Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.11. bls. 18-22
  • Þjónað sem mannaveiðarar

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Þjónað sem mannaveiðarar
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ‚Að veiða menn lifandi‘
  • Mannaveiðarar
  • Veitt í mannhafinu
  • Mannaveiðar á „Drottins degi“
  • Fjórir lærisveinar kallaðir
    Mesta mikilmenni sem lifað hefur
  • Unnið að mannaveiðum á heimshöfunum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Lífshættir fólks á biblíutímanum – fiskimaðurinn
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2012
  • Eru reknetaveiðar á undanhaldi?
    Vaknið! – 1992
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.11. bls. 18-22

Þjónað sem mannaveiðarar

„Jesús sagði þá við Símon: ‚Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.‘“ — LÚKAS 5:10.

1, 2. (a) Hvaða hlutverki hafa fiskveiðar gegnt í sögu mannkynsins? (b) Hvaða ný tegund fiskveiða var kynnt fyrir nálega 2000 árum?

UM ÞÚSUNDIR ára hefur mannkynið veitt fisk sér til matar í vötnum, ám og höfum jarðar. Fiskur úr Níl var mikilvægur þáttur í mataræði Egypta til forna. Þegar vatninu í Níl var breytt í blóð á dögum Móse liðu Egyptar ekki aðeins vegna vatnsskorts heldur líka vegna þess að fiskurinn dó og þeir misstu þar fæðugjafa. Síðar, þegar Jehóva gaf Ísraelsmönnum lögmálið á Sínaí, sagði hann þeim að vissar tegundir fiskjar mættu þeir eta en aðrar væru óhreinar og óhæfar fyrir þá til átu. Þetta gaf til kynna að Ísraelsmenn myndu neyta fiskjar er þeir kæmu til fyrirheitna landsins, þannig að sumir þeirra yrðu fiskimenn. — 2. Mósebók 7:20, 21; 3. Mósebók 11:9-12.

2 En fyrir tæplega tvö þúsund árum fékk mannkynið að kynnast annars konar fiskveiðum. Þetta voru andlegar veiðar sem ekki aðeins fiskimennirnir myndu njóta góðs af heldur líka fiskurinn! Veiðar af þessu tagi eru enn stundaðar og milljónir manna um allan heim hafa ómetanlegt gagn af.

‚Að veiða menn lifandi‘

3, 4. Hvaða tveir fiskimenn sýndu Jesú Kristi mikinn áhuga?

3 Árið 29 lét Jesús, hann sem átti eftir að kynna þessar nýju veiðar, skírast hjá Jóhannesi skírara í ánni Jórdan. Fáeinum vikum síðar benti Jóhannes tveim af lærisveinum sínum á Jesú og sagði: „Sjá, Guðs lamb.“ Annar þessara lærisveina, sem hét Andrés, var fljótur til að segja Símoni Pétri, bróður sínum: „Við höfum fundið Messías!“ Það er athyglisvert að bæði Andrés og Símon voru fiskimenn að atvinnu. — Jóhannes 1:35, 36, 40, 41; Matteus 4:18.

4 Allnokkru síðar var Jesús að prédika fyrir mannfjölda við Galíleuvatn, skammt þar frá sem Pétur og Andrés bjuggu. Hann sagði fólkinu: „Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.“ (Matteus 4:13, 17) Við getum rétt ímyndað okkur að Pétur og Andrés hafi verið ákafir að heyra boðskap hans. Líklega gerðu þeir sér þó ekki grein fyrir að orð Jesú þennan dag myndu breyta lífi þeirra að eilífu. Enn fremur hefur það sem Jesús átti eftir að segja og gera í áheyrn þeirra mikilvæga þýðingu fyrir okkur öll sem nú lifum.

5. Hvernig gat fiskimaðurinn Pétur veitt Jesú þjónustu?

5 Við lesum: „Nú bar svo til, að hann stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð. Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín.“ (Lúkas 5:1, 2) Á þeim tíma unnu þeir sem höfðu fiskveiðar að atvinnu oft á nóttunni og þessir menn voru að þvo net sín eftir næturveiðina. Jesús ákvað að nota einn af bátum þeirra til að geta prédikað betur fyrir mannfjöldanum. „Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.“ — Lúkas 5:3.

6, 7. Hvaða kraftaverk í sambandi við fiskveiðar vann Jesús og undanfari hvaða yfirlýsingar um fiskveiðar var það?

6 Taktu eftir að Jesús hafði eitthvað fleira í huga en að kenna mannfjöldanum: „Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: ‚Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar.‘“ Munum að þessir fiskimenn höfðu verið að vinna alla nóttina. Það kemur því ekki á óvart að Pétur skyldi svara: „Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin.“ Hvað gerðist þegar þeir lögðu netin? „Fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna. Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir.“ — Lúkas 5:4-7.

7 Jesús hafði gert kraftaverk. Þeir höfðu ekki fengið bröndu úr þessum hluta vatnsins alla nóttina; núna var það fullt af fiski. Þetta kraftaverk hafði sterk áhrif á Pétur. „Símon Pétur . . . féll . . . fyrir kné Jesú og sagði: ‚Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður.‘ En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið. Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar.“ Jesú róaði Pétur og sagði síðan orðin sem áttu eftir að breyta lífi hans: „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða [„veiða menn lifandi,“ NW].“ — Lúkas 5:8-10.

Mannaveiðarar

8. Hvernig brugðust fjórir fiskimenn við boðinu um að „veiða menn lifandi“?

8 Jesús líkti þannig mönnum við fisk og hann bauð þessum fábrotna fiskimanni að snúa baki við veraldlegu starfi sínu til að taka upp langtum ágætari veiðar — það að veiða menn lifandi. Pétur og Andrés bróðir hans þáðu boðið. „Þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum.“ (Matteus 4:18-20) Þessu næst kallaði Jesús þá Jakob og Jóhannes sem voru í báti sínum að gera við netin. Hann bauð þeim einnig að gerast mannaveiðarar. Hver urðu viðbrögð þeirra? „Þeir yfirgáfu jafnskjótt bátinn og föður sinn og fylgdu honum.“ (Matteus 4:21, 22) Jesús sýndi leikni í því að veiða mannsálir. Við þetta tækifæri veiddi hann fjóra menn lifandi.

9, 10. Hvaða trú sýndu Pétur og félagar hans og hvenig voru þeir þjálfaðir í andlegum veiðum?

9 Sá sem hefur fiskveiðar að atvinnu sér fyrir sér með því að selja feng sinn, en andlegir fiskimenn geta ekki gert það. Þess vegna sýndu þessir lærisveinar mikla trú er þeir yfirgáfu allt til að fylgja Jesú. Þeir voru samt sem áður í engum vafa um að þeir myndu verða fengsælir á hinum andlegu veiðum. Jesús hafði getað látið dautt vatn mora í bókstaflegum fiski. Eins gátu lærisveinarnir verið vissir um að þeir myndu veiða menn lifandi með Guðs hjálp, er þeir legðu andleg net sín í sjó Ísraelsþjóðarinnar. Hið andlega veiðistarf, sem hófst þá, heldur enn áfram og Jehóva gefur enn ríkulegan afla.

10 Í meira en tvö ár þjálfaði Jesús lærisveinana í mannaveiðum. Stundum gaf hann þeim ítarleg fyrirmæli og sendi þá á undan sér til að prédika. (Matteus 10:1-7; Lúkas 10:1-11) Þegar Jesús var svikinn og drepinn voru lærisveinarnir höggdofa. En þýddi dauði Jesú að mannaveiðunum yrði hætt? Atburðirnir áttu fljótlega eftir að svara því.

Veitt í mannhafinu

11, 12. Hvaða kraftaverk í sambandi við fiskveiðar vann Jesús eftir upprisu sína?

11 Skömmu eftir dauða Jesú fyrir utan Jerúsalem og upprisu hans sneru lærisveinarnir aftur til Galíleu. Eitt sinn voru sjö af þeim saman komnir í grennd við Galíleuvatn. Pétur sagðist ætla að róa til fiskjar og hinir fóru með honum. Eins og venjulega reru þeir til fiskjar að nóttu til, en þótt þeir köstuðu netum sínum alla nóttina veiddu þeir ekkert. En þá er dagur rann sást mannvera á ströndinni sem kallaði til þeirra yfir vatnið: „Drengir, hafið þér nokkurn fisk?“ „Nei,“ kölluðu lærisveinarnir til baka. Þá kallaði sá sem stóð á ströndinni til þeirra: „‚Kastið netinu hægra megin við bátinn, og þér munuð verða varir.‘ Þeir köstuðu, og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn.“ — Jóhannes 21:5, 6.

12 Þetta var furðuleg lífsreynsla! Líklega minntust lærisveinarnir strax hins fyrra kraftaverks í sambandi við veiðar og að minnsta kosti einn þeirra gerði sér grein fyrir hver það var sem stóð á ströndinni. „Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: ‚Þetta er Drottinn.‘ Þegar Símon Pétur heyrði, að það væri Drottinn, brá hann yfir sig flík — hann var fáklæddur — og stökk út í vatnið. En hinir lærisveinarnir komu á bátnum, enda voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir.“ — Jóhannes 21:7, 8.

13. Hvaða alþjóðlegar veiðar hófust eftir uppstigningu Jesú til himna?

13 Hvað gaf þetta kraftaverk til kynna? Að mannaveiðunum væri ekki lokið. Sú staðreynd var undirstrikuð þegar Jesús sagði Pétri þrívegis — og fyrir hans milligöngu öllum lærisveinunum — að næra sauði Jesú. (Jóhannes 21:15-17) Já, andleg næringaráætlun var framundan. Fyrir dauða sinn hafði hann spáð: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar.“ (Matteus 24:14) Núna var tíminn kominn fyrir fyrstu aldar uppfyllingu þessa spádóms. Lærisveinar hans voru í þann mund að leggja net sín í mannhafið og þau yrðu ekki tóm er þau yrðu dregin. — Matteus 28:19, 20.

14. Á hvaða hátt voru veiðar fylgjenda Jesú blessaðar á árunum fyrir eyðingu Jerúsalem?

14 Áður en Jesús steig upp til hásætis föður síns á himnum sagði hann fylgjendum sínum: „Þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Er heilögum anda var úthellt yfir lærisveinana á hvítasunnunni árið 33 hófst hið mikla, andlega veiðistarf á alþjóðavettvangi. Á hvítasunnunni einni voru þrjú þúsund sálir veiddar lifandi og skömmu síðar varð „tala karlmanna . . . um fimm þúsundir.“ (Postulasagan 2:41; 4:4) Aukningin hélt áfram. Frásagan segir okkur: „Og enn fleiri urðu þeir, sem trúðu á Drottin, fjöldi karla og kvenna.“ (Postulasagan 5:14) Innan tíðar fóru Samverjar að taka við fagnaðarerindinu og skömmu síðar einnig óumskornir heiðingjar. (Postulasagan 8:4-8; 10:24, 44-48) Um 27 árum eftir hvítasunnuna skrifaði Páll postuli kristnum mönnum í Kólossu að fagnaðarerindið hefði verið ‚prédikað fyrir öllu sem skapað er undir himninum.‘ (Kólossubréfið 1:23) Ljóst er að lærisveinar Jesú höfðu haldið til fiskjar langa leið frá vötnum Galíleu. Þeir höfðu lagt net sín meðal Gyðinga sem dreifðir voru út um Rómaveldi, svo og á miðum annarra þjóða en Gyðinga sem varla litu út fyrir að vera gjöful. Og er þeir drógu netin voru þau full. Hvað kristna menn á fyrstu öld varðaði uppfylltist spádómur Jesú í Matteusi 24:14 fyrir eyðingu Jerúsalem árið 70.

Mannaveiðar á „Drottins degi“

15. Hvaða frekari veiðar var spáð um í Opinberunarbókinni og hvenær áttu þær að eiga sér stað?

15 En meira var framundan. Undir lok fyrstu aldar veitti Jehóva síðasta eftirlifandi postulanum, Jóhannesi, opinberun um það sem átti að gerast á „Drottins degi.“ (Opinberunarbókin 1:1, 10) Eitt áberandi atriði var umfangsmikið, alþjóðlegt prédikunarstarf. Við lesum: „Og ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð.“ (Opinberunarbókin 14:6) Undir handleiðslu engla myndu þjónar Guðs prédika fagnaðarerindið bókstaflega um alla hina byggðu jörð, ekki aðeins um Rómaveldi. Um allan heim átti að stunda sálnaveiðar og þessi sýn hefur uppfyllst á okkar dögum.

16, 17. Hvenær hófust andlegar veiðar síðustu daga og hvernig hefur Jehóva blessað þær?

16 Hvernig hefur fiskast núna á 20. öldinni? Í byrjun voru fiskimennirnir tiltölulega fáir. Eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar voru aðeins um fjögur þúsund virkir prédikarar fagnaðarerindisins, kostgæfir karlar og konur sem voru flest af hinum smurðu. Þau köstuðu netum sínum hvarvetna þar sem Jehóva opnaði leið og margar sálir voru veiddar lifandi. Eftir síðari heimsstyrjöldina opnaði Jehóva ný fiskimið. Trúboðar, sem höfðu sótt nám í biblíuskóla Varðturnsins, Gíleað, ruddu starfinu braut í mörgum löndum. Lönd svo sem Japan, Ítalía og Spánn, sem í fyrstu virtust kannski ekki sérlega gjöful, gáfu um síðir ríkulegan afla í mynd sálna. Við höfum líka nýlega fengið að vita hve árangursríkar veiðarnar hafa verið í Austur-Evrópu.

17 Núna eru netin nánast að rifna í mörgum löndum. Hin mikla uppskera mannssálna hefur kallað á stofnun nýrra safnaða og farandsvæða. Til að koma þeim fyrir er stöðugt verið að byggja nýja ríkissali og mótssali. Þörf er fleiri öldunga og safnaðarþjóna til að mæta aukningunni. Þessir trúföstu þjónar komu af stað öflugu starfi árið 1919. Jesaja 60:22 hefur uppfyllst bókstaflega. ‚Hinn minnsti er orðinn að þúsund‘ því að þessir fjögur þúsund fiskimenn eru núna orðnir liðlega fjórar milljónir. Og endirinn er enn ekki kominn.

18. Hvernig getum við líkt eftir hinu góða fordæmi andlegra mannaveiðara á fyrstu öld?

18 Hvað þýðir allt þetta fyrir okkur sem einstaklinga? Ritningin segir að þegar Pétri, Andrési, Jakobi og Jóhannesi var boðið að verða mannaveiðarar hafi þeir ‚yfirgefið allt og fylgt Jesú.‘ (Lúkas 5:11) Hvílíkt fordæmi um trú og hollustu! Getum við ræktað með okkur sama fórnfúsa andann, sama fúsleikann til að þjóna Jehóva hvað sem það kostar? Milljónir hafa svarað því játandi. Á fyrstu öldinni veiddu lærisveinarnir menn hvar sem Jehóva leyfði. Hvort heldur var meðal Gyðinga eða heiðingja veiddu þeir hiklaust. Við skulum einnig prédika fyrir öllum án fordóma og án þess að halda í nokkru aftur af okkur.

19. Hvað ættum við að gera ef miðin, þar sem við fiskum, virðast ekki gjöful?

19 En hvað þá ef starfssvæði þitt virðist ófrjótt nú sem stendur? Misstu ekki kjarkinn. Mundu að Jesús fyllti net lærisveinanna þótt þeir hefðu ekkert fengið alla nóttina. Hið sama getur gerst á andlegan hátt. Til dæmis strituðu trúfastir vottar svo árum skipti á Írlandi með takmörkuðum árangri. En nýverið hefur það breyst. Árbók votta Jehóva 1991 segir að í lok þjónustuársins 1990 hafi verið búið að ná 29 boðberahámörkum í röð á Írlandi! Kannski á svæðið þitt eftir að verða ámóta gjöfult einhvern tíma. Svo lengi sem Jehóva leyfir skulum við halda áfram að veiða.

20. Hvenær ættum við að stunda mannaveiðar?

20 Í Ísrael héldu fiskimenn til veiða að nóttu þegar allir aðrir létu fara vel um sig í hlýjum rúmum sínum. Þeir reru til fiskjar, ekki þegar það var þægilegt fyrir þá heldur þegar veiðivon var mest. Við ættum líka að rannsaka svæði okkar með það fyrir augum að róa til fiskjar, ef svo má að orði komast, þegar þorri manna er heima og móttækilegur. Það kann að vera á kvöldin, um helgar eða á einhverjum öðrum tíma. Hvenær sem sá tími er skulum við gera allt sem við getum til að finna hjartahreint fólk.

21. Hvað ættum við að muna ef oft er starfað á svæði okkar?

21 Hvað þá ef oft er starfað gegnum svæði okkar? Þeir sem stunda sjóinn í atvinnuskyni í heiminum kvarta oft undan ofveiði á fiskimiðunum. Er hætta á ofveiði á andlegum fiskimiðum okkar? Reyndar ekki! Mörg svæði skila aukningu jafnvel þótt starfað sé gegnum þau með stuttu millibili. Sum gefa betur af sér þegar vel er starfað á þeim. Engu að síður skaltu leggja þig sérstaklega fram um að ná til þeirra sem ekki eru heima með því að skrá þá hjá þér á þeim svæðum sem oft er starfað gegnum. Lærðu fjölbreytt umræðuefni. Hafðu hugfast að einhver á eftir að koma í heimsókn aftur fljótlega þannig þú að skalt ekki láta þér dveljast lengur en viðeigandi er eða vekja óafvitandi óvild heimilisins. Og þjálfaðu þig í götustarfi og óformlegum vitnisburði. Kastaðu andlegum netum þínum við hvert tækifæri og á hvern þann hátt sem mögulegur er.

22. Hvaða stórkostlegra sérréttinda njótum við nú á tímum?

22 Mundu að bæði fiskimennirnir og fiskarnir njóta góðs af þessum veiðum. Ef þeir sem við veiðum halda út geta þeir lifað að eilífu. Páll hvatti Tímóteus: „Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ (1. Tímóteusarbréf 4:16) Það var Jesús sem fyrst þjálfaði lærisveina sína í andlegum fiskveiðum og þetta starf er enn unnið undir handleiðslu hans. (Samanber Opinberunarbókina 14:14-16.) Hvílík sérréttindi sem við höfum að starfa undir umsjón hans að því að ljúka því. Við skulum halda áfram að leggja net okkar svo lengi sem Jehóva leyfir. Hvaða betra starf væri hægt að velja sér en að veiða sálir lifandi?

Manst þú?

◻ Til hvaða starfs þjálfaði Jesús fylgjendur sína?

◻ Hvernig sýndi Jesús að hinum andlegu veiðum var ekki lokið við dauða hans?

◻ Á hvaða hátt blessaði Jehóva hið andlega veiðistarf á fyrstu öldinni?

◻ Hvaða góði afli hefur verið dreginn að landi á „Drottins degi“?

◻ Hvernig getum við sem einstaklingar náð enn betri árangri sem mannaveiðarar?

[Mynd á blaðsíðu 21]

Eftir upprisu Jesú sóttu postular hans lengra í andlegum mannaveiðum sínum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila