Er hjónaband eini lykill hamingjunnar?
„Henni [er] frjálst að giftast hverjum sem hún vill, aðeins að það sé í Drottni. Þó er hún sælli, ef hún heldur áfram að vera eins og hún er.“ — 1. KORINTUBRÉF 7:39, 40.
1. Hvernig lýsir Ritningin Jehóva og hvað hefur hann gert fyrir sköpunarverur sínar?
JEHÓVA er ‚hinn sæli Guð.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:11, Bi. 1912) Sem hinn örláti gjafari ‚allra góðra gjafa og sérhverrar fullkominnar gáfu‘ hefur hann gefið öllum skynsemigæddum sköpunarverum sínum — mönnum og andaverum — nákvæmlega það sem þær þurfa til að vera hamingjusamar í þjónustu hans. (Jakobsbréfið 1:17) Fugl, sem syngur af hjartans lyst, ærslafullur hvolpur eða galsafullur höfrungur bera öll vitni um að Jehóva skapaði dýrin líka til að njóta tilverunnar hvert í sínu umhverfi. Sálmaritarinn gengur jafnvel svo langt að segja á ljóðmáli að ‚tré Jehóva mettist, sedrustrén á Líbanon, er hann hefur gróðursett.‘ — Sálmur 104:16.
2. (a) Hvað sýnir að Jesús hefur yndi af því að gera vilja föður síns? (b) Hvaða ástæður höfðu lærisveinar Jesú til að vera hamingjusamir?
2 Jesús er ‚ímynd veru Jehóva.‘ (Hebreabréfið 1:3) Það kemur því ekki á óvart að Jesús skuli kallaður „hinn sæli og eini alvaldur.“ (1. Tímóteusarbréf 6:15, Bi. 1912) Hann gefur okkur afbragðsfordæmi um hvernig það að gera vilja Guðs getur satt manninn enn meira en matur, verið honum til stórkostlegs yndis. Jesús sýnir okkur líka að það geti verið til ánægju að ganga fram í ótta Guðs, það er að segja í djúpri lotningu og heilnæmum ótta við að misþóknast honum. (Sálmur 40:9; Jesaja 11:3; Jóhannes 4:34) Þegar 70 lærisveinar Jesú komu aftur til hans „með fögnuði“ eftir prédikunarferð um Guðsríki varð hann sjálfur „glaður í heilögum anda.“ Eftir að hafa tjáð föður sínum gleði sína í bæn sneri hann sér að lærisveinunum og sagði: „Sæl eru þau augu, sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það sem þér heyrið, en heyrðu það ekki.“ — Lúkas 10:17-24.
Tilefni til gleði
3. Nefndu nokkrar ástæður til hamingju.
3 Ættu ekki augu okkar að vera sæl, hamingjusöm, að sjá það sem við sjáum sem uppfyllingu orðs Jehóva og tilgangs núna á endalokatímanum? Ættum við ekki að vera yfir okkur glöð að skilja spádóma er trúfastir spámenn og konungar fortíðar, svo sem Jesaja, Daníel og Davíð, gátu ekki skilið? Erum við ekki hamingjusöm að þjóna hamingjusömum Guði, Jehóva, undir forystu hins sæla einvalds, konungs okkar Jesú Krists? Auðvitað erum við það!
4, 5. (a) Hvað verðum við að forðast til að vera hamingjusöm í þjónustu Jehóva? (b) Nefndu nokkur atriði sem stuðla að hamingju. Hvað spurningar vekur það?
4 Ef við viljum varðveita hamingju okkar í þjónustu Jehóva verðum við að gæta þess að byggja ekki á forsendum heimsins fyrir því hvað þurfi til að vera hamingjusamur. Þær gætu hæglega gert hugsun okkar óskýra því að þær taka mið af efnislegum auði, áberandi lífsstíl og því um líku. Sérhver „hamingja“ byggð á slíkum hlutum verður skammlíf því að þessi heimur er að líða undir lok. — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.
5 Flestir vígðir þjónar Jehóva gera sér grein fyrir að sönn hamingja fæst ekki með því að ná veraldlegum markmiðum. Enginn nema himneskur faðir okkar sér fyrir andlegum og efnislegum hlutum sem stuðla að sannri hamingju þjóna hans. Við erum sannarlega þakklát fyrir andlegu fæðuna sem hann gefur okkur fyrir milligöngu ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45-47) Við erum líka þakklát fyrir líkamlega fæðu og aðra efnislega hluti sem við fáum af elskuríkri hendi Guðs. Þá er einnig að nefna hina dásamlegu gjöf sem hjónabandið er og gleði fjölskyldulífs sem því er tengd. Engin furða er að Naomí skuli hafa óskað tengdadætrum sínum, sem höfðu misst menn sína, eftirfarandi: „[Jehóva] gefi ykkur, að þið megið finna athvarf hvor um sig í húsi manns síns.“ (Rutarbók 1:9) Hjónaband er því lykill sem getur lokið upp dyrum mikillar hamingju. En er hjónaband eini lykill hamingjunnar? Sérstaklega ungt fólk þarf að yfirvega hvort svo sé.
6. Hver var megintilgangurinn með hjónabandinu samkvæmt 1. Mósebók?
6 Biblían segir um upphaf hjónabandsins: „Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu. Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: ‚Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna.‘“ (1. Mósebók 1:27, 28) Með því að Jehóva stofnaði hjónabandið var Adam notaður til að geta af sér fleiri menn og fjölga þannig mannkyninu. En hjónaband er miklu meira en það.
‚Aðeins í Drottni‘
7. Hvaða kröfur varðandi hjónaband lagði trúfastur ættfaðir mikið á sig til að uppfylla?
7 Úr því að Jehóva er höfundur hjónabandsins megum við búast við að hann setji staðla um hjónabandið sem stuðla að hamingju þjóna hans. Á ættfeðratímanum var eindregið latt til þess að stofna til hjúskapar við þá sem ekki dýrkuðu Jehóva. Abraham lét Elíeser þjón sinn vinna sér eið að því við Jehóva að taka Ísak syni hans ekki konu af dætrum Kanaaníta. Elíeser lagði upp í langa ferð og fylgdi samviskusamlega fyrirmælum Abrahams til að finna ‚þá konu sem Jehóva hefði fyrirhugað syni húsbónda hans.‘ (1. Mósebók 24:3, 44) Þannig fékk Ísak Rebekku fyrir konu. Er Esaú sonur þeirra kaus sér eiginkonur meðal hinna heiðnu Hetíta „var þeim Ísak og Rebekku sár skapraun að þeim.“ — 1. Mósebók 26:34, 35; 27:46; 28:1, 8.
8. Hvaða hömlur setti lagasáttmálinn um hjónaband og hvers vegna?
8 Undir lagasáttmálanum var bannaður hjúskapur við karla eða konur af tilgreindum kanverskum þjóðum. Jehóva gaf þjóð sinni eftirfarandi fyrirmæli: „Eigi skalt þú mægjast við þær. Þú skalt hvorki gefa sonum þeirra dætur þínar né heldur taka dætur þeirra til handa sonum þínum. Því að þær mundu snúa sonum þínum frá hlýðni við mig og koma þeim til að dýrka aðra guði. Mundi reiði [Jehóva] þá upptendrast í gegn yður og hann eyða þér skyndilega.“ — 5. Mósebók 7:3, 4.
9. Hvaða heilræði um hjónaband gefur Biblían kristnum mönnum?
9 Það er því ekkert undarlegt að innan kristna safnaðarins skuli gilda áþekkar hömlur á hjónaband við þá sem ekki dýrka Jehóva. Páll postuli áminnti kristna bræður sína: „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Hvaða samfélag hefur ljós við myrkur? Hver er samhljóðan Krists við Belíar? Hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum?“ (2. Korintubréf 6:14, 15) Þessi heilræði eiga við á ýmsa vegu og eiga tvímælalaust við um hjónaband. Hin skýru fyrirmæli Páls til allra vígðra þjóna Jehóva eru þau að þeir ættu því aðeins að hugleiða að giftast einhverjum „að það sé í Drottni.“ — 1. Korintubréf 7:39.
Þegar ekki er hægt að giftast „í Drottni“
10. Hvað gera margir ógiftir kristnir menn og hvaða spurning vaknar?
10 Margir einhleypir kristnir menn hafa kosið að fylgja fordæmi Jesú Krists með því að rækta þá gjöf að vera einhleypir. Einnig hefur mörgum drottinhollum kristnum mönnum ekki tekist, enn sem komið er, að finna sér guðrækinn maka til að geta gifst „í Drottni,“ og hafa því sett traust sitt á Jehóva og haldið áfram að vera einhleypir í stað þess að giftast einhverjum sem ekki er í trúnni. Andi Guðs þroskar hjá þeim ávexti svo sem gleði, frið, trú og sjálfstjórn þannig að þeir geti haldið sér hreinum sem einhleypingar. (Galatabréfið 5:22, 23) Í hópi þeirra sem standast með ágætum þetta hollustupróf við Guð eru talsvert margar af kristnum systrum okkar, og við metum þær mjög mikils. Víða um lönd eru þær fleiri en bræðurnir og eiga því drjúgan þátt í prédikunarstarfinu. Svo sannarlega „lætur [Jehóva] orð sín rætast, konurnar sem sigur boða eru mikill her.“ (Sálmur 68:12) Margir ógiftir þjónar Guðs af báðum kynjum varðveita ráðvendni vegna þess að þeir ‚treysta Jehóva af öllu hjarta og hann gerir stigu þeirra slétta.‘ (Orðskviðirnir 3:5, 6) En er óhjákvæmilegt að þeir sem geta ekki sem stendur gifst „í Drottni“ séu óhamingjusamir?
11. Hverju geta kristnir menn, sem halda sér einhleypum vegna virðingar fyrir meginreglum Biblíunnar, treyst?
11 Við skulum muna að við erum vottar hins hamingjusama Guðs, Jehóva, og að við þjónum undir umsjón hins sæla höfðingja, Krists Jesú. Er þá rökrétt að halda að Jehóva og Kristur láti kristinn einstakling vera óhamingjusaman ef hann er einhleypur vegna þess að hann getur ekki, vegna virðingar sinnar fyrir skýrum ákvæðum í Biblíunni, fundið sér maka „í Drottni“? Vissulega ekki. Við hljótum því að draga þá ályktun að það sé hægt að vera hamingjusamur ógiftur. Jehóva getur veitt okkur sanna hamingju hvort sem við erum í hjónabandi eða ekki.
Lykill sannrar hamingju
12. Hvaða vísbending um hjónaband er fólgin í því sem óhlýðnir englar gerðu?
12 Hjónaband er ekki eini lykill hamingjunnar fyrir alla þjóna Guðs. Lítum á englana sem dæmi. Fyrir flóðið ræktuðu sumir englar með sér langanir sem voru óeðlilegar fyrir andaverur. Þeir urðu óánægðir með að þeir skyldu ekki geta gengið í hjónaband og gerðu sér líkama af holdi til að geta tekið sér eiginkonur. Þar eð þessir englar „yfirgáfu eigin bústað“ hefur Guð geymt þá „í myrkri . . . í ævarandi fjötrum til dóms hins mikla dags.“ (Júdasarbréfið 6; 1. Mósebók 6:1, 2) Ljóst er að Guð ætlaði englunum aldrei að giftast. Hjónaband getur því hreinlega ekki verið lykillinn að hamingju þeirra.
13. Hvers vegna eru hinir heilögu englar hamingjusamir og hvað gefur það til kynna fyrir alla þjóna Guðs?
13 Samt sem áður eru hinir trúföstu englar hamingjusamir. Þegar Jehóva lagði undirstöður jarðar ‚sungu morgunstjörnurnar gleðisöng allar saman og allir guðssynir (englarnir) fögnuðu.‘ (Jobsbók 38:7) Hvers vegna eru hinir heilögu englar hamingjusamir? Vegna þess að þeir þjóna Jehóva stöðuglega og ‚heyra hljóminn af orði hans‘ til þess að geta framfylgt því. Þeir hafa yndi af að ‚vera honum til þóknunar.‘ (Sálmur 103:20, 21, sjá NW Ref. Bi. neðanmáls.) Hamingja hinna heilögu engla stafar af trúfastri þjónustu þeirra við Jehóva. Það er lykillinn að sannri hamingju manna líka. Reyndar munu giftir, smurðir kristnir menn, sem þjóna Jehóva hamingjusamir núna, ekki giftast þegar þeir verða reistir upp til lífs á himnum heldur munu þeir vera hamingjusamir í því að gera vilja Guðs sem andaverur. Allir drottinhollir þjónar Jehóva, giftir sem ógiftir, geta því verið hamingjusamir vegna þess að hinn raunverulegi grundvöllur að hamingju þeirra er trúföst þjónusta við skaparann.
„Betra en synir og dætur“
14. Hvaða spádómlegt fyrirheit var guðhræddum geldingum í Forn-Ísrael gefið og hvers vegna kann það að virðast undarlegt?
14 Jafnvel þótt trúfastur kristinn maður giftist aldrei getur Guð tryggt að hann sé hamingjusamur. Leita má uppörvunar í spádómlegum orðum sem beint var til geldinga í Forn-Ísrael: „Svo segir [Jehóva]: Geldingunum, sem halda hvíldardaga mína og kjósa það, sem mér vel líkar, og halda fast við sáttmála minn, þeim vil ég gefa minningarmark og nafn í húsi mínu og á múrveggjum mínum, sem er betra en synir og dætur. Eilíft nafn vil ég gefa þeim, það er aldrei mun afmáð verða.“ (Jesaja 56:4, 5) Ætla mætti að þessum mönnum yrði lofað eiginkonu og börnum til að viðhalda nafni þeirra. En svo var ekki! Þeim var lofað því sem var „betra en synir og dætur,“ það er að segja varanlegu nafni inni í húsi Jehóva.
15. Hvað má segja um uppfyllingu Jesaja 56:4, 5?
15 Ef líta ber á þessa geldinga sem spádómlega táknmynd um „Ísrael Guðs“ þá tákna þeir smurða kristna menn sem hljóta eilífan bústað í andlegu húsi eða musteri Jehóva. (Galatabréfið 6:16) Þessi spádómur uppfyllist vafalaust bókstaflega á guðræknum geldingum í Ísrael til forna sem hljóta upprisu. Ef þeir taka við lausnarfórn Jesú og halda áfram að kjósa það sem Jehóva vel líkar, þá munu þeir fá „eilíft nafn“ í nýjum heimi Jehóva. Það gæti líka átt við þá af hinum ‚öðrum sauðum‘ sem neita sér á endalokatímanum um þá ánægju að ganga í hjónaband og eignast börn, til að geta helgað sig betur þjónustu Jehóva. (Jóhannes 10:16) Sumir þeirra kunna að deyja ógiftir og barnlausir en ef þeir eru trúfastir munu þeir í upprisunni öðlast það sem er „betra en synir og dætur“ — nafn sem „aldrei mun afmáð verða“ í nýja heiminum.
Hjónaband er ekki eini lykill hamingjunnar
16. Hvers vegna er hægt að segja að hjónaband hafi ekki alltaf hamingju í för með sér?
16 Sumum finnst hamingja órjúfanlega tengd hjónabandi. Það verður þó að játa að jafnvel meðal þjóna Jehóva nú á dögum hefur hjónaband ekki alltaf hamingju í för með sér. Það leysir sum vandamál en skapar oft önnur sem geta verið torleystari en þau sem einhleypt fólk á við að glíma. Páll sagði að hjónaband hefði í för með sér ‚þrengingu fyrir holdið.‘ (1. Korintubréf 7:28, Bi. 1912) Fyrir kemur að kvæntur maður eða gift kona er áhyggjufull eða ‚tvískipt.‘ Hann eða hún á oft erfitt með að sýna „óbifanlega fastheldni við Drottin“ án truflunar. — 1. Korintubréf 7:33-35.
17, 18. (a) Frá hverju hafa sumir farandumsjónarmenn skýrt? (b) Hvað ráðlagði Páll og hvers vegna er gagnlegt að fara eftir því?
17 Bæði hjónaband og einhleypi eru gjafir Guðs. (Rutarbók 1:9; Matteus 19:10-12) Til að vera farsæll í hvorri stöðu er viðeigandi umhugsun og bænir nauðsynlegar. Farandumsjónarmenn skýra frá því að margir vottar gangi of ungir í hjónaband og séu oft orðnir foreldrar áður en þeir eru tilbúnir til að axla þá ábyrgð sem því fylgir. Sum slík hjónabönd bresta. Önnur hjón þrauka en hjónabönd þeirra hafa ekki veitt þeim hamingju. Eins og enska leikritaskáldið William Congreve skrifaði gætu þeir sem giftast í flýti þurft að „iðrast í makindum.“
18 Farandumsjónarmenn skýra einnig frá því að sumir ungir bræður veigri sér við að sækja um Betelþjónustu eða að bjóða sig fram til þátttöku í Þjónustuþjálfunarskólanum vegna þeirrar kröfu að vera einhleypir um tíma. En Páll postuli ræður mönnum frá hjónabandi uns ‚blómaskeið æskunnar‘ er hjá, það er að segja að bíða uns dregið hefur úr hinni upphaflegu bylgju kynhvatarinnar. (1. Korintubréf 7:36-38, Bi. 1912) Þau ár, er menn eyða sem fullvaxta einhleypingar, bjóða upp á tækifæri til að afla sér dýrmætrar reynslu og innsæis og setja þá í betri aðstöðu til að velja sér maka eða taka yfirvegaða ákvörðun um að vera einhleypir áfram.
19. Hvernig gætum við litið á málin ef við höfum ekki raunverulega þörf á því að ganga í hjónaband?
19 Sum okkar eru komin af blómaskeiði æskunnar með sinni sterku kynhvöt. Við leiðum kannski stundum hugann að blessun hjónabandsins en höfum í raun hlotið þá gjöf að geta verið einhleyp. Jehóva sér kannski að við þjónum honum með ágætum sem einhleypingar og við þörfnumst þess í raun ekki að vera í hjónabandi sem gæti haft í för með sér að við þyrftum að afsala okkur vissum sérréttindum í þjónustu hans. Ef hjónaband er ekki persónuleg þörf og við höfum ekki hlotið þá blessun að eignast maka kann Guð að geyma okkur eitthvað annað. Við skulum því sýna þá trú að hann muni sjá okkur fyrir því sem við þurfum. Mesta hamingjan kemur af því að þiggja auðmjúk í bragði það sem virðist vera vilji Guðs með okkur, líkt og bræðurnir af hópi Gyðinga ‚stilltust og vegsömuðu Guð‘ er þeir gerðu sér ljóst að hann hefði veitt heiðingjum afturhvarf þannig að þeir gætu öðlast lífið. — Postulasagan 11:1-18.
20. (a) Hvað er kristnum ungmennum ráðlagt hér um einhleypi? (b) Hvaða grundvallaratriði varðandi hamingju stendur óhaggað?
20 Hjónaband getur því verið lykill hamingjunnar þótt það geti líka lokið upp dyrum ýmissa vandamála. Eitt er víst: Hjónaband er ekki eina leiðin til að höndla hamingjuna. Þegar allt er skoðað er þess vegna viturlegt, sérstaklega af kristnum ungmennum, að reyna að höndla það að vera einhleyp í nokkur ár. Slík ár er hægt að nota vel til að þjóna Jehóva og taka andlegum framförum. Óháð aldri eða andlegum framförum heldur þetta undirstöðuatriði þó gildi fyrir alla þá sem eru vígðir Guði skilyrðislaust: Sönn hamingja er fólgin í trúfastri þjónustu við Jehóva.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvers vegna eru þjónar Jehóva hamingjusamir?
◻ Hvers vegna er hjónaband ekki lykillinn að mestu hamingjunni?
◻ Hvers er krafist af þjónum Jehóva varðandi makaval?
◻ Hvers vegna er það rökrétt að kristnir menn, sem eru einhleypir, geti verið hamingjusamir?
◻ Hvað verður að viðurkenna í sambandi við hjónaband og hamingju?