Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.9. bls. 3-4
  • Tekur hatur einhvern tíma enda?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Tekur hatur einhvern tíma enda?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Frækornum haturs sáð
  • Afleiðingar haturs
  • Hvernig verður vítahringur haturs til?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2022
  • Við getum sigrast á hatri!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2022
  • Þegar hatur heyrir sögunni til
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2022
  • Hvers vegna er svona mikið hatur í heiminum? – Hvað segir Biblían?
    Fleiri viðfangsefni
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.9. bls. 3-4

Tekur hatur einhvern tíma enda?

EF ÞÚ hefur horft á fáeina fréttatíma í sjónvarpi er hatur engin nýlunda fyrir þig. Hatur er samnefnari þeirra skefjalausu manndrápa sem skilja eftir sig blóði drifna slóð næstum daglega í þessum heimi. Ólánsamir vegfarendur eru strádrepnir frá Belfast til Bosníu og frá Jerúsalem til Jóhannesarborgar.

Árásarmennirnir þekkja sjaldnast fórnarlömbin. Þau hafa kannski gerst sek um þann „glæp“ einan að tilheyra „andstæðingnum.“ Manndrápin eru gjarnan hefnd fyrir eitthvert annað ódæði eða einhvers konar „þjóðernishreinsun.“ Hver ný ofbeldishrina er sem olía á haturseld hópanna sem fjandskapast hver við annan.

Þessar skelfilegu hatursholskeflur virðast færast í aukana. Blóðug illindi gjósa upp milli ættflokka, kynþátta og þjóðernis- eða trúarhópa. Verður hatur nokkurn tíma upprætt? Til að svara því þurfum við að skilja orsakir haturs því að tilhneigingin til að hata er okkur ekki meðfædd.

Frækornum haturs sáð

Zlata Filipovic, ung Bosníustúlka frá Sarajevo, hefur ekki enn lært að hata. Hún skrifar um þjóðernisofbeldi í dagbókina sína: „Ég spyr sjálfa mig í sífellu: Hvers vegna? Til hvers? Hverjum er um að kenna? Ég spyr og spyr en fæ engin svör. . . . Meðal ættingja minna og vina eru Króatar, Serbar og múslímar. . . . Við þekkjum bara gott fólk, skiptum okkur ekki af því vonda. Og við þekkjum góða Serba, góða Króata og góða múslíma. Það eru líka til vondir menn í öllum hópunum þremur.“a

En margir fullorðnir eru á öðru máli. Þeir telja sig hafa ærið tilefni til að hata. Af hverju?

Ranglæti. Kúgun og ranglæti kyndir sennilega meira en nokkuð annað undir hatri. Eins og Biblían segir gerir „kúgun . . . vitran mann að heimskingja.“ (Prédikarinn 7:7) Þegar fólk sætir misþyrmingum eða hrottaskap er auðvelt fyrir það að ala með sér hatur í garð kúgaranna. Og jafnvel þótt það sé óskynsamlegt eða ‚heimskulegt‘ beinist hatrið oft að heilum hópi manna.

En þótt ranglæti, raunverulegt eða ímyndað, geti verið meginorsök haturs er það ekki sú eina. Fordómar koma líka við sögu.

Fordómar. Fordómar stafa oft af fáfræði um ákveðinn þjóðernishóp eða þjóðarbrot. Sögusagnir, gamalgróinn fjandskapur eða slæm reynsla af einum eða tveim einstaklingum fær menn stundum til að eigna heilum kynþætti eða þjóð miður góða eiginleika. Þegar fordómar hafa náð að festa rætur geta þeir blindað fólk fyrir sannleikanum. „Við hötum sumt fólk af því að við þekkjum það ekki, og við þekkjum það ekki af því að við hötum það,“ sagði enski rithöfundurinn Charles Caleb Colton.

Stjórnmálamenn og sagnfræðingar eiga það hins vegar til að ala vísvitandi á fordómum í pólitískum eða þjóðernislegum tilgangi. Hitler er eitt gleggsta dæmið. Georg, sem var félagi í Hitlersæskunni, segir: „Áróður nasista kenndi okkur fyrst að hata Gyðinga, síðan Rússa og svo alla ‚óvini ríkisins.‘ Sem táningur trúði ég því sem mér var sagt. Síðar komst ég að raun um að ég hafði verið blekktur.“ Jafnt í Þýskalandi á tímum nasista sem og annars staðar hafa þjóðernis- eða kynþáttafordómar verið réttlættir með skírskotun til þjóðernishyggju sem er önnur orsök haturs.

Þjóðernishyggja, ættflokkarígur og kynþáttahatur. Í bók sinni, The Cultivation of Hatred, lýsir sagnfræðingurinn Peter Gay því sem gerðist þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út: „Í baráttunni um hollustu manna varð þjóðernishyggjan öllu öðru yfirsterkari. Ást til föðurlandsins og hatur á óvinum þess reyndist öflugasta réttlætingin fyrir því hernaðarofbeldi sem nítjánda öldin leiddi af sér.“ Hergöngulag, sem kallað var „Haturssálmurinn,“ varð vinsælt í Þýskalandi vegna áhrifa þjóðernishyggjunnar. Gay segir að hatursmangarar í Bretlandi og Frakklandi hafi spunnið upp sögur um að þýskir hermenn nauðguðu konum og myrtu börn. Sigfried Sassoon, enskur hermaður, lýsir inntakinu í stríðsáróðri Breta: „Maðurinn virtist hafa vera skapaður til að murka lífið úr Þjóðverjum.“

Með því að hefja þjóðernishóp eða kynþátt upp til skýjanna er hægt að kynda undir hatri á öðrum þjóðernishópum eða kynþáttum, ekki ósvipað og þjóðernishyggjan gerir. Ofbeldi heldur áfram að blossa upp í mörgum Afríkulöndum af völdum ættflokkarígs, og kynþáttahatur er enn plága í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Trúarbrögðin eru enn eitt sundrungaraflið sem stundum er samtvinnað þjóðernishyggjunni.

Trúarbrögð. Þau átök, sem eru hvað erfiðust viðureignar, eru mörg hver með sterku trúarívafi. Á Norður-Írlandi, í Miðausturlöndum og annars staðar eru menn hataðir vegna trúar sinnar. Fyrir liðlega tveim öldum sagði enski rithöfundurinn Jonathan Swift: „Við höfum rétt næga trú til að hata en ekki næga til að elska hver annan.“

Árið 1933 tilkynnti Hitler biskupinum í Osnabrück: „Ég framfylgi bara sömu stefnu gagnvart Gyðingum og kaþólska kirkjan hefur haft í 1500 ár.“ Fæstir kirkjuleiðtogar Þjóðverja fordæmdu nokkurn tíma hatursfullar ofsóknir Hitlers og fjöldamorð. Paul Johnson bendir á í bók sinni A History of Christianity að „kirkjan hafi bannfært kaþólikka sem tóku fram í erfðaskrá sinni að þeir vildu láta brenna sig . . . en hún bannaði þeim ekki að vinna í fangabúðum eða dauðabúðum.“

Sumir trúarleiðtogar hafa ekki aðeins látið hatur óátalið — þeir hafa gengið skrefi lengra og helgað það. Árið 1936, þegar spænska borgarastríðið braust út, fordæmdi Píus páfi ellefti ‚sannarlega djöfullegt hatur lýðveldissinna á Guði‘ — jafnvel þótt margir kaþólskir prestar héldu með lýðveldissinnum. Gomá kardínáli, erkibiskup Spánar í borgarastríðinu, tók í sama streng og hélt því fram að ‚friði yrði ekki komið á án vopnaðrar baráttu.‘

Þess sjást engin merki að trúarhatur sé í rénun. Árið 1992 fordæmdi tímaritið Human Rights Without Frontiers hvernig forystumenn grísku rétttrúnaðarkirkjunnar æstu til haturs á vottum Jehóva. Það nefndi mörg dæmi, meðal annars grískan rétttrúnaðarprest sem lagði fram kæru á hendur tveim 14 ára vottum. Hvers efnis? Hann sakaði þá um að hafa ‚reynt að fá sig til að skipta um trú.‘

Afleiðingar haturs

Ranglæti, fordómar, þjóðernishyggja og trúarbrögð sá frækornum haturs um heim allan og vökva þau. Ávöxturinn er óhjákvæmilega reiði, árásargirni, stríð og eyðilegging. Orð Biblíunnar í 1. Jóhannesarbréfi 3:15 benda okkur á hve alvarlegt þetta er: „Hver sem hatar bróður sinn er manndrápari.“ Þar sem hatrið þrífst er friður vissulega ótryggur — ef hann fyrirfinnst á annað borð.

Nóbelsverðlaunahafinn Elie Wiesel, sem lifði helförina af, skrifar: „Það er skylda þess sem lifir af að bera vitni um það sem gerðist . . . Maður verður að vara fólk við að þetta geti gerst, að hinu illa kunni að vera sleppt lausu. Kynþáttahatur, ofbeldi, skurðgoðadýrkun — allt stendur þetta enn í blóma.“ Saga 20. aldarinnar er sönnun fyrir því að hatursbálið kulnar ekki af sjálfu sér.

Verður hatur nokkurn tíma upprætt úr hjörtum mannanna? Er hatur alltaf skaðlegt eða á það sér jákvæðar hliðar? Við skulum athuga málið.

[Neðanmáls]

a Dagbók Zlötu eftir Zlötu Filipovic. Útgefandi: Vaka-Helgafell hf., 1994.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila