Vikan sem breytti heiminum
„Blessaður sé sá sem kemur, í nafni [Jehóva]!“ — MATTEUS 21:9.
1. Hvaða tvo ólíka hópa höfðu atburðirnir í ágúst síðastliðnum áhrif á?
„ÞRÍR SKELFILEGIR DAGAR SEM SKÓKU HEIMINN.“ Fyrirsagnir eins og þessi í fjölmiðlum í ágústmánuði 1991 undirstrikuðu þá staðreynd að á örfáum dögum er hægt að setja heiminn á annan endann. Síðustu dagarnir í ágúst voru svo sannarlega viðburðaríkir, ekki aðeins fyrir heiminn heldur einnig fyrir þann hóp manna sem Jesús sagði um: „Þeir eru ekki af heiminum.“ Þessi hópur er þekktur nú á tímum sem vottar Jehóva. — Jóhannes 17:14.
2, 3. (a) Hvernig var í Zagreb lögð áhersla á frelsi þrátt fyrir óveðursský? (b) Hvaða umbun fékk sterk trú í Odessa?
2 Fyrsta alþjóðamótið, sem vottar Jehóva höfðu nokkru sinni áformað að halda í Júgóslavíu, hafði verið tímasett 16. til 18. ágúst, og eins og málin skipuðust myndi þetta einnig verða fyrsta stórmót votta Jehóva í landi sem rambaði á barmi borgarastyrjaldar. Í tvo mánuði höfðu vottar Jehóva í því landi, ásamt sjálfboðaliðum frá nágrannalöndunum, unnið hörðum höndum við endurbætur á HAŠK Građanski knattspyrnuleikvanginum í Zagreb sem kalla mátti algjöra andlitslyftingu. Hann var tandurhreinn, kjörinn vettvangur fyrir mótið „Unnendur frelsis sem Guð gefur.“ Þúsundir manna erlendis frá ætluðu sér að sækja mótið, þar með taldir 600 gestir frá Bandaríkjunum. Þegar óveðursskýin tók að draga upp á himininn sögðu menn sín á milli: „Ameríkanarnir munu aldrei koma.“ En þeir létu sig ekki vanta frekar en mótsgestir frá mörgum öðrum löndum. Búist hafði verið við 10.000 gestum en 14.684 voru á leikvanginum lokadaginn. Allir nutu ríkulegrar blessunar vegna þess að þeir ‚vanræktu það ekki að safnast saman.‘ — Hebreabréfið 10:25.
3 Næstu þrjá daga eftir mótið í Zagreb var gerð misheppnuð valdaránstilraun í Sovétríkjunum. Í þann mund voru unnendur frelsis sem Guð gefur að leggja síðustu hönd á undirbúning móts í Odessa í Úkraínu. Yrði hægt að halda mótið? Með óhagganlegri trú ráku bræðurnir smiðshöggið á algjörar endurbætur á leikvanginum og mótsgestirnir héldu áfram að streyma að. Eins og fyrir kraftaverk rann valdaránið út í sandinn. Ánægjulegt mót var haldið 24. og 25. ágúst og sóttu það 12.115 og 1943 — 16 af hundraði mótsgesta þegar flestir voru — létu skírast. Þessir nýju vottar, svo og þeir sem sýnt höfðu trúfesti um áraraðir, fögnuðu því að hafa komið til þessa móts í fullu trausti til Jehóva. — Orðskviðirnir 3:5, 6.
4. Hvaða fyrirmynd, sem Jesús gaf, hafa vottarnir í Austur-Evrópu fylgt?
4 Þessir trúföstu vottar voru að fylgja hinni miklu fyrirmynd okkar, Jesú Kristi. Aldrei lét hann undir höfuð leggjast að sækja þær hátíðir sem Jehóva hafði boðið, jafnvel ekki þegar Gyðingarnir leituðu færis á að drepa hann. Er hann kom upp til Jerúsalem til síðustu páskahátíðar sinnar stóðu þeir hér og þar í musterinu og spurðu: „Hvað haldið þér? Skyldi hann ekki koma til hátíðarinnar?“ (Jóhannes 11:56) En hann kom svo sannarlega! Þar með voru lagðar línurnar að viku sem náði hámarki með umskiptum í mannkynssögunni. Ættum við að rifja núna upp nokkra helstu atburði þessarar viku — 8. til 14. nísan samkvæmt tímatali Gyðinga?
8. nísan
5. Hvað var Jesú kunnugt um er hann ferðaðist til Betaníu 8. nísan árið 33?
5 Þennan dag koma Jesús og lærisveinar hans til Betaníu. Þar mun Jesús dvelja sex nætur á heimili síns ástkæra vinar, Lasarusar, sem hann hefur nýlega reist upp frá dauðum. Betanía er nálægt Jerúsalem. Jesús hefur þegar sagt lærisveinum sínum einslega: „Nú förum vér upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða og framselja hann heiðingjum, að þeir hæði hann, húðstrýki og krossfesti. En á þriðja degi mun hann upp rísa.“ (Matteus 20:18, 19) Jesú er fullljóst að hann verður núna að þola kvalafull réttarhöld. En þó að sú stund, þegar hann verður prófreyndur til hins ýtrasta, nálgist sparar hann hvergi krafta sína við að þjóna bræðrum sínum. Megum við alltaf vera „með sama hugarfari sem Jesús Kristur var.“ — Filippíbréfið 2:1-5; 1. Jóhannesarbréf 3:16.
9. nísan
6. Hvað gerði María og hvað sagði Jesús við Júdas að kvöldi hins 9. nísan?
6 Þegar sól er sest, og því runninn upp 9. nísan, neytir Jesús kvöldverðar á heimili Símonar sem verið hafði líkþrár. Það er þar sem María, systir Lasarusar, hellir dýrmætri ilmolíu á höfuð og fætur Jesú og þerrar í auðmýkt fætur hans með hári sínu. Þegar Júdas hreyfir mótmælum segir Jesús: „Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns.“ Þegar æðstu prestarnir heyra að margir Gyðingar fari til Betaníu og trúi á Jesú leggja þeir á ráðin um að drepa hann og Lasarus. — Jóhannes 12:1-7.
7. Hvernig var nafn Jehóva heiðrað að morgni hins 9. nísan og hverju spáði Jesús?
7 Snemma morguns leggur Jesús af stað til Jerúsalem. Mannfjöldi fer út á móti honum, veifar pálmagreinum og hrópar: „Hósanna! Blessaður sé sá, sem kemur, í nafni [Jehóva], konungur Ísraels!“ Jesús uppfyllir síðan spádóminn í Sakaría 9:9 með því að fara ríðandi á asna upp til borgarinnar. Er hann nálgast Jerúsalem grætur hann yfir henni og segir fyrir að Rómverjar muni gera virki um borgina með oddhvössum staurum og eyða henni algerlega — spádómur sem uppfylltist á áhrifaríkan hátt 37 árum síðar. (Þetta boðar einnig illt fyrir kristna heiminn sem þekkja má af sams konar fráhvarfi og einkenndi Jerúsalem til forna.) Leiðtogar Gyðinga vilja ekki Jesú sem konung sinn og segja reiðilega: „Allur heimurinn eltir hann.“ — Jóhannes 12:13, 19.
10. nísan
8. Hvernig sýndi Jesús hinn 10. nísan djúpa virðingu fyrir bænahúsi Jehóva og hvað fylgdi í kjölfarið?
8 Jesús fer aftur til musterisins. Í annað sinn rekur hann út ágjarna kaupmenn og víxlara. Kaupsýsluhyggjan — „fégirndin“ — skyldi ekki taka völdin í bænahúsi Jehóva! (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Jesús mun brátt deyja. Hann líkir því við að sá hveitifræi. Fræið deyr en það spírar og upp af því vex stilkur sem gefur af sér mikið hveiti. Á sama hátt mun dauði Jesú verða til þess að sá fjöldi fólks, sem iðkar trú á hann, öðlast eilíft líf. Jesú er órótt af tilhugsuninni um dauðann sem nálgast og hann biður um að sá dauði megi verða nafni föður hans til dýrðar. Guð svarar með þrumuraust frá himni svo allir viðstaddir geti heyrt: „Ég hef gjört það dýrlegt og mun enn gjöra það dýrlegt.“ — Jóhannes 12:27, 28.
11. nísan — annasamur dagur
9. (a) Hvernig notaði Jesús dæmisögur árdegis þann 11. nísan til að fordæma hina fráhorfnu Gyðinga? (b) Hverjir hafa, út frá dæmisögu Jesú, misst af stórfenglegu tækifæri?
9 Jesús og lærisveinar hans fara aftur frá Betaníu til að starfa heilan dag. Jesús segir þrjár dæmisögur til að sýna hvers vegna hin fráhorfna Gyðingaþjóð er fordæmd. Á leiðinni formælir hann ávaxtalausu fíkjutré og færir þannig í myndrænan búning fordæmingu sína á trúlausri og ávaxtalausi Gyðingaþjóðinni. Er hann kemur inn í musterið lýsir hann hvernig óverðugir vínyrkjar að lokum drepa jafnvel son og erfingja víngarðseigandans — sem er ljóslifandi lýsing á hvernig Gyðingar hafa brugðist trausti Jehóva sem ná mun hámarki er þeir lífláta Jesú. Hann lýsir brúðkaupsveislu sem konungur — Jehóva — heldur en boðsgestirnir (Gyðingar) bera fram sjálfselskufullar afsakanir fyrir að mæta ekki. Þar af leiðandi er þeim sem fyrir utan eru — heiðingjunum — boðið og sumir þeirra koma. En manni, sem reynist ekki búinn brúðkaupsklæðum, er varpað á dyr. Hann er táknmynd um meðlimi kristna heimsins sem ranglega þykjast vera kristnir. Margir Gyðinganna á dögum Jesú voru kallaðir „en fáir útvaldir“ til að vera meðal þeirra 144.000 innsigluðu sem erfa himnaríkið. — Matteus 22:14; Opinberunarbókin 7:4.
10-12. (a) Hvers vegna ávítaði Jesús klerkastétt Gyðinga og hvaða vægðarlausri fordæmingu hellti hann yfir þessa hræsnara? (b) Hvernig var dómi að lokum fullnægt á fráhorfnum Gyðingum?
10 Hræsnisfullir klerkar Gyðinga leita færis á að handtaka Jesú en hann svarar mörgum spurninganna sem þeir reyna að veiða hann með og gerir þá orðlausa fyrir framan lýðinn. Ó, þessir sviksömu trúarleiðtogar! Hversu hispurslausar ávítur Jesús veitir þeim! Þeir þrá sárlega að vera fremstir í flokki, bera einkennandi klæðnað og hástemmda titla eins og „rabbí“ og „faðir,“ líkt og margir klerkar á okkar tímum. Jesús setur fram regluna: „Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“ — Matteus 23:12.
11 Jesús fordæmir vægðarlaust þessa trúarleiðtoga. Sjö sinnum lýsir hann yfir: „Vei yður“ og kallar þá blinda leiðtoga og hræsnara. Og í hvert skipti gefur hann greinilega ástæðu fyrir fordæmingunni. Þeir standa í vegi fyrir að menn komist inn í himnaríki. Þegar þeir snara trúskipting tvöfaldast líkurnar á að hann fari í Gehenna, og hefur hann þá líklega þegar verið á glötunarleið vegna fyrri stórsynda eða ofstækis. „Blindu heimskingjar“ segir Jesús af því að farísearnir einblína á gullið í musterinu í stað þess að viðhalda þar hreinni tilbeiðslu. Þeir hafa að engu réttlæti, miskunn og trúfesti er þeir greiða tíund af hinni eftirsóttu myntu, anís og kúmeni en hirða ekki um það sem þýðingarmest er í lögmálinu. Helgisiðaþvottar munu aldrei fjarlægja innri saurugleika þeirra — aðeins hjarta, sem hreinsað er vegna trúar á þá fórn sem Jesús mun senn færa, getur áorkað því. Hræsnin og lögleysið, sem inni fyrir býr, sýnir að ‚hvítþvegið‘ yfirborð er blekking ein. — Matteus 23:13-29.
12 Já, þetta er sannarlega vei fyrir faríseana sem eru í raun „synir þeirra, sem myrtu spámennina“ forðum! Höggormar, nöðru afkvæmi eru þeir, dæmdir til Gehenna, því að þeir munu ekki aðeins drepa Jesú heldur einnig þá sem hann sendir. Þetta er dómur sem koma mun „yfir þessa kynslóð.“ Til að fullnægja honum var Jerúsalem jöfnuð við jörðu 37 árum síðar. — Matteus 23:30-36.
13. Hvaða aðstæður nú á dögum endurspegla athugasemdir Jesú varðandi framlög til musterisins?
13 Áður en Jesús yfirgefur musterið fer hann hrósunarorðum um þurfandi ekkju sem leggur í fjárhirsluna tvo smápeninga — „alla björg sína.“ Hún stingur mjög í stúf við hegðun hinna ágjörnu auðmanna sem leggja aðeins fram fé til málamynda. Eins og þessi þurfandi ekkja fórna vottar Jehóva nú til dags fúslega tíma sínum, kröftum og fjármunum til þess að styðja og auka starf Guðsríkis um allan heim. Þeir eru sannarlega ólíkir þeim siðlausu sjónvarpsprédikurum sem rýja hjarðir sínar inn að skinni og byggja sér sitt eigið fjármálaveldi. — Lúkas 20:45–21:4.
Er dregur að dagslokum 11. nísan
14. Hvaða hryggð lét Jesús í ljós og hvernig svaraði hann frekari fyrirspurn lærisveina sinna?
14 Jesús grætur yfir Jerúsalem og íbúum hennar og kunngerir: „Héðan af munuð þér eigi sjá mig, fyrr en þér segið: ‚Blessaður sé sá sem kemur, í nafni [Jehóva].‘“ (Matteus 23:37-39) Síðar, þegar þeir sitja á Olíufjallinu, spyrja nánustu lærisveinar Jesú hann um þetta og Jesús svarar með því að lýsa tákninu um nærveru sína sem valdhafa Guðsríkis og endalok hins illa heimskerfis Satans. — Matteus 24:1–25:46; Markús 13:1-37; Lúkas 21:5-36.
15. Hvaða táknum skýrði Jesús frá varðandi nærveru hans til að dæma jörðina og síðan hvenær hafa þau komið fram?
15 Jesús vísar til dóms Jehóva sem brátt verður fullnægt á musterinu og gefur til kynna að hann muni verða fyrirmynd um hamfarir seinna þegar komið er að endalokum alls heimskerfisins. Sá nærverutími hans mun einkennast af styrjöldum í meira mæli en nokkru sinni fyrr, svo og hungursneyð, jarðskjálftum og farsóttum, ásamt kærleiksleysi meðal manna og lögleysi. Slíkt hefur vissulega einkennt tuttugustu öldina upp frá 1914!
16, 17. Hvaða framvindu heimsmála lýsti Jesús og hvernig ættu kristnir menn að bregðast við þeim spádómi?
16 Þessi framvinda mun ná hámarki þá er „verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.“ Þar sem tortímingin verður eins mikil og í flóðinu á dögum Nóa varar Jesús fylgjendur sína við því að sökkva sér niður í veraldarvafstur. „Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.“ Það er okkur sannarlega fagnaðarefni að húsbóndinn hefur skipað smurðan ‚trúan og hygginn þjón‘ til að gera heyrinkunnuga viðvörunina og sjá fyrir ríkulegu magni andlegrar fæðu til neyslu á þessum nærverutíma hans. — Matteus 24:21, 42, 45-47.
17 Núna á 20. öldinni höfum við séð „á jörðu angist þjóða, ráðalausra . . . Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina.“ En Jesús segir okkur: „En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.“ Og hann aðvarar okkur: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara.“ Aðeins með því að halda okkur vakandi getum við staðið þóknanleg frammi fyrir Jesú, „Mannssyninum,“ við nærveru hans. — Lúkas 21:25-28, 34-36.
18. Hvaða uppörvun má fá af dæmisögum Jesú um meyjarnar tíu og talenturnar?
18 Jesús lýkur meistaralegri lýsingu sinni á atburðarásinni á okkar dögum með því að segja þrjár skýringarsögur. Fyrst, í dæmisögunni um meyjarnar tíu, leggur hann aftur áherslu á nauðsyn þess að ‚vaka.‘ Síðan, í dæmisögunni um þjónana og talenturnar, sýnir hann hvernig dugnaður er launaður með boði um að ‚ganga inn í fögnuð herrans.‘ Smurðir kristnir menn, sem þessar dæmisögur eiga við, svo og hinir aðrir sauðir, geta sótt mikla uppörvun í þetta myndmál. — Matteus 25:1-30.
19, 20. Hvaða dásamlegu tengsl nú á tímum eru dregin fram í dæmisögu Jesú af sauðunum og höfrunum?
19 Þriðja dæmisagan vísar til nærveru Jesú sem valdhafa Guðsríkis eftir að hann kemur til að setjast í dýrlegt hásæti sitt á himni. Það er tíminn til að dæma þjóðirnar og til að skipta fólkinu á jörðinni í tvo hópa. Í öðrum hópnum eru auðmjúkir og sauðumlíkir menn en í hinum þrjóskir menn er líkjast geithöfrum. Sauðirnir gera sér sérstakt far um að sýna að þeir styðji bræður konungsins — þá smurðu sem eftir eru á jörðinni við endi veraldar. Sauðunum er umbunað með lífi en hinir vanþakklátu geithafrar fara burt til eilífrar eyðingar. — Matteus 25:31-46.
20 Sannarlega eru stórkostleg tengslin sem við sjáum milli hinna annarra sauða og bræðra konungsins núna við endalok þessa heimskerfis. Þó að smurðu leifarnar hafi borið hitann og þungann af starfinu við upphaf nærveru konungsins eru hinir kostgæfu aðrir sauðir 99,8 prósent þjóna Guðs á jörðinni núna, enda skipta þeir milljónum. (Jóhannes 10:16) Og þeir hafa einnig sýnt sig fúsa til að þola ‚hungur, þorsta, nekt, sjúkdóma og fangelsisvist‘ sem félagar hinna trúföstu smurðu kristnu manna.a
12. nísan
21. Á hvað komst skriður hinn 12. nísan og hvers vegna?
21 Aukinn skriður kemst nú á samsærið um að lífláta Jesú. Júdas hittir að máli æðstu prestana í musterinu og samþykkir að svíkja Jesú fyrir 30 silfurpeninga. Jafnvel þessu hafði verið spáð. — Sakaría 11:12.
13. nísan
22. Hvaða undirbúningur fór fram 13. nísan?
22 Jesús, sem heldur kyrru fyrir í Betaníu, líklega til að biðja og hugleiða, sendir lærisveina sína inn í Jerúsalem til „ákveðins manns.“ Í stórri loftstofu í húsi þessa manns búa þeir nú til páskamáltíðar. (Matteus 26:17-19) Er sólin sest hinn 13. nísan kemur Jesús þar saman með þeim til afdrifaríkustu hátíðahalda í allri mannkynssögunni. Hvað gerist þann 14. nísan? Það kemur fram í næstu grein.
[Neðanmáls]
a Eftirfarandi grein ætti að hjálpa okkur að meta enn betur hin nánu tengsl milli litlu smurðu hjarðarinnar og þeirra sem eru aðrir sauðir.
Hvernig svarar þú?
◻ Hvers konar gestrisni og móttökur veittu sumir Jesú dagana 8. til 10. nísan?
◻ Hvernig afhjúpaði Jesús hræsnisfulla klerkastéttina hinn 11. nísan?
◻ Hvaða mikla spádóm bar Jesús fram og hvernig uppfyllist hann nú á tímum?
◻ Hvernig stefndu atburðirnir 12. og 13. nísan að ákveðnu hámarki?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Jesús fór hrósunarorðum um fátæku ekkjuna sem gaf tvo smápeninga — aleigu sína.