Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w94 1.10. bls. 19-25
  • Boðendur Guðsríkis virkir um alla jörðina

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Boðendur Guðsríkis virkir um alla jörðina
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Loka heiðingjatímanna beðið með eftirvæntingu
  • Hið stofnsetta Guðsríki kunngert af kostgæfni
  • Náð út til allrar heimsbyggðarinnar
  • Náð til allra sem hægt er með fagnaðarerindið
  • Fólk sem boðar fagnaðarerindið – boðberar bjóða sig fúslega fram
    Ríki Guðs stjórnar
  • Ríki Guðs stofnsett á himnum
    Ríki Guðs stjórnar
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
w94 1.10. bls. 19-25

Boðendur Guðsríkis virkir um alla jörðina

„Þér munuð verða vottar mínir . . . allt til endimarka jarðarinnar.“ — POSTULASAGAN 1:8.

1. Hvaða boðskap sagði Jesús að fylgjendur hans myndu kunngera á okkar tímum?

ÞEGAR Jesús lýsti því starfi sem Jehóva, faðir hans, hafði sent hann til jarðar til að vinna sagði hann: „Mér ber og að flytja . . . fagnaðarerindið um Guðs ríki.“ (Lúkas 4:43) Og þegar Jesús sagði frá því starfi, sem lærisveinar hans myndu vinna á jörðinni þegar hann sneri aftur sem konungur, sagði hann: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14.

2. (a) Af hverju er það svona mikilvægt að kynna boðskapinn um Guðsríki vítt og breitt? (b) Hvaða spurningar ætti hvert og eitt okkar að spyrja sig?

2 Hvers vegna eru tíðindin um Guðsríki svona þýðingarmikil? Hvers vegna þarf að kynna Guðsríki svona gríðarlega? Vegna þess að það er Messíasarríkið sem mun sanna réttmæti alheimsyfirráða Jehóva. (1. Korintubréf 15:24-28) Fyrir atbeina þess mun Jehóva fullnægja dómi yfir hinu núverandi, djöfullega heimskerfi og uppfylla fyrirheit sitt um að blessa allar fjölskyldur jarðarinnar. (1. Mósebók 22:17, 18; Daníel 2:44) Með því að láta bera vitni um ríki sitt hefur Jehóva fundið þá sem hann hefur síðan smurt til að vera samerfingjar með syni sínum. Með því að boða Guðsríki er einnig unnið aðgreiningarstarf nú á tímum. (Matteus 25:31-33) Jehóva vill að athygli manna af öllum þjóðum sé vakin á því sem felst í tilgangi hans. Hann vill að þeir hafi tækifæri til að velja lífið sem þegnar ríkis hans. (Jóhannes 3:16; Postulasagan 13:47) Átt þú fulla hlutdeild í að boða þetta ríki?

Loka heiðingjatímanna beðið með eftirvæntingu

3. (a) Hvert var hið viðeigandi ræðuefni C. T. Russells þegar hann lagði snemma land undir fót til að skipuleggja biblíunámshópa? (b) Hvað gerðu þessir Biblíunemendur sér ljóst um þann sess sem Guðsríki ætti að skipa í lífi þeirra?

3 Árið 1880 ferðaðist Charles Taze Russell, fyrsti ritstjóri tímaritsins Varðturninn, gegnum norðausturhluta Bandaríkjanna til að hvetja til þess að myndaðir yrðu biblíunámshópar. Eins og vel átti við, talaði hann um efnið „Málefni sem varða ríki Guðs.“ Fyrstu tölublöð Varðturnsins endurspegla að Biblíunemendurnir (eins og vottar Jehóva voru kallaðir þá) gerðu sér ljóst að ef þeir ættu að reynast þess verðir að öðlast hlutdeild í ríki Guðs yrðu þeir að láta hagsmuni Guðsríkis ganga fyrir öðru og nota líf sitt, hæfileika og fjármuni fúslega í þjónustu þess. Allt annað í lífinu yrði að skipa lægri sess. (Matteus 13:44-46) Ábyrgð þeirra fæli það í sér að kunngera öðrum fagnaðarerindið um Guðsríki. (Jesaja 61:1, 2) Í hve ríkum mæli gerðu þeir það áður en tímum heiðingjanna lauk árið 1914?

4. Í hve miklum mæli dreifði þessi litli flokkur Biblíunemenda biblíuritum fyrir árið 1914?

4 Frá áttunda áratug síðustu aldar fram til 1914 voru Biblíunemendurnir tiltölulega fáir. Árið 1914 tóku aðeins um 5100 virkan þátt í að bera opinberlega vitni. En það var einstæður vitnisburður! Árið 1881, aðeins tveim árum eftir að Varðturninn kom fyrst út, tóku þeir sér fyrir hendur að dreifa 162 blaðsíðna riti sem hét Food for Thinking Christians (Fæða handa hugsandi kristnum mönnum). Á nokkrum mánuðum dreifðu þeir 1.200.000 eintökum. Innan fáeinna ára voru þeir farnir að dreifa tugmilljónum smárita árlega á mörgum tungumálum.

5. Hverjir voru farandbóksalarnir og hvers konar anda sýndu þeir?

5 Árið 1881 fóru einnig nokkrir að boða fagnaðarerindið sem farandbóksalar. Þeir voru fyrirrennarar brautryðjenda (boðenda í fullu starfi) nútímans. Sumir farandbóksalarnir, sem fóru um fótgangandi eða á reiðhjóli, báru persónulega vitni í nánast hverju héraði þess lands sem þeir bjuggu í. Aðrir héldu út á erlenda akra og voru hinir fyrstu til að flytja fagnaðarerindið til landa svo sem Finnlands, Barbados og Búrma (sem nú heitir Mýanmar). Þeir sýndu anda trúboðans, eins og Jesús Kristur og postular hans. — Lúkas 4:43; Rómverjabréfið 15:23-25.

6. (a) Hversu víða ferðaðist bróðir Russell til að breiða út biblíusannindi? (b) Hvað annað var gert til að efla boðun fagnaðarerindisins á framandi ökrum áður en heiðingjatímunum lauk?

6 Sjálfur ferðaðist bróðir Russell vítt og breitt til að útbreiða sannleikann. Hann fór oftsinnis til Kanada; flutti ræður í Panama, á Jamaíka og Kúbu, fór tólf sinnum til Evrópu og fór hringferð um hnöttinn til að boða trúna. Hann sendi einnig aðra menn út til að hefja prédikun fagnaðarerindisins á erlendum ökrum og taka forystuna í henni. Adolf Weber var sendur til Evrópu um miðjan síðasta áratug 19. aldar og þjónusta hans teygði sig frá Sviss til Frakklands, Ítalíu, Þýskalands og Belgíu. E. J. Coward var sendur til Karíbasvæðisins. Robert Hollister var falið að starfa í Austurlöndum fjær árið 1912. Þar voru gerð sérstök smárit á tíu tungumálum og innfæddir aðilar dreifðu þeim í milljónum eintaka um gervallt Indlandi, Kína, Japan og Kóreu. Ef þú hefðir verið upp á þeim tíma, hefði hjarta þitt þá knúið þig til að leggja þig af einlægni fram við að ná til fólks í þínu byggðarlagi og annars staðar með fagnaðarerindið?

7. (a) Hvernig voru dagblöð notuð til að magna vitnisburðinn? (b) Hvað var „Sköpunarsagan í myndum“ og hversu margir sáu hana á aðeins einu ári?

7 Er dró að lokum heiðingjatímanna voru dagblöð notuð til að birta biblíuerindi sem bróðir Russell hafði flutt. Þar var höfuðáherslan ekki lögð á árið 1914 heldur þess í stað á fyrirætlun Guðs og að hún myndi örugglega ná fram að ganga. Um tíma voru þessir fyrirlestrar birtir reglulega í allt að 2000 dagblöðum samtímis sem náðu til 15.000.000 lesenda. Síðan, þegar árið 1914 rann upp, fór Félagið að sýna „Sköpunarsöguna í myndum“ fyrir almenning. Í fjórum tveggja stunda sýningum var komið á framfæri biblíusannindum frá sköpuninni allt fram til þúsundáraríkisins. Á tæpu ári höfðu yfir níu milljónir manna séð sýninguna í Norður-Ameríku, Evrópu, Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

8. Til hve margra landa höfðu Biblíunemendurnir náð með fagnaðarerindið árið 1914?

8 Eftir fáanlegum heimildum að dæma hafði þessi kappsfulli flokkur boðenda fagnaðarerindisins náð með boðskap sinn til 68 landa á síðari helmingi ársins 1914.a En það var aðeins upphafið!

Hið stofnsetta Guðsríki kunngert af kostgæfni

9. Hvernig komu mótin í Cedar Point öflugum skriði á vitnisburðarstarfið um Guðsríki?

9 Þegar Biblíunemendurnir komu saman í Cedar Point í Ohio árið 1919, sagði J. F. Rutherford, sem þá var forseti Varðturnsfélagsins: „Það var og er köllun okkar að kunngera hið komandi, dýrlega ríki Messíasar.“ Á öðru mótinu í Cedar Point, árið 1922, lagði bróðir Rutherford áherslu á þá staðreynd að við endalok heiðingjatímanna árið 1914 hefði ‚konungur dýrðarinnar tekið máttinn sinn hinn mikla og byrjað að ríkja.‘ Því næst lagði hann málið umbúðalaust fyrir áheyrendur sína og sagði: „Trúið þið að konungur dýrðarinnar sé kominn af stað með stjórn sína? Farið þá aftur út á akurinn, ó þið synir hins hæsta Guðs! Látið boðskapinn gjalla vítt og breitt. Heimurinn skal vita að Jehóva er Guð og að Jesús Kristur er Konungur konunga og Drottinn drottna. Þetta eru tímar allra tíma. Sjáið, Konungurinn ríkir! Þið eruð kynningarfulltrúar hans.“

10, 11. Hvernig voru útvarp, hátalarabílar og auglýsingaskilti notuð á áhrifaríkan hátt til að ná til fólks með sannindi Guðsríkis?

10 Nú eru liðin yfir 70 ár síðan þessi mót voru haldin í Cedar Point — 80 ár síðan Jehóva byrjaði að láta yfirráð sín koma í ljós fyrir atbeina Messíasarstjórnar sonar síns. Í hvaða mæli hafa vottar Jehóva raunverulega unnið það verk sem orð Guðs setti þeim fyrir? Hver er hlutdeild þín í þessu starfi?

11 Snemma á þriðja áratugnum kom útvarpið til sögunnar sem verkfæri til að auglýsa boðskapinn um Guðsríkis vítt og breitt. Á fjórða áratugnum voru mótsræður, sem fjölluðu um Guðsríki sem von heimsins, fluttar gegnum net útvarpsstöðva eða keðjuútsendingar og símleiðis hringinn í kringum hnöttinn. Bílar með hátalaraútbúnaði voru einnig notaðir til að leika biblíuræður af hljómplötum á almannafæri. Síðar, árið 1936, byrjuðu bræður okkar í Glasgow í Skotlandi að ganga með auglýsingaskilti sem héngu á öxlum þeirra er þeir gengu fylktu liði gegnum viðskiptasvæði til að auglýsa opinberar ræður. Allt voru þetta áhrifaríkar leiðir til að bera vitni fyrir mörgum á þeim tíma þegar við vorum fáliðaðir.

12. Hver er ein áhrifaríkasta leiðin fyrir okkur sem einstaklinga að bera vitni, eins og Ritningin sýnir?

12 Að sjálfsögðu sýnir Ritningin greinilega að sú ábyrgð hvílir á hverjum einstökum kristnum manni að bera vitni. Við getum ekki einfaldlega látið dagblaðagreinar eða útvarpsútsendingar vinna verkið. Þúsundir drottinhollra kristinna manna — karlar, konur og börn — hafa axlað þessa ábyrgð. Afleiðingin er sú að prédikun hús úr húsi er orðið eitt af einkennum votta Jehóva. — Postulasagan 5:42; 20:20.

Náð út til allrar heimsbyggðarinnar

13, 14. (a) Hvers vegna flytjast sumir vottar til annarra bæja, jafnvel annarra landa, til að sinna þjónustu sinni? (b) Hvernig hefur kærleiksrík umhyggja margra bræðra fyrir fólki í heimalandi þeirra stuðlað að útbreiðslu fagnaðarerindisins?

13 Vottar Jehóva vita að boðskapinn um Guðsríki ber að prédika „um alla heimsbyggðina“ og sumir þeirra hafa þar af leiðandi hugleitt alvarlega hvað þeir gætu persónulega gert til að ná til svæða utan síns eigin byggðarlags.

14 Margt manna hefur lært sannleikann eftir að hafa flust frá heimalandi sínu. Þótt oft hafi þeir flust búferlum til að standa betur að vígi fjárhagslega hafa þeir fundið nokkuð sem er miklu dýrmætara, og sumir hafa fundið sig knúna til að snúa aftur til heimalands síns til að flytja öðrum sannleikann. Þannig breiddist prédikun fagnaðarerindisins út snemma á öldinni á Norðurlöndum, Grikklandi, Ítalíu, í löndum Austur-Evrópu og víða annars staðar. Jafnvel núna, á tíunda áratugnum, breiðist boðskapurinn um Guðsríki út með sama hætti.

15. Hverju komu sumir, sem höfðu svipað viðhorf og látið er í ljós í Jesaja 6:8, til leiðar á þriðja og fjórða áratugnum?

15 Sumir, sem hafa heimfært heilræði orðs Guðs á líf sitt, hafa getað boðið sig fram til þjónustu í löndum sem þeir höfðu aldrei áður búið í. W. R. Brown (oft nefndur „Biblíu-Brown“) var einn þeirra. Árið 1923 fluttist hann frá Trínidad til Vestur-Afríku til að efla trúboðið. Á fjórða áratugnum voru Frank og Grey Smith, Robert Nisbet og David Norman meðal þeirra sem fóru með boðskapinn um Guðríki upp eftir austurstönd Afríku. Aðrir aðstoðuðu við að rækta akurinn í Suður-Ameríku. George Young, sem var Kanadamaður, átti þátt í starfinu í Argentínu, Brasilíu, Bólivíu, Síle og Perú. Juan Muñiz, sem hafði þjónað á Spáni, fylgdi starfinu eftir í Argentínu, Síle, Paragúæ og Úrúgúæ. Allir sýndu þeir þann anda sem látinn er í ljós í Jesaja 6:8: „Hér er ég, send þú mig!“

16. Hvar var borið vitni á millistríðsárunum utan helstu byggðarkjarnanna?

16 Prédikun fagnaðarerindisins náði jafnvel til afskekktra svæða. Bátar, mannaðir vottum, heimsóttu alla litlu fiskimannabæina á Nýfundnalandi, við strönd Noregs allt norður í Íshaf, á Kyrrahafseyjunum og hafnarbæina í Suðaustur-Asíu.

17. (a) Til hve margra landa höfðu vottarnir náð árið 1935? (b) Hvers vegna var starfinu ekki lokið þegar þar var komið?

17 Svo ótrúlegt sem það er voru vottar Jehóva önnum kafnir við að prédika í 115 löndum árið 1935, og höfðu þá þegar náð til 34 landa í viðbót, annaðhvort í prédikunarferðum eða með því að senda þangað rit í pósti. En starfinu var samt ekki lokið. Það ár opnaði Jehóva augu þeirra fyrir því að tilgangur hans væri sá að safna saman ‚miklum múgi‘ sem myndi lifa það að komast inn í hinn nýja heim hans. (Opinberunarbókin 7:9, 10, 14) Mikið vitnisburðarstarf var enn óunnið!

18. Hvaða hlutverki hafa Gíleaðskólinn og Þjónustuþjálfunarskólinn gegnt í boðunarstarfinu um Guðsríki?

18 Meðan síðari heimsstyrjöldin geisaði um jörðina og vottarnir eða rit þeirra voru bönnuð af stjórnvöldum í tugum landa, tók Biblíuskóli Varðturnsins, Gíleað, til starfa til að þjálfa væntanlega trúboða til að gera enn þá meira í að boða Guðsríki um allan heim. Fram til þessa hafa Gíleaðtrúboðar þjónað í ríflega 200 löndum. Þeir hafa ekki bara dreift ritum og síðan flutt sig á annað svæði. Þeir hafa haldið biblíunám, skipulagt söfnuði og þjálfað fólk til að axla guðræðislega ábyrgð. Á síðustu árum hafa öldungar og safnaðarþjónar, sem hafa útskrifast úr Þjónustuþjálfunarskólanum, einnig lagt hönd á plóginn til að mæta mikilli þörf á sex meginlöndum. Traustur grundvöllur hefur verið lagður að áframhaldandi vexti. — Samanber 2. Tímóteusarbréf 2:2.

19. Í hvaða mæli hafa þjónar Jehóva brugðist jákvætt við boðum að þjóna á svæðum þar sem þörfin hefur verið meiri en í heimabyggð þeirra?

19 Gátu aðrir hjálpað til við að annast sum svæði sem ekki hafði verið borið vitni á? Á mótum um heim allan árið 1957 voru einstaklingar og fjölskyldur — þroskaðir vottar Jehóva — hvattir til að íhuga að hvort þeir gætu flust þangað sem þörfin væri meiri, sest þar að og haldið þjónustu sinni áfram þar. Þetta boð var mjög svipað því sem Páll postuli fékk frá Guði þegar hann sá mann í sýn sem sárbændi hann: „Kom yfir til Makedóníu og hjálpa oss!“ (Post. 16:9, 10) Sumir fluttust á sjötta áratugnum; aðrir síðar. Allt að þúsund vottar fluttust til Írlands og Kólombíu; hundruð til margra annarra staða. Tugþúsundir fluttust til svæða í heimalandi sínu þar sem þörfin var meiri. — Sálmur 110:3.

20. (a) Hverju hefur verið áorkað síðan 1935 til uppfyllingar á spádómi Jesú í Matteusi 24:14? (b) Hvernig hefur starfinu verið hraðað á nokkrum síðustu árum?

20 Jehóva blessar fólk sitt og boðun Guðsríkis heldur áfram með einstökum krafti. Boðberar eru næstum áttatíu sinnum fleiri nú en árið 1935 og brautryðjendum hefur fjölgað 60 prósent örar en boðberunum. Á fjórða áratugnum var byrjað að hafa heimabiblíunám með fólki. Núna eru að meðaltali meira en fjórar og hálf milljón slíkra náma í gangi í hverjum mánuði. Frá 1935 hefur verið varið rúmlega 15 milljörðum klukkustunda til að boða Guðsríki. Núna er fagnaðarboðskapurinn prédikaður reglulega í 231 landi. Er svæði í Austur-Evrópu og Afríku hafa opnast fyrir frjálsari prédikun fagnaðarerindisins hafa alþjóðamót verið notuð á áhrifaríkan hátt til að vekja athygli almennings á boðskapnum um Guðsríki. Eins og Jehóva lofaði fyrir löngu, í Jesaja 60:22, er hann vissulega að hraða þessu starfi núna. Hvílík sérréttindi það eru fyrir okkur að eiga hlutdeild í því!

Náð til allra sem hægt er með fagnaðarerindið

21, 22. Hvað getum við persónulega gert til að vera áhrifaríkari vottar, hvar sem við búum?

21 Drottinn hefur ekki enn þá sagt að starfinu sé lokið. Enn þá taka margar þúsundir upp sanna tilbeiðslu. Spurningin er þess vegna sú hvort við gerum allt sem hægt er til að nýta vel þann tíma sem Jehóva hefur í langlyndi sínu gefið okkur til þessa verkefnis. — 2. Pétursbréf 3:15.

22 Ekki geta allir flust til svæða sem sjaldan er starfað á. En notfærir þú þér til fullnustu þau tækifæri sem standa þér opin? Berð þú vitni fyrir vinnufélögum, kennurum og skólafélögum? Hefur þú aðlagað þig að breyttum aðstæðum á starfssvæði þínu? Ef mjög fátt fólk er heima á daginn, vegna breyttra aðstæðna á vinnumarkaði, hefur þú þá breytt stundaskrá þinni til þess að geta heimsótt það á kvöldin? Ef óboðnum gestum er meinaður aðgangur að byggingum notarðu þá símann til að bera vitni eða skrifar bréf? Ef menn sýna áhuga, fylgirðu því þá eftir og býðst til að hafa með þeim biblíunám? Ert þú að sinna þjónustu þinni rækilega? — Samanber Postulasöguna 20:21; 2. Tímóteusarbréf 4:5.

23. Hvað ætti að koma greinilega í ljós hjá okkur þegar Jehóva skoðar það sem við erum að gera í þjónustu hans?

23 Megum við öll sinna þjónustu okkar á þann hátt að Jehóva sjái greinilega að við kunnum að meta þau miklu sérréttindi sem við höfum að vera vottar hans núna á þessum afdrifaríku tímum. Megi það vera sérréttindi okkar að vera sjónarvottar að því þegar Jehóva fullnægir dómi á hinu spillta, gamla heimskerfi og innleiðir hið dýrlega þúsundáraríki Jesú Krists!

[Neðanmáls]

a Talið samkvæmt því hvernig jörðinni var skipt upp í lönd í byrjun tíunda áratugarins.

Til upprifjunar

◻ Af hverju er svona mikilvægt að prédika boðskapinn um Guðsríki?

◻ Í hvaða mæli var fagnaðarerindið prédikað fram til 1914?

◻ Hversu sterkur vitnisburður hefur verið gefinn síðan Guðsríki var stofnsett?

◻ Hvað gæti látið hlutdeild okkar í þjónustunni bera meiri ávöxt?

[Rammagrein á blaðsíðu 24, 25]

Vottar Jehóva — Boðendur ríkis Guðs

Á hundruðum móta um heim allan árin 1993-94 var tilkynnt um útgáfu nýrrar bókar með titlinum Vottar Jehóva — boðendur ríkis Guðs. Þetta er mjög fróðleg og ítarleg saga votta Jehóva. Bókin er 752 blaðsíður, fagurlega myndskreytt með meira en þúsund myndum frá 96 löndum. Í árslok 1993 hafði hún þegar verið gefin út á 25 tungumálum og verið er að þýða hana á fleiri tungumál.

Hvað gerir slíka bók tímabæra? Á seinni árum hafa milljónir manna um heim allan gerst vottar Jehóva. Þeir ættu allir að vera vel upplýstir um sögu þeirra samtaka eða skipulags sem þeir eru tengdir. Þar fyrir utan hefur prédikun þeirra og tilbeiðsla náð til þjóða og kynþátta um allan heiminn og við henni hafa tekið ungir sem gamlir, fátækir sem ríkir, menntaðir sem ómenntaðir og allt þar á milli. Afleiðingin er sú að margir, sem sjá hvað er að gerast, spyrja margs um vottana — ekki aðeins hverjar trúarskoðanir þeirra eru heldur einnig um uppruna þeirra, sögu, skipulag og markmið. Aðrir hafa skrifað um þá en þó ekki alltaf án hlutdrægni. Enginn þekkir hins vegar nútímasögu votta Jehóva betur en vottarnir sjálfir. Útgefendur þessarar bókar hafa leitast við að greina frá sögunni á hlutlægan og hreinskilinn hátt. Með því hafa þeir einnig skjalfest uppfyllinguna á mjög mikilvægum þætti táknsins um nærveru Krists sem skráð er í Matteusi 24:14, og í frásögninni koma fram smáatriði sem aðeins þeir gætu greint frá er sjálfir hafa verið á kafi í því starfi sem þar er spáð.

Bókinni er skipt niður í sjö meginhluta:

Fyrsti hluti: Þessi hluti kannar sögulegar rætur votta Jehóva. Þar er að finna nákvæmt og fróðlegt yfirlit yfir nútímasögu þeirra frá 1870 til 1992.

Annar hluti: Hér er greint frá því hvernig vottar Jehóva hafa stig af stigi tileinkað sér þær trúarskoðanir sem greina þá frá öðrum trúarhópum.

Þriðji hluti: Þessi kafli bókarinnar fjallar um hvernig uppbygging skipulagsins hjá þeim hefur þróast. Þar eru athyglisverðar upplýsingar um safnaðarsamkomur þeirra og mót, svo og hvernig þeir reisa ríkissali, stórar mótshallir og koma sér upp aðstöðu til útgáfu biblíurita. Þar kemur fram af hvílíkri kostgæfni vottar Jehóva kunngera ríki Guðs og kærleikurinn sem birtist þegar þeir annast hver annan á erfiðleikatímum.

Fjórði hluti: Hér finnur þú hrífandi og nákvæma frásögn af því hvernig boðun ríkis Guðs hefur náð til stórra landa og fjarlægra eyja hringinn um allan hnöttinn. Hugsa sér — árið 1914 var prédikað í 43 löndum en árið 1992 í 229 löndum! Frásagnir af reynslu þeirra, sem hafa átt hlut í þessari aukningu út um allan heim, eru sannarlega hrífandi.

Fimmti hluti: Til að boða Guðsríki í þessum mæli hefur þurft að koma upp alþjóðlegri aðstöðu til að gefa út biblíur og biblíurit á meira en tvö hundruð tungumálum. Hér fræðist þú um þá hlið á starfi þeirra.

Sjötti hluti: Vottarnir hafa líka lent í prófraunum — sumum vegna mannlegs ófullkomleika, öðrum vegna falsbræðra og jafnvel enn fleiri vegna beinna ofsókna. Orð Guðs varaði við að þannig myndi það verða. (Lúkas 17:1; 2. Tímóteusarbréf 3:12; 1. Pétursbréf 4:12; 2. Pétursbréf 2:1, 2) Í þessum hluta bókarinnar er lifandi frásaga af því sem hefur raunverulega gerst og hvernig trú votta Jehóva hefur gert þeim kleift að ganga með sigur af hólmi.

Sjöundi hluti: Að endingu tekur bókin til umfjöllunar hvers vegna vottar Jehóva eru algerlega sannfærðir um að Guð leiði bræðrafélag þeirra og skipulag. Þar er einnig rætt hvers vegna þeim finnst nauðsynlegt, bæði sem einstaklingar og skipulag, að halda vöku sinni.

Auk þess sem að framan greinir hefur þessi aðlaðandi bók að geyma fallegan og fræðandi kafla upp á 50 litmyndasíður sem sýnir aðalstöðvarnar og deildarskrifstofur votta Jehóva um heim allan.

Ef þú ert ekki búinn að því munt þú vafalaust hafa gagn af því að útvega þér og lesa þessa heillandi bók.

Ummæli nokkurra sem hafa lesið hana

Hver eru viðbrögð þeirra sem hafa þegar lesið bókina? Hér eru dæmi um nokkur:

„Ég var að ljúka við að lesa hið hrífandi og lifandi heimildarrit Vottar Jehóva — boðendur ríkis Guðs. Aðeins skipulag, sem af trúfesti og auðmýkt helgar sig sannleikanum, gæti skrifað af slíku hispursleysi, hugrekki og næmi.“

„Hún hljómar eins og Postulasagan með heiðarleika sínum og hreinskilni.“

„Þetta nýja rit er svo sannarlega áhugavert. . . . Það er sagnfræðilegt meistaraverk.“

Eftir að hafa lesið um helming bókarinnar skrifaði maður nokkur: „Ég varð gagntekinn lotningu, hvumsa og tárfelldi næstum. . . . Aldrei á ævinni hefur nokkurt rit hrist svona upp í tilfinningum mínum.“

„Hjarta mitt hoppar af gleði í hvert sinn sem ég hugsa um hve þessi bók á eftir að styrkja trú hinna ungu og einnig hinna nýju sem koma inn í skipulagið núna.“

„Ég hef alltaf kunnað að meta sannleikann, en lestur þessarar bókar hefur opnað augu mín og hjálpað mér að gera mér betur ljóst en nokkurn tíma fyrr að heilagur andi Jehóva stendur á bak við þetta allt.“

[Mynd á blaðsíðu 23]

Boðskapurinn um Guðsríki komst til margra manna jafnvel þegar vottarnir voru fáliðaðir.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila