Kennsla Jehóva fram á okkar dag
„[Jehóva] hefir gefið mér lærisveina tungu.“ — JESAJA 50:4.
1, 2. (a) Undir hvað bjó Jehóva uppáhaldsnemanda sinn og hver var árangurinn? (b) Hvernig viðurkenndi Jesús hvaðan kennsla hans væri komin?
JEHÓVA GUÐ hefur verið kennari allt frá því hann varð faðir. Einhvern tíma eftir að sum barna hans gerðu uppreisn bjó hann uppáhaldsnemanda sinn, frumgetinn son sinn, undir þjónustu á jörð. (Orðskviðirnir 8:30) Fimmtugasti kafli Jesajabókar hefur spádómlega eftir þessum nemanda: „Hinn alvaldi [Jehóva] hefir gefið mér lærisveina tungu, svo að ég hefði vit á að styrkja hina mæddu með orðum mínum.“ (Jesaja 50:4) Með því að fara eftir kennslu föður síns meðan hann var á jörðinni veitti Jesús öllum, sem ‚höfðu erfiði og þungar byrðar,‘ hvíld og hressingu. — Matteus 11:28-30.
2 Jesús vann mörg máttarverk á fyrstu öld. Hann opnaði augu blindra og reisti jafnvel upp dána, en fyrst og fremst var hann þó þekktur meðal samtíðarmanna sinna sem kennari. Jafnt fylgjendur hans sem andstæðingar kölluðu hann meistara, kennara eða læriföður. (Matteus 8:19; 9:11; 12:38; 19:16; Jóhannes 3:2) Jesús eignaði sjálfum sér aldrei heiðurinn af því sem hann kenndi heldur viðurkenndi auðmjúkur: „Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig.“ „Ég [tala] það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér.“ — Jóhannes 7:16; 8:28; 12:49.
Fyrirmyndarsamband nemanda og kennara
3. Hvernig ber spádómur Jesaja vitni um áhuga Jehóva á þeim sem hann kennir?
3 Góður kennari sýnir nemendum sínum persónulegan áhuga og er ástríkur og samviskusamur. Fimmtugasti kafli Jesajabókar sýnir að Jehóva Guð hefur þess konar áhuga á þeim sem hann kennir. „Hann vekur á hverjum morgni,“ segir spádómurinn, „á hverjum morgni vekur hann eyra mitt, svo að ég taki eftir, eins og lærisveinar gjöra.“ (Jesaja 50:4) Þetta orðfæri lýsir kennara sem vekur nemendur sína snemma morguns til að kenna þeim. Biblíufræðingur segir um heimfærslu þessa spádóms: „Hugmyndin er sú að lausnarinn . . . gengi ef svo má segja, í skóla Guðs, og yrði hæfur til að fræða aðra. . . . Kennsla Guðs myndi gera Messías einstaklega færan um að kenna mannkyninu.“
4. Hvernig tók Jesús við kennslu föður síns?
4 Nemendur ættu helst að vera móttækilegir fyrir kennslu kennara síns. Hvernig tók Jesús við kennslu föður síns? Viðbrögð hans voru í samræmi við það sem við lesum í Jesaja 50:5: „Hinn alvaldi [Jehóva] opnaði eyra mitt, og ég þverskallaðist eigi, færðist ekki undan.“ Já, Jesús var námfús. Hann var allur augu og eyru eins og sagt er. Og ekki bara það heldur var hann fús til að gera hvaðeina sem faðirinn bað hann um. Hann var ekki þrjóskur heldur sagði: „Verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“ — Lúkas 22:42.
5. (a) Hvað gefur til kynna að Jesús hafi vitað fyrirfram um þær prófraunir sem hann yrði að þola á jörðinni? (b) Hvernig rættist spádómurinn í Jesaja 50:6?
5 Spádómurinn gefur til kynna að sonurinn hafi verið fræddur um hugsanlegar afleiðingar þess að gera vilja Guðs. Það má sjá af því sem hann segir: „Ég bauð bak mitt þeim, sem börðu mig, og kinnar mínar þeim, sem reyttu mig. Ég byrgði eigi ásjónu mína fyrir háðungum og hrákum.“ (Jesaja 50:6) Eins og spádómurinn gefur til kynna sætti Jesús grimmilegri meðferð á jörðinni. „Þeir hræktu í andlit honum,“ skrifaði Matteus postuli, „en aðrir börðu hann með stöfum.“ (Matteus 26:67) Þarna voru trúarleiðtogarnir að verki á páskanótt árið 33. Daginn eftir bauð Jesús bak sitt er rómverskir hermenn börðu hann miskunnarlaust áður en hann var hengdur á staur til að deyja. — Jóhannes 19:1-3, 16-23.
6. Hvað sýnir að Jesús glataði aldrei traustinu til kennara síns og hvernig var honum umbunað traustið?
6 Sonurinn, sem var vel skólaður fyrir, glataði aldrei traustinu til kennara síns. Það má sjá af því sem hann segir næst samkvæmt spádóminum: „[Jehóva] hinn alvaldi hjálpar mér, því lét ég ekki háðungarnar á mér festa.“ (Jesaja 50:7) Jesú var ríkulega umbunað traustið til kennara síns. Faðir hans upphóf hann yfir alla aðra þjóna Guðs. (Filippíbréfið 2:5-11) Við eigum líka stórkostlega blessun í vændum ef við erum hlýðin kennslu Jehóva og ‚færumst ekki undan.‘ Við skulum sjá hvernig þessari kennslu hefur verið komið á framfæri fram á okkar dag.
Umfangsmikil kennsluáætlun
7. Hvernig hefur Jehóva haldið kennslu sinni áfram á jörðinni?
7 Eins og áður var bent á notaði Jehóva jarðneskan fulltrúa sinn, Jesú Krist, til að koma kennslu sinni á framfæri á fyrstu öldinni. (Jóhannes 16:27, 28) Jesús benti sífellt á að orð Guðs væri heimild kennslu sinnar og gaf þannig fordæmi þeim sem hann kenndi. (Matteus 4:4, 7, 10; 21:13; 26:24, 31) Þeir sem höfðu notið kennslu Jehóva héldu henni síðan áfram á jörðinni. Þú manst að Jesús fyrirskipaði þeim: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Þegar menn gerðust lærisveinar urðu þeir hluti af „Guðs húsi, sem er söfnuður lifanda Guðs.“ (1. Tímóteusarbréf 3:15) Þeir mynduðu líka söfnuði þar sem Jehóva kenndi þeim. (Postulasagan 14:23; 15:41; 16:5; 1. Korintubréf 11:16) Hefur kennsla Guðs haldið áfram á þennan hátt fram á okkar dag?
8. Hvernig gaf Jesús til kynna að prédikunarstarfinu yrði stýrt á jörðinni áður en endirinn kæmi?
8 Svo sannarlega! Þrem dögum áður en Jesús dó spáði hann miklu prédikunarstarfi fyrir endalok þessa heimskerfis. „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma,“ sagði hann. Jesús lýsti síðan hvernig þessari prédikun og kennslu um heim allan yrði stjórnað. Hann talaði um ‚trúan og hygginn þjón‘ sem yrði boðleið andlegrar fæðu til þjóna Guðs. (Matteus 24:14, 45-47) Jehóva hefur notað þennan ‚þjón‘ til að hafa umsjón með hagsmunum Guðsríkis um alla jörðina.
9. Hverjir mynda hinn trúa og hyggna þjón?
9 Það eru leifar erfingja Guðsríkis sem mynda hinn trúa og hyggna þjón núna. Þetta eru smurðir kristnir menn, þeir sem eftir eru á jörðinni af hinum 144.000 sem ‚tilheyra Kristi‘ og eru hluti af „sæði Abrahams.“ (Galatabréfið 3:16, 29, NW; Opinberunarbókin 14:1-3) Hvernig geturðu borið kennsl á hinn trúa og hyggna þjón? Einkum með hliðsjón af starfi hans og fastheldni við orð Guðs, Biblíuna.
10. Hvaða verkfæri notar þjónshópurinn til að koma kennslu Jehóva á framfæri?
10 Jehóva notar þennan ‚þjón‘ til að kenna fólki nú á dögum. Þjónshópurinn tók sér nafnið vottar Jehóva árið 1931. Þaðan í frá hafa milljónir manna gengið til liðs við þá, tekið sér þetta nafn og boðað Guðsríki með þeim. Þetta tímarit, Varðturninn kunngerir ríki Jehóva, er aðalverkfæri ‚þjónsins‘ í kennslustarfinu. En önnur rit eru líka notuð, svo sem bækur, bæklingar, smárit og tímaritið Vaknið!
11. Hvaða skóla starfrækir ‚þjónninn‘ og hvaða tilgangi þjónar hver skóli um sig?
11 Auk þess hefur ‚þjónninn‘ komið ýmsum skólum á laggirnar. Þeirra á meðal er Biblíuskólinn Gíleað þar sem ungir þjónar orðsins eru búnir undir trúboðsstarf erlendis á fimm mánaða námskeiði, og tveggja mánaða Þjónustuþjálfunarskóli þar sem ókvæntir öldungar og safnaðarþjónar eru þjálfaðir til sérstakra, guðveldislegra verkefna. Þá má ekki gleyma Ríkisþjónustuskólanum þar sem kristnir öldungar og safnaðarþjónar fá öðru hverju fræðslu um safnaðarábyrgð sína, og Brautryðjandaskólanum þar sem þjónar orðsins í fullu starfi frá viðbótarþjálfun í áhrifaríku prédikunarstarfi.
12. Hvaða kennsla fer fram í hverri viku?
12 Annar þáttur kennsluáætlunarinnar eru samkomurnar fimm sem haldnar eru vikulega í yfir 78.600 söfnuðum fólks Jehóva um heim allan. Hefur þú allt það gagn sem þú getur af þessum samkomum? Sýnirðu að þú trúir virkilega að þú sért í skóla Guðs, ef svo má segja, með því að fylgjast af athygli með fræðslunni? Sýna andlegar framfarir þínar öðrum að þú hafir „lærisveina tungu“? — Jesaja 50:4; 1. Tímóteusarbréf 4:15, 16.
Kennsla á safnaðarsamkomum
13. (a) Nefndu mikilvæga leið sem Jehóva fer til að kenna fólki sínu nú á dögum. (b) Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta Varðturninn?
13 Jehóva kennir fólki sínu sérstaklega með vikulegu biblíunámi, þar sem Varðturninn er notaður. Líturðu á þessa samkomu sem kennslustund hjá Jehóva? Enda þótt orðin í Jesaja 50:4 eigi fyrst og fremst við Jesú geta þau líka átt við alla sem notfæra sér ráðstafanir Guðs til að fá „lærisveina tungu.“ Ein leið til að sýna að þú kunnir að meta Varðturninn er að lesa hvert tölublað eins fljótt og þú getur eftir að þú færð það í hendur. Síðan, þegar Varðturninn er numinn í söfnuðinum, geturðu sýnt Jehóva að þú kunnir að meta blaðið með því að vera viðstaddur og líka með því að vera undir það búinn að játa von þína opinberlega. — Hebreabréfið 10:23.
14. (a) Af hverju eru það mikilvæg sérréttindi að svara á samkomum? (b) Hvers konar svör barna og unglinga eru mjög hvetjandi?
14 Er þér ljóst að þú getur átt þátt í hinu stórkostlega kennslustarfi Jehóva með því að svara á samkomunum? Enginn vafi leikur á að svör okkar á samkomunum, eru ein leið til að hvetja hver annan „til kærleika og góðra verka.“ (Hebreabréfið 10:24, 25) Geta börn líka átt þátt í þessu kennslustarfi? Já, það geta þau. Einlæg svör unga fólksins eru oft hvetjandi fyrir þá sem eldri eru. Stundum hafa tilsvör barna hvatt þá sem nýlega eru farnir að sækja samkomur til að sýna sannleika Biblíunnar meiri áhuga. Sum börn og unglingar hafa tamið sér að lesa svörin beint úr blaðinu eða endurtaka það sem fullorðnir hvísla í eyru þeirra. En mest er þó hvetjandi þegar svör þeirra eru vel undirbúin. Slík svör eru okkar mikla fræðara og háleitri kennsluáætlun hans til heiðurs. — Jesaja 30:20, 21.
15. Hvað geta foreldrar gert til að hjálpa börnunum að bæta þátttöku sína?
15 Það er gleðilegt að sjá börn langa til að taka þátt í að lofa Guð. Jesús kunni að meta lofgerð barna. (Matteus 21:15, 16) Kristinn öldungur segir: „Þegar ég var barn langaði mig til að svara í Varðturnsnáminu. Eftir að pabbi hafði hjálpað mér að undirbúa svar lét hann mig æfa það að minnsta kosti sjö sinnum.“ Kannski getið þið foreldrar hjálpað börnunum í fjölskyldunáminu að undirbúa sig að svara með eigin orðum spurningum við valdar greinar í Varðturninum. Hjálpaðu þeim að bera skyn á hin miklu sérréttindi að taka þátt í kennsluáætlun Jehóva.
16. Hvað gagn hefur verið að Guðveldisskólanum og hverjir mega innrita sig?
16 Bæði þeir sem hafa þau sérréttindi að koma fræðslunni á framfæri og þeir sem hlýða á hana ættu einnig að gefa alvarlegan gaum að kennslunni á öðrum kristnum samkomum. Í meira en 50 ár hefur Jehóva notað hinn vikulega Guðveldisskóla til að þjálfa milljónir karla og kvenna í að kynna boðskap Guðsríkis á sem áhrifaríkastan hátt. Þeir sem starfa með söfnuðinum geta innritað sig, þeirra á meðal fólk sem hefur nýlega byrjað að sækja samkomur, svo framarlega sem þeir lifa í samræmi við meginreglur kristninnar.
17. (a) Í hvaða tilgangi sérstaklega var stofnað til opinberu samkomunnar? (b) Hvað ættu ræðumenn að hafa í huga?
17 Opinbera samkoman hefur lengi verið hluti kennsluáætlunarinnar. Eins og nafnið bendir til var sérstaklega stofnað til þessarar samkomu í þeim tilgangi að kynna aðalkenningar Biblíunnar fyrir þeim sem ekki voru vottar. Ræðumaðurinn þarf því að koma efninu skiljanlega til skila fyrir þá sem eru að heyra boðskapinn í fyrsta sinn. Það þýðir að hann þarf að útskýra hugtök eins og „aðrir sauðir,“ „bræður“ og „leifarnar,“ hugtök sem utansafnaðarmenn skilja kannski ekki. Þar eð trúarskoðanir eða líferni fólks, sem sækir opinberu samkomuna, er kannski ekki alveg í samræmi við Biblíuna — þótt boðlegt teljist í nútímasamfélagi — ætti ræðumaðurinn alltaf að vera háttvís og hann ætti aldrei að gera gys að slíkum trúarskoðunum eða líferni. — Samanber 1. Korintubréf 9:19-23.
18. Hvaða aðrar samkomur eru haldnar vikulega og hvaða tilgangi þjóna þær?
18 Safnaðarbóknámið er vikuleg samkoma þar sem rit, gerð undir umsjón hins trúa og hyggna þjóns, eru numin ásamt Biblíunni. Nú undanfarið hefur bókin Þekking sem leiðir til eilífs lífs verið numin í bóknáminu. Þjónustusamkoman er til þess ætluð að þjálfa þjóna Jehóva til sem fyllstrar þátttöku í því að prédika fagnaðarerindið um ríkið og gera menn að lærisveinum. — Matteus 28:19, 20; Markús 13:10.
Kennsla á fjöldasamkomum
19. Hvað fjöldasamkomur skipuleggur ‚þjónninn‘ árlega?
19 Í meira en öld hefur ‚hinn trúi þjónn‘ skipulagt svæðis- og umdæmismót til að kenna sannkristnum mönnum og hvetja þá sérstaklega. Nú eru haldin þrjú slík mót á ári. Fyrst er að nefna eins dags mót fyrir söfnuði sem mynda ákveðið farandsvæði. Einnig er haldið tveggja daga svæðismót á hverju farandsvæði. Auk þess er haldið umdæmismót eða landsmót annaðhvort fyrir allmörg farandsvæði eða allt landið. Með einhverju árabili eru haldin alþjóðamót. Þau sækja vottar frá mörgum löndum og þau eru mjög trústyrkjandi fyrir fólk Jehóva! — Samanber 5. Mósebók 16:16.
20. Á hvað hefur alltaf verið lögð áhersla á fjöldasamkomum votta Jehóva?
20 Árið 1922, þegar um 10.000 manns komu saman í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum, hvatti ræðumaður mótsgesti: „Þetta er dagur daganna. Sjá, konungurinn ríkir! Þið eruð auglýsingafulltrúar hans. Þess vegna, kunngerið, kunngerið, kunngerið konunginn og ríki hans.“ Slík stórmót hafa alltaf lagt áherslu á prédikunarstarfið. Til dæmis var tilkynnt á alþjóðamótinu í New York árið 1953 að komið skyldi á þjálfun fyrir starfið hús úr húsi í öllum söfnuðum. Sú nýbreytni hafði mjög jákvæð áhrif á prédikun Guðsríkis víða um lönd.
Guð kennir okkur að kenna
21. Hvaða sérréttindi viljum við þiggja og ekki missa sjónar á tilganginum með þeim?
21 Jehóva er vissulega með stórkostlega kennsluáætlun í gangi á jörðinni nú á dögum! Allir, sem notfæra sér hana, geta hlotið kennslu frá Guði, já, haft „lærisveina tungu.“ Það eru mikil sérréttindi að vera í skóla Guðs ef svo má að orði komast! En þegar við þiggjum þessi sérréttindi megum við ekki missa sjónar á tilganginum með þeim. Jehóva kenndi Jesú þannig að hann gæti kennt öðrum. Og Jesús kenndi lærisveinum sínum þannig að þeir gætu unnið sama starf og hann en umfangsmeira. Á sama hátt fáum við kennslu hjá Jehóva í þeim tilgangi að kenna öðrum. — Jóhannes 6:45; 14:12; 2. Korintubréf 5:20, 21; 6:1; 2. Tímóteusarbréf 2:2.
22. (a) Hvaða vandamál áttu Móse og Jeremía við að glíma en hvernig leystist það? (b) Hvers vegna megum við treysta að Guð sjái til þess að ríki hans verði prédikað?
22 Segir þú eins og Móse, „aldrei hefi ég málsnjall maður verið,“ eða eins og Jeremía, „ég kann ekki að tala“? Jehóva hjálpar þér eins og þeim. „Ég skal vera með munni þínum,“ sagði hann Móse. Og við Jeremía sagði hann: „Þú skalt ekki óttast . . . ég er með þér.“ (2. Mósebók 4:10-12; Jeremía 1:6-8) Þegar trúarleiðtogar vildu þagga niður í lærisveinunum sagði Jesús: „Ef þeir þegja, munu steinarnir hrópa.“ (Lúkas 19:40) En steinarnir þurftu ekki að hrópa þá og ekki heldur nú því að Jehóva notar tungu lærisveina sinna til að flytja boðskapinn um Guðsríki.
Geturðu svarað?
◻ Hvaða fyrirmyndarsambandi kennara og nemanda er lýst í 50. kafla Jesajabókar?
◻ Hvernig hefur Jehóva staðið fyrir umfangsmiklu kennslustarfi?
◻ Nefndu nokkra þætti í kennsluáætlun Jehóva.
◻ Hvers vegna eru það stórkostleg sérréttindi að eiga hlutdeild í kennsluáætlun Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 9]
Einlæg svör barna eru oft hvetjandi fyrir fullorðna.