Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.12. bls. 18-22
  • Þeir búa saman í endurreistu ‚landi‘

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Þeir búa saman í endurreistu ‚landi‘
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Andlegt „land“
  • Útlendingar sem starfa í ‚landinu‘
  • ‚Eins og furstar‘
  • Prestar og bændur
  • ‚Landið‘ stendur
  • „Ísrael Guðs“ og ‚múgurinn mikli‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Guðræðisleg stjórnun á tímum kristninnar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Hefur þú fengið „anda sannleikans“?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • Álitin verðug að vera leidd til vatnslinda lífsins
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2008
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.12. bls. 18-22

Þeir búa saman í endurreistu ‚landi‘

„Sjálfir munuð þér kallaðir verða prestar [Jehóva] og nefndir verða þjónar Guðs vors.“ — JESAJA 61:6.

1, 2. (a) Hver var staða trúskiptinga í Ísrael? (b) Hvaða viðhorf hefur ‚múgurinn mikli‘ sýnt nú á tímum?

TIL FORNA, er Ísraelsmenn voru trúfastir, þjónuðu þeir sem vitnisburður um dýrð Jehóva frammi fyrir heiminum. (Jesaja 41:8, 9; 43:10) Margir útlendingar gerðust tilbiðjendur Jehóva í félagi við útvalda þjóð hans. Í reynd sögðu þeir hið sama við Ísrael og Rut sagði við Naomí: „Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð.“ (Rutarbók 1:16) Þeir gengust undir ákvæði lagasáttmálans og karlmennirnir létu umskerast. (2. Mósebók 12:43-48) Sumar kvennanna giftust Ísraelsmönnum. Rahab frá Jeríkó og Rut hin móabíska urðu formæður Jesú Krists. (Matteus 1:5) Slíkir trúskiptingar voru hluti af söfnuði Ísraels. — 5. Mósebók 23:7, 8.

2 Hinn ‚mikli múgur‘ nútímans hefur sagt við hinar smurðu leifar líkt og trúskiptingar í Ísrael: „Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.“ (Opinberunarbókin 7:9; Sakaría 8:23) Múgurinn viðurkennir að þessir smurðu kristnu menn eru ‚trúr og hygginn þjónn‘ Jehóva og vinnur svo náið með þeim að hinir smurðu og hinir ‚aðrir sauðir‘ eru „ein hjörð, einn hirðir.“ (Matteus 24:45-47; Jóhannes 10:16) Hvað verður um múginn mikla þegar allir smurðir bræður hans hljóta himnesk laun sín? Hann þarf ekki að óttast. Jehóva hefur verið að undirbúa þá stund alla hina ‚síðustu daga.‘ — 2. Tímóteusarbréf 3:1.

Andlegt „land“

3. Hver er ‚nýi himinninn,‘ sem Pétur spáði um, og hvenær varð hann til?

3 Pétur postuli spáði um hið himneska stjórnarfyrirkomulag sem hinir 144.000 smurðu kristnu menn munu eiga hlutdeild í. Hann sagði: „Eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13) Þessi ‚nýi himinn‘ varð til árið 1914 er Kristur var krýndur sem konungur í ríkinu á himnum. En hvað um ‚nýju jörðina‘?

4. (a) Hvaða óvæntur atburður átti sér stað árið 1919? (b) Hver var ‚þjóðin sem fæddist allt í einu‘ og hvert var ‚landið sem var í heiminn borið á einum degi‘?

4 Árið 1919 leiddi Jehóva hinar smurðu leifar út úr ánauð Babýlonar hinnar miklu. (Opinberunarbókin 18:4) Þessi áhrifamikli atburður kom leiðtogum kristna heimsins algerlega í opna skjöldu. Biblían segir um hann: „Hver hefir heyrt slíkt? Hver hefir séð slíka hluti? Er nokkurt land í heiminn borið á einum degi, eða fæðist nokkur þjóð allt í einu?“ (Jesaja 66:8) Er hinn smurði söfnuður gekk skyndilega fram fyrir þjóðirnar sem frelsað fólk var hann sannarlega þjóð sem ‚fæddist allt í einu.‘ En hvert var ‚landið‘? Í vissum skilningi var það andleg samsvörun þess lands sem Ísraelsmenn til forna réðu yfir. Það var það athafnasvið sem þessari nýfæddu „þjóð“ var veitt, staður þar sem paradísarspádómar Jesajabókar eiga sér andlega nútímauppfyllingu. (Jesaja 32:16-20; 35:1-7; samanber Hebreabréfið 12:12-14.) Hvar sem kristinn maður er staddur er hann í þessu ‚landi.‘

5. Hvaða kjarni varð til árið 1919? Skýrðu nánar.

5 Hvernig tengist þetta land ‚nýju jörðinni‘ sem Pétur spáði? Nú, þessi nýja „þjóð,“ sem fæddist árið 1919 í endurreistu ‚landi,‘ átti að vaxa upp í alþjóðaskipulag smurðra og ósmurðra manna sem lofuðu Jehóva. Þetta skipulag mun lifa Harmagedón af og ganga inn í nýjan heim Guðs. Þannig mátti líta á þessa þjóð sem kjarna réttláts mannfélags, nýju jörðina sem verður eftir að heimi Satans hefur verið eytt.a Á miðjum fjórða áratugnum hafði hinum smurðu verið safnað saman inn í endurreist land. Þaðan í frá hefur áherslan verði lögð á að safna saman miklum múgi annarra sauða sem eru nú næstum fimm milljónir talsins. (Opinberunarbókin 14:15, 16) Er ‚landið‘ orðið of þéttbýlt? Nei, hægt er að færa út landamærin eins langt og þörf krefur. (Jesaja 26:15) Það er sannarlega hrífandi að sjá íbúum ‚landsins‘ fjölga er hinar smurðu leifar fylla það „ávöxtum“ — heilnæmri, hressandi, andlegri fæðu. (Jesaja 27:6) En hver er staða þessara annarra sauða í endurreistu ‚landi‘ fólks Guðs?

Útlendingar sem starfa í ‚landinu‘

6. Hvernig hafa útlendingar starfað í ‚landi‘ fólks Guðs?

6 Múgurinn mikli í endurreistu ‚landi‘ nútímans hlýðir boðorðum Jehóva eins og trúskiptingar í Ísrael hlýddu Móselögunum. Hann hefur hlotið fræðslu hjá smurðum bræðrum sínum og forðast hvers kyns falsguðadýrkun og virðir heilagleika blóðsins. (Postulasagan 15:19, 20; Galatabréfið 5:19, 20; Kólossubréfið 3:5) Múgurinn mikli elskar Jehóva af öllu hjarta, huga, sálu og mætti og náungann eins og sjálfan sig. (Matteus 22:37; Jakobsbréfið 2:8) Í Forn-Ísrael aðstoðuðu trúskiptingar við byggingu musteris Salómons og studdu endurreisn sannrar tilbeiðslu. (1. Kroníkubók 22:2; 2. Kroníkubók 15:8-14; 30:25) Núna tekur múgurinn mikli líka þátt í byggingarstarfi. Til dæmis hjálpar hann til við uppbyggingu safnaða og farandsvæða, að ekki sé nú minnst á bókstaflegar byggingarframkvæmdir, svo sem við ríkissali, mótshallir og útibú.

7. Hvað gerðist í Jerúsalem eftir útlegðina þegar ekki voru nógu margir Levítar til musterisþjónustunnar?

7 Árið 537 f.o.t., þegar Ísraelsmenn sneru heim úr útlegð í Babýlon, hófust þeir handa við að skipuleggja þjónustuna í endurbyggðu musteri. En Levítarnir, sem sneru heim, voru ekki margir. Þess vegna voru musterisþjónunum fengin aukin sérréttindi, en þeir voru umskornir útlendingar búsettir í landinu sem höfðu áður verið aðstoðarmenn Levítanna. En þeir voru samt ekki jafningjar hinna smurðu presta af ætt Arons.b — Esrabók 7:24; 8:15-20; Nehemíabók 3:22-26.

8, 9. Hvernig hafa hinir aðrir sauðir tekið sívaxandi þátt í heilagri þjónustu nú á síðustu dögum?

8 Smurðir kristnir menn nú á tímum hafa fylgt þessari fyrirmynd. Eftir því sem liðið hefur á ‚endalokatímann‘ hefur þeim sem eftir eru af hinum smurðu fækkað jafnt og þétt í ‚landi‘ fólks Guðs. (Daníel 12:9; Opinberunarbókin 12:17) Þar af leiðandi vinnur múgurinn mikli stærstan hluta hinnar ‚heilögu þjónustu‘ nú orðið. (Opinberunarbókin 7:15, NW) Undir forystu smurðra bræðra sinna bera þeir fram „lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.“ Þeir ‚gleyma ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni“ því að þeir vita að „slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.“ — Hebreabréfið 13:15, 16.

9 Auk þess þarf síaukna umsjón vegna þess að múginum mikla fjölgar um hundruð þúsunda ár hvert. Á sínum tíma var umsjónin öll í höndum smurðra kristinna manna. Nú hefur þurft að trúa hinum öðrum sauðum fyrir umsjón flestra safnaða, farandsvæða, umdæma og útibúa. Árið 1992 voru fáeinum þeirra veitt þau sérréttindi að sitja nefndafundi hins stjórnandi ráðs og þjóna sem aðstoðarmenn án atkvæðisréttar. En hinir aðrir sauðir eru trúir smurðum meðbræðrum sínum og telja það sérréttindi að styðja þá sem trúan og hygginn þjón Jehóva. — Matteus 25:34-40.

‚Eins og furstar‘

10, 11. Hvernig hafa sumir fyrrverandi óvinir fólks Guðs tekið sinnaskiptum líkt og sumir Filistar? Með hvaða afleiðingum?

10 Spáð var í Sakaría 9:6, 7 hvernig hinn trúi og hyggni þjónn hefur notað hina aðra sauði til að gegna ábyrgðarstöfum. Þar lesum við: „Ég gjöri enda á ofdrambi Filista, og ég tek blóðið burt úr munni þeirra og viðurstyggðirnar undan tönnum þeirra. Þá munu þeir sem eftir verða, tilheyra Guði vorum, þeir munu verða eins og ætthöfðingjar [„furstar,“ NW] í Júda og Ekronmenn eins og Jebúsítar.“c Filistar voru svarnir fjandmenn fólks Jehóva eins og heimur Satans er núna. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Líkt og Filistum var að lokum útrýmt sem þjóð, eins mun þessi heimur, með trúar-, stjórnmála- og viðskiptaöflum sínum, bráðlega finna fyrir reiði Jehóva sér til eyðingar. — Opinberunarbókin 18:21; 19:19-21.

11 Samkvæmt orðum Sakaría tóku þó sumir Filistar sinnaskiptum og það táknaði hvernig sumir í heiminum nú á tímum myndu ekki halda áfram fjandskap sínum við Jehóva. Þeir myndu hætta trúarlegri skurðgoðadýrkun sinni, viðbjóðslegum trúarathöfnum og viðurstyggilegum fórnum og hreinsast í augum Jehóva. Á okkar dögum er slíka „Filista,“ sem tekið hafa sinnaskiptum, að finna í múginum mikla.

12. Hvernig hafa „Ekronmenn“ orðið „eins og Jebúsítar“ nú á tímum?

12 Samkvæmt spádóminum yrði íbúar einnar af helstu borgum Filista, Ekron, „eins og Jebúsítar.“ Jebúsítar voru líka einu sinni óvinir Ísraels. Þeir réðu Jerúsalem uns Davíð vann hana. En sumir þeirra, sem lifðu stríðið við Ísrael af, snerust greinilega til trúar. Þeir þjónuðu í Ísraelslandi sem þrælar og fengu jafnvel þau sérréttindi að vinna að byggingu musterisins. (2. Samúelsbók 5:4-9; 2. Kroníkubók 8:1-18) „Ekronmenn,“ sem gerast tilbiðjendur Jehóva nú á tímum, öðlast líka þjónustusérréttindi í ‚landinu‘ sem er undir umsjón hins trúa og hyggna þjóns.

13. Hverjir voru furstarnir í heimi fortíðar?

13 Sakaría segir að Filistar yrðu eins og furstar í Júda. Hebreska orðið ʼallúfʹ, sem hér er þýtt „furstar“ í Nýheimsþýðingunni, merkir raunar „þúsundhöfðingi.“ Það var geysihá staða. Í Edóm til forna virðast ekki hafa verið nema 13 furstar. (1. Mósebók 36:15-19) Orðið „fursti“ er sjaldan notað þegar talað er um Ísrael en hins vegar er oft minnst á ‚höfuð (höfðingja eða höfuðsmenn) Ísraels þúsunda.‘ Er Móse kallaði saman fulltrúa Ísraelsþjóðarinnar kallaði hann á „höfuð Ísraels þúsunda.“d Þau voru 12 og gengu næst Móse að völdum að því er best verður séð. (4. Mósebók 1:4-16) Eins var það í hernum að þúsundhöfðingjarnir stóðu hershöfðingjanum eða konunginum næstir að völdum. — 2. Samúelsbók 18:1, 2; 2. Kroníkubók 25:5.

14. Hvernig hafa ‚Filistar‘ orðið eins og furstar nú á dögum?

14 Sakaría var ekki að spá því að iðrunarfullir Filistar yrðu raunverulega furstar í Ísrael. Það hefði ekki verið við hæfi því að þeir voru ekki innfæddir Ísraelsmenn. Þeir yrðu eins og furstar og gegndu sambærilegri valdastöðu og furstar. Og sú hefur orðið raunin. Er leifum smurðra kristinna manna fækkar og mörgum þeirra, sem enn eru á lífi, eru takmörk sett sökum elli, leggja vel þjálfaðir aðrir sauðir hönd á plóginn. Þeir vilja ekki bola smurðum bræðrum sínum burt. En hinn trúi og hyggni þjónn veitir þeim vald eftir þörfum í ‚landinu‘ þannig að skipulag Guðs geti haldið áfram að sækja fram með skipulegum hætti. Slíku framfaraferli er einnig lýst í öðrum spádómi.

Prestar og bændur

15. (a) Hverjir eru ‚prestar Jehóva‘ í uppfyllingu Jesaja 61:5, 6 og hvenær þjóna þeir sem slíkir í fullum skilningi? (b) Hverjir eru ‚útlendingarnir,‘ sem vinna akuryrkjustörf í Ísrael, og hvað er fólgið í þessum störfum í andlegum skilningi?

15 Jesaja 61:5, 6 segir: „Útlendingar munu standa yfir hjörðum yðar og halda þeim til haga, og aðkomnir menn vera akurmenn og víngarðsmenn hjá yður, en sjálfir munuð þér kallaðir verða prestar [Jehóva] og nefndir verða þjónar Guðs vors. Þér munuð njóta fjárafla þjóðanna og stæra yður af auðlegð þeirra.“ Nú á dögum eru smurðir kristnir menn ‚prestar Jehóva.‘ Í fullum og endanlegum skilningi munu þeir þjóna sem „prestar [Jehóva] og . . . þjónar Guðs vors“ í ríkinu á himnum. (Opinberunarbókin 4:9-11) Hverjir eru ‚útlendingarnir‘ sem sjá um akuryrkjuna? Það eru hinir aðrir sauðir sem búa í ‚landi‘ Ísraels Guðs. Hver er fjárgæslan, akuryrkjan og vínræktin sem þeim er trúað fyrir? Í sínum þýðingarmikla, andlega skilningi eru þessi störf fólgin í því að hjálpa fólki, næra það og safna því saman. — Jesaja 5:7; Matteus 9:37, 38; 1. Korintubréf 3:9; 1. Pétursbréf 5:2.

16. Hverjir taka að lokum við öllu starfinu í ‚landi‘ fólks Guðs?

16 Nú sem stendur er enn á jörðinni smár hópur andlegra Ísraelsmanna sem á þátt í andlegri fjárgæslu, akuryrkju og vínrækt. Er hinn smurði söfnuður í heild hefur sameinast Kristi kemur allt þetta starf í hlut hinna annarra sauða. Jafnvel jarðnesk umsjón ‚landsins‘ verður þá í höndum hæfra annarra sauða sem Esekíelsbók kallar landshöfðingja. — Esekíel 45. og 46. kafli.e

‚Landið‘ stendur

17. Hvað hefur Jehóva verið að undirbúa alla hina síðustu daga?

17 Já, múgurinn mikli þarf ekkert að óttast! Jehóva hefur búið vel í haginn fyrir hann. Samansöfnun og innsiglun hinna smurðu er eitt það mikilvægasta sem gerst hefur á jörðinni núna á síðustu dögum. (Opinberunarbókin 7:3) En meðan unnið hefur verið að því hefur Jehóva leitt hina aðra sauði inn í samfélag við þá í endurreistu, andlegu landi. Þar hafa þeir fengið andlega næringu og þjálfun í kristnu líferni. Auk þess hafa þeir fengið rækilega kennslu í heilagri þjónustu, þar á meðal umsjón. Þeir eru Jehóva og smurðum bræðrum sínum innilega þakklátir.

18. Gegnum hvaða atburði munu hinir aðrir sauðir dvelja tryggir í ‚landi‘ andlegs Ísraels?

18 Er Góg frá Magóg gerir lokaárás á fólk Guðs standa hinir aðrir sauðir fastir fyrir með hinum smurðu leifum í opnu „bændabýlalandi.“ Hinir aðrir sauðir verða enn í því ‚landi‘ er þeir lifa af eyðingu þjóðanna og ganga inn í nýjan heim Guðs. (Esekíel 38:11; 39:12, 13; Daníel 12:1; Opinberunarbókin 7:9, 14) Varðveiti þeir trúfesti sína þurfa þeir aldrei að yfirgefa þennan unaðslega stað. — Jesaja 11:9.

19, 20. (a) Hvaða stórfenglegrar umsjónar munu íbúar ‚landsins‘ njóta í nýja heiminum? (b) Til hvers hlökkum við ákaflega?

19 Ísrael til forna var undir stjórn mennskra konunga og naut þjónustu Levítapresta. Í nýja heiminum verða kristnir menn undir enn stórfenglegri umsjón. Undir stjórn Jehóva Guðs lúta þeir hinum mikla æðsta presti og konungi, Jesú Kristi, og hinum 144.000 meðkonungum hans og prestum — og suma þeirra þekktu þeir áður sem kristna bræður sína og systur á jörðinni. (Opinberunarbókin 21:1) Trúfastir byggjendur hins andlega lands munu lifa áfram á jörð sem breytt verður í bókstaflega paradís og fagna þeirri lækningu og blessun sem hin nýja Jerúsalem miðlar þeim. — Jesaja 32:1; Opinberunarbókin 21:2; 22:1, 2.

20 Hinn mikli, himneski stríðsvagn Jehóva stefnir óstöðvandi fram á við til að ná tilgangi hans að fullu, og við hlökkum öll ákaflega til að ljúka því verki sem okkur hefur verið falið. (Esekíel 1:1-28) Hugsaðu þér hve gleðilegt verður að fagna því að Jehóva hefur helgað sig þegar þessi tilgangur hefur loksins náð fram að ganga. Þá mun öll sköpunin syngja hinn kröftuga lofsöng í Opinberunarbókinni 5:13: „Honum, sem í hásætinu situr, og lambinu, sé lofgjörðin og heiðurinn, dýrðin og krafturinn um aldir alda.“ Hvort sem okkur er ætlaður staður á himni eða jörð, þráum við ekki að vera þar og taka undir með þessum mikilfenglega lofgerðarkór?

[Neðanmáls]

a Sjá bókina „Nýr himinn og ný jörð,“ bls. 322-3, gefin út árið 1953 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

b Ítarlegri umfjöllun er að finna í greininni „Ráðstöfun Jehóva, ‚hinir gefnu‘“ í Varðturninum 1. október 1992.

c Sjá bókina Paradís endurreist handa mannkyninu — með guðræði!, bls. 264-9, útgefin 1972 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

d Á hebresku raʼséhʹ ʼalfehʹ Jisraʼelʹ sem þýtt var khiliʹarkhoi Israelʹ eða „þúsundhöfðingjar Ísraels“ í Sjötíumannaþýðingunni.

e Sjá bókina „Þjóðirnar skulu vita að ég er Jehóva“ — hvernig?, bls. 401-7, gefin út 1971 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Hverju svarar þú?

◻ Hvaða „land“ var endurreist árið 1919 og hvernig var það fyllt fólki?

◻ Hvernig hefur hinum öðrum sauðum verið veitt aukin ábyrgð í ‚landi‘ endurreistra þjóna Guðs?

◻ Á hvaða hátt eru þeir sem mynda múginn mikla „eins og Jebúsítar“? ‚Eins og furstar í Júda‘?

◻ Hve lengi verða trúfastir aðrir sauðir í ‚landinu‘?

[Myndir á blaðsíðu 21]

Hinir smurðu og hinir aðrir sauðir þjóna saman í andlegu landi.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila