Kristin fjölskylda hjálpar öldruðum
„Útskúfa mér eigi í elli minni, yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar.“ — SÁLMUR 71:9.
1. Hvernig er farið með aldraða í mörgum samfélögum?
„KANNANIR gefa til kynna að nálega sex af hverjum sjö (86%) öldruðum, sem sæta illri meðferð, sæti henni af hendi fjölskyldu sinnar,“ segir The Wall Street Journal. Tímaritið Modern Maturity segir: „Ill meðferð aldraðra er bara nýjasta dæmið um [fjölskylduofbeldi] sem er komið fram úr fylgsnum út á síður dagblaða landsins.“ Já, í mörgum samfélögum eru aldraðir orðnir fórnarlömb grófrar misþyrmingar og vanrækslu. Við lifum svo sannarlega tíma þegar margir eru „sérgóðir, . . . vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-3.
2. Hvernig lítur Jehóva á aldraða samkvæmt Hebresku ritningunum?
2 En þannig átti ekki að fara með aldraða í Forn-Ísrael. Lögmálið sagði: „Þú skalt standa upp fyrir hinum gráhærða og heiðra gamalmennið, og þú skalt óttast Guð þinn. Ég er [Jehóva].“ Bók viturlegra, innblásinna orðskviða ráðleggur okkur: „Hlýð þú föður þínum, sem hefir getið þig, og fyrirlít ekki móður þína, þótt hún sé orðin gömul.“ Hún fyrirskipar: „Hlýð þú, son minn, á áminning föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar.“ Móselögin kenndu virðingu og tillitssemi við aldraða af báðum kynjum. Ljóst er að Jehóva vill að öldruðum sé sýnd virðing. — 3. Mósebók 19:32; Orðskviðirnir 1:8; 23:22.
Umönnun aldraðra á biblíutímanum
3. Hvernig sýndi Jósef öldruðum föður sínum umhyggju?
3 Virðing átti að birtast ekki aðeins í orðum heldur einnig í tillitssömum verkum. Jósef sýndi öldruðum föður sínum mikla umhyggju. Hann vildi að Jakob ferðaðist um 300 kílómetra leið frá Kanaan til Egyptalands, þannig að hann sendi honum „tíu asna klyfjaða hinum bestu afurðum Egyptalands og tíu ösnur klyfjaðar korni og brauði og vistum handa föður hans til ferðarinnar.“ Þegar Jakob kom til Gósen fór Jósef til móts við hann og „féll hann um háls honum og grét lengi um háls honum.“ Jósef sýndi föður sínum djúpa ástúð og var hvetjandi fordæmi um umhyggju fyrir öldruðum. — 1. Mósebók 45:23; 46:5, 29.
4. Hvers vegna er Rut gott fordæmi til eftirbreytni?
4 Rut er önnur fögur fyrirmynd til eftirbreytni um góðvild í garð aldraðra. Þótt hún væri ekki Gyðingur fylgdi hún aldraðri tengdamóður sinni, Gyðingakonunni Naomí, sem var ekkja. Hún yfirgaf þjóð sína og tók þá áhættu að finna sér ekki annan eiginmann. Þegar Naomi hvatti Rut til að snúa aftur heim til þjóðar sinnar svaraði hún með einhverjum fegurstu orðum sem er að finna í Biblíunni: „Leggðu eigi að mér um það að yfirgefa þig og hverfa aftur, en fara eigi með þér, því að hvert sem þú fer, þangað fer ég, og hvar sem þú náttar, þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð. Hvar sem þú deyr, þar dey ég, og þar vil ég vera grafin. Hvað sem [Jehóva] lætur fram við mig koma, þá skal dauðinn einn aðskilja mig og þig.“ (Rutarbók 1:16, 17) Rut sýndi enn fremur góða eiginleika með því að vera fús til að giftast hinum aldraða Bóasi samkvæmt fyrirkomulaginu um mágskylduhjónabönd. — Rutarbók 2. til 4. kafli.
5. Hvaða eiginleika sýndi Jesús í samskiptum við fólk?
5 Jesús gaf áþekkt fordæmi í samskiptum sínum við fólk. Hann var þolinmóður, umhyggjusamur, góðviljaður og hressandi. Hann sýndi persónulegan áhuga á fátækum manni sem hafði verið bæklaður og ófær um að ganga í 38 ár og læknaði hann. Hann sýndi ekkjum tillitssemi. (Lúkas 7:11-15; Jóhannes 5:1-9) Jafnvel meðan hann var að deyja kvalafullum dauða á aftökustaur gekk hann úr skugga um að annast yrði um móður hans sem var ef til vill liðlega fimmtug. Jesús var hressandi félagsskapur fyrir alla nema hræsnisfulla óvini sína. Þess vegna gat hann sagt: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ — Matteus 9:36; 11:28, 29; Jóhannes 19:25-27.
Hverjir verðskulda tillitssemi?
6. (a) Hverjir verðskulda sérstaka umönnun? (b) Hvaða spurninga gætum við spurt okkur?
6 Þar eð Jehóva Guð og sonur hans, Jesús Kristur, eru svona góð fordæmi í því að sýna umhyggju er ekki nema viðeigandi að vígðir kristnir menn líki eftir fordæmi þeirra. Okkar á meðal eru sumir sem hafa erfiðað og borið þungar byrðar í mörg ár — aldraðir bræður og systur sem eru komin fram á ævikvöldið. Sumir þeirra eru kannski foreldrar okkar eða afar og ömmur. Lítum við á þau sem sjálfsagðan hlut? Tölum við niður til þeirra eins og það sé fyrir neðan virðingu okkar að ávarpa þau eða metum við í alvöru að verðleikum víðtæka reynslu þeirra og visku? Að vísu kunna sumir að reyna á þolinmæði okkar með sérvisku sinni og smágöllum sem eru ekki óalgengir fylgifiskar ellinnar. En spyrðu þig: ‚Yrði ég eitthvað öðruvísi við sömu kringumstæður?‘
7. Hvað lýsir þörfinni á því að setja okkur í spor aldraðra?
7 Til er hjartnæm saga frá Miðausturlöndum af umhyggju ungrar stúlku fyrir öldruðum. Amman var að hjálpa til í eldhúsinu þegar hún missti óvart postulínsdisk og braut hann. Henni gramdist klaufaskapurinn í sjálfri sér en dóttur hennar þó enn meir. Sú kallaði á litlu dóttur sína og sendi hana út í búð að kaupa óbrjótandi trédisk handa ömmu sinni. Stúlkan kom til baka með tvo trédiska. Móðirin spurði höstuglega: „Af hverju keyptirðu tvo diska?“ Stúlkan svaraði hikandi: „Annar er handa ömmu og hinn er handa þér þegar þú verður gömul.“ Já, í þessum heimi blasir ellihrörnun við okkur öllum. Kynnum við ekki að meta það að vera sýnd þolinmæði og góðvild? — Sálmur 71:9.
8, 9. (a) Hvernig ættum við að koma fram við aldraða okkar á meðal? (b) Hvað þurfa sumir, sem eru nýlega orðnir kristnir, að muna?
8 Gleymdu aldrei að margir af öldruðum bræðrum okkar og systrum eiga að baki margra ára trúfasta, kristna þjónustu. Þau verðskulda svo sannarlega virðingu okkar og tillitssemi, vingjarnlega hjálp og hvatningu. Spekingurinn sagði réttilega: „Gráar hærur eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana.“ Og gráar hærur ber að virða, hvort heldur það er karl eða kona sem ber þær. Sumir þessara öldruðu karla og kvenna þjóna enn sem trúfastir brautryðjendur og margir karlmenn halda áfram að þjóna trúfastir sem öldungar í söfnuðunum; sumir starfa sem farandumsjónarmenn og eru til fyrirmyndar í því. — Orðskviðirnir 16:31.
9 Páll ráðlagði Tímóteusi: „Ávíta þú ekki aldraðan mann harðlega, heldur áminn hann sem föður, yngri menn sem bræður, aldraðar konur sem mæður, ungar konur sem systur í öllum hreinleika.“ (1. Tímóteusarbréf 5:1, 2) Þeir sem hafa nýlega komið úr ruddalegum heimi inn í kristna söfnuðinn ættu sérstaklega að taka til sín orð Páls sem eru byggð á kærleika. Hinir ungu ættu ekki að líkja eftir þeim slæmu viðhorfum sem þeir kunna að sjá í skólanum. Látið ykkur ekki gremjast vingjarnleg ráð eldri votta. (1. Korintubréf 13:4-8; Hebreabréfið 12:5, 6, 11) En þegar hinir öldruðu þarfnast hjálpar vegna bágrar heilsu eða fjárhagserfiðleika, hverjir bera þá fyrst og fremst ábyrgð á að leggja þeim lið?
Hlutverk fjölskyldunnar í umönnun aldraða
10, 11. (a) Hver ætti, samkvæmt Biblíunni, að taka forystuna í því að annast aldraða? (b) Hvers vegna er ekki alltaf auðvelt að annast aldraða?
10 Í frumkristna söfnuðinum komu upp vandamál í sambandi við umönnun ekkna. Hvernig sagði Páll postuli að þörfum þeirra skyldi fullnægt? „Heiðra ekkjur, sem í raun og veru eru ekkjur. En ef einhver ekkja á börn eða barnabörn, þá læri þau fyrst og fremst að sýna rækt eigin heimili og endurgjalda foreldrum sínum, því að það er þóknanlegt fyrir augliti Guðs. En ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“ — 1. Tímóteusarbréf 5:3, 4, 8.
11 Þegar á bjátar ættu nánustu ættingjar að vera fyrstir til að hjálpa hinum öldruðu.a Þannig geta uppkomin börn sýnt að þau kunni að meta áralangan kærleika, vinnu og umönnun foreldra sinna. Það er kannski ekki auðvelt. Þegar fólk eldist þarf það eðlilega að fara sér hægar en áður og sumir verða jafnvel ófærir um að hjálpa sér sjálfir. Aðrir verða kannski sjálfhverfir og heimtufrekir, ef til vill án þess að átta sig á því. En vorum við ekki líka sjálfhverf og heimtufrek þegar við vorum smábörn? Og voru foreldrar okkar ekki óðfúsir að hjálpa okkur? Núna eru aðstæður breyttar á elliárum þeirra. Hvers þarfnast þeir þá? Umhyggju og þolinmæði. — Samanber 1. Þessaloníkubréf 2:7, 8.
12. Hvaða eiginleika þarf til að annast aldraða — og alla aðra í kristna söfnuðinum?
12 Páll postuli gaf raunhæf ráð þegar hann skrifaði: „Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra. En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans.“ Ef við eigum að sýna þess konar umhyggju og kærleika í söfnuðinum, ættum við þá ekki enn frekar að sýna hann í fjölskyldunni? — Kólossubréfið 3:12-14.
13. Hverjir, auk aldraðra foreldra eða afa og ömmu, gætu þarfnast hjálpar?
13 Stundum eru það kannski ekki bara foreldrar eða afar og ömmur sem þarfnast slíkrar hjálpar, heldur einnig aðrir aldraðir ættingjar. Sumir hinna öldruðu, sem eru barnlausir, hafa þjónað um langt árabil í trúboðsstarfi, farandstarfi eða gegnt annarri þjónustu í fullu starfi. Þeir hafa í sannleika sagt látið Guðsríki ganga fyrir öðru í lífi sínu. (Matteus 6:33) Væri þá ekki viðeigandi að sýna þeim umhyggju? Vissulega sjáum við gott fordæmi í því hvernig Varðturnsfélagið annast aldraða Betelmeðlimi. Í aðalstöðvunum í Brooklyn og eins við allnokkur útibú Félagsins njóta nokkrir aldraðir bræður og systur daglegrar umönnunar þjálfaðra Betelfjölskyldumeðlima sem er falið það verkefni að annast þá. Þeir annast glaðir þessa öldruðu einstaklinga eins og væru þeir foreldrar þeirra eða afar og ömmur. Um leið læra þeir margt af reynslu hinna öldruðu. — Orðskviðirnir 22:17.
Hlutverk safnaðarins í umönnun aldraðra
14. Hvaða ráðstöfun var gerð í þágu aldraðra í frumkristna söfnuðinum?
14 Víða um lönd sér hið opinbera öldruðum fyrir ellilífeyri og læknisþjónustu. Kristnir menn geta notað sér slíkar ráðstafanir að fullu þar sem þeir eiga rétt á slíku. Á fyrstu öldinni voru hins vegar engar slíkar ráðstafanir. Þess vegna greip kristni söfnuðurinn til sinna ráða til að hjálpa blásnauðum ekkjum. Páll gaf eftirfarandi leiðbeiningar: „Ekkja sé ekki tekin á skrá yfir ekkjur [til að hljóta fjárhagsaðstoð safnaðarins] nema hún sé orðin fullra sextíu ára, eingift og lofsamlega kunn að góðum verkum. Hún verður að hafa fóstrað börn, sýnt gestrisni, þvegið fætur heilagra, hjálpað bágstöddum og lagt stund á hvert gott verk.“ Þannig benti Páll á að söfnuðurinn hefði einnig hlutverki að gegna í því að hjálpa öldruðum. Andlega sinnaðar konur, sem ekki áttu börn í trúnni, áttu kost á slíkri hjálp. — 1. Tímóteusarbréf 5:9, 10.
15. Hvernig gæti hjálpar verið þörf til að verða sér úti um opinbera aðstoð?
15 Í þeim löndum þar sem hið opinbera styður aldraða þarf yfirleitt að útfylla pappíra sem aldraðir gætu veigrað sér við. Í slíkum tilvikum er viðeigandi að umsjónarmenn safnaðarins geri ráðstafanir til að veita hjálp þannig að hinir öldruðu geti sótt um, nálgast eða jafnvel fengið aukna aðstoð. Stundum geta breyttar kringumstæður hækkað lífeyri. En umsjónarmennirnir geta líka gert margar aðrar hagnýtar ráðstafanir þannig að þörfum aldraðra sé fullnægt. Hverjar gætu þær verið?
16, 17. Á hvaða mismunandi vegu gætum við sýnt öldruðum í söfnuðinum gestrisni?
16 Gestrisni er siður sem nær allt aftur til biblíutímans. Enn þann dag í dag er ókunnugum sýnd gestrisni víða í Miðausturlöndum, í það minnsta er þeim boðinn te- eða kaffibolli. Það kemur því ekki á óvart að Páll skyldi skrifa: „Takið þátt í þörfum heilagra, stundið gestrisni.“ (Rómverjabréfið 12:13) Gríska orðið fyrir gestrisni, filoxeniʹa, merkir bókstaflega „kærleikur (dálæti eða vinsemd) til ókunnugra.“ Ef kristinn maður á að vera gestrisinn við ókunnuga, ætti hann þá ekki að vera enn gestrisnari við trúsystkini sín? Matarboð er oft kærkomin tilbreyting í daglegu lífi aldraðs einstaklings. Ef þú vilt láta rödd visku og reynslu heyrast þegar þú býður til þín gestum, þá skaltu bjóða öldruðum með. — Samanber Lúkas 14:12-14.
17 Hægt er að uppörva hina öldruðu á margan hátt. Myndi einhver hinna öldruðu vera þakklátur fyrir að fá bílfar með okkur í ríkissalinn eða á mót? Ekki bíða eftir að þeir biðji um það. Bjóðstu til að taka þá með. Að hjálpa þeim við matarinnkaup er önnur gagnleg aðstoð. Ef þeir eru færir um, gætum við kannski tekið þá með okkur þegar við förum út að versla? En gætum þess þó að þeir geti tyllt sér niður einhvers staðar og fengið sér hressingu ef þess gerist þörf. Þetta kostar vafalaust þolinmæði og góðvild, en einlægt þakklæti hins aldraða er mjög svo mikil umbun. — 2. Korintubréf 1:11.
Prýði sérhvers safnaðar
18. Hvers vegna eru hinir öldruðu blessun fyrir söfnuðinn?
18 Hvílík blessun að sjá gráar og hvítar hærur (og einnig skalla fyrir aldurs sakir) í söfnuðinum! Það þýðir að innan um tápmikil og hraust ungmenni er að finna slæðing af visku og reynslu — sem er mikils virði fyrir hvern söfnuð. Þekking hinna öldruðu er eins og hressandi vatn sem þarf að draga upp úr brunni. Það er eins og Orðskviðirnir 18:4 orða það: „Djúp vötn eru orð af manns munni, lind viskunnar er sem rennandi lækur.“ Það er mjög hvetjandi fyrir hina öldruðu að finna að þeirra er óskað og þeir eru metnir að verðleikum! — Samanber Sálm 92:15.
19. Hvernig hafa sumir kostað ýmsu til í þágu aldraðra foreldra sinna?
19 Sumir, sem þjónuðu í fullu starfi, hafa talið nauðsynlegt að afsala sér sérréttindum sínum og snúa heim til að annast aldraða og sjúka foreldra. Þeir hafa kostað ýmsu til í þágu þeirra sem áður lögðu margt í sölurnar fyrir þá. Ein hjón, sem voru áður trúboðar og þjóna enn í fullu starfi, sneru heim til að annast aldraða foreldra sína. Það hafa þau gert í rúmlega 20 ár. Fyrir fjórum árum þurfti að koma móður mannsins fyrir á hjúkrunarheimili. Eiginmaðurinn, sem er núna kominn yfir sextugt, heimsækir móður sína daglega en hún er 93 ára. Hann segir: „Hvernig gæti ég yfirgefið hana? Hún er móðir mín!“ Í öðrum tilvikum hafa söfnuðir og einstaklingar boðist til að hafa auga með öldruðum einstaklingum þannig að börn þeirra gætu haldið áfram að sinna því þjónustuverkefni sem þeim hefur verið falið. Slík ósérplægni er líka mjög hrósunarverð. Taka þarf samviskusamlega á hverju máli því að ekki má vanrækja hina öldruðu. Sýndu að þú elskir aldraða foreldra þína. — 2. Mósebók 20:12; Efesusbréfið 6:2, 3.
20. Hvaða fordæmi hefur Jehóva gefið okkur í því að annast aldraða?
20 Aldraðir bræður okkar og systur eru svo sannarlega höfuðprýði sérhverrar fjölskyldu eða safnaðar. Jehóva sagði: „Allt til elliára er ég hinn sami, og ég vil bera yður, þar til er þér verðið gráir fyrir hærum. Ég hefi gjört yður, og ég skal bera yður, ég skal bera yður og frelsa.“ Megum við sýna sams konar þolinmæði og umhyggju í garð aldraðra bræðra og systra í hinni kristnu fjölskyldu. — Jesaja 46:4; Orðskviðirnir 16:31.
[Neðanmáls]
a Ítarlegar tillögur um hvað ættingjar geti gert til að hjálpa öldruðum er að finna í Varðturninum 1. október 1987, bls. 13-18.
Manst þú?
◻ Hvaða fordæmi höfum við í Biblíunni fyrir því að annast aldraða?
◻ Hvernig ættum við að koma fram við aldraða?
◻ Hvernig geta ættingjar annast aldraða ástvini?
◻ Hvað getur söfnuðurinn gert til að hjálpa hinum öldruðu?
◻ Hvers vegna eru hinir öldruðu okkur öllum til blessunar?
[Mynd á blaðsíðu 21]
Hinir öldruðu eru mikils metnir meðlimir safnaðarins.