Hverjum ber að vígjast?
„Vér viljum gjöra allt það, sem [Jehóva] hefir boðið, og hlýðnast því.“ — 2. MÓSEBÓK 24:7.
1, 2. (a) Hverju eru sumir helgaðir? (b) Er það einungis trúhneigt fólk sem helgar sig öðru eða öðrum?
Í FEBRÚAR 1945 voru flugmenn Zeroorrustuflugvéla japönsku Yatabe-flugsveitarinnar samankomnir í áheyrendasal. Hver og einn fékk í hendur blað þar sem hann átti að skrifa hvort hann byði sig fram til þjónustu í kamikaze-sjálfsmorðsflugsveitinni. „Ég áleit það köllun mína að fórna mér fyrir þjóðina á hættustund,“ segir foringi sem var viðstaddur. „Mér fannst ég tilneyddur að bjóða mig fram svo ég gerði það.“ Hann var þjálfaður í meðferð og stjórn Okha (sjálfsmorðssprengjuflugvélar) sem átti að fljúga á óvinaherskip. En stríðinu lauk áður en hann fékk tækifæri til þess að deyja fyrir land sitt og keisara. Þegar Japan tapaði stríðinu missti hann trúna á keisarann.
2 Á sínum tíma voru margir Japanir nánast helgaðir keisaranum sem þeir álitu vera guð í lifanda líki. Annars staðar hefur dýrkun manna beinst að ýmsum öðrum og gerir enn. Milljónir manna dýrka Maríu, Búddha eða aðra guðdóma — eða skurðgoð þeirra. Sumir hrífast svo af tilfinningamálskrúði sjónvarpsprédikara að þeir ausa í þá peningum af slíkum ákafa að jaðrar við tilbeiðslu, peningum sem þeir hafa aflað með erfiði og striti. Eftir stríðið leituðu vonsviknir Japanir sér að einhverju öðru sem þeir gætu helgað sig. Sumir helguðu sig vinnu. Í austri og vestri eru margir helgaðir auðsöfnun. Ungt fólk verður gagntekið af tónlistarmönnum og reynir að herma eftir lífsstíl þeirra. Fjöldamargir dýrka sjálfa sig og helga sig því að fullnægja löngunum sínum. (Filippíbréfið 3:19; 2. Tímóteusarbréf 3:2) En er eitthvað af þessu þess virði að helga sig því af allri sálu?
3. Hvernig hefur sumt af því sem menn helga sig reynst einskis vert?
3 Þegar þeir sem helga sig slíku neyðast til að horfast í augu við veruleikann eru þeir oft sviptir tálvonum sínum. Þegar það rennur upp fyrir þeim að átrúnaðargoð þeirra eru ekkert annað en „handaverk manna“ verða þeir fyrir sárum vonbrigðum. (Sálmur 115:4) Einlægu fólki finnst það svikið þegar kunnir sjónvarpsprédikarar verða uppvísir að hneykslanlegu athæfi. Geðtruflanir gera vart við sig hjá fólki sem missir vinnuna þegar ofþensla í efnahagslífinu endar með hastarlegum afturkipp. Samdrátturinn nú upp á síðkastið hefur verið mikið áfall fyrir mammónsdýrkendur. Skuldir, sem stofnað var til í von um skjótfenginn gróða, breyttust í þungan bagga sem lítil von er um að þeir geti endurgreitt. (Matteus 6:24) Rokkstjörnur og aðrir skemmtikraftar deyja eða tapa vinsældum og dýrkendur þeirra sitja þá eftir með sárt ennið. Og þeir sem lifað hafa fyrir það að fullnægja sjálfum sér uppskera oft beiskan ávöxt. — Galatabréfið 6:7.
4. Hvað fær fólk til að helga líf sitt einskis verðum hlutum eða hugðarefnum?
4 Hvað fær fólk til að helga sig slíkum einskis verðum hlutum eða hugðarefnum? Að miklu leyti er það andi heimsins undir stjórn Satans djöfulsins. (Efesusbréfið 2:2, 3) Áhrifa þessa anda gætir á ýmsa vegu. Sumir láta kannski stjórnast af fjölskylduhefðum sem eru teknar í arf frá forfeðrunum. Menntun og uppeldi getur haft sterk áhrif á hugsunarhátt manna. Andrúmsloftið á vinnustað getur gert menn að þvílíkum vinnufíklum að þeir stofni lífi sínu í voða. Efnishyggja heimsins ýtir undir löngun í að eignast meira og meira. Hjörtu margra spillast með þeim afleiðingum að þeir helga sig eigingjörnum löngunum og þeir íhuga ekki hvort þær séu þess virði að helga þeim krafta sína.
Vígð þjóð
5. Hverjir vígðust Jehóva fyrir meira en 3500 árum?
5 Fyrir meira en 3500 árum var til þjóð sem beindi hollustu sinni og tilbeiðslu í langtum verðugri farveg. Hún helgaði sig eða vígði alvöldum Guði Jehóva. Sem heild lýsti Ísraelsþjóðin því yfir í Sínaíeyðimörk að hún væri vígð Guði.
6. Hvaða þýðingu átti nafn Guðs að hafa fyrir Ísraelsmenn?
6 Hvað kom Ísraelsmönnum til að stíga þetta skref? Þegar þeir voru í ánauð í Egyptalandi fól Jehóva Móse að leiða þá til frelsis. Móse spurði hvernig hann ætti að lýsa þeim Guði sem hafði sent hann, og Guð opinberaði sig með þessum orðum: „Ég mun reynast vera það sem ég mun reynast vera.“ Hann lét Móse segja Ísraelsmönnum: „Ég mun reynast vera sendi mig til ykkar.“ (2. Mósebók 3:13, 14, NW) Þessi orð gáfu til kynna að Jehóva yrði hvaðeina sem þyrfti til að leiða tilgang sinn til lykta. Hann myndi opinbera sig með því að uppfylla fyrirheit sín á þann hátt sem forfeður Ísraelsmanna höfðu aldrei þekkt. — 2. Mósebók 6:2, 3.
7, 8. Hvaða sannanir höfðu Ísraelsmenn fyrir því að Jehóva Guð væri hollustu þeirra verður?
7 Ísraelsmenn urðu vitni að þrengingunum sem komu yfir Egyptaland og íbúa þess í plágunum tíu. (Sálmur 78:44-51) Síðan tóku einar þrjár milljónir karla, kvenna og barna saman pjönkur sínar og yfirgáfu Gósenland á einni nóttu sem var eitt sér mikið afrek. (2. Mósebók 12:37, 38) Því næst opinberaði Jehóva sig sem ‚stríðshetju‘ við Rauðahafið er hann bjargaði þjóð sinni frá hersveitum Faraós með því að kljúfa hafið og láta Ísraelsmenn ganga yfir en láta það síðan steypast yfir og drekkja Egyptunum sem eltu þá. Þannig ‚sá Ísrael hið mikla undur, sem Jehóva hafði gjört á Egyptum, og óttaðist Jehóva og trúði á Jehóva.‘ — 2. Mósebók 14:31; 15:3; Sálmur 136:10-15.
8 Rétt eins og Ísraelsmenn vantaði enn sannanir fyrir því hvað nafn Guðs merkti mögluðu þeir gegn honum og fulltrúa hans, Móse, vegna matar- og vatnsskorts. Jehóva sendi lynghænsn, lét rigna manna af himni ofan og vatn spretta fram af kletti við Meríba. (2. Mósebók 16:2-5, 12-15, 31; 17:2-7) Hann bjargaði Ísraelsmönnum líka undan Amalekítum sem réðust á þá. (2. Mósebók 17:8-13) Ísraelsmenn gátu engan veginn neitað því sem Jehóva lýsti síðar yfir við Móse: „[Jehóva, Jehóva], miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur, sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir.“ (2. Mósebók 34:6, 7) Jehóva reyndist sannarlega verður hollustu þeirra og tilbeiðslu.
9. Af hverju gaf Jehóva Ísraelsmönnum tækifæri til að lýsa yfir að þeir væru vígðir til að þjóna honum og hvernig brugðust þeir við?
9 Jehóva hafði eignarrétt yfir Ísraelsmönnum vegna þess að hann keypti þá lausa frá Egyptalandi. En hann er gæskuríkur og miskunnsamur Guð þannig að hann gaf þeim tækifæri til að tjá af fúsu geði löngun sína til að þjóna honum. (5. Mósebók 7:7, 8; 30:15-20) Hann tilgreindi líka skilyrðin fyrir sáttmálanum milli sín og þeirra. (2. Mósebók 19:3-8; 20:1–23:33) Þegar Móse greindi frá þessum skilyrðum lýstu Ísraelsmenn yfir: „Vér viljum gjöra allt það, sem [Jehóva] hefir boðið, og hlýðnast því.“ (2. Mósebók 24:3-7) Þeir vígðust alvöldum Drottni Jehóva af fúsum og frjálsum vilja.
Þakklæti leiðir til vígslu
10. Á hverju ætti vígsla okkar til Jehóva að byggjast?
10 Jehóva, skaparinn, er þess enn verður að við vígjumst honum af allri sálu. (Malakí 3:6; Matteus 22:37; Opinberunarbókin 4:11) En vígsla okkar ætti ekki að byggjast á trúgirni, stundarhrifningu eða þrýstingi frá öðrum — ekki einu sinni foreldrum. Hún verður að byggjast á nákvæmri þekkingu á sannleikanum um Jehóva og þakklæti fyrir allt það sem Jehóva hefur gert fyrir okkur. (Rómverjabréfið 10:2; Kólossubréfið 1:9, 10, NW; 1. Tímóteusarbréf 2:4, NW) Á sama hátt og Jehóva gaf Ísraelsmönnum tækifæri til að lýsa sjálfviljugir yfir vígslu sinni, eins gefur hann okkur tækifæri til að vígja okkur af frjálsum vilja og lýsa opinberlega yfir þeirri vígslu. — 1. Pétursbréf 3:21.
11. Hvað hefur nám okkar í Biblíunni opinberað um Jehóva?
11 Við kynnumst Guði sem persónu af biblíunámi okkar. Orð hans hjálpar okkur að koma auga á eiginleika hans eins og þeir birtast í sköpunarverkinu. (Sálmur 19:2-5) Við getum séð af orði hans að hann er ekki dularfull, óskiljanleg þrenning. Hann tapar ekki í stríði og þarf þar af leiðandi ekki að afsala sér guðdómi. (2. Mósebók 15:11; 1. Korintubréf 8:5, 6; Opinberunarbókin 11:17, 18) Með því að uppfylla loforð sín hefur hann minnt okkur á hvað hið fagra nafn hans, Jehóva, stendur fyrir. Hann er hinn mikli Guð sem hefur tilgang. (1. Mósebók 2:4, NW, neðanmáls; Sálmur 83:19; Jesaja 46:9-11) Með námi í Biblíunni skiljum við greinilega hve trúfastur og áreiðanlegur hann er. — 5. Mósebók 7:9; Sálmur 19:8, 10; 111:7.
12. (a) Hvað laðar okkur að Jehóva? (b) Hvernig koma raunsannar frásögur Biblíunnar okkur til að langa til að þjóna Jehóva? (c) Hvernig lítur þú á það að þjóna Jehóva?
12 Það sem laðar okkur sérstaklega að Jehóva er ástríkur persónuleiki hans. Biblían sýnir fram á hve kærleiksríkur og miskunnsamur hann er í samskiptum sínum við mennina og fús til að fyrirgefa. Hugleiddu hvernig hann blessaði Job eftir að Job hafði trúfastur varðveitt ráðvendni sína. Reynsla Jobs dregur vel fram að „[Jehóva] er mjög miskunnsamur og líknsamur.“ (Jakobsbréfið 5:11; Jobsbók 42:12-17) Hugleiddu hvaða tökum Jehóva tók Davíð þegar hann drýgði hór og framdi morð. Já, Jehóva er fús til að fyrirgefa jafnvel alvarlegar syndir þegar syndarinn nálgast hann með ‚sundurmörðu og sundurkrömdu hjarta.‘ (Sálmur 51:5-13, 19) Hugleiddu hvernig Jehóva kom fram við Sál frá Tarsus sem í fyrstu ofsótti fólk Guðs grimmilega. Þessi dæmi lýsa vel miskunn Guðs og fúsleika hans til að nota iðrunarfulla menn. (1. Korintubréf 15:9; 1. Tímóteusarbréf 1:15, 16) Páli fannst hann geta hætt lífinu í þjónustu sinni við þennan ástríka Guð. (Rómverjabréfið 14:8) Er þér þannig innanbrjósts?
13. Hvaða stórkostlegt kærleiksverk Jehóva knýr réttsinnaða menn til að vígjast honum?
13 Jehóva frelsaði Ísraelsmenn úr þrælkuninni í Egyptalandi og hann hefur gert ráðstafanir til að frelsa okkur úr fjötrum syndar og dauða — með lausnarfórn Jesú Krists. (Jóhannes 3:16) Páll segir: „Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.“ (Rómverjabréfið 5:8) Þessi kærleiksríka ráðstöfun knýr réttsinnaða menn til að vígjast Jehóva fyrir milligöngu Jesú Krists. „Kærleiki Krists knýr oss, því að vér höfum ályktað svo: Ef einn er dáinn fyrir alla, þá eru þeir allir dánir. Og hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.“ — 2. Korintubréf 5:14, 15; Rómverjabréfið 8:35-39.
14. Er þekking á samskiptum Jehóva við mennina nóg ein saman til að koma okkur til að vígjast honum? Skýrðu svarið.
14 En þekking á persónuleika Jehóva og samskiptum hans við mannkynið er ekki nóg. Það er nauðsynlegt að læra að meta Jehóva að verðleikum. Hvernig? Með því að fara eftir orði hans í lífi okkar og kynnast af eigin raun að meginreglur þess gefast vel. (Jesaja 48:17) Við verðum að finna fyrir því að Jehóva hefur bjargað okkur úr foraði þessa illa heims sem Satan stjórnar. (Samanber 1. Korintubréf 6:11.) Í baráttu okkar að gera það sem rétt er lærum við að reiða okkur á Jehóva, og við kynnumst af eigin raun að hann er hinn lifandi Guð „sem heyrir bænir.“ (Sálmur 62:9; 65:3) Innan skamms finnst okkur við vera mjög nátengd honum og getum trúað honum fyrir innstu tilfinningum okkar. Kærleikur okkar til Jehóva vex og fær okkur vafalaust til að vígja honum líf okkar.
15. Hvað fékk mann, sem hafði helgað sig vinnunni, til að þjóna Jehóva?
15 Margir hafa kynnst þessum ástríka Guði, Jehóva, og hafa helgað líf sitt þjónustunni við hann. Tökum sem dæmi rafvirkja nokkurn með blómlegan rekstur. Stundum vann hann allan daginn frá morgni og fram á nótt og kom ekki heim fyrr en klukkan fimm morguninn eftir. Hann hvíldist í klukkutíma og lagði svo af stað til að sinna næsta verkefni. „Líf mitt var helgað vinnunni,“ segir hann. Þegar konan hans byrjaði að nema Biblíuna ákvað hann að vera með. Hann segir: „Allir guðirnir, sem ég hafði þekkt fram til þess tíma, biðu bara eftir því að láta þjóna sér en gerðu okkur ekkert gagn. Jehóva tók hins vegar frumkvæðið og sendi eingetinn son sinn til jarðar og færði með því mikla persónulega fórn.“ (1. Jóhannesarbréf 4:10, 19) Tíu mánuðum síðar var þessi maður búinn að vígjast Jehóva. Þaðan í frá einbeitti hann sér að því að þjóna hinum lifandi Guði. Hann gerðist þjónn orðsins í fullu starfi og fluttist þangað sem þörfin var meiri. Eins og postularnir ‚yfirgaf hann allt og fylgdi Jesú.‘ (Matteus 19:27) Tveim mánuðum síðar voru þau hjónin kölluð til að þjóna við útibú Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn í heimalandi sínu til að vinna við raflagnir. Hann hefur starfað við útibúið í meira en 20 ár við það sem hann hefur yndi af — ekki fyrir sjálfan sig heldur Jehóva.
Gerðu vígslu þína opinbera
16. Hvaða skref þarf að stíga í sambandi við vígslu til Jehóva?
16 Eftir að hafa numið Biblíuna um tíma læra bæði ungir sem aldnir að meta Jehóva og það sem hann hefur gert fyrir þá. Það ætti að koma þeim til að vígja sig Guði. Vera má að þú sért einn þeirra. Hvernig geturðu vígt þig Jehóva? Eftir að hafa aflað þér nákvæmrar þekkingar frá Biblíunni ættir þú að fara eftir þessari þekkingu og trúa á Jehóva og Jesú. (Jóhannes 17:3) Iðrastu og snúðu baki við sérhverju syndsamlegu líferni fortíðarinnar. (Postulasagan 3:19, 20) Þá geturðu vígst Jehóva og tjáð honum það með hátíðlegum bænarorðum. Þessi bæn hefur vafalaust varanleg áhrif á þig því að hún er upphafið að nýju sambandi við Jehóva.
17. (a) Af hverju fara öldungarnir yfir undirbúnar spurningar með þeim sem hafa nýlega vígst Guði? (b) Hvaða þýðingarmikið skref ætti að stíga skömmu eftir vígslu og í hvaða tilgangi?
17 Á sama hátt og Móse útskýrði fyrir Ísraelsmönnum skilyrðin fyrir því að eignast sáttmálasamband við Jehóva, hjálpa öldungar í söfnuðum votta Jehóva þeim sem nýlega hafa vígst honum að kynna sér vandlega hvað felst í því. Þeir nota undirbúnar spurningar til að ganga úr skugga um að hver og einn skilji undirstöðukenningar Biblíunnar til fulls og geri sér ljóst hvað felst í því að vera vottur um Jehóva. Þá er mjög viðeigandi að fram fari athöfn þar sem vígslan er gerð opinber. Sá sem er nýlega vígður er eðlilega ákafur að láta aðra vita að hann hafi eignast þetta sérréttindasamband við Jehóva. (Samanber Jeremía 9:24.) Það er gert með því að skírast niðurdýfingarskírn til tákns um vígsluna. Að kaffærast í vatni og vera síðan lyft upp úr því táknar að maðurinn deyr sinni fyrri, eigingjörnu lífsstefnu og er reistur upp til nýrrar sem felst í því að gera Guðs vilja. Skírnin er ekki sakramenti og hún er ekki helgiathöfn líkt og misogi-athöfn sjintótrúarmanna þar sem sagt er að maðurinn hreinsist með vatni.a Skírnin er opinber yfirlýsing um vígslu sem hefur þegar átt sér stað í bæn.
18. Af hverju getum við treyst að vígsla okkar verði ekki til einskis?
18 Þessi hátíðlegi og ógleymanlegi atburður minnir nýjan þjón Guðs á hið varanlega samband sem hann á núna við Jehóva. Ólíkt því hvernig kamikaze-sjálfsmorðsflugmaðurinn helgaði sig þjóð sinni og keisara verður þessi vígsla til Jehóva ekki árangurslaus því að hann er hinn eilífi og alvaldi Guð er framkvæmir allt sem hann ætlar sér. Hann og hann einn er þess verður að við vígjum okkur honum af allri sálu. — Jesaja 55:9-11.
19. Hvað er fjallað um í næstu grein?
19 En vígsla felur meira í sér. Hvernig hefur vígsla til dæmis áhrif á daglegt líf okkar? Um það er fjallað í næstu grein.
[Neðanmáls]
a Sjá Leit mannkynsins að Guði bls. 194-5, útgefin af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Manst þú?
◻ Af hverju hefur vígsla eða helgun, eins og hún þekkist í heiminum, valdið mönnum vonbrigðum?
◻ Hvað fékk Ísraelsmenn til að vígjast Jehóva?
◻ Hvað fær okkur til að vígjast Jehóva nú á dögum?
◻ Hvernig vígjum við okkur Guði?
◻ Hvaða þýðingu hefur niðurdýfingarskírnin?
[Mynd á blaðsíðu 22]
Ísraelsmenn vígðust Jehóva í Sínaíeyðimörk.