Biblían — bók til að lesa
ÞAÐ ER auðvelt að verða uppiskroppa með lýsingarorð í hástigi þegar talað er um Biblíuna. Hún er langsamlega útbreiddasta bók sögunnar. Biblían er elsta, áhrifamesta og virtasta bók heims, sú bók sem mest hefur verið þýdd og mest vitnað í. Sennilega er hún líka umdeildasta bókin. Og vissulega er hún sú bók sem staðið hefur af sér flest bönn og brennur og grimmilegasta andstöðu. Því miður er þó ekki hægt lengur að nota eitt lýsingarorð í hástigi um Biblíuna. Ólíklegt er að hún sé lengur mest lesna bók í heimi.
Enda þótt fólk eigi Biblíuna kannski einhvers staðar heima hjá sér finnst mörgum þeir eiga of annríkt til að lesa hana. Bóklestur var einu sinni vinsælt dægrastytting. Núna kjósa flestir hins vegar að eyða tímanum í að horfa á sjónvarp eða gera eitthvað annað. Þeir sem enn lesa eitthvað kjósa yfirleitt eitthvað létt og auðlesið. Lestur Biblíunnar kostar einbeitingu og fæstir einbeita sér lengur að því sem þeir lesa.
En Biblían varðveittist ekki til þess eins að standa óhreyfð á bókahillu. Það eru góðar ástæður til að lesa hana. Skoðum nokkrar staðreyndir um hana.
Engin furða að hún varðveittist!
Orðið „biblía“ er komið af gríska orðinu bibliʹa sem merkir „smábækur.“ Það minnir okkur á að Biblían er samsafn margra bóka — og sumar eru alls ekkert smáar! Þær voru skrifaðar á sextán hundruð ára tímabili. Enda þótt ritararnir hafi verið menn voru þeir innblásnir af æðri mætti. Einn biblíuritaranna sagði: „Aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“ (2. Pétursbréf 1:21) Það sem sagt er um spádóma Biblíunnar gildir einnig um allt annað í henni. Þessar innblásnu „smábækur“ eru fullar af háleitum hugsunum Jehóva Guðs. (Jesaja 55:9) Það er engin furða að Biblían skuli hafa varðveist svona lengi!
Biblían hefur alltaf verið mikilvægasta bókin í augum þjóna Guðs. Þeir eru sammála Páli postula sem sjálfur var einn af biblíuriturunum. Hann sagði: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Í samræmi við það er Biblían trúargrundvöllur votta Jehóva nú á dögum. Hún ræður kenningum þeirra og stjórnar hátterni þeirra. Þeir mæla af öllu hjarta með því að allir menn lesi eitthvað í orði Guðs daglega og hugleiði efni hennar með þakklæti. — Sálmur 1:1-3.
Biblíulestur sem venja
Sú venja að lesa Ritninguna reyndist mönnum gagnleg áður fyrr. Konungum Ísraels var fyrirskipað að gera sér handskrifað afrit af lögmálinu — sem er núna mikilvægur hluti Biblíunnar — og lesa daglega í því til að minna sig sífellt á vilja Guðs með þá. (5. Mósebók 17:18-20) Margir konungar vanræktu það og það varð þeim að falli.
Gildi þess að rannsaka Ritninguna sýnir sig vel í sambandi við hinn aldraða spámann Daníel. Með því að rannsaka persónulega þá hluta Biblíunnar, sem þá voru til, gat Daníel áttað sig á, þegar hann „hugði í . . . ritningunum,“ að mikilvægur spádómur, sem Jeremía skráði, var í þann mund að rætast. — Daníel 9:2.
Þegar Jesús fæddist treysti „réttlátur og guðrækinn“ maður, Símeon, því að hann myndi sjá hinn verðandi Krist eða Messías. Honum hafði verið heitið að hann myndi ekki deyja fyrr en hann hefði séð Krist. Að Símeon skyldi vísa til spádóms Jesaja, er hann hélt barninu Jesú í fangi sér, sýnir að hann var athugull lesandi þeirra biblíubóka sem höfðu verið skrifaðar fyrir hans dag. — Lúkas 2:25-32; Jesaja 42:6.
Þegar Jóhannes skírari prédikaði var „eftirvænting vakin hjá lýðnum“ um komu Messíasar. Hvað gefur það til kynna? Það bendir til að margir meðal Gyðinga hafi verið kunnugir messíasarspádómum Ritningarinnar. (Lúkas 3:15) Það er athyglisvert því að á þeim tíma voru bækur ekki auðfengnar. Afrit af biblíubókunum þurfti að handskrifa af mikill vandvirkni og voru þar af leiðandi dýr og vandfengin. Hvernig kynntist fólk efni þeirra?
Í mörgum tilvikum við opinberan upplestur. Til dæmis fyrirskipaði Móse að Ísraelsmenn skyldu koma saman og heyra allt lögmálið, sem Guð gaf, lesið á fastákveðnum tímum. (5. Mósebók 31:10-13) Á fyrstu öld okkar tímatals var opinber upplestur úr biblíubókunum algengur. Lærisveinninn Jakob sagði: „Frá fornu fari hafa menn prédikað Móse í öllum borgum. Hann er lesinn upp í samkundunum hvern hvíldardag.“ — Postulasagan 15:21.
Núna er auðvelt að eignast sitt eigið eintak af Biblíunni. Að minnsta kosti sumar þessara „smábóka“ eru fáanlegar á máli 98 af hundraði jarðarbúa. Það er þess vegna sorglegt að margir skuli ekki hafa áhuga á að kynna sér hvað Biblían hefur að segja þeim. Við lifum kannski á tímum vísinda og framfara en orð Guðs, Biblían, er enn framúrskarandi „nytsöm til fræðslu.“ Hún gefur heilbrigð ráð um siðferði, mannleg samskipti og margt annað. Enn fremur býður Biblían upp á einu áreiðanlegu vonina um friðsama framtíð.
Lestu hana reglulega
Vottar Jehóva hafa þess vegna gert það að veigamiklum þætti í starfi sínu að hvetja til reglulegs biblíulestrar. Hvatningin: „LESTU ORÐ GUÐS, HEILAGA BIBLÍU, DAGLEGA,“ stendur með stórum stöfum á prentsmiðjubyggingu við aðalstöðvar þeirra í Brooklyn í New York. Milljónir vegfarenda hafa séð þessi orð og vonandi hafa margir tekið þau til sín.
Í söfnuðum votta Jehóva um heim allan, sem eru yfir 73.000 talsins, er haldinn guðveldisskóli í hverri viku. Hluti námsins er upplestur valins biblíukafla. Allir viðstaddir hafa auk þess það verkefni að lesa fáeina kafla í Biblíunni á viku heima fyrir. Með því að fylgja þessari lestraráætlun komast menn yfir alla Biblíuna með tímanum.
Þetta fyrirkomulag er í samræmi við eina af kennslubókunum sem notuð er í þessum skóla. Handbók Guðveldisskólans segir: „Í einkaáætlun þinni ættirðu að gera ráð fyrir tíma til að lesa Biblíuna sjálfa. Það er mikils virði að lesa hana alla spjaldanna á milli. . . . En markmiðið ætti aldrei að vera það eitt að komast yfir efni heldur hitt að skilja heildina í þeim tilgangi að muna það. Taktu þér tíma til að ígrunda það sem Biblían segir.“
Önnur rit, sem vottar Jehóva gefa út, hvetja einnig til biblíulestrar. Til dæmis stóð eftirfarandi hvatning til ungs fólks í förunaut þessa blaðs, tímaritinu Vaknið!: „Hefurðu lesið . . . alla Biblíuna? Biblían er vissulega stór bók, en hví ekki að skipta lestri hennar niður í smáa skammta? . . . Hinir ‚veglyndu‘ Berojumenn ‚rannsökuðu daglega ritningarnar.‘ (Postulasagan 17:11) Ef þú lest Biblíuna í aðeins 15 mínútur á dag . . . gætirðu lokið við hana á einu ári.“ Já, vottum Jehóva finnst að kristnir menn nú á tímum ættu að vera vel heima í Ritningunni alveg eins og þjónar Guðs voru til forna.
Með þetta í huga hafa vottarnir stuðlað að biblíulestri í 20. aldar stíl. Þeir hafa látið lesa alla Biblíuna inn á hljóðsnældur á nokkrum tungumálum. Það hefur reynst mörgum góð hjálp til að yfirstíga hindranir í vegi biblíulestrar. Sumir hlusta á þessar snældur með heimilisstörfunum, við akstur eða við margs konar önnur störf. Að setjast niður og hlusta þögull á upplestur á hluta Biblíunnar og fylgjast með í sinni eigin biblíu er ánægjuleg reynsla.
Hvernig væri að gera þér það að venju að lesa daglega í Biblíunni ef þú gerir það ekki nú þegar? Það þarf ekki að taka langan tíma á hverjum degi en gagnið af því er mikið, vegna þess að með því að fara eftir Ritningunni geturðu hegðað þér viturlega og auðgað líf þitt andlega. Þá ertu líka að breyta í samræmi við þessi fyrirmæli sem Jósúa, leiðtoga Ísraels, voru gefin endur fyrir löngu: „Eigi skal lögmálsbók þessi víkja úr munni þínum, heldur skalt þú hugleiða hana um daga og nætur, til þess að þú gætir þess að gjöra allt það, sem í henni er skrifað, því að þá munt þú gæfu hljóta á vegum þínum og breyta viturlega.“ — Jósúabók 1:8.
Á síðum Biblíunnar er kærleiksríkur tilgangur Jehóva með hlýðið mannkyn opinberaður. Nákvæm þekking á innblásnu orði hans skilar sér í ósvikinni hamingju og von um eilíft líf í paradís í stórkostlegum, nýjum heimi og óendanlegri blessun. (Lúkas 23:43; 2. Pétursbréf 3:13) Megir þú grípa tækifærið og lesa og kynna þér Biblíuna og sækjast eftir þessu dásamlega lífi.