Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.1. bls. 16-21
  • Gerðu hjónaband þitt varanlegt

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Gerðu hjónaband þitt varanlegt
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hjónaband er varanleg ráðstöfun
  • Yfirráð og undirgefni
  • Tjáskipti — lífæð hjónabands
  • Tekið á missætti
  • Verið hvort öðru trú
  • Hvernig stuðlum við að farsælu hjónabandi?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2016
  • Skiljið ekki sundur það sem Guð hefur tengt saman
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2007
  • Hvað segir Biblían um hjónabandið?
    Biblíuspurningar og svör
  • Traust hjónaband byggist á ást og virðingu
    Farsælt fjölskyldulíf — hver er leyndardómurinn?
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.1. bls. 16-21

Gerðu hjónaband þitt varanlegt

„Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ — MATTEUS 19:6.

1. Hver er undirstaða farsælla hjónabanda meðal sannkristinna manna nú á dögum?

MARGAR þúsundir manna meðal fólks Jehóva nú á tímum búa í farsælu og traustu hjónabandi. Svona almenn farsæld er hins vegar varla nein tilviljun. Kristin hjónabönd dafna þegar bæði hjónin (1) virða viðhorf Guðs til hjúskapar og (2) leitast við að lifa eftir meginreglunum í orði hans. Þegar allt kemur til alls er Guð sjálfur höfundur hjónabandsins. Hann er sá sem ‚hver fjölskylda á jörðinni á nafn sitt að þakka.‘ (Efesusbréfið 3:14, 15) Þar eð Jehóva veit hvað þarf til að gera hjónaband farsælt gerum við sjálfum okkur gagn með því að fylgja leiðsögn hans. — Jesaja 48:17.

2. Hvaða afleiðingar hefur það að fara ekki eftir meginreglum Biblíunnar í hjónabandi?

2 Sé ekki farið eftir meginreglum Biblíunnar getur það aftur á móti gert hjónabandið óhamingjusamt. Sumir sérfræðingar álíta að allt að tveir þriðju þeirra sem stofna til hjónabands í Bandaríkjunum núna eigi eftir að fá skilnað. Jafnvel kristnir menn eru ekki ónæmir fyrir streitu og spennu þessara ‚örðugu tíða.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Fjárhagserfiðleikar og álagið á vinnustað getur haft sín áhrif á hvaða hjónaband sem er. Sumir kristnir menn hafa líka orðið fyrir miklum vonbrigðum með það að maki þeirra skuli ekki fara eftir meginreglum Biblíunnar. „Ég elska Jehóva,“ segir kristin eiginkona, „en hjónaband mitt hefur verið í algerum ólestri í 20 ár. Maðurinn minn er eigingjarn og vill engu breyta. Mér finnst ég föst í gildru.“ Ófáir kristnir eiginmenn eða eiginkonur hafa látið svipaðar tilfinningar í ljós. Hvað fer úrskeiðis? Og hvað getur komið í veg fyrir að hjónaband breytist í kuldalegt skeytingarleysi eða beinan fjandskap?

Hjónaband er varanleg ráðstöfun

3, 4. (a) Hver er staðall Guðs um hjónaband? (b) Af hverju er það réttlátt og til góðs að hjónabandið sé varanlegt?

3 Jafnvel við bestu skilyrði er hjónaband samband tveggja ófullkominna einstaklinga. (5. Mósebók 32:5) Páll postuli sagði þannig að ‚þeir sem giftist hljóti þrenging hér á jörð.‘ (1. Korintubréf 7:28) Þegar verst lætur getur hjónabandið jafnvel endað með sambúðarslitum eða skilnaði. (Matteus 19:9; 1. Korintubréf 7:12-15) Í flestum tilfellum fara kristnir menn þó eftir ráði Páls: ‚Konan skal ekki skilja við mann sinn og maðurinn skal ekki heldur skilja við konuna.‘ (1. Korintubréf 7:10, 11) Já, hjónabandið átti að vera varanlegt því að Jesús Kristur lýsti yfir: „Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ — Matteus 19:6.

4 Þeim sem finnst hann sitja fastur í fjandsamlegu eða ástlausu hjónabandi getur fundist kröfur Jehóva harðneskjulegar eða ósanngjarnar. En þær eru það ekki. Varanleiki hjónabandsins fær guðhrædd hjón til að horfast í augu við og leitast við að leysa vandamál sín, í stað þess að hlaupast í flýti undan skyldum sínum við fyrsta merki um erfiðleika. Maður, sem hafði verið kvæntur í meira en 20 ár, orðaði það þannig: „Maður getur ekki forðast erfiðleika. Hjón geta ekki verið ánægð hvort með annað öllum stundum. Það er þá sem það er mikilvægt að finna sig skuldbundin hvort öðru.“ Að sjálfsögðu finna kristin hjón fyrst og fremst fyrir skyldum sínum gagnvart Jehóva Guði, frumkvöðli hjónabandsins. — Samanber Prédikarann 5:4.

Yfirráð og undirgefni

5. Nefndu nokkrar af ráðleggingum Páls til eiginmanna og eiginkvenna.

5 Þegar vandamál koma upp ætti því ekki að reyna að finna undankomuleið heldur betri leið til að heimfæra ráðleggingar orðs Guðs. Tökum sem dæmi orð Páls í Efesusbréfinu 5:22-25, 28, 29: „Konurnar [skulu vera undirgefnar] eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn. Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns. En eins og kirkjan er undirgefin Kristi, þannig séu og konurnar mönnum sínum undirgefnar í öllu. Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana. Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig. Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast, eins og Kristur kirkjuna.“

6. Hvernig eiga kristnir eiginmenn að vera ólíkir karlmönnum heimsins?

6 Karlmenn hafa oft misbeitt húsbóndavaldi sínu og drottnað yfir konum sínum. (1. Mósebók 3:16) En Páll hvatti kristna eiginmenn til að vera ólíkir karlmönnum heimsins, að líkjast Kristi, vera ekki harðstjórar sem stjórnuðu tilveru eiginkvenna sinna í smáatriðum. Maðurinn Jesús Kristur var vissulega aldrei harðneskjulegur eða ráðríkur. Hann sýndi fylgjendum sínum virðingu og heiður og sagði: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur.“ — Matteus 11:28, 29.

7. Hvernig getur maður sýnt konu sinni virðingu þegar hún þarf að vinna úti?

7 Kristinn eiginmaður virðir konu sína sem veikara ker. (1. Pétursbréf 3:7) Ef hún þarf til dæmis að vinna úti tekur hann tillit til þess og er eins hjálpsamur og tillitssamur og hann getur. Ein algeng ástæða þess að konur vilja skilja er sú að eiginmaðurinn vanrækir börnin eða heimilið. Kristinn eiginmaður leitast því við að veita henni hjálp heima fyrir sem munar um og er allri fjölskyldunni til gagns.

8. Hvað felur undirgefni í sér fyrir kristnar eiginkonur?

8 Það auðveldar kristinni eiginkona að vera manni sínum undirgefin ef hann sýnir henni virðingu. Með undirgefni er þó alls ekki átt við neina þrælkun. Guð skipaði ekki svo fyrir að einkonan ætti að vera þræll heldur „meðhjálp við hans hæfi.“ (1. Mósebók 2:18) Í Malakí 2:14 er talað um eiginkonu sem ‚förunaut‘ manns. Sem slíkar nutu eiginkonur á biblíutímanum töluverðs frjálsræðis og olnbogarýmis. Biblían segir um „væna konu“: „Hjarta manns hennar treystir henni.“ Henni var treyst fyrir verkefnum svo sem almennum rekstri heimilisins, umsjón með matarinnkaupum, samningum um fasteignaviðskipti og lítils háttar atvinnurekstri. — Orðskviðirnir 31:10-31.

9. (a) Hvernig sýndu guðhræddar konur á biblíutímanum ósvikna undirgefni? (b) Hvað getur hjálpað kristinni eiginkonu nú á tímum að vera undirgefin?

9 Engu að síður viðurkenndi guðhrædd eiginkona yfirráð eiginmanns síns. Til dæmis „hlýddi [Sara] Abraham og kallaði hann herra,“ ekki sem kurteislegt formsatriði heldur sem einlægt merki undirgefni sinnar. (1. Pétursbréf 3:6) Hún yfirgaf líka þægilegt heimili í borginni Úr til að búa í tjöldum með eiginmanni sínum. (Hebreabréfið 11:8, 9) En undirgefni þýddi ekki að eiginkona gæti ekki gripið til ábyrgra aðgerða ef þess var þörf. Þegar Móse fór ekki eftir lögum Guðs um umskurn afstýrði Sippóra, kona hans, ógæfu með einbeitni sinni. (2. Mósebók 4:24-26) Það er meira í húfi en að þóknast ófullkomnum manni. Eiginkonur verða að vera undirgefnar „eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn.“ (Efesusbréfið 5:22) Þegar kristin eiginkona tekur mið af sambandi sínu við Guð hjálpar það henni að horfa fram hjá minni háttar göllum og brestum eiginmanns síns, alveg eins og hann þarf að gera gagnvart henni.

Tjáskipti — lífæð hjónabands

10. Hve mikilvæg eru tjáskipti í hjónabandi?

10 Aðspurður hver væri algengasta orsök hjónaskilnaðar svaraði lögfræðingur sem sérhæfir sig í skilnaðarmálum: „Sú að geta ekki talað hreinskilnislega hvort við annað, opinberað innstu hugsanir sínar og komið fram hvort við annað eins og besta vin sinn.“ Já, tjáskipti eru lífæð sterks hjónabands. Eins og Biblían segir verða „áformin . . . að engu, þar sem engin er ráðagerðin.“ (Orðskviðirnir 15:22) Hjón þurfa að vera trúnaðarvinir og eiga innilegt og náið samband hvort við annað. (Orðskviðirnir 2:17, NW) En tjáskipti eru erfiður hjalli fyrir mörg hjón, þannig að gremja fær að grafa um sig uns hún brýst út í skaðlegu reiðikasti. Eða þá að hjónin skýla sér bak við kurteisislegt yfirbragð en fjarlægjast hvort annað tilfinningalega.

11. Hvernig er hægt að bæta tjáskipti hjóna?

11 Hluti vandans virðist fólginn í því að karlar og konur hafa oft ólíka tjáskiptaaðferð. Flestar konur virðast eiga auðvelt með að tala um tilfinningamál en karlar kjósa yfirleitt að tala um staðreyndir. Konur hafa ríkari tilhneigingu til að sýna samkennd og veita tilfinningalegan stuðning, en karlar hallast að því að leita og stinga upp á lausnum. En séu bæði hjónin staðráðin í að ‚vera fljót til að heyra, sein til að tala, sein til reiði,‘ er þrátt fyrir það mögulegt fyrir þau að eiga góð tjáskipti. (Jakobsbréfið 1:19) Horfist í augu og hlustið virkilega með athygli. Fáið hvort annað til að opna sig með því að spyrja tillitssamra spurninga. (Samanber 1. Samúelsbók 1:8; Orðskviðina 20:5.) Í stað þess að reyna að koma fram með skjóta lausn á vandamáli, sem maki þinn ber upp, skaltu hlusta vandlega meðan þú yfirvegar hvernig hægt sé að leysa málið. Og biðjið auðmjúklega saman og leitið handleiðslu Guðs. — Sálmur 65:3; Rómverjabréfið 12:12.

12. Hvernig geta kristin hjón tekið sér tíma hvort fyrir annað?

12 Stundum virðist streita og álag lífsins slíkt að hjónin eigi lítinn tíma og krafta aflögu til að eiga innihaldsríkar samræður. En ef kristin hjón ætla sér að halda hjónabandinu í heiðri og varðveita það óflekkað verða þau að halda nánu sambandi sín í milli. Þau þurfa að líta á samband sitt sem dýrmætt, verðmætt, og verða að taka sér tíma til að sinna því og hvort öðru. (Samanber Kólossubréfið 4:5.) Í sumum tilvikum er lausnin á því að finna tíma til heilnæmra samræðna ekki flóknari en sú að slökkva á sjónvarpinu. Að drekka reglulega saman kaffi- eða tebolla getur hjálpað hjónum að varðveita hið tilfinningalega samband. Við slík tækifæri geta þau ráðfært sig hvort við annað um ýmis fjölskyldumál. (Orðskviðirnir 13:10) Og það er mjög viturlegt að temja sér að ræða út um minni háttar pirring og misskilning áður en úr verður meiri háttar spenna! — Samanber Matteus 5:23, 24; Efesusbréfið 4:26.

13. (a) Hvaða fordæmi gaf Jesús um hreinskilni og heiðarleika? (b) Nefndu dæmi um hvernig hjón geta gert samband sitt nánara.

13 Maður nokkur viðurkenndi: „Ég á mjög oft erfitt með að segja hug minn í alvöru og segja konunni minni virkilega hvað mér finnst.“ En það er mikilvægt fyrir hjón að vera opinská hvort við annað til að byggja upp náið samband. Taktu eftir hve opinskár og hreinskilinn Jesús var við væntanlega meðlimi brúðarhóps síns. Hann sagði: „Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum.“ (Jóhannes 15:15) Líttu því á maka þinn sem vin. Treystu honum fyrir tilfinningum þínum. Leggðu þig fram við að tjá honum væntumþykju þína hreinskilnislega og á einfaldan hátt. (Ljóðaljóðin 1:2) Hjónum getur stundum gengið klaufalega að eiga opinská tjáskipti, en þegar þau leggja sig bæði nægilega vel fram við að gera hjónabandið traust og varanlegt verður árangurinn góður.

Tekið á missætti

14, 15. Hvernig má forðast rifrildi?

14 Það er óhjákvæmilegt að hjón verði stundum ósammála. En heimili ykkar þarf ekki að verða ‚fullt hús af deilum.‘ (Orðskviðirnir 17:1) Gætið þess að ræða ekki viðkvæm mál þegar börnin heyra til, og takið tillit til tilfinninga maka ykkar. Þegar Rakel lét í ljós örvæntingu sína yfir því að hún skyldi vera barnlaus og bað Jakob að gefa sér börn svaraði hann reiðilega: „Er ég þá Guð? Það er hann sem hefir synjað þér lífsafkvæmis.“ (1. Mósebók 30:1, 2) Ef erfiðleikar koma upp á heimilinu er betra að ráðast á vandamálið en persónuna. Forðist „hugsunarlaus orð“ þegar þið ræðið einslega saman og grípið ekki að þarflausu fram í hvort fyrir öðru. — Orðskviðirnir 12:18, NW.

15 Vel má vera að þú sért mjög svo sannfærður um að þú hafir rétt fyrir þér, en það er hægt að koma því á framfæri án ‚beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmælis.‘ (Efesusbréfið 4:31) „Ræðið vandamálið eðlilegri röddu,“ segir eiginmaður. „Stöðvið samræðurnar ef annað ykkar hækkar róminn. Takið málið upp aftur eftir stutta stund.“ Orðskviðirnir 17:14 gefa þetta góða ráð: „Lát . . . af þrætunni, áður en rifrildi hefst.“ Reynið að ræða málið aftur þegar þið hafið bæði róast.

Verið hvort öðru trú

16. Af hverju er hjúskaparbrot mjög alvarlegt mál?

16 Hebreabréfið 13:4 segir: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ Hjúskaparbrot er synd gegn Guði og er hjónabandinu stórskaðlegt. (1. Mósebók 39:9) Hjónaráðgjafi skrifar: „Eftir að upp kemst um hjúskaparbrot skellur það á allri fjölskyldunni eins og fárviðri, splundrar fjölskyldum, sundrar trausti og sjálfsvirðingu og slasar börnin.“ Þungun eða samræðissjúkdómur getur líka hlotist af.

17. Hvernig er hægt að forðast eða sigrast á tilhneigingum sem geta leitt til hjúskaparbrots?

17 Sumir gæla við tilhneigingar til hjúskaparbrots með því að drekka í sig hið spillta viðhorf heimsins til kynlífs eins og það birtist í bókum, sjónvarpi og kvikmyndum. (Galatabréfið 6:8) Rannsóknarmenn segja hins vegar að hjúskaparbrot orsakist yfirleitt ekki bara af löngun í kynlíf, heldur ímyndaðri þörf að sanna að maður sé enn aðlaðandi eða af löngun til finna sig meira elskaðan. (Samanber Orðskviðina 7:18.) Hver sem ástæðan er, verður kristinn maður að hafna siðlausum draumórum. Ræddu tilfinningar þínar hreinskilnislega við maka þinn. Leitaðu hjálpar safnaðaröldunganna ef þörf krefur. Það getur hæglega komið í veg fyrir synd. Auk þess þurfa kristnir menn að vera varkárir í samskiptum við hitt kynið. Það gengi í berhögg við meginreglur Ritningarinnar að giftur maður (eða kona) horfði með girndarhug á einhvern annan en maka sinn. (Jobsbók 31:1; Matteus 5:28) Kristnir menn ættu að gæta þess sérstaklega vel að bindast vinnufélögum ekki tilfinningaböndum. Verið vingjarnleg í slíkum samskiptum en ekki um of.

18. Hver er oft undirrót vandamála í kynlífi hjóna, og hvernig er hægt að leysa þau?

18 Hlýlegt og opinskátt samband við maka sinn veitir enn betri vernd. Margir rannsóknarmenn segja að vandamál í kynlífi hjóna séu sjaldan líkamlegs eðlis heldur yfirleitt fylgifiskur slæmra tjáskipta. Vandamál á þessu sviði eru sjaldgæf þegar hjónin tjá sig opinskátt hvort við annað og gegna hjúskaparskyldu sinni af kærleika en ekki skyldukvöð.a Við slíkar réttar aðstæður geta þessi innilegu samskipti styrkt hjónabandið. — 1. Korintubréf 7:2-5; 10:24.

19. Hvert er „band algjörleikans“ og hvaða áhrif getur það haft á hjónaband?

19 Það er kærleikurinn sem er „band algjörleikans“ í kristna söfnuðinum. Með því að rækta með sér kærleika geta guðrækin kristin hjón haldið áfram að ‚umbera hvort annað og fyrirgefa hvort öðru.‘ (Kólossubréfið 3:13, 14) Kærleikur byggður á meginreglum ber velferð annarra fyrir brjósti. (1. Korintubréf 13:4-8) Ræktið slíkan kærleika með ykkur. Hann hjálpar ykkur að styrkja hjónabandið. Farið eftir meginreglum Biblíunnar í hjónabandi ykkar. Ef þið gerið það, þá verður hjónaband ykkar varanlegt og Jehóva Guði til lofs og heiðurs.

[Neðanmáls]

a Greinin „Communication — More Than Just Talk,“ sem birtist í Varðturninum á erlendum málum þann 1. ágúst 1993, fjallaði um það hvernig hjón gætu unnið bug á vandamálum á þessu sviði.

Hverju svarar þú?

◻ Hvers vegna ætti hjónabandið að vera varanlegt?

◻ Hver er afstaða Biblíunnar til yfirráða og undirgefni?

◻ Hvernig geta hjón bætt tjáskipti sín?

◻ Hvernig geta hjón tekið kristilega á missætti?

◻ Hvað stuðlar að sterku hjónabandi?

[Mynd á blaðsíðu 18]

Ef eiginkonan þarf að vinna úti gætir kristinn eiginmaður þess að það íþyngi henni ekki um of.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila