Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.12. bls. 26-31
  • Framgöngum með heilu hjarta

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Framgöngum með heilu hjarta
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Viðeigandi ótti
  • Ástúðleg umhyggja Jehóva
  • „Tákn til góðs“
  • Jehóva, sá sem gerir furðuverk
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Jehóva — æðsta fyrirmyndin um gæsku
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • Ástundaðu gæsku
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • „Gef mér heilt hjarta, til þess að óttast nafn þitt“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.12. bls. 26-31

Framgöngum með heilu hjarta

„Vísa mér veg þinn, [ó Jehóva], . . . gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.“ — SÁLMUR 86:11.

1. Hvernig umbunar Jehóva trúum þjónum sínum?

‚Ó JEHÓVA, þú ert Guð, þú einn.‘ (Sálmur 86:8, 10, NW) Hjarta Davíðs var barmafullt af þakklæti er hann lofaði Guð. Jafnvel áður en Davíð varð konungur yfir öllum Ísrael hafði Jehóva frelsað hann undan Sál og Filistum. Hann gat því sungið: „Jehóva er bjarg mitt og vígi og veitir mér undankomu. Gagnvart tryggum ert þú tryggur.“ (2. Samúelsbók 22:2, 26, NW) Jehóva hafði varðveitt tryggan þjón sinn gegnum margar þrengingar. Davíð gat sett traust sitt á tryggan Guð sinn en hann þurfti áframhaldandi leiðsögn. Davíð bað því Guð: „Vísa mér veg þinn, [ó Jehóva].“ — Sálmur 86:11.

2. Hvernig hefur Jehóva gert ráðstöfun til að við hljótum kennslu hjá honum?

2 Davíð vildi ekki koma nærri veraldlegum hugmyndum eða heimspeki. Hann vildi vera ‚lærisveinn Jehóva‘ eins og spámaður Guðs orðaði það síðar. (Jesaja 54:13) Davíð gat líklega ígrundað aðeins þær níu bækur Biblíunnar sem til voru á hans dögum. Samt sem áður var sú fræðsla frá Jehóva honum mjög dýrmæt. Við nútímamenn, sem höfum aðgang að öllum hinum 66 bókum Biblíunnar, svo og hinum mörgu ritum Guðsríkis sem ‚hinn trúi og hyggni þjónn‘ hefur séð okkur fyrir, getum setið að veisluborði. (Matteus 24:45) Við skulum, líkt og Davíð, ákalla Jehóva til að andi hans megi hjálpa okkur að rannsaka „allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann . . . jafnvel djúp Guðs.“ — 1. Korintubréf 2:9, 10.

3. Á hvaða vegu getur biblíufræðsla verið okkur til gagns?

3 Biblían hefur svarið við hverri einustu spurningu og vandamáli sem kann að koma upp í lífi okkar. „Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ (Rómverjabréfið 15:4) Það að taka til okkar fræðsluna frá Jehóva styrkir okkur til að þola erfiðleika, hughreystir okkur þegar við erum beygð og heldur voninni um Guðsríki ljóslifandi í hjörtum okkar. Megum við hafa yndi af því að lesa orð Guðs og hugleiða það „dag og nótt,“ því að viska byggð á Biblíunni verður „lífstré þeim, sem grípa hana, og sæll er hver sá, er heldur fast í hana.“ — Sálmur 1:1-3; Orðskviðirnir 3:13-18; sjá einnig Jóhannes 17:3.

4. Hvaða fordæmi gaf Jesús í sambandi við verk?

4 Sonur Guðs, Jesús, einnig nefndur „sonur Davíðs,“ leitaði alltaf fræðslu og leiðbeininga hjá Jehóva. (Matteus 9:27)a Hann sagði: „Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra. Því hvað sem hann gjörir, það gjörir sonurinn einnig.“ „Ég gjöri ekkert af sjálfum mér, heldur tala ég það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér.“ (Jóhannes 5:19; 8:28) Jesús lét okkur eftir fyrirmynd til að við skyldum „feta í hans fótspor.“ (1. Pétursbréf 2:21) Hugsaðu þér! Ef við nemum eins og Jesús hlýtur að hafa numið, þá getum við undir öllum kringumstæðum hegðað okkur eins og Jehóva vill að við gerum. Aðferð Jehóva er alltaf sú rétta.

5. Hvað er „sannleikur“?

5 Síðan segir Davíð: „Lát mig ganga í sannleika þínum.“ (Sálmur 86:11) Þúsund árum síðar ávarpaði Pílatus hinn mesta son Davíðs og spurði: „Hvað er sannleikur?“ En Jesús var þá nýbúinn að svara þeirri spurningu og segja Pílatusi: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi.“ Hann bætti svo við: „Þú segir að ég sé konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ (Jóhannes 18:33-38, neðanmáls) Jesús var með þessu að segja að sannleikurinn snúist um Messíasarríkið. Heildarstef Biblíunnar er meira að segja helgun nafns Jehóva fyrir tilstilli þessa ríkis. — Esekíel 38:23; Matteus 6:9, 10; Opinberunarbókin 11:15.

6. Að hverju þurfum við að gæta þegar við göngum í sannleikanum?

6 Hvað merkir það að ganga í sannleikanum? Það merkir að gera vonina um Guðsríki að fremsta hugðarefni okkar. Við verðum að lifa í samræmi við sannleika Guðsríkis. Við verðum að vera óskipt í því að láta hagsmuni Guðsríkis sitja í fyrirrúmi, og vera eftir aðstæðum okkar kostgæf í því að bera vitni um sannleikann, eins og Jesús. (Matteus 6:33; Jóhannes 18:37) Við getum ekki gengið í sannleikanum hluta af tíma okkar og innt af hendi málamyndaþjónustu, en þóknast svo sjálfum okkur með því að leggja lykkju á leið okkar til að láta eftir okkur óhóflega afþreyingu eða leggja út í tímafrekt ævistarf eða ‚þjóna mammón.‘ (Matteus 6:24) Við gætum villst á einhverjum þessara hliðarvega og aldrei ratað aftur inn á ‚þrönga veginn sem liggur til lífsins.‘ Villumst ekki út af þeim vegi! (Matteus 7:13, 14) Okkar mikli fræðari, Jehóva, lýsir upp veginn gegnum orð sitt og skipulag og segir, „þá er þér víkið til hægri handar eða vinstri: ‚Hér er vegurinn! Farið hann!‘“ — Jesaja 30:21.

Viðeigandi ótti

7. Hvernig getum við fengið „heilt“ hjarta?

7 Bæn Davíðs heldur áfram í versi 11: „Gef mér heilt hjarta, að ég tigni [„óttist,“ NW] nafn þitt.“ Líkt og Davíð ættum við að vilja að hjörtu okkar séu heil og óskipt í því að gera vilja Guðs. Það er í samræmi við heilræði Móse: „Og nú, Ísrael, hvers krefst [Jehóva] Guð þinn af þér nema þess, að þú óttist [Jehóva] Guð þinn og gangir því ávallt á hans vegum, og að þú elskir hann og að þú þjónir [Jehóva] Guði þínum af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni með því að halda skipanir hans og lög, er ég legg fyrir þig í dag, og þér er fyrir bestu?“ (5. Mósebók 10:12, 13) Það er okkur sannarlega til góðs að hella okkur af lífi og sál út í þjónustu Jehóva. Þannig sýnum við dýrlegu nafni hans tilhlýðilegan ótta. Nafn Jehóva merkir bókstaflega „hann kemur til leiðar“ og vísar einkum til þess að fullna dýrlegan tilgang hans. Það stendur einnig fyrir æðsta yfirvald hans yfir öllum alheimi. Ef við berum lotningu fyrir hátign Guðs látum við ekki ótta við dauðlega menn leiða okkur afvega. Hjörtu okkar verða ekki tvískipt. Þess í stað munum við óttast að gera nokkuð það er myndi misþóknast Jehóva, æðsta dómara og drottinvaldi alheimsins sem hefur líf okkar í hendi sér. — Jesaja 12:2; 33:22.

8, 9. (a) Hvað merkir það að ‚vera ekki af heiminum‘? (b) Hvaða skref ættum við að stíga vegna þess að við erum „á leiksviði“?

8 Jafnvel andspænis ámæli og ofsóknum fylgjum við óttalausu fordæmi Jesú í því að tilheyra ekki hinum óguðlega heimi umhverfis okkur. (Jóhannes 15:17-21) Það merkir ekki að lærisveinar Jesú ættu að lifa eins og einsetumenn eða loka sig inni í klaustri. Jesús sagði í bæn til föður síns: „Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur. Ég hef sent þá í heiminn, eins og þú sendir mig í heiminn.“ (Jóhannes 17:15-18) Líkt og Jesús erum við send til að boða sannleikann um Guðsríki. Jesús var viðmótsþýður. Kennsla hans hressti fólk. (Samanber Matteus 7:28, 29; 11:28, 29; Jóhannes 7:46.) Svo ætti einnig að vera hjá okkur.

9 Það að við erum blátt áfram og vingjarnleg, vel hirt og smekkleg í útliti og framkomu og hrein og hlýleg í tali ætti að gera okkur og boðskap okkar meðtækilegan fyrir réttsinnað fólk. Við verðum að forðast subbuskap, ósæmilegan klæðaburð, félagsskap sem getur leitt til veraldlegra tengsla og þá lausung og siðspillingu sem við sjáum í heiminum umhverfis okkur. Með því að við erum „á leiksviði, frammi fyrir öllum heiminum, bæði englum og mönnum,“ erum við á vakt allan sólarhringinn alla daga til að þjóna og lifa fyrirmyndarlífi sem kristnir menn. (1. Korintubréf 4:9; Efesusbréfið 5:1-4; Filippíbréfið 4:8, 9; Kólossubréfið 4:5, 6) Hjarta okkar verður að vera heilt og óskipt til að svo geti verið.

10. Hvernig man Jehóva eftir þeim sem eru með heilt hjarta í heilagri þjónustu hans?

10 Jehóva mun minnast okkar sem varðveitum heil hjörtu og óttumst nafn hans, hugleiðum stórkostlegan tilgang hans og fyllum líf okkar heilagri þjónustu. „Augu [Jehóva] hvarfla um alla jörðina, til þess að hann megi sýna sig máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann.“ (2. Kroníkubók 16:9) Malakí 3:16 vísar spádómlega til okkar daga og segir: „Þá mæltu þeir hver við annan, sem óttast [Jehóva], og [Jehóva] gaf gætur að því og heyrði það, og frammi fyrir augliti hans var rituð minnisbók fyrir þá, sem óttast [Jehóva] og virða hans nafn.“ Megi hjörtu okkar vera heil og óskipt í þessum heilnæma ótta við Jehóva.

Ástúðleg umhyggja Jehóva

11. Hvernig birtist ástúðleg umhyggja Jehóva gagnvart þeim sem eru trúfastir?

11 Bæn Davíðs er sannarlega áköf. Hann heldur áfram: „Ég vil lofa þig, [ó Jehóva], Guð minn, af öllu hjarta og heiðra nafn þitt að eilífu, því að miskunn [„ástúðleg umhyggja,“ NW] þín er mikil við mig, og þú hefir frelsað sál mína frá djúpi Heljar.“ (Sálmur 86:12, 13) Í annað sinn í þessum sálmi lofar Davíð Jehóva fyrir ástúðlega umhyggju hans — tryggan kærleika hans. Svo mikill er þessi kærleikur að hann getur komið til bjargar við aðstæður sem virðast vonlausar. Þegar Sál konungur hundelti Davíð í eyðimörkinni kann Davíð að hafa langað mest til að skríða út í eitthvert skúmaskot og deyja. Það var eins og að horfa ofan í djúp Heljar — gröfina. En Jehóva frelsaði hann! Á líkan hátt hefur Jehóva oft komið nútímaþjónum sínum til hjálpar á undraverðan hátt og hann hefur einnig haldið uppi ráðvöndum mönnum sem hafa haldið trúfastir út allt til dauða. Allir trúfastir menn munu fá sín laun, jafnvel með upprisu ef þörf krefur. — Samanber Jobsbók 1:6-12; 2:1-6, 9, 10; 27:5; 42:10; Orðskviðina 27:11; Matteus 24:9, 13; Opinberunarbókina 2:10.b

12. Hvernig hafa klerkar verið ósvífnir og harðstjórar og hvernig verður þeim launað það?

12 Davíð hrópar um ofsækjendur sína: „Ofstopamenn hefjast gegn mér, ó Guð, og hópur ofríkismanna sækist eftir lífi mínu, eigi hafa þeir þig fyrir augum.“ (Sálmur 86:14) Nú á dögum hafa klerkar kristna heimsins verið í hópi ofsækjendanna. Þeir þykjast tilbiðja Guð en víkja nafni hans til hliðar með titlinum „Drottinn“ og lýsa honum sem dularfullri þrenningu sem er reyndar hvergi nefnd á nafn í Biblíunni. Hvílík ósvífni! Að auki reyna þeir að telja stjórnmálaöflin á að banna votta Jehóva með lögum og fangelsa þá, eins og enn er gert í ótrúlega mörgum löndum víða um heim. Þessir hempuklæddu menn, sem lasta nafn Guðs, munu fá sín laun ásamt öllum deildum skækjunnar Babýlonar hinnar miklu. — Opinberunarbókin 17:1, 2, 15-18; 19:1-3.

13. Hvaða eiginleika sýnir Jehóva með því að kunngera gæsku sína?

13 Davíð bendir á ánægjulega andstæðu í bæn sinni: „En þú, [ó Jehóva], ert miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og harla trúfastur.“ (Sálmur 86:15) Slíkir eiginleikar Guðs okkar eru sannarlega frábærir. Þessi orð fá okkur til að hverfa í huganum til Sínaífjalls er Móse bað um að fá að sjá dýrð Jehóva. Jehóva svaraði: „Ég vil láta allan minn ljóma líða fram hjá þér, og ég vil kalla nafnið [Jehóva] frammi fyrir þér.“ En hann aðvaraði Móse: „Þú getur eigi séð auglit mitt, því að enginn maður fær séð mig og lífi haldið.“ Eftir það steig Jehóva niður í skýi og lýsti yfir: „[Jehóva, Jehóva], miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.“ (2. Mósebók 33:18-20; 34:5, 6) Davíð vitnaði í þessi orð í bæn sinni. Slíkir eiginleikar Jehóva eru miklu þýðingarmeiri fyrir okkur en að hann birtist bókstaflega á einhvern hátt! Metum við ekki að verðleikum, út frá eigin reynslu, gæsku Jehóva eins og hún birtist í þessum góðu eiginleikum hans?

„Tákn til góðs“

14, 15. Hvernig gefur Jehóva þjónum sínum „tákn til góðs“?

14 Davíð sárbænir Jehóva aftur um blessun og segir: „Snú þér að mér og ver mér náðugur, veit þjóni þínum kraft þinn og hjálpa syni ambáttar þinnar. Gjör þú tákn til góðs fyrir mig, að hatursmenn mínir megi horfa á það sneyptir, að þú, [ó Jehóva], hjálpar mér og huggar mig.“ (Sálmur 86:16, 17) Davíð gerir sér grein fyrir að hann hlýtur sem ‚sonur ambáttar Jehóva‘ að tilheyra honum. Eins er það með okkur öll sem nú lifum og höfum vígt líf okkar Jehóva og erfiðum í þjónustu hans. Við þörfnumst kraftar Jehóva gegnum heilagan anda hans okkur til bjargar. Þess vegna biðjum við Guð okkar að gefa okkur „tákn til góðs.“ Góðvild Jehóva innifelur þá góðu eiginleika sem við erum nýbúin að ræða um. Hvaða tákn getum við á þeim grundvelli vænst að Jehóva gefi okkur?

15 Jehóva er gjafari ‚sérhverrar góðrar gjafar og sérhverrar fullkominnar gáfu‘ og er örlátur, eins og Jesús fullvissar okkur um, í því að gefa „þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ (Jakobsbréfið 1:17; Lúkas 11:13) Heilagur andi er sannarlega ómetanleg gjöf frá Jehóva! Gegnum heilagan anda veitir Jehóva hjartans gleði, jafnvel á ofsóknartímum. Þess vegna gátu postular Jesú lýst yfir glaðir í bragði, þegar þeir voru fyrir rétti og áttu dauðadóm yfir höfði sér, að Guð gæfi heilagan anda þeim er hlýða honum sem stjórnanda. (Postulasagan 5:27-32) Gleði heilags anda veitti þeim stöðugt „tákn til góðs.“ — Rómverjabréfið 14:17, 18.

16, 17. (a) Hvaða tákn til góðs gaf Jehóva Páli og Barnabasi? (b) Hvaða tákn var hinum ofsóttu Þessaloníkumönnum gefið?

16 Á trúboðsferð sinni gegnum Litlu-Asíu lentu Páll og Barnabas í þrengingum, jafnvel hörðum ofsóknum. Er þeir prédikuðu í Antíokkíu í Pisidíu höfnuðu Gyðingar boðskap þeirra. Því sneru þeir sér til fólks af þjóðunum. Með hvaða árangri? „Er heiðingjarnir heyrðu þetta, glöddust þeir og vegsömuðu orð Guðs, og allir þeir, sem ætlaðir voru til eilífs lífs, tóku trú.“ En Gyðingar æstu til uppþots þannig að þessir trúboðar voru gerðir landrækir. Lét það þá og nýju lærisveinana halda að öll von væri úti? Alls ekki! „Lærisveinarnir voru fylltir fögnuði og heilögum anda.“ (Postulasagan 13:48, 52) Jehóva gaf þeim þetta tákn um góðvild sína.

17 Síðar var hinn nýi söfnuður í Þessaloníku ofsóttur. Það kom Páli postula til að skrifa hughreystingarbréf þar sem hann hrósaði þolgæði þeirra í þrengingum. Þeir höfðu ‚tekið á móti orðinu með fögnuði heilags anda, þrátt fyrir mikla þrengingu.‘ (1. Þessaloníkubréf 1:6) ‚Fögnuður heilags anda‘ hélt áfram að styrkja þá sem skýrt merki frá Guði sem er miskunnsamur og líknsamur, seinn til reiði, gæskuríkur og trúfastur.

18. Hvernig hafa bræður okkar í Austur-Evrópu sýnt að þeir kunna að meta gæsku Jehóva?

18 Á síðari tímum hefur Jehóva sýnt trúföstum bræðrum í Austur-Evrópu gæsku sína og gert þeim sem hötuðu þá — fyrrum ofsækjendum þeirra — skömm til. Þótt þessir kæru bræður séu nýlega lausir undan áratugalangri kúgun verða þeir enn að vera þolgóðir því að margir búa við miklar efnahagsþrengingar. En ‚fögnuður heilags anda‘ hughreystir þá. Hvaða meiri gleði gætu þeir haft en að nota nýfengið frelsi sitt til að auka vitnisburðinn? Margir hlusta á þá eins og fréttir af mótum og skírn gefa til kynna. — Samanber Postulasöguna 9:31.

19. Hvernig getum við tileinkað okkur orðin í Sálmi 86:11?

19 Allt sem hefur verið rætt í þessari grein og greininni á undan endurómar ákafa bæn Davíðs: „Kenn mér, ó Jehóva . . . Gef mér heilt hjarta til að óttast nafn þitt.“ (Sálmur 86:11, NW) Tileinkum okkur þessi orð árstextans 1993 er við vinnum af heilu hjarta til stuðnings hagsmunum Guðsríkis, þakklát fyrir hina óþrjótandi gæsku okkar eina Guðs, alvalds Drottins Jehóva.

[Neðanmáls]

a Sem ‚sæðið,‘ er spáð hafði verið, var Jesús erfingi að ríki Davíðs og því var hann „sonur Davíðs“ bæði í bókstaflegum og andlegum skilningi. — 1. Mósebók 3:15; Sálmur 89:30, 35-38.

b Lesa má um nútímadæmi í Árbók votta Jehóva (enskri útgáfu) frá 1974, bls. 113-212; 1985, bls. 194-7; 1986, bls. 237-8; 1988, bls. 182-5; 1990, bls. 171-2; 1992, bls. 174-81.

Hverju svarar þú?

◻ Hvað gefum við til kynna með því að biðja: ‚Vísa mér veg þinn, ó Jehóva‘?

◻ Hvað er átt við með því að hjarta okkar sé heilt í því að óttast nafn Jehóva?

◻ Hvernig mun Jehóva sýna öllum trúum mönnum ástúðlega umhyggju?

◻ Hvernig gefur Jehóva okkur „tákn til góðs“?

[Rammi á blaðsíðu 28]

Árstextinn 1993: „Kenn mér, ó Jehóva . . . Gef mér heilt hjarta til að óttast nafn þitt.“ — Sálmur 86:11, NW.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Jehóva er bjarg og vígi þeirra sem halda beinni stefnu í sannleikanum.

[Mynd á blaðsíðu 30]

Á alþjóðamóti votta Jehóva, „Ljósberar,“ í St. Pétursborg í Rússlandi í júní voru 46.214 viðstaddir og 3256 létu skírast. Þeir notfæra sér svo sannarlega góðvild Jehóva í „fögnuði heilags anda“!

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila