Trúin — Skip sem aldrei ætti að yfirgefa?
SKIP hefur hreppt ofviðri. Áhöfnin berst örvæntingarfull að björgun skipsins og stendur frammi fyrir afdrifaríkri ákvörðun: annaðhvort að vera kyrr um borð eða yfirgefa skipið og bjarga sjálfri sér. Vissir þú að þessi ógnvekjandi samlíking er notuð í guðfræðinni?
Guðfræðingar, einkanlega kaþólskir fræðimenn, líkja kirkju sinni oft við skip sem stendur af sér storma. Þeir segja að þetta skip, með Jesú eða Pétur við stjórnvölinn, sé eina hjálpræðisleið manna. Afstaða klerkastéttarinnar er: ‚Það á aldrei að yfirgefa skipið. Kirkjan hefur oft siglt gegnum stórsjói áður og staðið af sér öll óveður sögunnar.‘ Sumir segja: ‚Af hverju að yfirgefa hana? Er um eitthvað annað að velja? Af hverju ekki að vera kyrr um borð og hjálpa til að stýra henni á lygnari sjó?‘
Í samræmi við þetta táknmál hugsa margir áhangendur hinna fjölmörgu trúarbragða með sér: ‚Ég veit að trúfélagið mitt hefur rangt fyrir sér í mörgu, en ég vona að það breytist. Ég vil ekki yfirgefa það. Mig langar til að eiga þátt í að hjálpa því að sigrast á erfiðleikum sínum.‘ Þess konar rökfærsla stjórnast kannski af einlægri væntumþykju í garð forfeðratrúar sinnar eða jafnvel af ótta við að „svíkja“ hana.
Hans Küng, þekktur, kaþólskur guðfræðingur sem er kunnur fyrir andóf gegn kirkjunni, er gott dæmi um þetta, en hann hugsaði með sér: „Ætti ég að yfirgefa bátinn í stormi og skilja skipsfélaga mína eftir eina á báti við að ausa og kannski berjast fyrir lífinu?“ Hann svaraði: „Ég ætla ekki að láta áhrifavald mitt innan kirkjunnar af hendi.“ Hinn valkosturinn væri að „segja skilið við kirkjuna vegna galla hennar, vegna ástar á æðri gildum, og kannski til að vera sannkristnari menn.“ — Die Hoffnung bewahren.
En er hægt að vera kyrr um borð í kirkjuskútunni í von um að Guð muni í miskunn sinni gefa öllum trúarbrögðum ótakmarkaðan tíma til að bæta sig? Það er alvarleg spurning. Eins og líking okkar gefur til kynna væri jafnhættulegt að forða sér í flýti í óörugga björgunarbáta eins og að vera kyrr um borð í sökkvandi skipi. En er viturlegt að vera um kyrrt í kirkjunni hvað sem það kostar, hvert sem ástand hennar er? Hvaða horfur eru á að trúfélög nútímans bæti sig? Hve lengi leyfir Guð þeim að vinna gegn vilja sínum?
[Rétthafi á blaðsíðu 3]
Chesnot/Sipa Press