Fordæmi í lítillæti til eftirbreytni
„Lítillæti þitt gjörði mig mikinn.“ — SÁLMUR 18:36.
1. Hvaða merki um lítillæti mátti sjá hjá fyrrverandi forseta Varðturnsfélagsins?
JOSEPH F. RUTHERFORD var maður sem sópaði að. Hann var meira en 180 sentímetrar á hæð og vóg vel yfir 90 kílógrömm. Hann hafði einnig kraftmikla rödd sem hann notaði ekki aðeins til að kunngera nafn Jehóva á þann hátt sem það hafði aldrei verið kunngert áður heldur líka til að afhjúpa tvöfeldni trúarleiðtoga kristna heimsins og kalla trúarbrögð þeirra „snöru og svikamillu.“ En þótt ræður hans væru kraftmiklar hljómaði hann alveg eins og lítill drengur að tala við pabba sinn þegar hann bað til Guðs með Betelfjölskyldunni á höfuðstöðvunum. Þar kom í ljós bæði hið nána samband hans við skapara sinn og lítillæti hans. Já, hann var auðmjúkur eins og lítið barn. — Matteus 18:3, 4.
2. Að hvaða sérstöku leyti stinga þjónar Jehóva áberandi í stúf við einstaklinga í heiminum?
2 Án efa eru allir sannir þjónar Jehóva lítillátir. Þar stinga þeir áberandi í stúf við heiminn þar sem meira ber á stærilátum einstaklingum en nokkru sinni fyrr. Hinir háu og voldugu, hinir ríku og lærðu, og jafnvel margir hinna fátæku eða illa settu á aðra vegu eru hrokafullir.
3. Hvað má segja um ávexti hrokans?
3 Hroki veldur endalausum erjum og ógæfu. Raunar hófst öll eymdin í alheiminum með því að ákveðinn engill varð hrokafullur, vildi láta tilbiðja sig á þann hátt sem einungis hæfði skaparanum, Jehóva Guði. (Matteus 4:9, 10) Þar að auki tókst þessum engli, sem gerði sig að djöflinum og Satan, að tæla fyrstu konuna, Evu, með því að höfða til stærilætis hennar. Hann lofaði henni að ef hún æti af forboðna ávextinum gæti hún orðið eins og Guð, vitað skyn bæði góðs og ills. Ef hún hefði verið lítillát hefði hún sagt: ‚Hví skyldi ég vilja vera eins og Guð?‘ (1. Mósebók 3:4, 5) Þegar við skoðum hið auma ástand mannkynsins, líkamlega, andlega og siðferðilega, er ljóst að hroki manna er óafsakanlegur. Það er engin furða að við skulum lesa að Jehóva hati „drambsemi og ofdramb.“ (Orðskviðirnir 8:13) Þau fordæmi í lítillæti, sem er að finna í orði Guðs, Biblíunni, eru sláandi andstæða við alla hrokagikki.
Jehóva Guð er lítillátur
4. Hvaða ritningarstaðir sýna að Jehóva er lítillátur?
4 Jehóva Guð — hinn hæsti, drottinvaldur alheimsins, eilífðarkonungurinn — er lítillátur. (1. Mósebók 14:22) Getur það verið? Já, svo sannarlega. Davíð konungur sagði, eins og skráð er í Sálmi 18:36: „Þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og hægri hönd þín studdi mig, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.“ Davíð konungur lét greinilega í ljós að það væri Jehóva sem hefði gert hann, Davíð, mikinn. Auk þess lesum við í Sálmi 113:6 að Jehóva „horfir djúpt á himni og jörðu.“ Aðrar þýðingar segja „lýtur svo lágt að horfa,“ (NW) „leggur sig niður við að horfa svo lágt.“ — The New English Bible.
5. Hvaða atburðir bera vitni um lítillæti Jehóva?
5 Jehóva Guð laut vissulega lágt í því hvernig hann meðhöndlaði Abraham. Hann leyfði Abraham að draga í efa réttsýni hans í því að ætla að eyða hinum illu borgum Sódómu og Gómorru. (1. Mósebók 18:23-32) Og þegar Jehóva lét í ljós að honum væri skapi næst að þurrka Ísraelsþjóðina út — í annað skiptið fyrir skurðgoðadýrkun, í hitt skiptið fyrir uppreisn — rökræddi Móse í bæði skiptin við Jehóva eins og hann væri að tala við annan mann. Jehóva brást vingjarnlega við í báðum tilvikum. Það var merki um lítillæti að hann skyldi verða við þrábeiðni Móse um þjóð hans, Ísrael. (2. Mósebók 32:9-14; 3. Mósebók 14:11-20) Önnur dæmi um að Jehóva hafi í lítillæti meðhöndlað menn eins og maður væri að eiga við mann má sjá í samskiptum hans við Gídeon og Jónas, eins og skráð er í Dómarabókinni 6:36-40 og Jónasi 4:9-11.
6. Hvaða eiginleiki Jehóva gefur enn fremur til kynna lítillæti hans?
6 Í það minnsta níu sinnum er Jehóva sagður vera „þolinmóður“ eða „seinn til reiði.“a Það er frekari sönnun um að Jehóva sé lítillátur að hann skuli hafa sýnt langlundargeð, verið seinn til reiði, í samskiptum sínum við ófullkomna menn um þúsundir ára. Hrokafullir menn eru óþreyjufullir, fljótir að láta í ljós reiði sem er gerólíkt því að sýna langlundargeð eða þolgæði. Hroki ófullkominna manna er sannarlega fáránlegur í samanburði við lítillæti Jehóva. Þar sem okkur er sagt að vera „eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans,“ verðum við að vera lítillát eins og hann er lítillátur. — Efesusbréfið 5:1.
Fordæmi Krists í lítillæti
7, 8. Hvað segir Ritningin um lítillæti Jesú Krists?
7 Í 1. Pétursbréfi 2:21 er minnst á annað mesta fordæmið í lítillæti fyrir okkur að líkja eftir: „Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ Löngu áður en hann kom til jarðar sem maður var spáð um hann í Sakaría 9:9: „Lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem! Sjá, konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna.“ Ef Jesús hefði verið hrokafullur hefði hann alveg getað þegið boð djöfulsins um öll ríki heims í skiptum fyrir eina tilbeiðsluathöfn. (Matteus 4:9, 10) Hann sýndi einnig lítillæti sitt með því að eigna Jehóva allan heiðurinn af kenningum sínum, er hann sagði: „Þegar þér hefjið upp Mannssoninn, munuð þér skilja, að ég er sá sem ég er, og að ég gjöri ekkert af sjálfum mér, heldur tala ég það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér.“ — Jóhannes 8:28.
8 Með réttu gat hann sagt við áheyrendur sína: „Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ (Matteus 11:29) Hann setti sannarlega fagurt fordæmi um auðmýkt með því að þvo fætur lærisveina sinna síðasta kvöldið er hann var með þeim sem maður. (Jóhannes 13:3-15) Það var því vel við hæfi að Páll postuli skyldi ráðleggja kristnum mönnum í Filippíbréfinu 2:3-8 að vera „lítillátir“ og benda síðan á Jesú Krist sem fordæmi: „Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var. Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. [„Þótt hann væri í Guðs mynd hvarflaði rán ekki að honum, það er að hann skyldi vera jafn Guði.“ NW] Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.“ Þegar hann stóð frammi fyrir mestu rauninni í lífi sínu bað hann í auðmýkt til föður síns: „Ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.“ (Matteus 26:39) Það fer ekki á milli mála að ef við eigum að líkja eftir Jesú Kristi, feta nákvæmlega í fótspor hans, verðum við að vera auðmjúk.
Páll postuli, gott fordæmi í lítillæti
9-12. Hvernig gaf Páll postuli gott fordæmi í lítillæti?
9 Páll postuli skrifaði: „Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists.“ (1. Korintubréf 11:1) Breytti Páll postuli eftir Jesú Kristi með því að vera lítillátur og gefa okkur með því annað fordæmi í auðmýkt til að líkja eftir? Svo sannarlega gerði hann það. Fyrst má nefna að hann viðurkenndi auðmjúklega að hann væri þjónn Jesú Krists. (Filippíbréfið 1:1) Hann sagði öldungunum í Efesus frá því að hann hefði ‚þjónað Drottni í allri auðmýkt, með tárum og raununum sem að honum höfðu steðjað af launráðum Gyðinga.‘ (Postulasagan 20:17-19) Ef hann hefði ekki verið auðmjúkur hefði hann aldrei skrifað orðin sem finna má í Rómverjabréfinu 7:18, 19: „Ég veit, að ekki býr neitt gott í mér, það er, í holdi mínu. . . . Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.“
10 Það sem Páll skrifaði kristnum mönnum í Korintu og skráð er í 1. Korintubréfi 2:3 er einnig til marks um lítillæti hans: „Ég dvaldist á meðal yðar í veikleika, ótta og mikilli angist.“ Auðmjúkur vísaði hann til fyrri lífshátta, áður en hann varð kristinn, þegar hann skrifaði: „[Ég], sem fyrrum var lastmælandi, ofsóknari og smánari. . . . Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur.“ — 1. Tímóteusarbréf 1:13, 15.
11 Enn fremur sýnir það lítillæti hans að hann skuli eigna Jehóva Guði allan árangurinn af erfiði sínu. Hann skrifaði um þjónustu sína: „Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn. Þannig er þá hvorki sá neitt, er gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur.“ (1. Korintubréf 3:6, 7) Hann bað einnig bræður sína að biðja fyrir sér svo að hann mætti gefa góðan vitnisburð, eins og við lesum í Efesusbréfinu 6:19, 20: „Biðjið fyrir mér, að mér verði gefin orð að mæla . . . að ég geti flutt [leyndardóm fagnaðarerindisins] með djörfung, eins og mér ber að tala.“
12 Páll sýndi einnig lítillæti sitt með því hvernig hann háttaði samvinnu sinni við hina postulana: „Réttu þeir Jakob, Kefas og Jóhannes . . . mér og Barnabasi hönd sína til bræðralags: Við skyldum fara til heiðingjanna, en þeir til hinna umskornu.“ (Galatabréfið 2:9) Auk þess sýndi hann fúsleika sinn til samvinnu við öldunga safnaðarins í Jerúsalem með því að taka fjóra unga menn með sér til musterisins og bera kostnaðinn fyrir þá er þeir uppfylltu heit sín. — Postulasagan 21:23-26.
13. Hvað gerði lítillæti Páls svo eftirtektarvert?
13 Lítillæti Páls er þeim mun eftirtektarverðara þegar við veitum athygli hversu stórlega Jehóva Guð notaði hann. Við lesum til dæmis að „Guð gjörði óvenjuleg kraftaverk fyrir hendur Páls.“ (Postulasagan 19:11, 12) Þar að auki voru honum gefnar yfirnáttúrlegar sýnir og opinberanir. (2. Korintubréf 12:1-7) Við ættum ekki heldur að láta okkur yfirsjást að hann fékk innblástur til að skrifa 14 af hinum 27 bókum (eða bréfum) kristnu Grísku ritninganna. Allt þetta steig honum ekki til höfuðs. Hann hélt áfram að vera lítillátur.
Nútímafordæmi
14-16. (a) Hvernig var fyrsti forseti Varðturnsfélagsins gott fordæmi í lítillæti? (b) Hver var áberandi ólíkur honum að þessu leyti?
14 Í Hebreabréfinu 13:7 lesum við ráðleggingar Páls: „Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra.“ Í samræmi við þessa frumreglu getum við tekið sem nútímadæmi fyrsta forseta Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn, Charles Taze Russell. Við gætum líkt eftir trú hans. Var hann lítillátur maður? Svo sannarlega var hann það! Eins og margir hafa tekið eftir vísaði hann ekki í eitt einasta sinn til sjálfs sín í texta ritverks síns Studies in the Scriptures (Rannsóknir á Ritningunni), sem er upp á um það bil 3000 blaðsíður í sex bindum. Í ritum Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn nú til dags er fylgt þessari sömu frumreglu að draga ekki athyglina að mönnum og þess vegna eru nöfn greinahöfunda ekki gefin upp.
15 Russell skrifaði eitt sinn í Varðturninn að hann þekkti ekki neitt slíkt sem nefna mætti „Russellisma“ eða „Russellíta,“ hugtök sem andstæðingar hans notuðu en hann hafnaði afdráttarlaust. Hann skrifaði: „Starf okkar . . . hefur verið að koma saman sannleiksbrotum sem lengi hafa verið tvístruð og kynna þau fyrir fólki Drottins — ekki sem nýjum, ekki sem okkar eigin heldur sem Drottins. . . . Starfið, sem Drottni hefur þóknast að nota okkar fátæklegu hæfileika til að framkvæma, hefur í minna mæli verið frumvinna en vinna að enduruppbyggingu, lagfæringu, samræmingu.“ Með sanni má segja að hann hafi tjáð skoðanir Páls postula eins og þær er að finna í 1. Korintubréfi 3:5-7.
16 Viðhorf hans var gerólíkt viðhorfum Charles Darwins. Í fyrstu útgáfu Darwins á bókinni Uppruni tegundanna árið 1859 vísaði hann aftur og aftur í kenningu „sína“ og lést ekki sjá það sem aðrir höfðu sagt um þróun á undan honum. Þekktur rithöfundur á þeirri öld, Samuel Butler, setti ærlega ofan í við Darwin og benti á að margir aðrir hefðu áður sett fram tilgátuna um þróun; Darwin væri engan veginn upphafsmaður hennar.
17. Hvaða fleiri dæmi má nefna um lítillæti bróður Rutherfords?
17 Annar trúfastur nútímaþjónn, sem Jehóva Guð notaði mjög mikið, var Joseph F. Rutherford sem nefndur var í upphafi. Hann var djarfur talsmaður biblíusanninda og sér í lagi nafns Jehóva. Þótt hann væri víðkunnur sem Rutherford dómari var hann í hjarta sínu auðmjúkur maður. Til dæmis kom hann eitt sinn með nokkrar kreddukenndar fullyrðingar um það sem kristnir menn gætu átt von á árið 1925. Þegar atburðarásin reyndist ekki styðja væntingar hans sagði hann auðmjúklega við Betelfjölskylduna í Brooklyn að hann hefði gert sig að fífli. Smurður kristinn maður, sem umgekkst bróður Rutherford talsvert náið, greindi svo frá að hvað eftir annað hefði hann heyrt hann biðjast afsökunar í anda Matteusar 5:23, 24, bæði opinberlega og einslega, fyrir að hafa sært trúbróður sinn með einhverjum óviturlegum orðum. Það kallar á lítillæti hjá þeim sem er í stjórnunarstöðu að biðja þá afsökunar sem eru undir hann settir. Bróðir Rutherford gaf öllum umsjónarmönnum gott fordæmi, hvort sem þeir eru í söfnuðinum, í farandstarfinu eða á einhverri af deildarskrifstofum Félagsins.
18. Hvaða orð þriðja forseta Félagsins gefa til kynna auðmjúkt hugarfar?
18 Þriðji forseti Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn, Nathan H. Knorr, sem var mjög áberandi á meðal fólks Jehóva, sýndi líka að honum fannst hann ekkert yfir aðra hafinn vegna stöðu sinnar. Þótt hann byggi yfir frábærum skipulagshæfileikum og væri afburðaræðumaður bar hann mikla virðingu fyrir því sem aðrir gerðu. Þannig kom hann einu sinni inn á skrifstofu bróður á ritdeildinni og sagði: „Hér er staðurinn þar sem mikilvægasta og jafnframt erfiðasta starfsemin fer fram. Það er þess vegna sem ég tek svo lítinn þátt í henni.“ Já, hann var í auðmýkt að fylgja ráðunum í Filippíbréfinu 2:3 að ‚meta með lítillæti aðra meira en sjálfan sig.‘ Hann gerði sér ljóst að þótt það væri mikilvægt starf að þjóna sem forseti Félagsins væru störf annarra einnig mikilvæg. Það kallaði á lítillæti hjá honum að finnast það og tjá það svo mörgum orðum. Hann var annað gott dæmi öllum til eftirbreytni, einkum þeim sem kunna að gegna áberandi starfi sem umsjónarmenn.
19, 20. (a) Hvaða fordæmi í lítillæti gaf fjórði forseti Félagsins? (b) Hvernig hjálpar næsta grein okkur að iðka lítillæti?
19 Fjórði forseti Félagsins, Fred W. Franz, var líka gott fordæmi í lítillæti. Sem varaforseti Félagsins í meira en 32 ár skrifaði hann mikið af því sem birtist í tímaritunum og borið var fram á dagskrá mótanna. Þó hélt hann sig alltaf baksviðs hvað þetta snertir, leitaðist aldrei við að vera í sviðsljósinu. Vitna mætti í sambærilegt dæmi til forna. Þegar Jóab vann sigur á Ammónítum í Rabba gætti hann þess að Davíð konungur fengi heiðurinn af sigrinum. — 2. Samúelsbók 12:26-28.
20 Með sanni eru til mörg góð fordæmi, fyrr og nú, sem gefa okkur gilda ástæðu til að vera lítillát. Hins vegar höfum við mun fleiri ástæður til að vera lítillát og í næstu grein skoðum við þær, svo og það sem hjálpar okkur að vera auðmjúk.
[Neðanmáls]
a 2. Mósebók 34:6; 4. Mósebók 14:18; Nehemía 9:17; Sálmur 86:15; 103:8; 145:8; Jóel 2:13; Jónas 4:2; Nahúm 1:3.
Manst þú?
◻ Hvaða ávexti hefur hrokinn borið?
◻ Hver hefur gefið besta fordæmið í lítillæti?
◻ Hvað sýnir hver var annað mesta fordæmið í lítillæti?
◻ Hvaða fagurt fordæmi í lítillæti gaf Páll postuli?
◻ Hvaða framúrskarandi nútímadæmi í lítillæti höfum við?
[Mynd á blaðsíðu 9]
Jesús gaf góða sýnikennslu í lítillæti.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Páll gaf gott fordæmi í lítillæti.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Bróðir Russell tók ekki til sín heiðurinn af því sem hann skrifaði.