Jólin — eru þau í raun kristin?
SAMKVÆMT The World Book Encyclopedia, „eru jólin sá dagur er kristnir menn halda upp á sem fæðingardag Jesú Krists.“ Engu að síður segir sama alfræðibók einnig: „Frumkristnir menn héldu ekki upp á fæðingu [Jesú] vegna þess að þeir álitu það heiðna siðvenju að halda upp á fæðingu manns.“
Bókin The Making of the Modern Christmas eftir Golby og Purdue er á sama máli: „Frumkristnir menn héldu ekki upp á fæðingu Krists. Afmælisdagar voru sem slíkir tengdir heiðnum siðvenjum; guðspjöllin segja ekkert um hvaða dag Kristur fæddist í raun og veru.“
Þar sem kristnir menn fyrr á tímum héldu ekki afmælisdaga hátíðlega, hvernig má þá vera að fæðingardagur Krists skuli hafa orðið svo áberandi „kristin“ hátíð?
Heiðinn uppruni jólanna
„Allir gerðu sér dagamun í mat og drykk og fögnuðu, vinna og viðskipti voru algerlega lögð niður um skeið, húsin voru skreytt lárviði og sígrænum jurtum, vinir skiptust á heimsóknum og gjöfum og skjólstæðingar gáfu velunnurum sínum gjafir. Allt tímabilið einkendist af gleðskap og velvild og fólk lét eftir sér alls konar skemmtanir.“ — Paganism in Christian Festivals, eftir J. M. Wheeler.
Hæfir þessi lýsing því jólahaldi sem þú þekkir? Þetta voru ekki jól þótt furðulegt sé. Hér er þvert á móti verið að lýsa Saturnalia — vikulangri, heiðinni, rómverskri hátíð sem tengdist vetrarsólstöðum (sjá mynd hér til vinstri). Fæðingardagur hinnar ósigruðu sólar var haldinn hátíðlegur 25. desember, á einum helsta veisludegi míþrasartrúarinnar í Róm.
Samkvæmt The New Encyclopædia Britannica „var 25. desember, fæðingardagur Míþrasar, persneska ljósguðsins og . . . dagurinn sem helgaður var hinni ósigrandi sól, svo og dagurinn á eftir Saturnalia, tekinn upp af kirkjunni sem jólin, fæðingardagur Krists, til að vega upp á móti áhrifum þessara hátíða.“ Þannig héldu menn áfram hinu heiðna fæðingardagshátíðahaldi með því að hafa einfaldlega skipti á nöfnum, úr Míþrasi í Krists.
Þér kann hins vegar að finnast að fæðing Jesú, sonar Guðs, hafi verið einstakur viðburður sem verðskuldi að hans sé minnst. Það er mjög upplýsandi að líta á frásögu Biblíunnar af honum.
Gleðilegur atburður
Annar kafli Lúkasarguðspjalls dregur upp sögusviðið. Lúkas segir okkur hvernig himneskir englar, auðmjúkir hirðar, heittrúaðir þjónar Guðs og María sjálf brugðust við þessum eftirtektarverða atburði.
Lítum fyrst á ‚hirðana úti í haga‘ sem „gættu um nóttina hjarðar sinnar“ en það hefðu þeir ekki gert á miðjum vetri. Þegar „engill [Jehóva]“ birtist og dýrð Guðs ljómaði í kringum hirðana urðu þeir í fyrstu hræddir. Ótti þeirra hvarf þegar engillinn sagði: „Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn.“ Þegar „fjöldi himneskra hersveita“ engla birtist skyndilega vissu hirðarnir að þessi fæðing væri ólík öllum öðrum. Athyglisvert er að englarnir færðu hinu nýfædda barni engar gjafir. Þess í stað lofuðu englarnir Jehóva og sögðu: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“ — Lúkas 2:8-14.
Hirðana langaði eðlilega sjálfa til að sjá þetta barn af því að það var Jehóva sem hafði tilkynnt þennan gleðiatburð. Þegar þeir fundu hvítvoðunginn liggjandi í jötu sögðu þeir foreldrunum frá því sem englarnir höfðu sagt. Hirðarnir fóru síðan burt og „vegsömuðu Guð og lofuðu hann“ en ekki barnið. — Lúkas 2:15-18, 20.
María, móðir Jesú, gladdist vafalaust yfir því hve fæðing hennar fyrsta barns gekk vel. En hún geymdi einnig allt þetta „í hjarta sér og hugleiddi það.“ Ásamt eiginmanni sínum, Jósef, fór hún síðan til Jerúsalem í hlýðni við Móselögmálið. Það var engin fæðingarhátíð. Þess í stað var það stund til að koma með hvítvoðunginn fram fyrir Guð, „en svo er ritað í lögmáli [Jehóva]. ‚Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað [Jehóva].‘“ — Lúkas 2:19, 22-24.
Í musterinu í Jerúsalem rákust María og Jósef á Símeon sem Lúkas lýsir á þann veg að hann hafi verið „réttlátur og guðrækinn og [vænst] huggunar Ísraels.“ Undir innblæstri hafði honum verið sagt að hann skyldi ekki deyja fyrr en hann hefði séð „Krist Drottins.“ Það sem gerðist næst var einnig „að tillaðan andans [anda Guðs].“ Símeon tók barnið í fangið, nei, ekki til að gefa því gjöf, heldur öllu fremur til að lofa Guð með þessum orðum: „Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara, eins og þú hefur heitið mér, því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt, sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða.“ — Lúkas 2:25-32.
Að því búnu kom hin aldraða spákona, Anna, þar að. Hún kom líka og „lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla, sem væntu lausnar Jerúsalem.“ — Lúkas 2:36-38.
María, Símeon, Anna, hirðarnir og himnesku englarnir glöddust öll þegar Jesús fæddist. En taktu eftir að þau voru ekki með neitt fæðingardagshátíðahald og ekki fóru þau heldur að gefa gjafir. Þess í stað lofuðu þau Jehóva, Guð á himnum sem sá þeim fyrir því er yrði þeim til hjálpræðis.
Engu að síður segja sumir ef til vill sem svo: ‚Það getur sannarlega ekki verið rangt að gefa jólagjafir. Heiðruðu „vitringarnir þrír“ ekki Jesú með gjöfum?‘
Jólagjafir
Skoðum aftur frásögu Biblíunnar. Þú finnur hana skráða í öðrum kafla Matteusarguðspjalls. Ekki er minnst á nokkra fæðingarhátíð og ekki tilgreindur neinn sérstakur tími, þó að hann hafi greinilega verið nokkru eftir fæðingu Jesú. Í 1. versi kallar Matteus gestina ‚vitringa [„stjörnuspekinga,“ NW; magoi á grísku] frá Austurlöndum,‘ þar af leiðandi heiðingja með enga þekkingu á Jehóva Guði. Stjarnan, sem þessir menn fylgdu, leiddi þá ekki beint til fæðingarstaðar Jesú í Betlehem, heldur til Jerúsalem þar sem Heródes konungur sat á hásæti.
Þegar þessi illi stjórnandi heyrði þá spyrjast fyrir um ‚hinn nýfædda konung Gyðinga‘ leitaði hann til prestanna til að komast að því nákvæmlega ‚hvar Kristur átti að fæðast‘ til þess að hann gæti látið drepa barnið. Prestarnir svöruðu með því að vitna í spádóm Míka sem sagði Messías eiga að fæðast í Betlehem. (Míka 5:2) Heródes gaf gestum sínum þessi hræsnisfullu fyrirmæli: „Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið [„barnið unga,“ NW], og er þér finnið það látið mig vita, til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.“ Stjörnuspekingarnir fóru leiðar sinnar og stjarnan „fór fyrir þeim, uns hana bar þar yfir, sem barnið var.“ Taktu eftir að talað er um Jesús sem „barnið unga“ en ekki sem nýfætt smábarn. — Matteus 2:1-10.
Eins og hæfði austurlenskum áhrifamönnum í heimsókn hjá þjóðhöfðingja, féllu heiðnu stjörnuspekingarnir fram og „færðu [barninu unga] gjafir, gull, reykelsi og myrru.“ Matteus bætir við: „En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar, fóru þeir aðra leið heim í land sitt.“ — Matteus 2:11, 12.
Í þessari stuttu frásögn Ritningarinnar kynnu sumir að reyna að finna stuðning við þann sið að gefa jólagjafir. Engu að síður sýnir bókin Discovering Christmas Customs and Folklore fram á að sú núverandi venja að gefa gjafir eigi rætur að rekja til gjafanna sem Rómverjar færðu fátækum nágrönnum sínum á Saturnalia-hátíðinni. „Frumkirkjan . . . yfirfærði þýðingu þess kænlega yfir á helgisið til minningar um gjafir vitringanna.“ Þetta stangast rækilega á við hegðun hinna sönnu tilbiðjenda — eins og auðmjúku hirðanna — sem einfaldlega lofuðu Guð við fæðingu Jesú.
Heiðraðu Krist sem konung!
Núna er Jesús ekki lengur smábarn. Hann er voldugur höfðingi, konungur himnesks ríkis Guðs, og hann ætti að heiðra sem slíkan. — 1. Tímóteusarbréf 6:15, 16.
Ef þú ert núna fullorðinn maður, hefur þú þá einhvern tíma orðið vandræðalegur þegar sýndar voru í viðurvist þinni myndir af þér sem smábarni? Að vísu minna slíkar myndir foreldra þína á hve glaðir þeir voru þegar þú fæddist. En núna, þegar þú ert kominn á legg, viltu þá ekki yfirleitt frekar að menn sjái þig eins og þú ert? Í svipuðum dúr skaltu hugsa um hversu mikið virðingarleysi það er við Krist Jesú þegar þeir sem segjast vera fylgjendur hans verða á hverju ári svo niðursokknir í hinar heiðnu siðvenjur jólanna og í að heiðra hvítvoðung að þeir láta hjá líða að heiðra hann sem konung. Já, jafnvel á fyrstu öldinni rökræddi kristni postulinn Páll um hve það væri vel við hæfi að hugsa um Krist eins og hann er núna — konungur á himni. Páll skrifaði: „Þótt vér og höfum þekkt Krist að mannlegum hætti, þekkjum vér hann nú ekki framar þannig“! — 2. Korintubréf 5:16.
Sem konungur Guðsríkis mun Kristur brátt láta rætast hið spádómlega fyrirheit um að kvöl, þjáningar, sjúkdómar og dauði verði afmáð. Hann er sá sem mun tryggja fullnægjandi húsnæði og umbunarríkt starf fyrir alla í paradís hér á jörð. (Jesaja 65:21-23; Lúkas 23:43; 2. Korintubréf 1:20; Opinberunarbókin 21:3, 4) Vissulega er þetta nægileg ástæða til þess að forðast að vanvirða Jesú.
Sannkristnir menn fylgja fordæmi Krists sjálfs er þeir leitast við að gefa nágrönnum sínum einhverja þá stærstu gjöf sem nokkur getur látið af hendi — skilning á fyrirætlun Guðs sem getur leitt til eilífs lífs. (Jóhannes 17:3) Að gefa slíkar gjafir veitir þeim mikla gleði, alveg eins og Jesús sagði: „Sælla er að gefa en þiggja.“ — Postulasagan 20:35; Lúkas 11:27, 28.
Kristnir menn, sem hafa einlægan áhuga hver á öðrum, eiga ekki í neinum erfiðleikum með að sýna kærleika sinn hvenær sem er ársins án utanaðkomandi ástæðna. (Filippíbréfið 2:3, 4) Svo tekið sé einfalt dæmi, þá væri það sannarlega skemmtilegt að fá mynd frá kristnu barni sem teiknaði hana sem þakklætisvott eftir að hafa hlustað á biblíuræðu. Jafn uppörvandi er óvænta gjöfin frá ættingja sem merki um kærleika hans. Á sama hátt öðlast kristnir foreldrar mikla gleði þegar þeir velja viðeigandi tækifæri árið um kring til að gefa börnum sínum gjafir. Þessi tegund kristins örlætis flekkast hvorki af ímyndaðri kvöð að gefa á vissum helgidögum né af heiðnum siðvenjum.
Meira en fjórar og hálf milljón kristinna manna af öllum þjóðum nú á dögum halda þar af leiðandi ekki jól. Þetta eru vottar Jehóva sem eru reglulega önnum kafnir við að bera vitni fyrir nágrönnum sínum um fagnaðarerindið um ríki Guðs. (Matteus 24:14) Vel má vera að þú hittir þá þegar þeir koma heim til þín, ef til vill innan tíðar. Megir þú taka fúslega við því sem þeir færa þér og það leiða til þess að fjölskylda þín öðlist mikinn fögnuð þegar þið lærið hvernig á að lofa Jehóva Guð hvern einasta dag ársins. — Sálmur 145:1, 2.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Kristnir menn gefa nágrönnum sínum einna stærstu gjöfina — skilninginn á fyrirætlun Guðs sem leiðir til eilífs lífs.
[Rétthafi á blaðsíðu 4]
Culver Pictures