og áminntir þá með anda þínum fyrir spámenn þína.“ (Nehemía 9:30) Margir innblásnir spádómar, sem þessir spámenn báru fram, voru skráðir. Heilagur andi kom enn fremur trúföstum mönnum til að skrifa niður helgar frásagnir og hjartnæma lofsöngva.

10 Páll var að ræða um öll þessi ritverk þegar hann sagði: „Sérhver ritning er innblásin af Guði.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16; 2. Samúelsbók 23:2; 2. Pétursbréf 1:20, 21) Þegar lærisveinar Jesú á fyrstu öldinni vitnuðu í þessar ritningar, notuðu þeir einmitt oft orðfæri eins og „heilagur andi sagði fyrir munn Davíðs,“ „heilagur andi mælti . . . fyrir munn Jesaja spámanns,“ eða einfaldlega „heilagur andi segir.“ (Postulasagan 1:16; 4:25; 28:25, 26; Hebreabréfið 3:7) Það er mikil blessun að sá sami heilagi andi og hafði áhrif á ritun Heilagrar ritningar, skuli hafa varðveitt hana til að hún gæti leiðbeint okkur og hughreyst nú á tímum — 1. Pétursbréf 1:25.

Traust lagt á heilagan anda

11. Hvaða starfsemi andans sást í sambandi við gerð samfundatjaldsins?

11 Á meðan Ísraelsmenn voru með tjaldbúðir sínar við rætur Sínaífjalls fyrirskipaði Jehóva þeim að reisa samfundatjald sem miðstöð sannrar tilbeiðslu. Hvernig gæti þeim tekist það? „Móse sagði við Ísraelsmenn: ‚Sjáið, [Jehóva] hefir kvatt til Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl og fyllt hann Guðs anda, bæði vísdómi, skilningi, kunnáttu og hver konar hagleik.‘“ (2. Mósebók 35:30, 31) Heilagur andi efldi hverja þá náttúrlegu hæfileika sem Besalel bjó yfir og hann gat með góðum árangri haft umsjón með gerð þessarar merkilegu tjaldbúðar.

12. Hvernig styrkti andinn einstaklinga á óvenjulega vegu eftir daga Móse?

12 Seinna meir kom heilagur andi yfir Samson og gaf honum ofurmannlegan styrk sem gerði honum kleift að frelsa Ísraelsmenn frá Filistum. (Dómarabókin 14:5-7, 9; 15:14-16; 16:28-30) Enn síðar var Salómon veitt sérstök viska sem konungur útvalinnar þjóðar Guðs. (2. Kroníkubók 1:12, 13) Undir hans stjórn döfnuðu Ísraelsmenn sem aldrei fyrr og þetta hamingjuríka ástand varð fyrirmynd að þeim blessunum sem fólk Guðs mun njóta undir stjórn þúsund ára ríkis Jesú Krists, hins meiri Salómons. — 1. Konungabók 4:20, 25, 29-34; Jesaja 2:3, 4; 11:1, 2; Matteus 12:42.

13. Hvernig eru frásögurnar af því hvernig andinn styrkti Besalel, Samson og Salómon, okkur til uppörvunar nú á dögum?

13 Hvílík blessun veitist okkur að Jehóva skuli láta þennan sama anda standa okkur til boða. Þegar okkur finnst við ekki geta ráðið við verkefni sem okkur er falið eða tekið þátt í prédikunarstarfinu, getum við beðið Jehóva að gefa okkur sama andann og hann gaf Besalel. Þegar við erum sjúk eða þolum ofsóknir mun sami andinn og gaf Samson óvenjulegan styrk, styrkja okkur — þó ekki, að sjálfsögðu, með kraftaverki. Og þegar við stöndum frammi fyrir erfiðu vandamáli eða þurfum að taka mikilvægar ákvarðanir getum við beðið Jehóva, sem gaf Salómon óvenjumikla visku, að hjálpa okkur að breyta viturlega. Þá munum við segja eins og Páll: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ (Filippíbréfið 4:13) Og loforð Jakobs mun eiga við um okkur: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.“ — Jakobsbréfið 1:5.

14. Hverja hefur heilagur andi stutt bæði að fornu og nýju?

14 Andi Jehóva var einnig yfir Móse í starfi hans að dæma þjóðina. Þegar aðrir voru útnefndir til að hjálpa Móse sagði Jehóva: „Ég vil taka af anda þeim, sem yfir þér er, og leggja yfir þá, svo að þeir beri með þér byrði fólksins og þú berir hana ekki einn.“ (4. Mósebók 11:17) Þessir menn þurftu þannig ekki að starfa í eigin mætti. Heilagur andi studdi þá. Við lesum að við önnur tækifæri síðar hafi andi Jehóva verið yfir öðrum einstaklingum. (Dómarabókin 3:10, 11; 11:29) Þegar Samúel smurði Davíð sem framtíðarkonung Ísraels segir frásagan: „Þá tók Samúel olíuhornið og smurði hann mitt á meðal bræðra hans. Og andi [Jehóva] kom yfir Davíð upp frá þeim degi.“ (1. Samúelsbók 16:13) Þeim sem núna bera þunga ábyrgð — vegna fjölskyldu, innan safnaðarins eða skipulagsins — er hughreysting í að vita að andi Guðs styður enn þjóna hans er þeir sjá um skyldustörf sín.

15. Á hvaða hátt hefur heilagur andi styrkt skipulag Jehóva (a) á dögum Haggaí og Sakaría? og (b) nú á dögum?

15 Um þúsund árum eftir að Móse var uppi sneru trúfastir einstaklingar meðal Ísraelsbarna aftur til Jerúsalem frá Babýlon með umboð til að endurreisa musterið. (Esra 1:1-4; Jeremía 25:12; 29:14) Erfiðar hindranir urðu þó á leið þeirra og þá skorti kjark til verksins í mörg ár. Að lokum vakti Jehóva upp spámennina Haggaí og Sakaría til að hvetja Gyðingana til að reiða sig ekki á eigin styrk. En hvernig mátti fullgera verkið? „Ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda minn! — segir [Jehóva] allsherjar.“ (Sakaría 4:6) Og með stuðningi anda Guðs var musterið byggt. Fólk Guðs nú á tímum hefur á svipaðan hátt komið miklu til leiðar. Prédikun fagnaðarerindisins hefur náð hringinn í kringum jörðina. Milljónir einstaklinga fá fræðslu um sannleika og réttlæti. Mót eru skipulögð. Reistir eru Ríkissalir og deildarskrifstofur. Mikið af þessu hefur verið gert þrátt fyrir að við harðar ofsóknir væri að stríða. En vottar Jehóva hafa ekki misst kjarkinn, vitandi að hvaðeina sem þeir hafa komið til leiðar hefur þeim ekki tekist með valdi né mannlegum krafti, heldur fyrir anda Guðs.

Andi Guðs á fyrstu öldinni

16. Hvaða reynslu höfðu þjónar Jehóva fyrir daga kristninnar af starfsemi anda Guðs?

16 Eins og við höfum séð gerðu þjónar Guðs fyrir daga kristninnar sér fulla grein fyrir því afli sem andi Guðs bjó yfir. Þeir treystu á hann sér til hjálpar við að rækja erfiðar skyldur og gera vilja Guðs. Þeir vissu líka að lögmálið og önnur helg ritverk voru innblásin, rituð undir áhrifum frá anda Jehóva, og voru þannig ‚orð Guðs.‘ (Sálmur 119:105) En hvað þá þegar kristnin var komin til sögunnar?

17, 18. Nefndu nokkur dæmi um hvernig andinn birtist með kraftaverkum eftir að kristnin komst á og hver var tilgangur þeirra?

17 Andi Guðs starfaði einnig á stórkostlegan hátt á fyrstu öld okkar tímatals. Menn báru fram spádóma innblásnir af andanum. (1. Korintubréf 14:1, 3) Margar bækur voru ritaðar undir áhrifum heilags anda og þannig uppfylltist loforð Jesú um að heilagur andi myndi minna lærisveina hans á allt það sem hann hafði sagt og myndi kenna þeim enn fleiri hliðar sannleikans. (Jóhannes 14:26; 15:26, 27; 16:12, 13) Og kraftaverk áttu sér stað eins og rætt verður nánar í næstu grein okkar. Við upphaf fyrstu aldarinnar gerðist einmitt eftirtektarvert kraftaverk. Alveg einstakt barn átti að fæðast um það bil árið 2 f.o.t. og sem tákn átti hin unga móðir þess að vera mey. Hvernig gat það verið? Fyrir tilverknað heilags anda. Frásagan segir: „Fæðing Jesú Krists varð með þessum atburðum: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman, reyndist hún þunguð af heilögum anda.“ — Matteus 1:18; Lúkas 1:35, 36.

18 Þegar Jesús óx upp rak hann út illa anda, læknaði sjúka og reisti jafnvel upp dána með krafti heilags anda. Sumir fylgjenda hans gerðu einnig kraftaverk og máttarverk. Þessir sérstöku hæfileikar voru gjafir andans. Hver var tilgangur þeirra? Alveg eins og fyrri kraftaverk höfðu gert stuðluðu þau að framgangi fyrirætlunar Guðs og opinberuðu mátt hans. Enn fremur sýndu þau að sú fullyrðing Jesú að hann væri sendur af Guði var sönn; og síðar sönnuðu þau að kristni söfnuðurinn á fyrstu öldinni var útvalin þjóð Guðs. — Matteus 11:2-6; Jóhannes 16:8; Postulasagan 2:22; 1. Korintubréf 12:4-11; Hebreabréfið 2:4; 1. Pétursbréf 2:9.

19. Hvernig styrkja frásagnir Biblíunnar af kraftaverkum Jesú og postula hans trú okkar?

19 Páll postuli sagði hins vegar að slík kraftaverk til að opinbera andann tilheyrðu bernsku safnaðarins og myndu líða undir lok, þannig að nú á tímum sjáum við ekki heilagan anda vinna slík kraftaverk. (1. Korintubréf 13:8-11) Aftur á móti hafa kraftaverkin, sem Jesús og postular hans gerðu, meira en aðeins sögulegt gildi. Þau styrkja trú okkar á loforð Guðs um að veikindi og dauði muni ekki fyrirfinnast undir stjórn Jesú í nýja heiminum. — Jesaja 25:6-8; 33:24; 65:20-24.

Njótum góðs af heilögum anda Guðs

20, 21. Hvernig getum við nýtt okkur þá ráðstöfun sem heilagur andi er?

20 Hvílíkt afl er ekki þessi andi. En hvernig geta kristnir menn nú á dögum notfært sér hann? Í fyrsta lagi sagði Jesús að við ættum að biðja um andann og er því ekki rétt að gera einmitt það? Biddu Jehóva að gefa þér þessa stórkostlegu gjöf, ekki aðeins þegar þú ert undir álagi heldur við hvert tækifæri. Að auki skalt þú lesa Biblíuna til þess að heilagur andi geti talað til þín. (Samanber Hebreabréfið 3:7.) Hugleiddu það sem þú lest og heimfærðu það á þig til þess að heilagur andi geti verið áhrifavaldur í lífi þínu. (Sálmur 1:1-3) Hafðu enn fremur samneyti — persónulega, í söfnuðunum og á mótum — við aðra sem treysta á anda Guðs. Heilagur andi veitir ríkulegan þrótt þeim sem lofa Guð sinn „á hátíðarsamkundum“! — Sálmur 68:27.

21 Er Jehóva ekki örlátur Guð? Hann segir að við þurfum aðeins að biðja um heilagan anda og hann muni gefa okkur hann. Það væri sannarlega heimskulegt að reiða sig á eigin visku og styrk þegar svo öflug hjálp er handbær. Það eru á hinn bóginn önnur atriði í tengslum við anda Guðs er hafa áhrif á okkur sem kristna menn, og þau verða rædd í næstu grein.

[Neðanmáls]

a Orðin „Guðs fingur“ vísa venjulega til heilags anda. — Samanber Lúkas 11:20 og Matteus 12:28.

b Meirihluti þeirra kraftaverka, sem skráð eru í Biblíunni, gerðust á dögum Móse og Jósúa, Elía og Elísa og Jesú og postula hans.

Getur þú svarað eftirfarandi spurningum?

◻ Hvernig skapaði Jehóva allt efni í alheiminum?

◻ Eftir hvaða leiðum starfaði heilagur andi fyrir daga kristninnar?

◻ Hvernig hughreystir það okkur nú á dögum að vita hvað heilagur andi gerði forðum daga?

◻ Hvernig getum við nýtt okkur þá ráðstöfun sem heilagur andi er?

[Mynd á blaðsíðu 23]

Sá andi sem gaf Samson ofurmannlegt afl getur gefið okkur styrk til allra hluta.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila