Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w94 1.6. bls. 19-24
  • Jehóva stjórnar – með Guðræði

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Jehóva stjórnar – með Guðræði
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Guðveldi verður til
  • Yfirvald undir guðræðisstjórn
  • Óguðræðisleg verk og viðhorf
  • Guðveldi líður undir lok
  • Nýtt guðveldi
  • Haltu þig fast við Guðveldið
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Hirðar og sauðir í Guðveldi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Gætum hjarðarinnar með okkar mikla Skapara
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1993
  • Stjórnarfar Jehóva er hið eina rétta
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
w94 1.6. bls. 19-24

Jehóva stjórnar – með Guðræði

„[Jehóva] er konungur að eilífu.“ — SÁLMUR 146:10.

1, 2. (a) Hvers vegna hafa tilraunir manna til að stjórna mistekist? (b) Hvert er eina stjórnarformið sem hefur reynst vel?

ALLT frá dögum Nimrods hafa menn reynt mismunandi aðferðir til að stjórna mannfélaginu. Þeir hafa reynt einræði, konungsveldi, fámennisstjórnir og ýmsar útgáfur lýðræðis. Jehóva hefur leyft þetta allt saman. Þar eð Guð er frumuppspretta alls valds má raunar segja að hann hafi í vissum skilningi sett hina ólíku stjórnendur hvern í sína afstæðu stöðu. (Rómverjabréfið 13:1) Engu að síður hafa allar tilraunir manna til að stjórna mistekist. Enginn mennskur stjórnandi hefur skapað langvarandi, stöðugt og réttlátt þjóðfélag. Allt of oft hefur ‚einn maðurinn drottnað yfir öðrum honum til ógæfu.‘ — Prédikarinn 8:9.

2 Ætti þetta að koma okkur á óvart? Auðvitað ekki! Ófullkomnir menn voru ekki gerðir til að stjórna sér sjálfir. „Örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Það er þess vegna sem aðeins eitt stjórnarform hefur í raun reynst farsælt í allri mannkynssögunni. Hvert? Guðræðisstjórn Jehóva Guðs. Hvaða betri stjórn er hægt að hugsa sér en stjórn Jehóva Guðs sjálfs? — Sálmur 146:10.

3. Nefndu nokkur dæmi úr fortíðinni um guðræðisstjórn á jörðinni.

3 Guðræði ríkti um skamman tíma í Eden uns Adam og Eva gerðu uppreisn gegn Jehóva. (1. Mósebók 3:1-6, 23) Á dögum Abrahams virðist guðræði hafa ríkt í borginni Salem þar sem Melkísedek var prestkonungur. (1. Mósebók 14:18-20; Hebreabréfið 7:1-3) Fyrsta þjóðin, sem var guðveldi undir stjórn Jehóva Guðs, var hins vegar sett á stofn í Sínaíeyðimörk á 16. öld f.o.t. Hvernig bar það til? Og hvernig starfaði þessi guðræðisstjórn?

Guðveldi verður til

4. Hvernig stofnaði Jehóva guðræðisþjóðina Ísrael?

4 Árið 1513 f.o.t. frelsaði Jehóva Ísraelsmenn úr þrælkun í Egyptalandi og eyddi her Faraós, sem elti þá, í Rauðahafinu. Síðan leiddi hann Ísraelsmenn til Sínaífjalls. Þegar þeir höfðu sett búðir sínar við fjallsræturnar sagði Guð þeim fyrir milligöngu Móse: „Þér hafið sjálfir séð, hvað ég hefi gjört Egyptum, og hversu ég hefi borið yður á arnarvængjum og flutt yður til mín. Nú ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir.“ Ísraelsmenn svöruðu: „Vér viljum gjöra allt það, sem [Jehóva] býður.“ (2. Mósebók 19:4, 5, 8) Sáttmáli var gerður og guðræðisþjóðin Ísrael varð til. — 5. Mósebók 26:18, 19.

5. Hvernig var hægt að segja að Jehóva hafi stjórnað í Ísrael?

5 En á hvaða hátt stjórnaði Jehóva Ísrael, hann sem er ósýnilegur mönnum? (2. Mósebók 33:20) Á þann hátt að það var hann sem setti þjóðinni lög og gaf henni prestdóm. Þeir sem hlýddu lögunum og tilbáðu í samræmi við það fyrirkomulag, sem Guð skipaði fyrir um, þjónuðu guðvaldinum mikla, Jehóva. Enn fremur hafði æðsti presturinn úrím og túmmím sem Jehóva notaði til að leiðbeina þjóðinni á neyðarstund. (2. Mósebók 28:29, 30) Auk þess voru hæfir öldungar fulltrúar Jehóva innan guðveldisins og sáu til þess að lögmáli hans væri fylgt. Við skiljum betur hvernig menn eiga að lúta stjórn Guðs ef við skoðum sögu sumra þessara manna.

Yfirvald undir guðræðisstjórn

6. Hvers vegna var það áskorun fyrir menn að fara með völd undir guðræðisstjórn og hvers konar menn þurfti til þessarar ábyrgðar?

6 Þeir sem gegndu valdastöðum í Ísrael nutu mikilla sérréttinda en það var áskorun á þá að halda jafnvægi sínu. Þeir urðu að gæta þess að þeirra eigið sjálfsálit yrði aldrei mikilvægara en það að helga nafn Jehóva. Hin innblásnu orð að það væri ekki „á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum“ giltu jafnt um Ísraelsmenn sem mannkynið í heild. Ísraelsþjóðin dafnaði aðeins þegar öldungarnir mundu eftir því að Ísrael var guðveldi og að þeir áttu að gera vilja Jehóva, ekki sinn eigin. Skömmu eftir stofnsetningu Ísraels lýsti tengdafaðir Móse, Jetró, því vel hvers konar menn það áttu að vera, það er að segja ‚dugandi menn og guðhræddir, áreiðanlegir menn og ósérplægnir.‘ — 2. Mósebók 18:21.

7. Á hvaða vegu var Móse gott fordæmi um mann sem gegndi valdastöðu undir stjórn Jehóva Guðs?

7 Móse var fyrstur til að gegna hárri valdastöðu í Ísrael. Hann var gott fordæmi um valdamann innan guðræðisfyrirkomulags. Að vísu kom mannlegur veikleiki fram hjá honum við eitt tækifæri. Móse reiddi sig þó alltaf á Jehóva. Þegar upp komu mál, sem ekki var þegar búið að finna lausn á, leitaði hann leiðsagnar Jehóva. (Samanber 4. Mósebók 15:32-36.) Hvernig stóðst Móse þá freistingu að nota háa stöðu sína til að upphefja sjálfan sig? Þótt hann væri leiðtogi milljónaþjóðar var hann „einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu.“ (4. Mósebók 12:3) Hann var ekki metnaðargjarn heldur lét sér annt um að upphefja Guð. (2. Mósebók 32:7-14) Og Móse hafði sterka trú. Páll postuli talaði um hann áður en hann varð þjóðarleiðtogi og sagði: „Hann . . . var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.“ (Hebreabréfið 11:27) Móse gleymdi greinilega aldrei að Jehóva var hinn raunverulegi stjórnandi þjóðarinnar. (Sálmur 90:1, 2) Þetta er sannarlega gott fordæmi fyrir okkur sem nú lifum!

8. Hvaða fyrirmæli gaf Jehóva Jósúa og hvers vegna er það eftirtektarvert?

8 Þegar Móse réði ekki lengur einn við að hafa umsjón Ísrael lagði Jehóva anda sinn yfir 70 öldunga sem studdu hann í því að dæma þjóðina. (4. Mósebók 11:16-25) Síðar meir átti hver borg að hafa sína eigin öldunga. (Samanber 5. Mósebók 19:12; 22:15-18; 25:7-9.) Eftir dauða Móse gerði Jehóva Jósúa að leiðtoga þjóðarinnar. Við getum ímyndað okkur að Jósúa hafi haft í mörg horn að líta samfara þeim sérréttindum. Engu að síður sagði Jehóva honum að eitt mætti hann aldrei vanrækja: „Eigi skal lögmálsbók þessi víkja úr munni þínum, heldur skalt þú hugleiða hana um daga og nætur, til þess að þú gætir þess að gjöra allt það, sem í henni er skrifað.“ (Jósúabók 1:8) Taktu eftir að enda þótt Jósúa ætti að baki yfir 40 ára þjónustu þurfti hann að halda áfram að lesa lögmálið. Við þurfum líka að nema Biblíuna og hressa upp á minnið í sambandi við lög og meginreglur Jehóva — óháð því hve langa þjónustu við eigum að baki eða hve mörg sérréttindi við höfum. — Sálmur 119:111, 112.

9. Hvað gerðist í Ísrael á dómaratímanum?

9 Á eftir Jósúa komu dómarar hver af öðrum. Því miður fór svo á dómaratímanum að Ísraelsmenn gerðu oft „það, sem illt var í augum [Jehóva].“ (Dómarabókin 2:11) Frásagan segir um dómaratímann: „Í þá daga var enginn konungur í Ísrael. Hver maður gjörði það, sem honum vel líkaði.“ (Dómarabókin 21:25) Hver maður tók sínar eigin ákvarðanir um hegðun og tilbeiðslu og sagan sýnir að margir Ísraelsmenn tóku rangar ákvarðanir. Þeir fóru út í skurðgoðadýrkun og frömdu stundum hryllilega glæpi. (Dómarabókin 19:25-30) Sumir sýndu þó fyrirmyndartrú. — Hebreabréfið 11:32-38.

10. Hvernig varð róttæk breyting á stjórninni í Ísrael á dögum Samúels og til hvers leiddi það?

10 Meðan síðasti dómarinn, Samúel, var uppi gekk Ísrael gegnum stjórnarkreppu. Undir áhrifum óvinaþjóðanna umhverfis, sem allar voru undir konungsstjórn, hugsuðu Ísraelsmenn með sér að þeir þyrftu líka að hafa konung. Þeir gleymdu að þeir höfðu þá þegar konung yfir sér, að stjórn þeirra var guðræðisstjórn. Jehóva sagði Samúel: „Þeir hafa ekki hafnað þér, heldur hafa þeir hafnað mér, að ég skuli ekki lengur vera konungur yfir þeim.“ (1. Samúelsbók 8:7) Fordæmi þeirra minnir okkur á hve auðvelt það er að hætta að hafa andleg sjónarmið og verða fyrir áhrifum af umheiminum. — Samanber 1. Korintubréf 2:14-16.

11. (a) Hvernig má segja að Ísrael hafi haldið áfram að vera guðveldi undir stjórn konunganna, þrátt fyrir breytt stjórnarform? (b) Hvaða fyrirmæli gaf Jehóva konungum Ísraels og í hvaða tilgangi?

11 Engu að síður féllst Jehóva á beiðni Ísraelsmanna og valdi fyrstu tvo konunga þeirra, þá Sál og Davíð. Ísrael hélt áfram að vera guðveldi undir stjórn Jehóva. Til að konungar þjóðarinnar gleymdu því ekki var hverjum þeirra skylt að gera sér sitt eigið afrit af lögmálinu og lesa það daglega „til þess að hann læri að óttast [Jehóva] Guð sinn og gæti þess að halda öll fyrirmæli þessa lögmáls og þessi ákvæði, að hann ofmetnist eigi í hjarta sínu yfir bræður sína.“ (5. Mósebók 17:19, 20) Já, Jehóva vildi ekki að þeir sem fóru með yfirvald í guðveldi hans upphefðu sjálfa sig, og verk þeirra áttu að endurspegla lögmál hans.

12. Hvernig sýndi Davíð konungur trúfesti í stjórnartíð sinni?

12 Davíð konungur hafði einstaklega sterka trú á Jehóva sem gerði við hann sáttmála um að hann yrði forfaðir konungaættar er skyldi standa að eilífu. (2. Samúelsbók 7:16; 1. Konungabók 9:5; Sálmur 89:30) Auðmjúk undirgefni Davíðs við Jehóva var eftirbreytniverð. Hann sagði: „[Jehóva], yfir veldi þínu fagnar konungurinn, hve mjög kætist hann yfir hjálp þinni!“ (Sálmur 21:2) Þótt Davíð mistækist stundum vegna veikleika holdsins reiddi hann sig yfirleitt á styrk Jehóva, ekki sinn eigin.

Óguðræðisleg verk og viðhorf

13, 14. Nefndu nokkrar óguðræðislegar aðgerðir arftaka Davíðs.

13 Ekki voru allir leiðtogar Ísraels eins og þeir Móse og Davíð. Margir sýndu grófa óvirðingu fyrir guðræðislegri skipan og leyfðu falska guðsdýrkun í Ísrael. Jafnvel sumir trúfastir valdhafar voru stundum óguðræðislegir. Salómon er mjög sorglegt dæmi um það en honum var veitt mikil viska og auðlegð. (1. Konungabók 4:25, 29) Samt sem áður hafði hann lögmál Jehóva að engu og gekk að eiga margar konur og leyfði skurðgoðadýrkun í Ísrael. Ljóst er að stjórn Salómons var harðneskjuleg á efri æviárum hans. — 5. Mósebók 17:14-17; 1. Konungabók 11:1-8; 12:4.

14 Þjóðin krafðist þess af Rehabeam, syni Salómons, að hann létti byrðar hennar. Í stað þess að vera mildur hélt hann herskrár fram valdi sínu — og missti 10 ættkvíslir af 12. (2. Kroníkubók 10:4-7) Jeróbóam var fyrsti konungur þessa tíuættkvíslaríkis. Í von um að tryggja það að ríki hans sameinaðist aldrei aftur systurþjóð sinni kom hann á fót kálfadýrkun. Það kann að hafa virst snjöll, pólitísk ráðstöfun en það bar vott um óskammfeilið virðingarleysi fyrir guðræðinu. (1. Konungabók 12:26-30) Síðar, undir lok ævilangrar, trúfastrar þjónustu, leyfði Asa konungur drambi að setja blett á feril sinn. Hann lagði hendur á spámanninn sem kom til hans með ráðleggingar frá Jehóva. (2. Kroníkubók 16:7-11) Já, jafnvel þeir gömlu í hettunni þurfa stundum að fá ráðleggingar.

Guðveldi líður undir lok

15. Hvernig brugðust leiðtogar Gyðinganna sem valdamenn guðveldis þegar Jesús var á jörðinni?

15 Þegar Jesús Kristur var á jörðinni var Ísrael enn guðveldi. En því miður voru margir af hinum ábyrgu öldungum þjóðarinnar ekki andlega sinnaðir. Þeir ræktuðu sannarlega ekki með sér þá hógværð sem Móse sýndi. Jesús benti á andlega spillingu þeirra er hann sagði: „Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear. Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða.“ — Matteus 23:2, 3.

16. Hvernig sýndu leiðtogar Gyðinga á fyrstu öld að þeir báru enga virðingu fyrir guðræði?

16 Eftir að hafa framselt Pontíusi Pílatusi Jesú sýndu leiðtogar Gyðinga hve fjarlægir þeir voru orðnir guðræðislegri undirgefni. Pílatus yfirheyrði Jesú og komst að þeirri niðurstöðu að hann væri saklaus. Hann leiddi Jesú fram fyrir Gyðinga og sagði: „Sjáið þar konung yðar!“ Þegar Gyðingar heimtuðu með háreysti að Jesús yrði líflátinn spurði Pílatus: „Á ég að krossfesta konung yðar?“ Æðstu prestarnir svöruðu: „Vér höfum engan konung nema keisarann.“ (Jóhannes 19:14, 15) Þeir viðurkenndu keisarann sem konung, ekki Jesú sem ‚kom í nafni Jehóva‘! — Matteus 21:9.

17. Hvers vegna hætti Ísrael að holdinu að vera guðræðisþjóð?

17 Með því að hafna Jesú höfnuðu Gyðingar guðræði, því að hann átti að vera aðalpersóna guðræðisfyrirkomulags framtíðarinnar. Jesús var hinn konunglegi sonur Davíðs sem myndi ríkja að eilífu. (Jesaja 9:6, 7; Lúkas 1:33; 3:23, 31) Ísrael að holdinu hætti þannig að vera útvalin þjóð Guðs. — Rómverjabréfið 9:31-33.

Nýtt guðveldi

18. Hvaða nýtt guðveldi varð til á fyrstu öldinni? Gefðu skýringu.

18 Þótt Guð hafnaði Ísrael að holdinu var guðræði þó ekki á enda á jörðinni. Fyrir milligöngu Jesú Krists kom Jehóva á fót nýju guðveldi. Það var hinn smurði, kristni söfnuður sem var í rauninni ný þjóð. (1. Pétursbréf 2:9) Páll postuli kallaði söfnuðinn „Ísrael Guðs“ og með tímanum komu meðlimir hans „af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð.“ (Galatabréfið 6:16; Opinberunarbókin 5:9, 10) Þótt meðlimir þessa nýja guðveldis væru lýðskyldir þeim mannastjórnum, sem þeir bjuggu við, voru þeir sannarlega undir stjórn Guðs. (1. Pétursbréf 2:13, 14, 17) Skömmu eftir að nýja guðveldið varð til reyndu stjórnendur Ísraels að holdinu að neyða suma af lærisveinunum til að hætta að hlýða þeim fyrirmælum sem Jesús hafði gefið þeim. Hvernig brugðust þeir við? „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ (Postulasagan 5:29) Þetta var sannarlega guðræðislegt viðhorf!

19. Í hvaða skilningi var hægt að kalla kristna söfnuðinn á fyrstu öldinni guðveldi?

19 En hvernig starfaði nýja guðveldið? Það átti sér konung, Jesú Krist sem var fulltrúi guðvaldsins mikla, Jehóva. (Kólossubréfið 1:13) Enda þótt konungurinn væri ósýnilegur á himnum var stjórn hans raunveruleg þegnum sínum og orð hans réðu lífi þeirra. Andlega hæfir öldungar voru skipaðir til að veita sýnilega umsjón. Í Jerúsalem starfaði hópur slíkra manna sem stjórnandi ráð. Öldungar, svo sem Páll, Tímóteus og Títus, ferðuðust um sem fulltrúar þessa ráðs. Og hver söfnuður var undir umsjón öldungaráðs. (Títusarbréfið 1:5) Þegar erfitt vandamál kom upp ráðfærðu öldungarnir sig við hið stjórnandi ráð eða einn af fulltrúum þess, svo sem Pál. (Samanber Postulasöguna 15:2; 1. Korintubréf 7:1; 8:1; 12:1.) Enn fremur gegndi hver einstakur safnaðarmeðlimur sínu hlutverki í því að styðja guðræðið. Hver og einn var ábyrgur frammi fyrir Jehóva um að fylgja meginreglum Ritningarinnar í lífi sínu. — Rómverjabréfið 14:4, 12.

20. Hvað er hægt að segja um guðræði eftir tíma postulanna?

20 Páll varaði við því að eftir dauða postulanna myndi eiga sér stað fráhvarf, og þannig fór það. (2. Þessaloníkubréf 2:3) Með tímanum fjölgaði þeim sem sögðust vera kristnir svo að þeir skiptu milljónum og síðar hundruðum milljóna. Þeir þróuðu með sér mismunandi kirkjustjórn, svo sem klerkaveldi, öldungastjórn og safnaðarstjórn. En hvorki framferði né trúarskoðanir þessara kirkjudeilda endurspegluðu stjórn Jehóva. Þær voru ekki guðveldi.

21, 22. (a) Hvernig hefur Jehóva endurreist guðræði á endalokatímanum? (b) Hvaða spurningum um guðræði verður svarað næst?

21 Á endalokatíma þessa heimskerfis átti að aðgreina sannkristna menn frá falskristnum. (Matteus 13:37-43) Það gerðist árið 1919 sem er mikilvægt ár í sögu guðræðisstjórnar. Þá rættist hinn dýrlegi spádómur Jesaja 66:8: „Hver hefir séð slíka hluti? Er nokkurt land í heiminn borið á einum degi, eða fæðist nokkur þjóð allt í einu?“ Svarið við þessum spurningum var hátt og snjallt já! Árið 1919 var kristni söfnuðurinn aftur til sem aðgreind „þjóð.“ Guðræðislegt „land“ fæddist svo sannarlega eins og á einum degi! Eftir því sem leið á endalokatímann var skipulag þessarar nýju þjóðar lagfært til að færa það eins nálægt því sem var á fyrstu öldinni og kostur var. (Jesaja 60:17) En hún var guðveldi allan tímann. Í framferði og trú endurspeglaði hún alltaf guðinnblásin lög og meginreglur Ritningarinnar. Og hún var alltaf undirgefin hinum krýnda konungi Jesú Kristi. — Sálmur 45:18; 72:1, 2.

22 Ert þú tengdur þessu guðveldi? Gegnir þú ábyrgðarstöðu innan þess? Ef svo er, veistu þá hvað það merkir að koma guðræðislega fram? Veist þú hvaða snörur þarf að forðast? Fjallað er um tvær síðustu spurningarnar í greininni á eftir.

Getur þú útskýrt?

◻ Hvað er guðveldi?

◻ Í hvaða skilningi var Ísrael guðveldi?

◻ Hvaða fyrirkomulag hafði Jehóva til að minna konungana á að Ísrael væri guðveldi?

◻ Í hvaða skilningi var kristni söfnuðurinn guðveldi og hvernig var hann skipulagður?

◻ Hvaða guðræðisskipulagi hefur verið komið á laggirnar á okkar tímum?

[Mynd á blaðsíðu 21]

Frammi fyrir Pontíusi Pílatusi viðurkenndu leiðtogar Gyðinganna keisarann en ekki guðræðislega skipaðan konung Jehóva.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila