Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.3. bls. 27-31
  • Takið spámenn Guðs til fyrirmyndar

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Takið spámenn Guðs til fyrirmyndar
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Þeir liðu illt
  • Þeir sýndu þolinmæði
  • „Þeir fóru að öllu svo“
  • Þeir höfðu jákvætt viðhorf
  • Uppspretta hvatningar
  • Kostgæfni og biðlund
  • Að sýna þolinmæði nú á tímum
  • Talaðu orð Guðs af djörfung
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2005
  • Líktu eftir langlyndi Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2006
  • Játaðu opinberlega nafn Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Tökum spámennina til fyrirmyndar – Amos
    Ríkisþjónusta okkar – 2013
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.3. bls. 27-31

Takið spámenn Guðs til fyrirmyndar

„Bræður, takið spámennina til fyrirmyndar, sem talað hafa í nafni [Jehóva] og liðið illt með þolinmæði.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 5:10.

1. Hvað hjálpar þjónum Jehóva að vera glaðir jafnvel þegar þeir eru ofsóttir?

ÞJÓNAR Jehóva geisla af gleði þrátt fyrir það vonleysi sem grúfir yfir heiminum núna á síðustu dögum. Það kemur til af því að þeir vita að þeir eru Guði þóknanlegir. Þrátt fyrir ofsóknir og andstöðu gegn opinberri þjónustu þeirra, halda vottar Jehóva út vegna þess að þeir gera sér ljóst að þeir þjást fyrir réttlætis sakir. Jesús Kristur sagði fylgjendum sínum: „Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður.“ (Matteus 5:10-12) Hvenær sem þjónar Guðs lenda í trúarraunum líta þeir á það sem gleðiefni. — Jakobsbréfið 1:2, 3.

2. Hvað getur hjálpað okkur að sýna þolinmæði að sögn Jakobsbréfsins 5:10?

2 Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Bræður, takið spámennina til fyrirmyndar, sem talað hafa í nafni [Jehóva] og liðið illt með þolinmæði.“ (Jakobsbréfið 5:10) W. F. Arndt and F. W. Gingrich skilgreina orðið, sem þýtt er ‚fyrirmynd‘ (hypoʹdeigma), sem „fordæmi, fyrirmynd, eftirdæmi, í jákvæðum skilningi sem eitthvað er ætti að hvetja mann til að líkja eftir því.“ Eins og sýnt er í Jóhannesi 13:15 er þetta „meira en fordæmi. Það er skýr fyrirmynd.“ (Theological Dictionary of the New Testament) Nútímaþjónar Jehóva geta því tekið sér þessa trúföstu spámenn til fyrirmyndar í því að ‚líða illt‘ og sýna „þolinmæði.“ Hvað annað komum við auga á þegar við kynnum okkur líf þeirra? Og hvernig getur það hjálpað okkur í prédikunarstarfinu?

Þeir liðu illt

3, 4. Hvernig brást spámaðurinn Amos við andstöðu frá Amasía?

3 Spámenn Jehóva liðu oft illt eða sættu illri meðferð. Á níundu öld f.o.t. barðist presturinn og kálfadýrkandinn Amasía með illsku gegn spámanninum Amosi. Amasía staðhæfði ranglega að Amos hefði gert samsæri gegn Jeróbóam konungi öðrum með því að að spá því að konungurinn myndi falla fyrir sverði og Ísraelsmenn verða fluttir í útlegð. Með fyrirlitningu sagði Amasía Amosi: „Haf þig á burt, vitranamaður, flý til Júdalands! Afla þér þar viðurværis og spá þú þar! En í Betel mátt þú eigi framar koma fram sem spámaður, því að hér er konunglegur helgidómur og ríkismusteri.“ Amos lét þennan ofstopa ekki á sig fá og svaraði: „Ég er enginn spámaður, og ég er ekki af spámannaflokki, heldur er ég hjarðmaður og rækta mórber. En [Jehóva] tók mig frá hjarðmennskunni og sagði við mig: ‚Far þú og spá þú hjá lýð mínum Ísrael.‘“ — Amos 7:10-15.

4 Andi Jehóva gaf Amosi kraft til að spá með hugrekki. Við getum rétt ímyndað okkur viðbrögð Amasía þegar Amos sagði: „Heyr því orð [Jehóva]: Þú segir: ‚Þú mátt eigi spá gegn Ísrael né láta orð þín streyma yfir Ísaks niðja.‘ Fyrir því segir [Jehóva] svo: ‚Konan þín skal verða skækja hér í borginni, og synir þínir og dætur skulu fyrir sverði falla. Jörð þinni skal sundur skipt verða með mælivað, og þú sjálfur skalt deyja í óhreinu landi. Og Ísraelsmenn skulu fara herleiddir af landi sínu.‘“ Þessi spádómur rættist. (Amos 7:16, 17) Fráhvarfsmaðurinn Amasía hlýtur að hafa verið steini lostinn!

5. Hvað er hliðstætt með aðstæðum nútímaþjóna Jehóva og spámannsins Amosar?

5 Fólk Jehóva er í áþekkri aðstöðu nú á tímum. Við líðum illt fyrir að kunngera boðskap Guðs og margir tala með fyrirlitningu um prédikunarstarf okkar. Umboð okkar til að prédika er að vísu ekki fengið frá guðfræðiskóla. Það er andi Jehóva sem knýr okkur til að boða fagnaðarerindið um ríkið. Við hvorki breytum né útvötnum boðskap Guðs. Þess í stað kunngerum við hann hlýðnir óháð viðbrögðum áheyrenda okkar. — 2. Korintubréf 2:15-17.

Þeir sýndu þolinmæði

6, 7. (a) Hvað einkenndi spádómsstarf Jesaja? (b) Hvernig koma nútímaþjónar Jehóva fram líkt og Jesaja?

6 Spámenn Guðs sýndu þolinmæði. Til dæmis sýndi Jesaja þolinmæði en hann þjónaði sem spámaður Jehóva á áttundu öld f.o.t. Guð sagði honum: „Far og seg þessu fólki: Hlýðið grandgæfilega til, þér skuluð þó ekkert skilja, horfið á vandlega, þér skuluð þó einskis vísir verða! Gjör þú hjarta þessa fólks tilfinningarlaust og eyru þess daufheyrð og afturloka augum þess, svo að þeir sjái ekki með augum sínum, heyri ekki með eyrum sínum og skilji ekki með hjarta sínu, að þeir mættu snúa sér og læknast.“ (Jesaja 6:9, 10) Fólkið brást einmitt þannig við. En kom það Jesaja til að hætta? Nei. Þess í stað kunngerði hann viðvörunarboðskap Jehóva með þolinmæði og af kostgæfni. Hin hebreska uppbygging orða Guðs, sem vitnað var í áðan, styður hugmyndina um „langt áframhald“ á yfirlýsingum spámannsins sem fólkið heyrði „aftur og aftur.“ — Gesenius’ Hebrew Grammar.

7 Nú á tímum bregðast margir alveg eins við fagnaðarerindinu og fólk brást við orðum Jehóva sem Jesaja flutti því. En líkt og þessi trúfasti spámaður endurtökum við boðskapinn um Guðsríki „aftur og aftur.“ Við gerum það með kostgæfni, þolinmæði og þrautseigju af því að það er vilji Jehóva.

„Þeir fóru að öllu svo“

8, 9. Á hvaða vegu er spámaðurinn Móse gott fordæmi?

8 Spámaðurinn Móse var til fyrirmyndar í þolinmæði og hlýðni. Hann kaus að taka afstöðu með hinum þrælkuðu Ísraelsmönnum en varð að bíða þolinmóður uns frelsunartími þeirra rann upp. Í 40 ár bjó hann í Midíanlandi uns Guð notaði hann til að leiða Ísraelsmenn út úr ánauðinni. Þegar Móse og Aron bróðir hans stóðu frammi fyrir valdhafa Egyptalands sögðu þeir og gerðu hlýðnir það sem Guð hafði boðið. „Þeir fóru að öllu svo sem [Jehóva] hafði fyrir þá lagt.“ — 2. Mósebók 7:1-6; Hebreabréfið 11:24-29.

9 Móse hélt þolinmóður út hina erfiðu, 40 ára eyðimerkurgöngu Ísraels. Hann fylgdi líka hlýðinn fyrirmælum Guðs um gerð tjaldbúðar Ísraels og annarra hluta sem notaðir voru við tilbeiðslu Jehóva. Svo nákvæmlega fylgdi spámaðurinn fyrirmælum Guðs að við lesum: „Móse gjörði svo. Eins og [Jehóva] hafði boðið honum, svo gjörði hann í alla staði.“ (2. Mósebók 40:16) Þegar við innum af hendi þjónustu okkar í samfélagi við skipulag Jehóva skulum við muna eftir hlýðni Móse og heimfæra ráðleggingar Páls postula um að ‚hlýða þeim sem með forystuna fara á meðal okkar.‘ — Hebreabréfið 13:17.

Þeir höfðu jákvætt viðhorf

10, 11. (a) Hvað gefur til kynna að spámaðurinn Hósea hafi haft jákvætt viðhorf? (b) Hvernig getum við varðveitt jákvætt viðhorf þegar við tökum fólk tali á starfssvæði okkar,

10 Spámennirnir þurftu að hafa jákvætt viðhorf þegar þeir fluttu dómsboðskap og eins spádóma sem endurspegluðu ástríka umhyggju Guðs fyrir trúföstum þjónum sínum sem voru dreifðir út um Ísrael. Þannig var það með Hósea sem var spámaður í heil 59 ár. Á jákvæðan hátt hélt hann áfram að flytja boðskap Jehóva og lauk spádómsbók sinni með orðunum: „Hver er svo vitur, að hann skilji þetta, svo hygginn, að hann sjái það? Já, vegir [Jehóva] eru réttir. Hinir réttlátu ganga þá öruggir, en hinir ranglátu hrasa á þeim.“ (Hósea 14:10) Svo lengi sem Jehóva leyfir okkur að bera vitni skulum við hafa jákvætt viðhorf og halda áfram að leita að þeim sem sýna þá visku að taka við óverðskuldaðri góðvild Guðs.

11 Til að ‚leita að þeim sem verðugir eru‘ þurfum við að vera þrautseig og jákvæð. (Matteus 10:11) Ef við týnum til dæmis lyklunum okkar getum við þrætt til baka leiðina sem við fórum og leitað á hinum ýmsu stöðum þar sem við vorum. Svo gæti farið að við fyndum þá ekki fyrr en við hefðum gert þetta aftur og aftur. Við skulum á sama hátt halda þrautseig áfram að leita að hinum sauðumlíku. Hvílíkt gleðiefni þegar þeir taka við fagnaðarerindinu á svæði þar sem oft er starfað! Og við fögnum sannarlega blessun Guðs yfir starfi okkar í löndum þar sem hömlur takmörkuðu áður opinbera þjónustu okkar! — Galatabréfið 6:10.

Uppspretta hvatningar

12. Hvaða spádómur Jóels uppfyllist á 20. öldinni og hvernig?

12 Orð spámanna Jehóva geta verið til mikillar hvatningar í þjónustu okkar. Tökum spádómsbók Jóels sem dæmi. Hún inniheldur dómsboðskap sem beint var til fráhverfra Ísraelsmanna og annarra á níundu öld f.o.t. En Jóel var líka blásið í brjóst að spá: „Síðar meir mun ég [Jehóva] úthella anda mínum yfir allt hold. Synir yðar og dætur yðar munu spá, gamalmenni yðar mun drauma dreyma, ungmenni yðar munu sjá sjónir. Já, einnig yfir þræla og ambáttir mun ég á þeim dögum úthella anda mínum.“ (Jóel 3:1, 2) Þetta rættist á fylgjendum Jesú frá og með hvítasunnunni árið 33. Og við sjáum þennan spádóm uppfyllast með stórkostlegum hætti á 20. öldinni! Núna höfum við milljónir manna sem „spá“ eða kunngera boðskap Jehóva — þeirra á meðal talsvert yfir 600.000 í fullu starfi sem brautryðjendur.

13, 14. Hvað getur hjálpað ungum kristnum mönnum að hafa ánægju af boðunarstarfinu?

13 Margt ungt fólk þjónar sem boðberar Guðsríkis. Það er ekki alltaf auðvelt fyrir það að tala við sér eldra fólk um Biblíuna. Stundum er ungum þjónum Jehóva sagt: ‚Þið eruð að sóa tímanum með því að prédika,‘ og ‚þið ættuð nú að nota tímann í eitthvað annað.‘ Ungur vottur Jehóva getur svarað háttvíslega að honum þyki miður að hinum skuli finnast það. Einum ungum prédikara fagnaðarerindisins finnst gott að bæta við: „Mér finnst ég hafa mikið gagn af því að tala við mér eldra fólk eins og þig og ég hef gaman af því.“ Prédikun fagnaðarerindisins er að sjálfsögðu engin tímasóun. Mannslíf eru í húfi. Fyrir munn Jóels lýsti Guð enn fremur yfir: „Hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun frelsast.“ (Jóel 3:5)

14 Börn, sem eru með foreldrum sínum í prédikunarstarfi Guðsríkis, þiggja fúslega hjálp þeirra til að setja sér persónuleg markmið. Skref fyrir skref taka slík börn framförum frá því að lesa ritningarstað til þess að útskýra von Biblíunnar og bjóða áhugasömu fólki viðeigandi rit. Þegar ungir boðberar sjá framfarir sínar og finna fyrir blessun Jehóva hafa þeir mikla gleði af því að prédika fagnaðarerindið. — Sálmur 110:3; 148:12, 13.

Kostgæfni og biðlund

15. Hvernig getur fordæmi Esekíels hjálpað okkur að glæða á ný kostgæfni okkar til prédikunarstarfsins?

15 Spámenn Guðs voru líka til fyrirmyndar í því að sýna bæði kostgæfni og biðlund — eiginleika sem við þörfnumst í þjónustu okkar nú á tímum. Þegar við lærðum fyrst sannleikann frá orði Guðs vorum við líklega gripin eldmóði sem kom okkur til að tala með djörfung. En nú eru kannski mörg ár liðin og við erum búin að starfa oft yfir starfssvæði okkar. Færri taka kannski við boðskap Guðsríkis en áður. Hefur það dregið úr kostgæfni okkar? Ef svo er, leiðum þá hugann að spámanninum Esekíel en nafn hans merkir „Guð styrkir.“ Enda þótt Esekíel stæði frammi fyrir harðbrjósta fólki í Ísrael til forna styrkti Guð hann og gerði enni hans í táknrænni merkingu harðara en klett. Þannig gat Esekíel innt þjónustu sína af hendi í fjöldamörg ár óháð því hvort fólk hlustaði eða ekki. Fordæmi hans sýnir að við getum það líka og það getur hjálpað okkur að endurlífga kostgæfni okkar gagnvart prédikunarstarfinu. — Esekíel 3:8, 9; 2. Tímóteusarbréf 4:5.

16. Hvaða viðhorf Míka ættum við að rækta með okkur?

16 Míka, sem spáði á áttundu öld f.o.t., er eftirtektarverður fyrir þolinmæði sína og biðlund. „Ég vil mæna til [Jehóva],“ sagði hann, „bíða eftir Guði hjálpræðis míns! Guð minn mun heyra mig!“ (Míka 7:7) Trúartraust Míka átti sér rætur í sterkri trú hans. Líkt og Jesaja spámaður vissi Míka að Jehóva myndi örugglega gera það sem hann ætlaði sér. Við vitum það líka. (Jesaja 55:11) Við skulum því rækta með okkur biðlund eftir að fyrirheit Guðs uppfyllist. Og við skulum prédika af kostgæfni, jafnvel á svæðum þar sem fólk sýnir lítinn áhuga á boðskap Guðsríkis. — Títusarbréfið 2:14; Jakobsbréfið 5:7-10.

Að sýna þolinmæði nú á tímum

17, 18. Hvaða fordæmi fyrr og nú geta hjálpað okkur að sýna þolinmæði?

17 Sumir af spámönnum Jehóva þraukuðu þolinmóðir við verkefni sitt í mörg ár en sáu ekki uppfyllingu spádóma sinna. En þolinmæði þeirra og þrautseigja, oft samfara illri meðferð, hjálpar til að gera okkur ljóst að við getum innt þjónustu okkar af hendi. Við getum líka notið góðs af fordæmi trúfastra manna af hópi hinna smurðu á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Enda þótt þeir sæju himneska von sína ekki rætast jafnfljótt og þeir höfðu vænst létu þeir ekki vonbrigði með þessa seinkun, sem virtist vera, draga úr kostgæfni sinni í því að gera vilja Guðs eins og hann opinberaði þeim hann.

18 Um árabil dreifðu margir þessara kristnu manna reglulega Varðturninum og förunaut þess, tímaritinu Vaknið! (sem hét áður Gullöldin og síðar Hughreysting). Kostgæfir komu þeir þessum verðmætu tímaritum á framfæri við fólk á götum úti og á heimilum þess með því sem við köllum núna blaðaleið. Vegfarendur, sem voru vanir að sjá aldraða systur bera vitni á götunni, söknuðu hennar fljótt þegar hún lauk jarðnesku skeiði sínu. Hvílíkan vitnisburð hún gaf með margra ára trúfastri þjónustu sinni má sjá af þakklátum athugasemdum þeirra sem höfðu fylgst með opinberri þjónustu hennar. Kemur þú sem boðberi Guðsríkis blöðunum Varðturninum og Vaknið! reglulega í hendur þeirra sem þú hittir í þjónustunni?

19. Hvaða hvatningu veitir Hebreabréfið 6:10-12 okkur?

19 Hugleiddu líka þolinmæði og trúfasta þjónustu bræðra sem þjóna í hinu stjórnandi ráði votta Jehóva. Nokkrir þeirra eru núna komnir á níræðis- eða tíræðisaldur en eru þó enn boðberar Guðsríkis og rækja kostgæfilega þær skyldur sem þeim hafa verið faldar. (Hebreabréfið 13:7) Og hvað um aðra aldraða, sem hafa himneska von, og jafnvel suma af hinum ‚öðrum sauðum‘ sem eru orðnir aldraðir? (Jóhannes 10:16) Þeir mega treysta að Guð er ekki ranglátur svo að hann gleymi verki þeirra og kærleikanum sem þeir auðsýndu nafni hans. Megi aldraðir vottar Jehóva, ásamt yngri trúbræðrum sínum, halda ótrauðir áfram að gera það sem þeir geta og sýna trú og þolinmæði í þjónustu Guðs. (Hebreabréfið 6:10-12) Þá munu þeir uppskera hina ríkulegu umbun sem eilíft líf er, annaðhvort með upprisu eins og spámennirnir til forna eða með því að lifa af hina komandi ‚miklu þrengingu.‘ — Matteus 24:21.

20. (a) Hvað hefur þú lært af ‚fyrirmynd‘ spámannanna? (b) Hvernig getur þolinmæði eins og spámennirnir höfðu hjálpað okkur?

20 Spámenn Guðs hafa sannarlega gefið okkur góða fyrirmynd! Vegna þess að þeir voru þolgóðir í þjáningum, sýndu þolinmæði og létu í ljós aðra guðlega eiginleika, fengu þeir þau sérréttindi að tala í nafni Jehóva. Við sem erum nútímavottar hans skulum líkjast þeim og vera jafneinbeittir og spámaðurinn Habakkuk sem lýsti yfir: „Ég hélt vörð, og stóð uppi á varðborginni, og skyggndist um, til að sjá, hvað [Guð] mundi opinbera mér.“ (Habakkuk 2:1, Bi 1859) Við skulum vera jafnákveðin og þolinmóð og halda glöð áfram að játa opinberlega hið dýrlega nafn okkar mikla skapara, Jehóva! — Nehemíabók 8:10; Rómverjabréfið 10:10.

Skildir þú þessi atriði?

◻ Hvaða hugrekki sýndi spámaðurinn Amos sem er fordæmi til eftirbreytni?

◻ Á hvaða vegu var spámaðurinn Móse til fyrirmyndar?

◻ Hvernig geta nútímavottar Jehóva líkt eftir Amosi og Jesaja?

◻ Hvað geta kristnir þjónar orðsins lært af breytni Hósea og Jóels?

◻ Hvernig getum við notið góðs af fordæmi Esekíels og Míka?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila