Spurningar frá lesendum
Er strangt til tekið munur á hinum biblíulegu hugtökum ‚aðrir sauðir‘ og „mikill múgur“?
Já, þótt við þurfum ekki að vera óþarflega viðkvæm fyrir orðavali né gera veður út af því þótt sumir noti hugtökin jöfnum höndum.
Flestir kristnir menn þekkja ritningarstaðina þar sem við finnum þessi hugtök. Annar er Jóhannes 10:16. Þar sagði Jesús: „Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.“ Hitt hugtakið, „mikill múgur,“ kemur fyrir í Opinberunarbókinni 7:9. Þar segir: „Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og höfðu pálmagreinar í höndum.“
Lítum fyrst á Jóhannes 10:16. Hverjir eru sauðirnir? Við ættum að hafa hugfast að allir drottinhollir fylgjendur Jesú eru kallaðir sauðir. Í Lúkasi 12:32 kallaði hann lærisveinana, sem áttu að fara til himna, „litla hjörð.“ Hvers konar hjörð? Sauðahjörð. ‚Sauðir‘ ‚litlu hjarðarinnar‘ verða hluti af ríkinu á himnum. Hins vegar eru til aðrir með ólíka framtíðarvon er Jesús lítur líka á sem sauði.
Við sjáum það í 10. kafla hjá Jóhannesi. Eftir að Jesús hafði talað um sauði, svo sem postula sína, er hann ætlaði að kalla til lífs á himnum, bætti hann við í 16. versi: „Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða.“ Vottar Jehóva hafa lengi gert sér ljóst að Jesús var í þessu versi að tala um að fólk ætti í vændum að lifa á jörðinni. Margir trúfastir einstaklingar fyrir daga kristninnar, svo sem Abraham, Sara, Nói og Malakí, áttu slíkar framtíðarhorfur. Við getum því réttilega litið á þá sem hluta af hinum ‚öðrum sauðum‘ í Jóhannesi 10:16. Í þúsundáraríkinu verða slíkir trúfastir vottar frá því fyrir daga kristninnar reistir upp og þeir læra þá um og viðurkenna Krist Jesú og verða ‚aðrir sauðir‘ góða hirðisins.
Við vitum líka að milljónir hafa gerst sannkristnir menn eftir að samansöfnun hins himneska hóps var almennt lokið. Þeir eru líka réttilega kallaðir ‚aðrir sauðir‘ því að þeir tilheyra ekki ‚litlu hjörðinni.‘ Hinir aðrir sauðir nú á tímum hlakka til þess að lifa áfram inn í jarðneska paradís.
En hvað getum við sagt um það hver ‚múgurinn mikli‘ er sem nefndur er í Opinberunarbókinni 7:9? Nú, lítum á vers 13 og spurninguna: „Hverjir eru þeir og hvaðan eru þeir komnir?“ Við finnum svarið í Opinberunarbókinni 7:14: „Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu.“ ‚Múgurinn mikli‘ er því þeir sem komast lifandi gegnum þrenginguna miklu. Eins og vers 17 segir verða þeir ‚leiddir til vatnslinda lífsins‘ á jörðinni.
Það er skiljanlegt að þeir sem lifa þrenginguna miklu af verða að vera búnir að þvo skikkjur sínar í blóði lambsins og verða sannir guðsdýrkendur. Þótt Opinberunarbókin 7:9 lýsi þessum múgi eftir þrenginguna getum við samt notað hugtakið ‚múgurinn mikli‘ um alla þá sem hafa jarðneska von og veita Jehóva heilaga þjónustu núna, áður en þrengingin mikla brýst út með árás þjóðanna á falstrúarbrögðin.
Í stuttu máli gætum við haft hugfast að ‚aðrir sauðir‘ er breiðara hugtak er nær yfir alla þjóna Guðs sem hafa von um að lifa eilíflega á jörðinni. Það felur í sér hinn takmarkaðri hóp sauðumlíkra manna nú á dögum sem verið er að safna sem ‚miklum múgi‘ með von um að komast lifandi gegnum þrenginguna miklu. Flestir núlifandi drottinhollir kristnir menn eru af hinum ‚öðrum sauðum‘ og jafnframt af ‚múginum mikla.‘
Rétt er að endurtaka að þótt það sé gott að skilja nákvæma merkingu þessara hugtaka vel er engin ástæða fyrir nokkurn kristinn mann til að gera of mikið veður út af eða gagnrýna orðaval. Páll varaði við því að sumir væru ‚sóttteknir af þrætum‘ og uppteknir af „orðastælum.“ (1. Tímóteusarbréf 6:4) Það er ágætt ef við höfum sjálf tekið eftir vissum merkingarmun á þessum hugtökum. Við þurfum samt ekki, hvorki innra með okkur eða út á við, að gagnrýna aðra sem nota þessi biblíuhugtök ekki alveg jafnnákvæmlega.