Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • brw950801 bls. 14-18
  • Kærleiksríkt boð til þreyttra

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Kærleiksríkt boð til þreyttra
  • Námsgreinar úr Varðturninum
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ‚Erfiði og þungar byrðar‘
  • Raunveruleg orsök erfiðleikanna
  • Boð Jesú nú á dögum
  • Léttir og hvíld
  • ‚Finnið endurnæring sálum ykkar‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • „Komið til mín ... og ég mun veita yður hvíld“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2019
  • Ráð við streitu — raunhæf lausn
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2001
  • „Fylgið mér“ – hvað átti Jesús við?
    „Komið og fylgið mér“
Sjá meira
Námsgreinar úr Varðturninum
brw950801 bls. 14-18

Kærleiksríkt boð til þreyttra

„Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.“ — MATTEUS 11:28.

1. Hvað sá Jesús í Galíleu á þriðju prédikunarferð sinni?

NÁLÆGT ársbyrjun 32 var Jesús á þriðju prédikunarferð sinni um Galíleu. Hann fór um borgir og þorp og „kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi.“ Er hann sá mannfjöldann „kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ — Matteus 9:35, 36.

2. Hvernig hjálpaði Jesús fólkinu?

2 En Jesús lét ekki við það sitja að kenna í brjósti um mannfjöldann. Eftir að hafa sagt lærisveinunum að biðja til „herra uppskerunnar,“ Jehóva Guðs, sendi hann þá út til að hjálpa fólki. (Matteus 9:38; 10:1) Síðan fullvissaði hann fólkið persónulega um að það gæti fengið hughreystingu og hressingu. Hann bauð því hlýlega: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ — Matteus 11:28, 29.

3. Af hverju er boð Jesú jafnhrífandi núna?

3 Við lifum tíma er mörgum finnst þeir bera þungar og lýjandi byrðar. (Rómverjabréfið 8:22; 2. Tímóteusarbréf 3:1) Sumir þurfa að eyða svo miklum tíma og kröftum í að sjá sér farborða að þeir eiga lítið aflögu til að sinna fjölskyldu, vinum eða nokkru öðru. Margir þurfa að burðast með alvarlega sjúkdóma, bæklun, þunglyndi og önnur líkamleg og tilfinningaleg vandamál. Sumir reyna að minnka álagið með því að sökkva sér niður í skemmtun, át, drykkju og jafnvel fíkniefnanotkun. En þar með lenda þeir auðvitað í vítahring sem hefur í för með sér fleiri vandamál og meira álag. (Rómverjabréfið 8:6) Kærleiksríkt boð Jesú er jafnhrífandi núna og það var til forna.

4. Hvaða spurningar ættum við að íhuga til að njóta góðs af kærleiksríku boði Jesú?

4 En hvað hvíldi svo þungt á fólki á dögum Jesú að það var ‚hrjáð og umkomulaust‘ og Jesús kenndi í brjósti um það? Hvaða byrðar þurfti það að bera og hvernig gat boð Jesú hjálpað því? Svörin við þessum spurningum geta hjálpað okkur að hafa gagn af hlýlegu boði Jesú til þreyttra.

‚Erfiði og þungar byrðar‘

5. Af hverju var viðeigandi að Matteus postuli skyldi greina frá þessu atviki í þjónustu Jesú?

5 Það er eftirtektarvert að Matteus einn skýrir frá þessu atviki í þjónustu Jesú. Matteus, sem einnig var kallaður Leví, hafði verið toll- eða skattheimtumaður og vissi vel af einni ákveðinni byrði sem fólk þurfti að bera. (Matteus 9:9; Markús 2:14) Bókin Daily Life in the Time of Jesus segir: „Skattarnir sem [Gyðingar þurftu] að greiða voru óheyrilega háir, og þeir voru enn þyngri fyrir þá sök að lagðir voru á þá tveir skattar samhliða, borgaralegur skattur og trúarlegur, og hvorugur var léttur.“

6. (a) Hvernig var skattakerfið á dögum Jesú? (b) Af hverju fór mjög illt orð af toll- og skattheimtumönnum? (c) Hvað taldi Páll nauðsynlegt að minna trúbræður sína á?

