Af hverju leyfir Guð að menn þjáist?
Í UPPHAFI mannkynssögunnar felldi enginn maður sársauka- eða sorgartár. Þjáningar voru hreinlega ekki til. Mannkyninu var veitt fullkomið upphaf. „Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“ — 1. Mósebók 1:31.
En sumir andmæla: ,Sagan af Adam og Evu í Edengarðinum er nú bara líkingasaga.‘ Því miður taka margir af klerkum kristna heimsins undir það. En enginn ómerkari heimildarmaður en Jesús Kristur staðfesti að atburðirnir í Eden væru sannsögulegir. (Matteus 19:4-6) Auk þess er engin önnur leið til að skilja ástæðuna fyrir því að Guð hefur leyft þjáningar en sú að kynna okkur þessa atburði í upphafi mannkynssögunnar.
Fyrsta manninum, Adam, var falið það ánægjulega verkefni að annast Edengarðinn. Guð setti honum einnig það markmið að stækka garð unaðarins, Edengarðinn, uns hann næði um allan hnöttinn. (1. Mósebók 1:28; 2:15) Til að hjálpa Adam að ráða við þetta stóra verkefni gaf Guð honum maka, konuna Evu, og sagði þeim að vera frjósöm, margfaldast og gera sér jörðina undirgefna. En fleira þurfti til að tilgangur Guðs með jörðina og mannkynið næði fram að ganga. Maðurinn var skapaður í Guðs mynd og hafði því frjálsan vilja, þannig að vilji mannsins mátti aldrei stangast á við vilja Guðs. Að öðrum kosti kæmi upp óregla í alheiminum og sá tilgangur Guðs að fylla jörðina friðsömu mannkyni næði ekki fram að ganga.
Mennirnir voru ekki sjálfkrafa undirgefnir stjórn Guðs. Þeir áttu að vera undirgefnir af fúsu geði og af kærleika. Til dæmis lesum við að Jesús Kristur hafi beðið þegar hann stóð frammi fyrir erfiðri prófraun: „Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“ — Lúkas 22:42.
Á sama hátt var það undir Adam og Evu komið að sanna hvort þau vildu lúta stjórn Guðs eða ekki. Í þeim tilgangi lagði Jehóva Guð fyrir þau einfalt próf. Eitt af trjánum í garðinum var kallað „skilningstréð góðs og ills.“ Það táknaði rétt Guðs til að setja staðla um rétta breytni. Með skýrum orðum bannaði hann þeim að borða ávöxt þessa ákveðna trés. Ef Adam og Eva óhlýðnuðust yrði það þeirra bani. — 1. Mósebók 2:9, 16, 17.
Upphaf þjáninganna
Dag einn dirfðist andasonur Guðs að véfengja stjórnarhætti Guðs. Hann notaði höggorm sem málpípu og spurði Evu: „Er það satt, að Guð hafi sagt: ‚Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum‘?“ (1. Mósebók 3:1) Þar með var sáð efasemdum í huga Evu um það hvort stjórnarfar Guðs væri rétt.a Eva svaraði honum réttilega til eins og hún hafði lært af manni sínum. En þá andmælti andaveran Guði og laug til um afleiðingar óhlýðninnar og sagði: „Vissulega munuð þið ekki deyja! En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“ — 1. Mósebók 3:4, 5.
Því miður lét Eva telja sér trú um að óhlýðni hefði ekki þjáningar í för með sér heldur betra líf. Því lengur sem hún horfði á ávöxtinn, þeim mun girnilegri varð hann svo hún tók að borða hann. Síðar taldi hún Adam á að borða líka. Til allrar óhamingju tók Adam velþóknun konu sinnar fram yfir velþóknun Guðs. — 1. Mósebók 3:6; 1. Tímóteusarbréf 2:13, 14.
Með því að koma þessari uppreisn af stað gerði andaveran sig að andstæðingi Guðs. Hún var því kölluð Satan eftir hebresku orði sem merkir „andstæðingur.“ Hún laug einnig um Guð og gerði sig að rógbera. Þess vegna er hún einnig kölluð djöfull eftir grísku orði sem merkir „rógberi.“ — Opinberunarbókin 12:9.
Þannig upphófust þjáningar mannanna. Þrjár sköpunarverur Guðs höfðu misnotað frjálsan vilja sinn og kosið eigingjarna lífsbraut í andstöðu við skaparann. Nú kom upp sú spurning hvernig Guð myndi taka á þessari uppreisn á réttlátan hátt þannig að hann nyti trúnaðartrausts annarra skynsemigæddra sköpunarvera sinna, þeirra á meðal trúfastra engla á himnum og ófæddra afkomenda Adams og Evu.
Viturleg viðbrögð Guðs
Sumir halda kannski fram að best hefði verið ef Guð hefði tortímt Satan, Adam og Evu þegar í stað. En það hefði ekki útkljáð deilumálin sem uppreisnin vakti. Satan hafði véfengt stjórnarhætti Guðs með því að gefa í skyn að menn yrðu betur settir óháðir stjórn Guðs. Að honum skyldi takast að snúa fyrstu tveim mönnunum gegn stjórn Guðs vakti aðrar spurningar. Merkti það að Adam og Eva syndguðu að eitthvað væri athugavert við það hvernig Guð hefði skapað manninn? Myndi nokkur maður á jörðinni sýna Guði trúfesti? Og hvað um englasyni Jehóva sem urðu vitni að uppreisn Satans? Myndu þeir styðja réttmæti drottinvalds Guðs? Augljóslega þurfti nægan tíma til að svara þessum spurningum. Það er þess vegna sem Guð hefur leyft Satan að vera til fram á okkar daga.
Guð dæmdi Adam og Evu til dauða daginn sem þau óhlýðnuðust. Þá hófst dánarferlið. Afkomendur þeirra, sem getnir voru eftir að þau höfðu syndgað, erfðu synd og dauða af ófullkomnum foreldrum sínum. — Rómverjabréfið 5:14.
Í byrjun hafði Satan aðeins þessar tvær manneskjur á sínu bandi í deilumálinu. Hann hefur notað tímann, sem hann hefur fengið til umráða, til að reyna að halda öllum afkomendum Adams undir stjórn sinni. Honum hefur líka tekist að tæla marga engla til fylgis við sig í uppreisninni. En meirihluti englasona Guðs hefur drottinhollur stutt réttmæti stjórnar Jehóva. — 1. Mósebók 6:1, 2; Júdasarbréfið 6; Opinberunarbókin 12:9.
Það sem málið snerist um var stjórn Guðs gegn stjórn Satans, deila sem var í fullum gangi á dögum Jobs. Þessi trúfasti maður sannaði með breytni sinni að hann tæki réttláta stjórn Guðs fram yfir sjálfstæði Satans, líkt og guðhræddir menn svo sem Abel, Enok, Nói, Abraham, Ísak, Jakob og Jósef höfðu þegar gert. Job varð tilefni umræðna sem áttu sér stað á himnum í áheyrn trúfastra engla Guðs. Til stuðnings réttlátri stjórn sinni sagði Guð: „Veittir þú athygli þjóni mínum Job? því að enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar.“ — Jobsbók 1:6-8.
Satan neitaði að viðurkenna ósigur og fullyrti að Job þjónaði Guði aðeins af eigingjörnum hvötum, þar eð Guð hefði blessað Job ríkulega með efnislegri velsæld. Satan sagði því ásakandi: „Rétt þú út hönd þína og snert þú allt, sem hann á, og mun hann þá formæla þér upp í opið geðið.“ (Jobsbók 1:11) Satan gekk jafnvel skrefi lengra og dró í efa ráðvendni allra sköpunarvera Guðs. „Fyrir líf sitt gefur maðurinn allt sem hann á,“ fullyrti hann. (Jobsbók 2:4) Þessi rógsárás snerti ekki bara Job heldur alla trúfasta tilbiðjendur Guðs á himni og jörð. Satan gaf í skyn að þeir myndu láta samband sitt við Jehóva lönd og leið ef lífið væri í húfi.
Jehóva Guð treysti fyllilega á ráðvendni Jobs. Þess vegna leyfði hann Satan að leggja þjáningar á Job. Með trúfesti sinni hreinsaði Job ekki aðeins nafn sitt heldur það sem mikilvægara var, hann hélt á loft réttmæti drottinvalds Jehóva og sannaði að djöfullinn var lygari. — Jobsbók 2:10; 42:7.
En besta fordæmið um trúfesti í prófraun var Jesús Kristur. Guð hafði flutt líf þessa englasonar frá himnum í móðurkvið meyjar einnar. Þess vegna erfði Jesús ekki synd og ófullkomleika. Hann óx upp sem fullkominn maður, að öllu leyti jafningi fyrsta mannsins áður en hann glataði fullkomleika sínum. Satan gerði Jesú að sérstökum skotspæni og lagði á hann margar freistingar og prófraunir sem náðu hámarki með auðmýkjandi dauða hans. En Satan tókst ekki að brjóta niður ráðvendni Jesú. Jesús studdi réttmæti stjórnar föður síns að öllu leyti. Hann sannaði líka að hinn fullkomni Adam hafði enga afsökun fyrir því að ganga í lið með Satan í uppreisninni. Adam hefði getað verið trúfastur í hinni miklu smærri prófraun sem lögð var fyrir hann.
Hvað annað hefur sannast?
Mannkynið hefur þjáðst í um 6000 ár síðan Adam og Eva gerðu uppreisn. Allan þennan tíma hefur Guð leyft mannkyninu að prófa sig áfram með margs konar stjórnarfar. Hin hryllilega þjáningasaga mannkynsins sannar að maðurinn er ekki fær um að stjórna sér sjálfur. Raunar ríkir nú stjórnleysi víða um jörðina. Sjálfstæði gagnvart Guði, eins og Satan berst fyrir, er stórskaðlegt.
Jehóva hefur ekki þurft á neinni sönnun að halda. Hann veit að stjórnarfar hans er réttlátt og til góðs fyrir sköpunarverur hans. En til að svara fullkomlega öllum spurningunum, sem uppreisn Satans vakti, hefur hann gefið skynsemigæddum sköpunarverum sínum tækifæri til að sýna að þær kjósi réttláta stjórn hans.
Umbunin, sem fylgir því að elska Guð og vera honum trúfastur, gerir miklu meira en bæta upp skammvinnar þjáningar af hendi djöfulsins. Frásagan af Job undirstrikar það. Jehóva Guð læknaði Job af þeim sjúkdómi sem djöfullinn lagði á hann. Að auki „blessaði [Jehóva] síðari æviár Jobs enn meir en hin fyrri.“ Eftir að Guð hafði lengt ævi Jobs um 140 ár „dó [Job] gamall og saddur lífdaga.“ — Jobsbók 42:10-17.
Kristni biblíuritarinn Jakob vekur athygli á þessu og segir: „Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið, hvaða lyktir [Jehóva] gjörði á högum hans. [Jehóva] er mjög miskunnsamur og líknsamur.“ — Jakobsbréfið 5:11.
Tími Satans og heims hans er nú að renna út. Bráðlega fjarlægir Guð allar þær þjáningar sem uppreisn Satans hefur leitt yfir mannkynið. Jafnvel dánir verða reistir upp. (Jóhannes 11:25) Þá fá trúfastir menn eins og Job tækifæri til að hljóta eilíft líf í paradís á jörð. Þær blessanir, sem Guð úthellir yfir þjóna sína í framtíðinni, munu upphefja hann að eilífu sem réttlátan drottinvald sem er svo sannarlega „mjög miskunnsamur og líknsamur.“
[Neðanmáls]
a Lögfræðingur og rithöfundur á fyrri hluta 20. aldar, Philip Mauro, fjallaði um þessa spurningu undir yfirskriftinni „Upphaf vonskunnar“ og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri „orsök allra erfiðleika mannkynsins.“
[Mynd á blaðsíðu 7]
Sá tilgangur Guðs að breyta jörðinni í paradís mun ná fram að ganga!