Taka þjáningar mannanna aldrei enda?
HRYLLINGUR blasir við eftir að sprengja springur á mannmörgu markaðstorgi í Sarajevo; fjöldamorð og stórfelldar líkamsmeiðingar í Rúanda; sveltandi börn sem hrópa eftir mat í Sómalíu; ringlaðar fjölskyldur virða fyrir sér tjónið eftir jarðskjálfta í Los Angeles; hjálparvana fórnarlömb flóða í Banglades. Dæmi af þessu tagi blasa við okkur daglega í sjónvarpi, tímaritum og dagblöðum og bera vitni um þær þjáningar sem menn mega þola.
Það er hryggilegt að slíkar þjáningar koma sumum til að missa trúna á Guð. „Tilvist vonskunnar hefur alltaf verið alvarlegasti tálminn í vegi trúarinnar,“ segir í riti útgefnu af einu samfélagi Gyðinga í Bandaríkjunum. Höfundar áttu þar við fjöldamorðin í fangabúðum nasista, svo sem í Auschwitz, og fórnarlömb kjarnorkusprengjunnar í Híroshíma. „Sú spurning hvernig réttvís og máttugur Guð gat leyft að svona mörgum saklausum mönnum væri tortímt ásækir samvisku trúaðra og er þeim alger ráðgáta,“ segja þeir.
Því miður getur stöðugur straumur hörmulegra fregna gert menn tilfinningasljóa. Svo framarlega sem hörmungarnar snerta ekki vini og ættingja hafa þjáningar annarra varla nokkur áhrif á fólk.
Sú staðreynd að við skulum geta fundið til með öðrum, í það minnsta ástvini okkar, ætti samt sem áður að segja okkur eitthvað um skapara okkar. Biblían segir að maðurinn hafi verið skapaður „eftir Guðs mynd“ og ,líkur honum.‘ (1. Mósebók 1:26, 27) Þetta merkir ekki að menn séu líkir Guði í útliti. Nei, því að Jesús Kristur útskýrði að ,Guð sé andi‘ og að ,ekki hafi andi hold og bein.‘ (Jóhannes 4:24; Lúkas 24:39) Að við séum gerð lík Guði merkir að við höfum möguleika á að sýna sömu eiginleika og hann. Þar eð venjulegir menn finna til með þeim sem þjást hljótum við þess vegna að álykta að skapari mannsins, Jehóva Guð, sé hluttekningarsamur og finni sárlega til með sköpunarverum sínum þegar þær þjást. — Samanber Lúkas 11:13.
Guð hefur meðal annars sýnt hluttekningu sína með því að láta mannkyninu í té skriflega skýringu á orsökum þjáninga. Það hefur hann gert í orði sínu, Biblíunni. Biblían sýnir greinilega að Guð skapaði manninn til að njóta lífsins, ekki til að þjást. (1. Mósebók 2:7-9) Hún opinberar einnig að fyrstu mennirnir kölluðu yfir sig þjáningar með því að hafna réttlátri stjórn Guðs. — 5. Mósebók 32:4, 5, NW; Rómverjabréfið 5:12.
Þrátt fyrir þetta finnur Guð enn til með þjáðu mannkyni. Það má greinilega sjá af loforði hans um að binda enda á þjáningar manna. „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:3, 4; sjá einnig Jesaja 25:8; 65:17-25; Rómverjabréfið 8:19-21.
Þessi stórkostlegu fyrirheit sanna að Guð er næmur fyrir þjáningum manna og að hann er staðráðinn í að binda enda á þær. En hver er eiginlega ástæðan fyrir þjáningum mannanna og hvers vegna hefur Guð leyft þeim að halda áfram allt fram á okkar dag?
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 4]
Kevin Frayer/Sipa Press