6 Það sem gerði allt þetta sérlega íþyngjandi var skattakerfi þess tíma. Rómverskir embættismenn leigðu skattheimturéttinn í skattlöndunum hæstbjóðanda. Sá réði síðan fólk í hverju byggðarlagi til að hafa umsjón með sjálfri skattheimtunni. Öllum í þessum gjaldapíramída fannst þeir eiga fullan rétt á að fá sneið af kökunni með því að leggja umboðslaun sín ofan á. Til dæmis greinir Lúkas frá ‚manni er Sakkeus hét og var yfirtollheimtumaður og auðugur.‘ (Lúkas 19:2) Sakkeus „yfirtollheimtumaður“ og undirmenn hans byggðu auð sinn greinilega á bágindum fólks. Sú misnotkun og spilling, sem slíkt fyrirkomulag orsakaði, olli því að fólk flokkaði skatt- og tollheimtumenn með bersyndugum og skækjum, og flestir áttu það sennilega skilið. (Matteus 9:10; 21:31, 32; Markús 2:15; Lúkas 7:34) Þar eð byrðar fólks voru nánast óbærilegar er engin furða að Páll postuli skyldi telja nauðsynlegt að minna kristna bræður sína á að ergja sig ekki yfir oki Rómverja heldur ‚gjalda öllum það sem skylt er: Þeim skatt, sem skattur ber, þeim toll, sem tollur ber.‘ — Rómverjabréfið 13:7a; samanber Lúkas 23:2.

7. Hvernig juku refsilög Rómverja á byrðar fólks?

7 Páll minnti kristna menn einnig á að gjalda „þeim ótta, sem ótti ber, þeim virðing, sem virðing ber.“ (Rómverjabréfið 13:7b) Rómverjar voru illræmdir fyrir grimmd sína og hörð refsilög. Gjarnan var beitt hýðingum, húðstrýkingum, hörðum fangelsisdómum og aftökum til að halda fólki í skefjum. (Lúkas 23:32, 33; Postulasagan 22:24, 25) Leiðtogum Gyðinga var meira að segja veitt vald til að beita slíkum refsingum eins og þeir töldu við hæfi. (Matteus 10:17; Postulasagan 5:40) Slíkt fyrirkomulag var vissulega kúgandi, ef ekki þjakandi fyrir hvern þann sem bjó við það.

8. Hvernig lögðu trúarleiðtogarnir byrðar á fólk?

8 En byrðarnar, sem trúarleiðtogar þess tíma lögðu á almenning, voru þó verri en skattar og lög Rómverja. Jesús virðist fyrst og fremst hafa átt við þær er hann talaði um ‚erfiði og þungar byrðar‘ fólksins. Hann sagði að trúarleiðtogarnir byndu undirokuðum almenningi ‚þungar byrðar og legðu honum á herðar‘ í stað vonar og hughreystingar, en ‚sjálfir vildu þeir ekki snerta þær einum fingri.‘ (Matteus 23:4; Lúkas 11:46) Lýsing guðspjallanna á trúarleiðtogunum — einkum fræðimönnunum og faríseunum — er skýr; þeir voru drambsamir, harðbrjósta og hræsnisfullir. Þeir litu niður á almúgann sem ólærðan og óhreinan og fyrirlitu útlendinga meðal þjóðarinnar. Skýringarit segir um hugarfar þeirra: „Maður sem leggur of þunga byrði á hest nú á dögum getur átt lögsókn yfir höfði sér. Hvað um mann sem legði 613 boðorð á ‚fólk landsins‘ er hafði enga trúfræðslu hlotið, og gerði ekkert til að hjálpa því, en fordæmdi það síðan sem guðleysingja?“ Hin raunverulega byrði var að sjálfsögðu ekki Móselögmálið heldur allar erfikenningarnar sem lagðar voru á almenning.

Raunveruleg orsök erfiðleikanna

9. Hvernig var ástandið meðal fólks á dögum Jesú í samanburði við daga Salómons konungs?

9 Stundum voru lagðar þungar fjárkvaðir á almenning þannig að fátækt var útbreidd. Ísraelsmenn urðu að greiða sanngjarna skatta samkvæmt ákvæðum Móselaganna. Á stjórnarárum Salómons kostaði þjóðin mjög dýrar framkvæmdir, svo sem gerð musterisins og annarra stórhýsa. (1. Konungabók 7:1-8; 9:17-19) En Biblían segir samt að menn hafi ‚etið og drukkið og verið glaðir, svo að Júda og Ísrael hafi búið öruggir, hver maður undir sínu víntré og fíkjutré, frá Dan til Beerseba, alla ævi Salómons.‘ (1. Konungabók 4:20, 25) Í hverju lá þá munurinn?

10. Hver var ástæðan fyrir ástandinu hjá Ísraelsmönnum á fyrstu öld?

10 Meðan þjóðin hélt sig við sanna guðsdýrkun naut hún velþóknunar Jehóva og bjó við öryggi og velsæld þrátt fyrir mikil þjóðarútgjöld. En Jehóva varaði þjóðina við því að ‚ef hún sneri baki við honum, og varðveitti eigi boðorð hans‘ yrðu alvarleg umskipti. Þá yrði „Ísrael . . . að orðskvið og spotti meðal allra þjóða.“ (1. Konungabók 9:6, 7) Og þannig fór það. Ísrael komst undir erlend yfirráð og ríkið, sem verið hafði svo dýrlegt, breyttist í nýlendu. Það reyndist þjóðinni dýrkeypt að vanrækja andlegar skyldur sínar!

11. Af hverju fannst Jesú fólkið ‚vera hrjáð og umkomulaust eins og sauðir er engan hirði hafa‘?

11 Með hliðsjón af þessu skiljum við betur hvers vegna Jesú fannst fólkið, sem hann sá, ‚vera hrjáð og umkomulaust.‘ Þetta var fólk Jehóva, Ísraelsmenn sem voru flestir hverjir að reyna að lifa eftir lögum hans og tilbiðja eins og honum var þóknanlegt. En það voru ekki aðeins stjórnmála- og viðskiptaöflin sem arðrændu þá og undirokuðu heldur einnig fráhverfir trúarleiðtogar þeirra. Fólkið var „eins og sauðir, er engan hirði hafa,“ af því að það var enginn til að annast það eða tala máli þess. Fólkið vantaði hjálp til að takast á við óblíðan veruleikann. Ástríkt og hlýlegt boð Jesú var svo sannarlega tímabært.

Boð Jesú nú á dögum

12. Hvaða álagi finna þjónar Guðs og annað einlægt fólk fyrir nú á dögum?

12 Ástandið er að mörgu leyti líkt núna. Einlægt fólk er að reyna að sjá fyrir sér með heiðvirðum hætti en er að kikna undan álagi og kröfum þessa spillta heimskerfis. Þeir sem vígðir eru Jehóva eru jafnvel ekki ónæmir fyrir því. Skýrslur sýna að sumir meðal þjóna Jehóva eiga æ erfiðara með að rísa undir allri ábyrgðinni, sem á þá er lögð, jafnvel þótt þeir leggi sig alla fram. Þeir eru þreyttir, úrvinda. Sumum fyndist það jafnvel léttir ef þeir gætu bara kastað öllu frá sér og horfið eitthvað út í buskann til að geta íhugað sinn gang. Hefur þér einhvern tíma liðið þannig? Veistu um einhvern þér nákominn sem er þannig innanbrjósts? Já, hjartnæmt boð Jesú er mikils virði fyrir okkur nú á dögum.

13. Af hverju megum við vera viss um að Jesús getur hjálpað okkur að hvílast og hressast?

13 Áður en Jesús bauð mönnum hlýlega hjálp sína sagði hann: „Allt er mér falið af föður mínum, og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.“ (Matteus 11:27) Þetta nána samband Jesú og föður hans fullvissar okkur um að við getum eignast náið einkasamband við Jehóva, „Guð allrar huggunar,“ ef við þiggjum boð Jesú og verðum lærisveinar hans. (2. Korintubréf 1:3; samanber Jóhannes 14:6.) Auk þess hefur Jesús einn vald og mátt til að létta okkur byrðarnar því að ‚allt er honum falið.‘ Hvaða byrðar? Þær sem hið spillta stjórnmála-, viðskipta- og trúarkerfi leggur á okkur, og einnig þær byrðar sem stafa af arfgengri synd okkar og ófullkomleika. Það er mjög svo uppörvandi og traustvekjandi tilhugsun!

14. Frá hvaða erfiði gat Jesús veitt hvíld?

14 Jesús hélt áfram: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.“ (Matteus 11:28) Jesús var vissulega ekki að mæla gegn elju og dugnaði því að oft ráðlagði hann lærisveinunum að leggja sig kappsamlega fram við þau störf sem fyrir lágu. (Lúkas 13:24) En „erfiði“ („strit,“ Kingdom Interlinear) gefur í skyn langdregið og lýjandi púl sem oft er ekki ómaksins virði. Og „þungar byrðar“ fela í sér meiri þyngsli en menn fá venjulega risið undir. Það má líkja þessu við muninn á manni, sem grefur eftir fólgnum fjársjóði, og öðrum sem grefur skurði í þrælkunarbúðum. Þeir vinna báðir svipaða erfiðisvinnu. En annar vinnur verk sitt með ákefð, en fyrir hinn er vinnan endalaust púl. Það skilur á milli hvort vinnan þjónar tilgangi eða ekki.

15. (a) Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur ef okkur finnst þung byrði hvíla á okkur? (b) Hvað er hægt að segja um uppruna byrða okkar?

15 Finnst þér þú hafa ‚erfiði og þungar byrðar,‘ að tími þinn og kraftar hrökkvi einfaldlega ekki til þess sem af þér er heimtað? Finnast þér byrðarnar, sem þú berð, of þungar? Ef svo er gætirðu spurt þig: ‚Fyrir hverju er ég að strita? Hvers konar byrði ber ég?‘ Biblíuskýrandi sagði um þetta fyrir ríflega 80 árum: „Ef við lítum á byrðar lífsins má skipta þeim í tvo flokka; við gætum kallað þær annars vegar sjálfskapaðar og hins vegar óhjákvæmilegar: þær sem stafa af eigin athöfnum og þær sem gera það ekki.“ Svo bætti hann við: „Við nákvæma sjálfsrannsókn kæmi það mörgum á óvart hve stór hluti allra byrða okkar eru sjálfskapaðar.“

16. Hvaða óviturlegar byrðar gætum við kannski lagt á okkur?

16 Hvaða byrðar eru það sem við gætum sjálf lagt á okkur? Við lifum í heimi efnishyggju, skemmtanafíknar og siðleysis. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Jafnvel vígðir kristnir menn eru undir stöðugum þrýstingi að fylgja tísku og líferni heimsins. Jóhannes postuli skrifaði um „fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti.“ (1. Jóhannesarbréf 2:16) Þetta eru sterk öfl sem geta hæglega haft áhrif á okkur. Vitað er að sumir hafa verið fúsir til að steypa sér í miklar skuldir til að njóta meiri veraldlegra gæða eða viðhalda vissum lífsstíl. Síðan komast þeir að raun um að þeir þurfa að eyða óhóflegum tíma í vinnunni eða jafnvel vinna á fleiri en einum stað til að geta greitt skuldirnar.

17. Hvaða aðstæður geta gert byrðarnar enn þungbærari og hvernig má bæta úr því?

17 Maður hugsar kannski með sér að það sé ekkert rangt að eiga sumt af því sem aðrir eiga eða gera það sem aðrir eru að gera, en það er mikilvægt að brjóta til mergjar hvort maður sé með því að auka byrðar sínar að óþörfu. (1. Korintubréf 10:23) Því eru takmörk sett hve miklu maður rís undir, þannig að maður þarf að létta af sér einhverri byrði til að bæta við sig nýrri. Oft er það fyrsta, sem menn létta af sér, einmitt það sem er nauðsynlegt fyrir andlega vellíðan okkar — einkanám í Biblíunni, samkomusókn og boðunarstarfið. Afleiðingin er andlegt máttleysi sem gerir manni enn erfiðara að bera byrðarnar. Jesús Kristur varaði við slíkri hættu er hann sagði: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara.“ (Lúkas 21:34, 35; Hebreabréfið 12:1) Það er erfitt að sjá snöru og forðast hana ef maður er úrvinda og er að kikna undan byrðum sínum.

Léttir og hvíld

18. Hvað bauð Jesús þeim sem komu til hans?

18 Í kærleika sínum bauð Jesús fram lausn: „Komið til mín . . . og ég mun veita yður hvíld.“ (Matteus 11:28) Orðið „hvíld,“ bæði hér og í 29. versi, er komið af grísku orði sem notað var í Sjötíumannaþýðingunni til þýðingar á hebreska orðinu fyrir ‚hvíldardag.‘ (2. Mósebók 16:23) Jesús var því ekki að lofa þeim sem komu til hans að þeir þyrftu ekki að vinna framar, heldur að hann myndi hressa þá þannig að þeir réðu við vinnuna sem þeir yrðu að inna af hendi í samræmi við tilgang Guðs.

19. Hvernig ‚komum við til Jesú‘?

19 En hvernig ‚komum við til Jesú‘? Jesús sagði lærisveinunum: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér [„stöðuglega,“ NW].“ (Matteus 16:24) Að koma til Jesú felur þannig í sér að láta eigin vilja víkja fyrir vilja Guðs og Krists, að taka á sig ákveðna ábyrgð og gera það stöðuglega. Er það einum of krefjandi? Er gjaldið of hátt? Við skulum athuga hvað Jesús sagði eftir kærleiksríkt boð sitt til þreyttra.

Manstu?

◻ Hvaða byrðar íþyngdu fólki á dögum Jesú?

◻ Af hverju stöfuðu erfiðleikar fólks eiginlega?

◻ Hvaða sjálfsrannsókn ættum við að gera ef okkur finnast byrðarnar þungar?

◻ Hvaða óviturlegar byrðar gætum við kannski lagt á okkur?

◻ Hvernig getum við hlotið þá hvíld og hressingu sem Jesús lofaði?

[Myndir á blaðsíðu 17]

Hvaða byrðar gætum við sjálf lagt á okkur?

Með leyfi Ferðamálaráðuneytis Bahamaeyja.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila