Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.7. bls. 4-7
  • Bænir Biblíunnar eru nánari athugunar virði

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Bænir Biblíunnar eru nánari athugunar virði
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ‚Lít á eymd ambáttar þinnar‘
  • „Ég er unglingur“
  • „Að allir séu þeir eitt“
  • Gerið óskir ykkar kunnar Guði
    Námsgreinar úr Varðturninum
  • Auðgaðu bænir þínar með biblíunámi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
  • Hvað segja bænir þínar um þig?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
  • Styrktu tengslin við Guð með bæninni
    Hvað kennir Biblían?
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.7. bls. 4-7

Bænir Biblíunnar eru nánari athugunar virði

ÁHYGGJUFULL kona, konungur og Guðs eigin sonur báðu bæna sem við skulum athuga nánar núna. Þessar þrjár bænir urðu til við mjög ólíkar aðstæður sem við gætum þó öll lent í. Hvað getum við lært af þessum dæmum?

‚Lít á eymd ambáttar þinnar‘

Átt þú við þrálátt vandamál að etja eða hvíla þungar áhyggjur á þér? Þá áttu margt sameiginlegt með Hönnu áður en hún eignaðist fyrsta barn sitt, Samúel. Hún var barnlaus og önnur kona hæddi hana fyrir það. Svo þungt lagðist þetta á Hönnu að hún vildi ekki einu sinni matast. (1. Samúelsbók 1:2-8, 15, 16) Hún ákallaði Jehóva og bað eftirfarandi bænar:

„[Jehóva] allsherjar! Ef þú lítur á eymd ambáttar þinnar og minnist mín og gleymir eigi ambátt þinni og gefur ambátt þinni son, þá skal ég gefa hann [Jehóva] alla daga ævi hans, og eigi skal rakhnífur koma á höfuð honum.“ — 1. Samúelsbók 1:11.

Taktu eftir að Hanna tjáði sig ekki með almennum orðum. Hún bað Jehóva ákveðinnar bónar (að hann gæfi henni son) og tengdi það skýrum ásetningi (að bjóða hann fram Guði til þjónustu). Hvað segir þetta okkur?

Vertu nákvæmur í bænum þínum þegar þú verður fyrir andstreymi. Biddu til Jehóva óháð því hvert vandamálið er — hvort heldur heimilisaðstæður, einmanaleiki eða heilsubrestur. Lýstu nákvæmlega fyrir honum eðli erfiðleikanna og hvernig þér líður. „Ég treysti Jehóva fyrir vandamálum mínum á hverju kvöldi,“ segir ekkja sem heitir Louise. „Stundum eru þau býsna mörg en ég nefni hvert þeirra sérstaklega.“

Það er mjög gagnlegt að tjá sig skýrt við Jehóva. Það hjálpar okkur að skilgreina vandamál okkar sem getur þá virst minna en ella. Markvissar bænir draga úr áhyggjum okkar. Hönnu leið betur jafnvel áður en bæn hennar var svarað og „var eigi framar með döpru bragði.“ (1. Samúelsbók 1:18) Og með því að vera nákvæm erum við vakandi fyrir svarinu við bænum okkar. „Því skýrar sem ég orða bænir mínar, þeim mun skýrari verða svörin,“ segir Bernhard, kristinn Þjóðverji.

„Ég er unglingur“

Annars konar áhyggjur gætu íþyngt þeim sem fær verkefni en finnst hann ekki verðugur þess. Finnst þér ábyrgðin, sem Jehóva felur þér, stundum yfirþyrmandi? Eða líta sumir á þig sem óhæfan til að sinna því verkefni sem þér er falið? Hinn ungi Salómon var í þeirri aðstöðu þegar hann var smurður sem konungur Ísraels. Vissir framámenn vildu að annar maður sæti í hásætinu. (1. Konungabók 1:5-7, 41-46; 2:13-22) Salómon bað bænar snemma í stjórnartíð sinni.

„Nú hefir þú þá, [Jehóva] Guð minn, gjört þjón þinn að konungi . . . En ég er unglingur og kann ekki fótum mínum forráð. . . . Gef því þjóni þínum gaumgæfið hjarta til að stjórna þjóð þinni og til að greina gott frá illu.“ — 1. Konungabók 3:7-9.

Í bæn sinni einbeitti Salómon sér að sambandi sínu við Jehóva, sérréttindunum sem honum höfðu verið falin og hæfni sinni til að gera verkefni sínu skil. Við ættum á sama hátt að sárbæna Guð að gera okkur fær til verksins í hvert sinn sem okkur er falin ábyrgð sem okkur finnst við ekki rísa undir. Hugleiddu eftirfarandi reynslufrásögur:

„Þegar ég var beðinn að taka á mig aukna ábyrgð við útibú Varðturnsfélagsins,“ segir Eugene, „fannst mér ég allsendis ófær um það. Það voru aðrir hæfari til þess og miklu reyndari. Mér varð ekki svefnsamt næstu tvær nætur og var lengst af á bæn sem veitti mér styrk og nægilegt sjálfstraust.“

Roy var beðinn að flytja útfararræðu eftir hörmulegan og skyndilegan dauða ungs vinar. Þessi vinur hafði verið mjög vinsæll og hundruð manna myndu áreiðanlega verða við útförina. Hvað gerði Roy? „Ég hef sjaldan beðið jafnmikið um styrk og hæfni til að velja réttu orðin til að uppbyggja og hugga.“

Nú þegar skaparinn ‚hraðar‘ starfinu og skipulag hans stækkar leiðir af sjálfu sér að fleiri af þjónum hans er falin ábyrgð. (Jesaja 60:22) Ef þú ert beðinn að axla aukna ábyrgð máttu treysta því að Jehóva getur bætt upp hvaðeina sem þig skortir í reynslu, þjálfun eða hæfni. Gakktu fram fyrir Guð eins og Salómon gerði og hann mun gera þig færan um að ráða við verkefni þitt.

„Að allir séu þeir eitt“

Þriðju aðstæðurnar eru þær að vera beðinn að fara með bæn frammi fyrir hópi manna. Hvað ættum við að biðja um þegar við erum beðin að fara með bæn fyrir hönd annarra? Við getum tekið mið af bæn Jesú sem skráð er í 17. kafla Jóhannesarguðspjalls. Hann bað þessarar bænar í viðurvist lærisveina sinna kvöldið fyrir dauða sinn. Hvað bað hann himneskan föður sinn um?

Jesús lagði áherslu á sameiginleg markmið og von viðstaddra. Hann minntist á að nafn Jehóva Guðs yrði gert dýrlegt og ríki hans kunngert. Hann lagði áherslu á gildi einkasambands við föðurinn og soninn byggt á biblíuþekkingu. Hann talaði um að fylgjendur hans ættu að vera aðgreindir frá heiminum og bjó þá þannig undir andstöðu. Kristur bað föður sinn líka að vernda lærisveinana og sameina þá í sannri tilbeiðslu.

Já, Jesús lagði áherslu á einingu. (Jóhannes 17:20, 21) Fyrr þetta kvöld höfðu lærisveinarnir verið að þrátta á heldur barnalegan hátt. (Lúkas 22:24-27) En í bæninni leitaðist Kristur við að sameina en ekki ávíta. Fjölskyldu- og safnaðarbænir ættu á sama hátt að stuðla að kærleika og reyna að draga úr ósamlyndi milli einstaklinga. Bænin ætti að stuðla að einingu viðstaddra. — Sálmur 133:1-3, NW.

Þessi eining kemur fram þegar áheyrendur segja „amen“ eða „megi svo verða“ í bænarlok. Til að þeir geti það verða þeir að skilja það sem sagt er og vera því sammála. Það væri þess vegna óviðeigandi að minnast í bæn á eitthvað sem sumir viðstaddra þekkja ekki til. Til dæmis gæti öldungur, sem biður frammi fyrir söfnuði, beðið Jehóva að blessa andlegan bróður eða systur sem á við alvarleg veikindi að stríða. Yfirleitt ætti þó best við að hann gerði það aðeins ef langflestir viðstaddra þekktu viðkomandi og hefðu frétt af veikindunum.

Taktu líka eftir að Jesús tíundaði ekki persónulegar þarfir hvers og eins í hópnum. Þá hefði hann þurft að nefna einkamál sem aðeins fáeinir vissu af. Einkamál eru viðeigandi bænarefni í einkabænum sem geta verið eins langar og innilegar og hver vill.

Hvernig er hægt að búa sig undir að biðja fyrir hönd fjölmenns hóps guðsdýrkenda? Reyndur kristinn maður segir: „Ég hugleiði fyrirfram hvað ég eigi að þakka fyrir, hvaða óskir bræðurnir kynnu að hafa og hvað ég gæti beðið um fyrir þeirra hönd. Ég raða hugmyndum mínum, einnig lofgerð minni, í rétta röð í huganum. Áður en ég bið opinberlega fer ég með hljóða bæn og bið um hjálp til að biðja virðulega fyrir hönd bræðranna.“

Óháð aðstæðum þínum geturðu sennilega fundið bæn í Biblíunni sem borin var fram við líkar aðstæður og þú stendur frammi fyrir. Hinar fjölbreyttu bænir Biblíunnar bera vitni um ástríka góðvild Guðs. Þú getur auðgað bænir þínar með því að lesa þessar bænir og hugleiða þær.

[Rammi á blaðsíðu 5]

EFTIRTEKTARVERÐAR BÆNIR Í BIBLÍUNNI

Þjónar Jehóva báðu við margvíslegar aðstæður. Eiga einhverjar af eftirfarandi aðstæðum við þig?

Þarfnast þú leiðsagnar frá Guði eins og Elíeser? — 1. Mósebók 24:12-14.

Ert þú í bráðri hættu eins og Jakob? — 1. Mósebók 32:9-12.

Langar þig til að kynnast Guði betur eins og Móse? — 2. Mósebók 33:12-17.

Átt þú í höggi við andstæðinga eins og Elía? — 1. Konungabók 18:36, 37.

Finnst þér prédikunarstarfið erfitt eins og Jeremía? — Jeremía 20:7-12.

Þarftu að játa syndir og leita fyrirgefningar eins og Daníel? — Daníel 9:3-19.

Ert þú ofsóttur eins og lærisveinar Jesú? — Postulasagan 4:24-31.

Sjá einnig Matteus 6:9-13; Jóhannes 17:1-26; Filippíbréfið 4:6, 7; Jakobsbréfið 5:16.

[Rammi á blaðsíðu 6]

HVAÐ ER HÆGT AÐ BIÐJA UM ÞEGAR MAÐUR Á Í BARÁTTU VIÐ RÓTGRÓINN ÁVANA?

Átt þú í baráttu við þrálátan veikleika? Hvernig geta bænir Biblíunnar komið þér að gagni? Lærðu af Davíð sem bað við ýmis tækifæri um hjálp til að takast á við veikleika sína.

Davíð söng: „Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar.“ (Sálmur 139:23) Davíð þráði að Jehóva Guð prófaði eða leitaði uppi óviðeigandi langanir, tilfinningar og áhugahvatir. Davíð var með öðrum orðum að biðja Jehóva um hjálp til að forðast synd.

En Davíð réð ekki við veikleika sína og hann syndgaði stórlega. Enn á ný hjálpaði bænin honum — núna til að koma sambandi sínu við Guð í samt lag aftur. Samkvæmt Sálmi 51:4 sárbændi Davíð Guð: „Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni.“

Við getum líka beðið Jehóva í auðmýkt um hjálp til að halda röngum tilhneigingum í skefjum. Það styrkir okkur til að sigrast á rótgrónum veikleika og getur hjálpað okkur að forðast synd. Ef við hrösum ættum við að nálgast Jehóva aftur og biðja hann um hjálp til að halda baráttunni áfram.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Þegar beðið er fyrir hönd annarra ætti að leggja áherslu á hina biblíulegu von og sameiginleg andleg markmið.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila