Unglingar sem muna eftir skapara sínum
„Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum.“ — PRÉDIKARINN 12:1.
1. Hvað sagði 11 ára drengur sem sýnir að skaparinn er honum raunverulegur?
ÞAÐ er ánægjulegt þegar börn og unglingar sýna með tali sínu og hegðun að þau líta á Jehóva Guð sem raunverulega persónu, dást að honum og vilja þóknast honum! Ellefu ára drengur sagði: „Þegar ég er einn og horfi út um gluggann sé ég hve stórkostleg sköpunarverk Jehóva eru. Þá læt ég mig dreyma um hve falleg paradís framtíðarinnar verður og hvernig ég get snert dýrin.“ (Jesaja 11:6-9) Hann bætti við: „Þegar ég er einn bið ég til Jehóva. Ég veit að hann reiðist mér ekki þótt ég sé alltaf að tala við hann. Ég veit að hann er alltaf til staðar og fylgist með mér.“ Er skaparinn jafnraunverulegur fyrir þér og þessum dreng?
Hve raunverulegur er Guð þér?
2. (a) Hvernig getur skapari þinn verið þér raunverulegur? (b) Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum að skilja að Guð er raunveruleg persóna?
2 Jehóva og fyrirheit hans þurfa að vera þér raunveruleg. Þú þarft að kynnast honum og þeirri stórkostlegu framtíð í réttlátum, nýjum heimi sem hann býður þér og Biblían lýsir. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Ef foreldrar þínir hafa frætt þig um þetta, þá hefurðu ástæðu til að vera þakklátur af því að þá ertu fær um að fara eftir hinum innblásnu fyrirmælum: „Mundu eftir skapara þínum.“ (Prédikarinn 12:1) Unglingsstúlka sagði um þá þjálfun sem foreldrar hennar veittu henni: „Jehóva tengdist öllu í lífinu. Það var lykillinn að því að muna eftir skapara mínum.“ Önnur ung kona sagði: „Ég verð foreldrum mínum ævinlega þakklát fyrir að kenna mér að Jehóva er raunveruleg persóna. Þau kenndu mér að elska hann og sögðu mér frá gleðinni af því að þjóna honum í fullu starfi.“
3, 4. Hvað getur hjálpað þér að hugsa um Jehóva sem raunverulega persónu?
3 Margir eiga samt erfitt með að sjá fyrir sér að Guð sé raunveruleg persóna sem hafi áhuga á þeim. Hvað finnst þér? Eftirfarandi klausur í Varðturninum hjálpuðu unglingi nokkrum að sjá Guð sem persónu: „Við vitum ekki hve stór Jehóva Guð er.“ Hátign Guðs er að sjálfsögðu ekki fólgin í stærð hans eða lögun eins og fram kom í næstu setningu blaðsins: „Mikilleiki hans er fólginn í því hvers konar Guð hann er,“ trúfastur, meðaumkunarsamur, kærleiksríkur og fús til að fyrirgefa.a (2. Mósebók 34:6; 5. Mósebók 32:4; Sálmur 86:5; Jakobsbréfið 5:11) Hefur þú lært að líta á Jehóva sem slíka persónu, sem traustan vin er þú getur átt dýrmætt samband við? — Jesaja 41:8; Jakobsbréfið 2:23.
4 Jesús hjálpaði fyrstu fylgjendum sínum að eiga einkasamband við Guð. Þegar Jóhannes postuli skrifaði um himnesku upprisuna, sem hann vænti, sagði hann: „Þá munum vér verða [Guði] líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er.“ (1. Jóhannesarbréf 3:2; 1. Korintubréf 15:44) Nútímaunglingar geta líka lært að líta á Guð sem raunverulega persónu og kynnst honum vel, enda þótt þeir sjái hann ekki. Ungur maður sagði: „Foreldrar mínir hjálpuðu mér að muna eftir Jehóva með því að spyrja margra spurninga svo sem: ‚Hvað heldurðu að Jehóva segði? Hvernig útskýrirðu það með eigin orðum? Hvað merkir þetta?‘“ Eru ekki spurningar sem þessar ágæt hjálp til að hugsa um einkasamband okkar við Guð?
Hvað þýðir það að muna?
5. Hvaða biblíudæmi sýna að það þarf meira en að muna nafn til að muna eftir einhverjum?
5 Að hlýða þeim fyrirmælum að ‚muna eftir skapara sínum‘ er meira en aðeins að hugsa um Jehóva. Það felur í sér verknað, að gera honum til hæfis. Þegar afbrotamaðurinn sárbændi Jesú: „Minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt!“ vildi hann að Jesús gerði meira en að muna hvað hann héti. Hann vildi að Jesús gerði eitthvað fyrir hann, það er að segja reisti hann upp. (Lúkas 23:42) Eins vænti Jósef einhverra verka í sína þágu þegar hann var í fangelsi og bað byrlara Faraós að minnast sín við Faraó. Og þegar Job bað Guð að ‚minnast sín‘ var hann að biðja þess að Guð reisti hann upp einhvern tíma í framtíðinni. — Jobsbók 14:13; 1. Mósebók 40:14, 23.
6. Hvernig gefur hebreska orðið fyrir „muna, minnast“ í skyn ást á því eða þeim sem munað er eftir?
6 Heimildarmaður nokkur segir að hebreska orðið, sem þýtt er „muna, minnast,“ merki oft „þá hugarástúð og þau verk sem fylgja minni og minningum.“ Tengsl ‚ástúðar‘ og orðsins „muna“ sjást vel á upphrópun ‚útlenda lýðsins‘ í eyðimörkinni: „Víst munum vér eftir fiskinum, sem vér átum á Egyptalandi.“ Hiskía, Nehemía, Davíð og ónafngreindur sálmaritari báðu Jehóva að minnast sín með ástúð vegna trúfesti þeirra, líkt og Job bað Guð að minnast sín með vinsemd. — 4. Mósebók 11:4, 5; 2. Konungabók 20:3; Nehemíabók 5:19; 13:31; Sálmur 25:7; 106:4.
7. Hvaða áhrif getur það haft á breytni okkar ef við munum eftir Guði með ástúð?
7 Við gætum því spurt hvort við munum eftir skapara okkar með ástúð og forðumst að gera nokkuð sem gæti hryggt hann eða sært. Unglingur segir: „Mamma leiddi mér fyrir sjónir að Jehóva hefur tilfinningar, og mér var snemma ljóst að það sem ég gerði hafði áhrif á hann.“ (Sálmur 78:40-42) Annar unglingur segir: „Ég vissi að það sem ég gerði gat annaðhvort verið Jehóva hjálp við að svara ögrun Satans eða hindrun. Ég vildi gleðja hjarta Jehóva og það hjálpaði mér þá og hjálpar enn.“ — Orðskviðirnir 27:11.
8. (a) Hvað gefur til kynna hvort við munum eftir Jehóva með ástúð? (b) Hvaða spurningar ættu börn og unglingar að hugleiða?
8 Vissulega er ekki alltaf auðvelt í þessum illa heimi að muna eftir Jehóva með því að eiga fullan þátt í starfi sem gleður hann. En hversu gott væri það ekki ef þú gætir líkt eftir hinum unga Tímóteusi á fyrstu öld — að ógleymdum þúsundum guðhræddra ungmenna nútímans — með því að þjóna í fullu starfi sem brautryðjandi! (Postulasagan 16:1-3; 1. Þessaloníkubréf 3:2) En spyrja má hvort þú gætir séð fyrir þér ef þú gerðist brautryðjandi? Og ef þú gengir í hjónaband, hefðirðu þá menntun eða kunnáttu til að sjá fjölskyldu þinni farborða? (1. Tímóteusarbréf 5:8) Þetta eru mikilvægar spurningar sem þú þarft að hugleiða vel.
Menntun með markmið
9. Hvaða ákvörðun þurfa unglingar að taka í sambandi við veraldlega menntun?
9 Því flóknara sem mannlegt samfélag verður, þeim mun meiri menntun þarf oft til að fá vinnu sem dugir til að sjá fyrir sér í brautryðjandastarfi. Þú hefur ef til vill veitt eftirtekt að jafnvel háskólamenntað fólk þarf stundum að endurmennta sig til að afla sér nýrrar kunnáttu sem vinnuveitendur sækjast eftir nú á dögum. Hve mikla skólagöngu þurfa þá unglingar sem vilja þóknast Guði? Ákvörðunin ætti að taka mið af hinum innblásnu fyrirmælum: „Mundu eftir skapara þínum.“
10. Hver er besta menntun sem hægt er að fá?
10 Þú vilt auðvitað fá þá menntun sem jafnvel margir veraldlegir heimildarmenn álíta bestu menntunina — menntun sem fæst með rækilegu námi í orði Guðs. Þýski rithöfundurinn Johann Wolfgang von Goethe sagði: „Því meiri vitsmunalegum framförum sem [þjóð] tekur, þeim mun auðveldara verður að nota Biblíuna, bæði sem undirstöðu og sem verkfæri til menntunar.“ Já, biblíunám er betri undirbúningur fyrir lífið en nokkur önnur menntun! — Orðskviðirnir 2:6-17; 2. Tímóteusarbréf 3:14-17.
11. (a) Hvert er þýðingarmesta starf sem við getum unnið? (b) Hvers vegna ákvað unglingur einn að afla sér viðbótarmenntunar?
11 Þar eð þekking á Guði er lífgandi er ekkert starf þýðingarmeira núna en að koma þessari þekkingu á framfæri við aðra. (Orðskviðirnir 3:13-18; Jóhannes 4:34; 17:3) En til að gera það á áhrifaríkan hátt þarftu vissa undirstöðumenntun. Þú þarft að vera vel læs og skrifandi og geta hugsað skýrt og talað rökrétt — og það lærirðu í skóla. Taktu því skólanámið alvarlega líkt og Tracy í Flórída í Bandaríkjunum sem fékk heiðursverðlaun þegar hún útskrifaðist úr framhaldsskóla. Hún lýsti von sinni þannig: „Ég hef alltaf haft það markmið að þjóna Guði mínum, Jehóva, í fullu starfi, og ég vona að menntun mín hjálpi mér að ná því markmiði.“
12. Hvaða markmiði getur viðbótarmenntun hjálpað okkur að ná ef kosið er að afla sér hennar?
12 Hefurðu hugleitt af hverju þú ert í skóla? Er það fyrst og fremst til að þú getir orðið dugmikill þjónn Jehóva? Ef svo er viltu eflaust leiða hugann alvarlega að því hve vel menntun þín hjálpi þér að ná því markmiði. Eftir að þú hefur ráðfært þig við foreldra þína er kannski ákveðið að þú skulir halda áfram í skóla eftir að skyldunámi lýkur. Slík viðbótarmenntun gæti hjálpað þér að fá vinnu til að sjá fyrir þér, en þó látið þig hafa tíma og krafta aflögu til að taka fullan þátt í starfi Guðsríkis. — Matteus 6:33.
13. Hvernig hafa tvær rússneskar stúlkur, sem öfluðu sér viðbótarmenntunar, sýnt hvaða markmið þær hafa í lífinu?
13 Sumir gegna brautryðjandastarfi samhliða framhaldsskólanámi. Tökum unglingsstúlkurnar Nadíu og Marínu í Moskvu sem dæmi. Báðar létu þær skírast í apríl 1994 og gerðust þá aðstoðarbrautryðjendur. Skömmu síðar útskrifuðust þær úr almennum framhaldsskóla og létu þá innrita sig til tveggja ára bókhaldsnáms. Í maí 1995 hófu þær reglulegt brautryðjandastarf en tókst þó að fá A í meðaleinkunn í bókhaldsnáminu. Auk þess gátu þær stjórnað samanlagt 14 biblíunámum í viku samhliða skólanáminu. Stúlkurnar vonast til að bókhaldsmenntunin geri þeim kleift að finna vinnu sem dugir þeim til að framfleyta sér í fullu starfi sem boðberar.
14. Hvað ætti að vera þýðingarmest í lífi okkar, óháð því hvaða veraldlegrar menntunar við öflum okkur?
14 Ef þú aflar þér framhaldsmenntunar umfram skyldunám skaltu íhuga vandlega hvers vegna þú gerir það. Er það til þess að skapa þér nafn og komast í álnir? (Jeremía 45:5; 1. Tímóteusarbréf 6:17) Eða er markmiðið það að nota viðbótarmenntunina til að eiga meiri hlutdeild í þjónustu Jehóva? Lýdía, stúlka sem ákvað að afla sér viðbótarmenntunar, sýndi að hún hafði andlegu málin skýr í huga er hún sagði: „Aðrir [sem ekki eru vottar] stunda framhaldsnám og láta efnishyggjuna þvælast fyrir sér, og þeir hafa gleymt Guði. Í huga mér er sambandið við Guð það mikilvægasta.“ Þetta er hrósunarvert viðhorf sem við ættum öll að hafa!
15. Hvaða ólíka menntun höfðu frumkristnir menn?
15 Kristnir menn á fyrstu öld höfðu ólíka og mismikla menntun. Postularnir Pétur og Jóhannes voru til dæmis álitnir „ólærðir leikmenn“ af því að þeir höfðu ekki hlotið menntun í rabbínaskólunum. (Postulasagan 4:13) Páll postuli fékk hins vegar menntun sambærilega við háskólamenntun nútímans. En Páll notaði ekki menntun sína til að draga athyglina að sjálfum sér heldur kom hún honum að gagni þegar hann prédikaði fyrir fólki úr öllum þjóðfélagsstéttum. (Postulasagan 22:3; 1. Korintubréf 9:19-23; Filippíbréfið 1:7) Og Manaen, sem var „samfóstri Heródesar fjórðungsstjóra“ og menntaður með honum, var einn þeirra sem tóku forystuna í söfnuðinum í Antíokkíu. — Postulasagan 13:1.
Hvers vegna að fara vel með peninga?
16. (a) Hvers vegna getur verið erfiðara fyrir skuldugan mann að muna eftir skapara sínum? (b) Hvernig sýnir ein af dæmisögum Jesú að nauðsynlegt sé að hugsa áður en við eyðum?
16 Ef þú ferð ekki vel með peninga getur verið erfiðara fyrir þig að muna eftir skapara þínum og gera það sem er honum þóknanlegt. Ef þú lendir í skuldum má nefnilega segja að þú eigir þér annan húsbónda. Biblían segir: „Lánþeginn verður þræll lánsalans.“ (Orðskviðirnir 22:7) Ein af dæmisögum Jesú leggur áherslu á hve mikilvægt sé að hugsa áður en við eyðum. „Hver yðar sest ekki fyrst við, ef hann ætlar að reisa turn,“ sagði hann, „og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu? Ella má svo fara, að hann leggi undirstöðu, en fái ekki við lokið, og allir, sem það sjá, taki að spotta hann.“ — Lúkas 14:28, 29.
17. Hvers vegna er oft erfitt að hafa hemil á útgjöldum sínum?
17 Það er því viturlegt af þér að reyna að lifa eftir þeirri meginreglu Biblíunnar að ‚skulda ekki neinum neitt nema það eitt að elska hver annan.‘ (Rómverjabréfið 13:8) En það er erfitt, einkum í ljósi hins stöðuga framboðs af nýjum vörum sem auglýsendur fullyrða að þú þarfnist. Faðir nokkur hefur reynt að þroska dómgreind barna sinna, og hann segir: „Við höfum eytt miklum tíma í að ræða hvað sé þörf og hvað sé löngun.“ Skólarnir kenna það yfirleitt ekki og veita litla ef nokkra fræðslu um skynsamlega meðferð fjármuna. „Við vitum meira um jafnarma þríhyrninga en um sparnað þegar við útskrifumst úr framhaldsskóla,“ segir félagsráðgjafi. Hvað getur þá hjálpað þér að fara vel með peninga?
18. Hver er lykillinn að því að fara viturlega með peninga og hvers vegna?
18 Áminningin „mundu eftir skapara þínum“ er lykillinn að því að fara vel með fjármuni. Það stafar af því að þegar þú hlýðir þessum fyrirmælum leggur þú aðaláhersluna á að þóknast Jehóva, og ást þín á honum hefur áhrif á það hvernig þú eyðir peningunum þínum. Þá leyfir þú ekki eigin löngunum að standa í vegi fyrir því að þú þjónir Guði af allri sálu. (Matteus 16:24-26) Þú kappkostar að varðveita auga þitt „heilt,“ það er að segja með Guðsríki og vilja hans í brennidepli. (Matteus 6:22-24) Þá lítur þú á það sem gleðileg sérréttindi að „tigna [Jehóva] með eigum þínum,“ eins og hvatt er til í Orðskviðunum 3:9.
Börn og unglingar sem eru góð fyrirmynd
19. Hvernig hafa börn og unglingar munað eftir skapara sínum í fortíðinni?
19 Sem betur fer hafa mörg börn og unglingar, bæði fyrr og nú, munað eftir skapara sínum. Samúel litli var staðfastur í tjaldbúðarþjónustunni þrátt fyrir siðlaus áhrif þeirra sem hann þjónaði með. (1. Samúelsbók 2:12-26) Þótt kona Pótífars væri lokkandi tókst henni ekki að tæla hinn unga Jósef til að drýgja hór. (1. Mósebók 39:1-12) Jeremía prédikaði hugrakkur þrátt fyrir mikla andstöðu, þótt hann væri „enn svo ungur.“ (Jeremía 1:6-8) Lítil Ísraelsstúlka hvatti voldugan, sýrlenskan hershöfðingja óttalaus til að leita hjálpar í Ísrael þar sem hann gat kynnst Jehóva. (2. Konungabók 5:1-4) Hinn ungi Daníel og félagar hans varðveittu trú sína þegar reyndi á þá í sambandi við lög Guðs um mataræði. Og ungu mennirnir Sadrak, Mesak og Abed-Negó létu heldur kasta sér í eldsofn en að falla fram fyrir líkneski og hvika þannig frá hollustu sinni við Guð. — Daníel 1:8, 17; 3:16-18; 2. Mósebók 20:5.
20. Hvernig hefur margt ungt fólk munað eftir skapara sínum nú á dögum?
20 Nú þjóna meira en 2000 ungmenni á aldrinum 19 til 25 ára við aðalstöðvar votta Jehóva í New York í Bandaríkjunum. Þau eru aðeins lítið brot þeirra tugþúsunda ungmenna um heim allan sem muna eftir skapara sínum. Líkt og Jósef til forna hafa þau neitað að hvika frá siðferðilegum hreinleika sínum. Mörg þeirra hafa hlýtt Guði framar en mönnum þegar þau hafa þurft að velja hverjum þau þjónuðu. (Postulasagan 5:29) Árið 1946 var 15 ára pólsk stúlka, Henryka Zur, pynduð er hún neitaði að gera falstrúartákn. „Þú getur hugsað hvað sem þú vilt innra með þér,“ sagði einn kvalari hennar. „Gerðu bara kaþólskt krossmark.“ En hún neitaði og var dregin út í skóg og skotin. Hún varðveitti örugga von sína um eilíft líf!b
21. Hvaða boð væri viturlegt að þiggja og með hvaða afleiðingum?
21 Það hlýtur að ylja Jehóva um hjartaræturnar að sjá unga fólkið sem hefur munað eftir honum í aldanna rás! Ætlar þú að taka til þín hvatninguna: „Mundu eftir skapara þínum“? Hann er svo sannarlega þess verður að þú munir eftir honum! Hugsaðu daglega um allt sem hann hefur gert fyrir þig og á eftir að gera, og þiggðu boð hans: „Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ — Orðskviðirnir 27:11.
[Neðanmáls]
a Varðturninn (enska útgáfa), 15. desember 1953, bls. 750.
b Sjá Árbók votta Jehóva 1994, bls. 217-18, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Manstu?
◻ Hvernig er hægt að hjálpa börnum og unglingum að líta á Guð sem raunverulega persónu?
◻ Hvað merkir það að muna eftir skapara sínum?
◻ Hvaða tilgangi ætti menntun okkar að þjóna?
◻ Hvers vegna er mikilvægt að fara viturlega með peninga?
◻ Hvaða unglingar og ungmenni eru verð eftirbreytni?
[Mynd á blaðsíðu 16]
Hefurðu hugleitt af hverju þú ert í skóla?
[Mynd á blaðsíðu 17]
Ertu að læra að fara vel með peninga?