Hvert er fagnaðarerindið í raun og veru?
UM JÓLALEYTIÐ heyra menn víða um lönd minnst á fagnaðarerindið og tala jafnvel um það sjálfir. Flestir þekkja hugtakið fagnaðarerindi, en er meira í því fólgið en flestir ímynda sér? Getur fagnaðarerindið falið í sér eitthvað einstaklega gott fyrir þig og ástvini þína?
„Fagnaðarerindi“ merkir „góðar fréttir“ og að sjálfsögðu eru góðar fréttir gleðilegar ekki aðeins um jólaleytið heldur á öllum árstímum. En fagnaðarerindið er ekki bara hvaða góð frétt sem verkast vill. Það er sérstök fagnaðartíðindi frá ákveðnum aðila um afmarkað efni. Það er boðskapur sem Guð hefur fyrirskipað að skuli boðaður öllu mannkyni.
Eugênio Salles, erkibiskup af Rio de Janeiro í Brasilíu, var að tala um þetta fagnaðarerindi er hann sagði: „Við ættum að hegða okkur í samræmi við fagnaðarerindið en ekki láta stjórnast af hugmyndafræði.“ Erkibiskupinn hafði rétt fyrir sér. En til að hegða okkur í samræmi við fagnaðarerindið verðum við að vita hvað fagnaðarerindið er. Hvernig getum við komist að því? Og hvernig mun það reynast okkur til gagns að hegða okkur í samræmi við fagnaðarerindið?
Hvað er fagnaðarerindið?
Eðli fagnaðarerindisins er oft misskilið. Árið 1918 fagnaði Alríkisráð kirkna Krists í Ameríku Þjóðabandalaginu, sem nú er úr sögunni, sem pólitískri ímynd Guðsríkis á jörðu og lýsti yfir að það ætti sér „rætur í fagnaðarerindinu.“ Þjóðabandalaginu mistókst hrapallega það ætlunarverk sitt að varðveita friðinn. Ljóst er að Alríkisráð kirkna Krists hafði á röngu að standa. Þjóðabandalagið átti ekkert skylt við fagnaðarerindið.
Á síðari árum hafa forvígismenn frelsunarguðfræðinnar gjarnan minnst á fagnaðarerindið er þeir hafa viðrað hugmyndir sínar um pólitískar eða þjóðfélagslegar umbætur. Með því hafa þeir virt hið raunverulega fagnaðarerindi að vettugi. Brasilíska tímaritið Veja segir: „Kaþólska kirkjan tók að aðhyllast hið þjóðfélagslega ríki og hætti að sinna andlegum þörfum sinna trúuðu. Oft fundu þeir sem leituðu að orðinu Guð í prédikuninni ekkert nema háfleygar röksemdir gegn þjóðfélagslegum rangindum.“
Bætt lífsskilyrði eða breytt stjórnmálakerfi geta verið góð tíðindi fyrir suma. Slíkt er þó ekki hið eina sanna fagnaðarerindi. Biskup einn viðurkenndi að kirkja hans hefði ekki prédikað hið raunverulega fagnaðarerindi og sagði: „Við tókum að vanrækja andlega fræðslu hinna trúuðu á sjöunda áratugnum vegna þess að efnishyggjan blandaðist inn í kenningu okkar.“
Samkvæmt frétt í bandaríska tímaritinu Time má ætla að mótmælendur hafi einnig misst sjónar á fagnaðarerindinu. Tímaritið sagði: „Hinum hefðbundnu kirkjudeildum mistekst ekki aðeins að koma boðskap sínum til skila; þær eru líka í vaxandi mæli óvissar um hver boðskapurinn eiginlega sé.“ Hver ætti boðskapur þeirra að vera? Hvað er fagnaðarerindið?
Að bera kennsl á fagnaðarerindið
Webster’s Ninth New Collegiate Dictionary skilgreinir „Gospel“ (fagnaðarerindi) sem „boðskapinn um Krist, ríki Guðs og hjálpræði.“ Orðið er einnig skilgreint sem „túlkun á boðskap kristninnar (þjóðfélagslegt fagnaðarerindi)“; „boðskapur eða kenningar trúarkennara.“ Eiga allar þessar skilgreiningar við? Nei, ekki ef við erum að tala um hið eina sanna fagnaðarerindi. Hið raunverulega fagnaðarerindi er byggt á Biblíunni; þess vegna er aðeins fyrsta skilgreiningin af þessum þrem rétt. Tvær hinar síðari endurspegla einungis hvernig orðið „fagnaðarerindi“ er notað nú á dögum.
Vine’s Expository Dictionary of New Testament Words tekur í sama streng og segir að í kristnu Grísku ritningunum („Nýjatestamentinu“) merki orðið fagnaðarerindi „gleðitíðindin um ríki Guðs og hjálpræði fyrir tilverknað Krists sem taka ber við í trú á grundvelli friðþægingardauða hans.“ Mikilvægt er að skilja þetta vegna þess að réttur skilningur á hinu sanna fagnaðarerindi er nátengdur farsæld okkar núna og framtíðarhamingju.
Skýr boðskapur
Eins og ofannefnd uppsláttarrit sýna er fagnaðarerindið nátengt Jesú Kristi — svo mjög að hinar fjórar frásögur Biblíunnar af ævi hans á jörðu eru kallaðar guðspjöllina fjögur. Allt frá því að jarðlíf Jesú hófst voru fréttirnar um hann fagnaðartíðindi. Engill sem tilkynnti fæðingu hans sagði: „Sjá, ég boða yður mikinn fögnuð [eða fagnaðarerindi], sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn.“ — Lúkas 2:10, 11.
Hinn nýfæddi Jesús átti að alast upp til að vera Kristur, hinn fyrirheitni Messías. Hann átti að opinbera þann tilgang Guðs að veita mönnum hjálpræði, gefa fullkomið mannslíf sitt í þágu mannkyns, verða reistur upp og verða síðan hinn útvaldi konungur Guðsríkis. Þetta var svo sannarlega fagnaðarerindi! Það er þess vegna sem boðskapurinn um hann er kallaður því nafni.
Jesús var mjög kostgæfur prédikari fagnaðarerindisins meðan hin stutta þjónusta hans á jörð stóð yfir. Við lesum í Matteusarguðspjalli: „Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið.“ (Matteus 9:35) Hann var ekki að prédika aðeins til að láta fólki líða betur. Markús hefur eftir Jesú: „Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd. Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu.“ (Markús 1:15) Já, þeir sem tóku á móti fagnaðarerindinu og hlýddu því komust að raun um að það breytti lífi þeirra.
Eftir dauða Jesú héldu fylgjendur hans áfram að prédika fagnaðarerindið. Þeir töluðu ekki aðeins um Guðsríki heldur bættu við þeim gleðitíðindum að Jesús hefði verið reistur upp til hægri handar Guði á himnum og hefði borið fram verðmæti síns fullkomna mannslífs í þágu mannkyns. Hann var sá sem Guð hafði valið til að ríkja yfir allri jörðinni sem konungur Guðsríkis og yrði því aðalverkfæri Guðs til að eyða óvinum hans og breyta jörðinni aftur í paradís. — Postulasagan 2:32-36; 2. Þessaloníkubréf 1:6-10; Hebreabréfið 9:24-28; Opinberunarbókin 22:1-5.
Núna hefur nýtt atriði bæst við fagnaðarerindið. Uppfylltir biblíuspádómar sanna greinilega að Jesús hefur nú verið krýndur sem konungur og að við lifum á síðustu dögum þessa heimskerfis. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Opinberunarbókin 12:7-12) Sá tími nálgast óðfluga að Guðsríki láti til skarar skríða gegn óvinum Guðs. Hvaða betri fréttir er hægt að hugsa sér?
Í greininni á eftir sjáum við hve áhrifamikið fagnaðarerindið er. Það hjálpaði konu, sem var í fjötrum svartagaldurs, að verða frjáls. Það hjálpaði manni, sem sat í fangelsi fyrir rán, að finna hamingjuna. Það mun einnig verða þér til mikils gagns — ef þú hlustar á fagnaðarerindið og hlýðir því.
[Neðanmáls]
a Orðið „guðspjall“ er tökuorð úr forn-ensku, godspell (samanber gospel á ný-ensku), „eiginl. ummyndun úr *gōd-spell ‚fagnaðarboðskapur‘, sem er þýðing á evangelium.“ — Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon.