Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w97 1.4. bls. 9-13
  • Verið hugrökk, frelsunin er í nánd

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Verið hugrökk, frelsunin er í nánd
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „Örðugar tíðir“
  • Engin frelsun af mannavöldum
  • Frelsun í nánd — handa hverjum?
  • Frelsarinn mikli
  • Frelsun forðum daga
  • Búðu þig undir frelsun inn í nýjan heim
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Lausnin er í nánd — fyrir atbeina Guðsríkis
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2008
  • Kanntu að meta það sem Jehóva hefur gert til að veita þér lausn?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
  • Frelsun inn í réttlátan, nýjan heim
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
w97 1.4. bls. 9-13

Verið hugrökk, frelsunin er í nánd

„Ég er með þér til þess að frelsa þig — [Jehóva] segir það.“ — JEREMÍA 1:19.

1, 2. Hvers vegna þarfnast mannkynið frelsunar?

FRELSUN! Þetta er hughreystandi orð. Frelsun er sama og björgun, að losna með annarra hjálp úr óþægilegri og dapurlegri aðstöðu. Orðið gefur í skyn miklu betri og ánægjulegri stöðu.

2 Mannkynið þarfnast slíkrar frelsunar svo sannarlega núna. Alls staðar hvíla erfið vandamál þungt á fólki og draga úr því kjark — fjárhagsleg vandamál, félagsleg, líkamleg, geðræn og tilfinningaleg. Þorri manna er vonsvikinn og óánægður með það hvert heimurinn stefnir og vill sjá breytingu til batnaðar. — Jesaja 60:2; Matteus 9:36.

„Örðugar tíðir“

3, 4. Af hverju er meiri þörf á frelsun núna en nokkru sinni fyrr?

3 Þjáningar 20. aldarinnar eru meiri en áður hafa þekkst, þannig að frelsunarþörfin er meiri en nokkru sinni fyrr. Yfir milljarður manna býr við sárustu örbirgð og um 25 milljónir manna bætast árlega í hópinn. Ár hvert deyja um 13 milljónir barna úr vannæringu eða af öðrum orsökum sem rekja má til fátæktar — meira en 35.000 börn á dag! Og milljónir aldraðra deyja um aldur fram úr ýmsum sjúkdómum. — Lúkas 21:11; Opinberunarbókin 6:8.

4 Stríð og óeirðir hafa valdið ólýsanlegum þjáningum. Bókin Death by Government segir að stríð, þjóðernis- og trúarátök og fjöldamorð stjórnvalda á eigin borgurum hafi „kostað meira en 203 milljónir manna lífið á þessari öld.“ Og áfram segir bókin: „Hugsanlegt er að talan sé nærri 360 milljónum manna. Það er engu líkara en að einhver nútímasvartidauði hafi stráfellt tegundina maður. Og það hefur gerst, ekki vegna sýklaplágu heldur valdaplágu.“ Bókarhöfundur, Richard Harwood, segir: „Villimannleg stríð liðinna alda voru eins og göturyskingar í samanburði við nútímann.“ — Matteus 24:6, 7; Opinberunarbókin 6:4.

5, 6. Hvað gerir okkar tíma svona þjakandi?

5 Ekki bætir úr skák hve ofbeldisglæpir og siðleysi hefur aukist á síðustu árum og fjölskyldunni hnignað. Fyrrverandi menntamálaráðherra Bandaríkjanna, William Bennett, benti á að á síðastliðnum 30 árum hafi Bandaríkjamönnum fjölgað um 41 af hundraði, en ofbeldisglæpir hafi aukist um 560 prósent, óskilgetnum börnum um 400 prósent, hjónaskilnuðum um 300 prósent og sjálfsmorðum unglinga um 200 prósent. John DiIulio yngri, prófessor við Princeton-háskóla, varar við æ fleiri ungum „ofur-rándýrum“ sem „myrða, ráðast á, nauðga, ræna, brjótast inn og valda alvarlegri þjóðfélagsröskun. Þau óttast ekki þá skömm að vera handtekin, þá kvöl að sitja í fangelsi eða sársauka samviskubits.“ Þar í landi eru manndráp orðin næstalgengasta dánarorsök 15 til 19 ára unglinga. Og fleiri börn undir fjögurra ára aldri deyja af völdum misþyrminga en sjúkdóma.

6 Slíkir glæpir og ofbeldi takmarkast ekki við eina þjóð. Þróunin er svipuð víðast hvar. Stóraukin fíkniefnaneysla, sem spillir mönnum í milljónatali, á sinn þátt í því. Ástralska dagblaðið Sydney Morning Herald segir: „Alþjóðleg fíkniefnaverslun er orðin næst ábatasamasta viðskiptagrein í heimi á eftir vopnasölu.“ Ofbeldið og siðleysið, sem tröllríður sjónvarpinu, hefur líka sitt að segja. Víða um lönd eru börn búin að sjá tugþúsundir ofbeldisverka á sjónvarpsskjánum þegar þau ná 18 ára aldri, og ótal siðlausar athafnir. Spillingaráhrifin eru veruleg því að persónuleiki okkar mótast af því sem við nærum hugann á að staðaldri. — Rómverjabréfið 12:2; Efesusbréfið 5:3, 4.

7. Hvernig sögðu spádómar Biblíunnar fyrir hið slæma ástand nútímans?

7 Spádómar Biblíunnar sögðu nákvæmlega fyrir þessa óheillaþróun okkar aldar. Þeir bentu á heimsstyrjaldir, farsóttir, matvælaskort og vaxandi lögbrot. (Matteus 24:7-12; Lúkas 21:10, 11) Og þegar við lesum spádóminn í 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5 er eins og við séum að hlusta á kvöldfréttirnar. Hann bendir á að okkar tímar séu ‚síðustu dagar‘ og lýsir mönnum þannig að þeir séu ‚sérgóðir, fégjarnir, foreldrum óhlýðnir, vanheilagir, kærleikslausir, taumlausir, grimmir, ofmetnaðarfullir og elski munaðarlífið meira en Guð.‘ Það er einmitt þannig sem heimurinn er núna. Eins og William Bennett viðurkennir: „Það eru hreinlega allt of mörg teikn á lofti um að . . . siðmenningin sé orðin rotin.“ Það hefur jafnvel verið sagt að siðmenningin hafi liðið undir lok með fyrri heimsstyrjöldinni.

8. Hvers vegna lét Guð flóðið koma á dögum Nóa og hvernig tengist það okkar tímum?

8 Ástandið er orðið verra en það var fyrir flóðið á dögum Nóa þegar „jörðin fylltist glæpaverkum.“ Á þeim tímum vildu fæstir iðrast vondra verka sinna. Guð sagði því: „Jörðin er full af glæpaverkum þeirra. Sjá, ég vil afmá þá.“ Sá ofbeldisfulli heimur leið undir lok í flóðinu. — 1. Mósebók 6:11, 13; 7:17-24.

Engin frelsun af mannavöldum

9, 10. Af hverju ættum við ekki að búast við frelsun af mannavöldum?

9 Getur mannlegur máttur frelsað okkur frá þessu vonda ástandi? Orð Guðs svarar: „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.“ „[Það er ekki] á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Sálmur 146:3; Jeremía 10:23) Árþúsundalöng mannkynssaga færir okkur heim sanninn um það. Menn hafa prófað alla hugsanlega þjóðfélagsgerð og alls kyns stjórnmála- og efnahagskerfi en ástandið hefur bara versnað. Ef menn hefðu lausn á vandanum væri hún komin fram núna. En veruleikinn er sá að ‚einn maðurinn hefur drottnað yfir öðrum honum til ógæfu.‘ — Prédikarinn 8:9; Orðskviðirnir 29:2; Jeremía 17:5, 6.

10 Fyrir nokkru sagði Zbigniew Brzezinski, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta: „Hlutlaus athugun á þróuninni í heimsmálum leiðir óhjákvæmilega í ljós að þjóðfélagsólga, stjórnmálaórói, efnahagskreppa og ágreiningur í alþjóðamálum eigi trúlega eftir að aukast.“ Hann bætir við: „Alþjóðlegt stjórnleysi ógnar mannkyninu.“ Þetta mat á heimsástandinu á jafnvel enn betur við núna. Í ritstjórnargrein í dagblaðinu Register í New Haven í Connecticut í Bandaríkjunum var vikið að þessu aukna ofbeldi og þar sagði: „Við virðumst allt of langt leidd til að geta stöðvað það.“ Hnignun þessa heims verður ekki stöðvuð því að spádómurinn um hina ‚síðustu daga‘ sagði einnig: „Vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:13.

11. Hvers vegna geta menn ekki snúið við hinu versnandi heimsástandi?

11 Menn geta ekki snúið þessari þróun við því að Satan er „guð þessarar aldar.“ (2. Korintubréf 4:4) Já, „allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19; sjá einnig Jóhannes 14:30.) Biblían segir réttilega um okkar daga: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ (Opinberunarbókin 12:12) Satan veit að stjórn hans og heimur hans er að líða undir lok, þannig að hann er „sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.“ — 1. Pétursbréf 5:8.

Frelsun í nánd — handa hverjum?

12. Handa hverjum er frelsun í nánd?

12 Hinir vaxandi erfiðleikar á jörðinni eru áberandi sönnun fyrir því að gríðarleg breyting — já, stórkostleg frelsun — sé í nánd! Handa hverjum? Þeim sem gefa gaum að viðvörunarmerkjunum og gera viðeigandi ráðstafanir. Fyrsta Jóhannesarbréf 2:17 bendir á hvað gera þurfi: „Heimurinn [heimskerfi Satans] fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — Sjá einnig 2. Pétursbréf 3:10-13.

13, 14. Hvernig lagði Jesús áherslu á að við þyrftum að vaka?

13 Jesús sagði fyrir að hinu spillta þjóðfélagi nútímans verði bráðlega sópað burt í þrengingu „sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða“ aftur. (Matteus 24:21) Þess vegna varaði hann við: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð. Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum.“ — Lúkas 21:34-36.

14 Þeir sem ‚hafa gát á sér‘ og ‚vaka‘ kynna sér hver sé vilji Guðs og gera hann síðan. (Orðskviðirnir 2:1-5; Rómverjabréfið 12:2) Það eru þeir sem ‚mega umflýja‘ eyðinguna sem kemur bráðlega yfir heimskerfi Satans. Og þeir geta treyst fullkomlega að þeir verði frelsaðir. — Sálmur 34:16; Orðskviðirnir 10:28-30.

Frelsarinn mikli

15, 16. Hver er frelsarinn mikli og hvers vegna erum við þess fullviss að dómar hans verði réttlátir?

15 Svo að unnt sé að frelsa þjóna Guðs þarf að ryðja Satan úr vegi og eyða heimskerfi hans. Til þess þarf margfalt voldugari frelsara en menn. Þessi frelsari er Jehóva Guð, hinn hæsti Drottinn, alvaldur skapari hins mikilfenglega alheims. Hann er frelsarinn mikli: „Ég, ég er [Jehóva], og enginn frelsari er til nema ég.“ — Jesaja 43:11; Orðskviðirnir 18:10.

16 Í Jehóva sameinast máttur, viska, réttvísi og kærleikur í æðstu mynd. (Sálmur 147:5; Orðskviðirnir 2:6; Jesaja 61:8; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Þess vegna megum við vera viss um að verk hans verði réttlát þegar hann fullnægir dómum sínum. Abraham spurði: „Mun dómari alls jarðríkis ekki gjöra rétt?“ (1. Mósebók 18:24-33) Páll sagði: „Er Guð óréttvís? Fjarri fer því.“ (Rómverjabréfið 9:14) Og Jóhannes skrifaði: „Já, [Jehóva] Guð, þú alvaldi, sannir og réttlátir eru dómar þínir.“ — Opinberunarbókin 16:7.

17. Hvernig sýndu þjónar Jehóva forðum daga traust sitt á fyrirheit hans?

17 Þegar Jehóva heitir frelsun bregst hún ekki. Jósúa sagði: „Ekkert brást af öllum fyrirheitum þeim, er [Jehóva] hafði gefið húsi Ísraels.“ (Jósúabók 21:45) Salómon sagði: „Ekkert af öllum hans dýrlegu fyrirheitum . . . hefir brugðist.“ (1. Konungabók 8:56) Páll postuli benti á að Abraham ‚hafi ekki efast með vantrú heldur verið þess fullviss að Guð væri máttugur að efna það sem hann hefði lofað.‘ Sara ‚treysti líka Guði sem fyrirheitið hafði gefið.‘ — Rómverjabréfið 4:20, 21; Hebreabréfið 11:11, neðanmáls.

18. Hvers vegna geta þjónar Jehóva nú á tímum treyst að þeir verði frelsaðir?

18 Ólíkt mönnum er Jehóva fullkomlega áreiðanlegur og orðheldinn. „[Jehóva] allsherjar hefir svarið og sagt: Sannlega, það, sem ég hefi fyrirhugað, skal verða og það, sem ég hefi ályktað, skal framgang fá.“ (Jesaja 14:24) Þegar Biblían segir að Jehóva viti „hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu, en refsa hinum ranglátu og geyma þá til dómsdags,“ þá getum við treyst fullkomlega að það gerist. (2. Pétursbréf 2:9) Jafnvel þegar öflugir óvinir hóta að tortíma þjónum Jehóva, þá geta þeir verið hugrakkir vegna þess að afstaða hans endurspeglast í fyrirheiti hans við einn af spámönnum sínum: „Þótt þeir berjist gegn þér, þá munu þeir eigi fá yfirstigið þig, því að ég er með þér til þess að frelsa þig — [Jehóva] segir það.“ — Jeremía 1:19; Sálmur 33:18, 19; Títusarbréfið 1:2.

Frelsun forðum daga

19. Hvernig frelsaði Jehóva Lot og hvað er hliðstætt við það nú á tímum?

19 Það er mjög hvetjandi fyrir okkur að rifja upp sum fyrri björgunarverk Jehóva. Til dæmis „mæddist“ Lot mjög af vonsku Sódómu og Gómorru. En Jehóva tók eftir ‚hrópinu‘ yfir þessum borgum. Á réttum tíma gerði hann út sendiboða til að hvetja Lot og fjölskyldu hans til að yfirgefa svæðið þegar í stað. Og með hvaða árangri? Jehóva „frelsaði Lot, hinn réttláta mann,“ en „brenndi borgirnar Sódómu og Gómorru til ösku.“ (2. Pétursbréf 2:6-8; 1. Mósebók 18:20, 21) Núna heyrir Jehóva líka hrópið yfir ógurlegri vonsku þessa heims. Þegar nútímasendiboðar hans hafa lokið áríðandi vitnisburði sínum að því marki sem hann vill, þá lætur hann til skarar skríða gegn þessum heimi og frelsar þjóna sína eins og hann frelsaði Lot. — Matteus 24:14.

20. Lýstu hvernig Jehóva frelsaði Ísraelsmenn að fornu frá Egyptalandi.

20 Milljónir þjóna Guðs voru í þrælkun í Forn-Egyptalandi. Jehóva sagði um þá: „Ég hefi . . . heyrt hversu hún [þjóð Guðs] kveinar . . . ég veit, hversu bágt hún á. Ég er ofan farinn til að frelsa hana.“ (2. Mósebók 3:7, 8) En eftir að Faraó hafði leyft fólki Guðs að fara skipti hann um skoðun og elti það með öflugum her. Ísraelsmenn virtust innikróaðir við Rauðahafið. En Móse sagði: „Óttist ekki. Standið stöðugir, og munuð þér sjá hjálpræði [Jehóva], er hann í dag mun láta fram við yður koma.“ (2. Mósebók 14:8-14) Jehóva opnaði Rauðahafið og Ísraelsmenn komust undan. Her Faraós elti þá en Jehóva beitti mætti sínum þannig að „hafið huldi þá, þeir sukku sem blý niður í hin miklu vötn.“ Á eftir fagnaði Móse í söng til Jehóva: „Hver er sem þú, dýrlegur að heilagleik, dásamlegur til lofsöngva, þú sem stórmerkin gjörir?“ — 2. Mósebók 15:4-12, 19.

21. Hvernig var fólk Jehóva frelsað undan Ammónítum, Móabítum og Seírfjallabúum?

21 Öðru sinni hótuðu óvinaþjóðirnar Ammónítar, Móabítar og Seírfjallabúar (Edómítar) að eyða fólki Jehóva. Jehóva sagði: „Hræðist eigi né skelfist fyrir þessum mikla mannfjölda [óvinunum], því að eigi er yður búinn bardaginn, heldur Guði. . . . Eigi þurfið þér að berjast við þá, . . . standið kyrrir og sjáið liðsinni [Jehóva] við yður.“ Jehóva frelsaði fólk sitt með því að valda algeru uppnámi meðal óvinanna þannig að þeir drápu hver annan. — 2. Kroníkubók 20:15-23.

22. Hvernig frelsaði Jehóva Ísraelsmenn á undraverðan hátt undan Assýringum?

22 Þegar assýrska heimsveldið settist um Jerúsalem hæddi Sanheríb konungur Jehóva og sagði við fólkið á múrnum: „Hverjir eru þeir af öllum guðum þessara landa [sem ég hef unnið], er frelsað hafi lönd sín undan minni hendi, svo að [Jehóva] skyldi fá frelsað Jerúsalem undan minni hendi?“ Við þjóna Guðs sagði hann: „Látið eigi Hiskía koma yður til að treysta á [Jehóva] með því að segja: ‚[Jehóva] mun vissulega frelsa oss.‘“ Hiskía bað innilega um frelsun „svo að öll konungsríki jarðar megi við kannast, að þú, [Jehóva], einn ert Guð.“ Jehóva drap 185.000 assýrska hermenn og frelsaði þjóna sína. Síðar, þegar Sanheríb var að dýrka falsguð sinn, réðu synir hans honum bana. — Jesaja 36. og 37. kafli.

23. Hvaða spurningum þarf að svara um frelsun nú á tímum?

23 Við getum vissulega verið hugrökk þegar við sjáum hvernig Jehóva frelsaði þjóna sína með stórkostlegum hætti forðum daga. Hvað um okkar tíma? Hvaða hættuástand skapast bráðlega sem frelsa þarf trúfasta þjóna hans úr með undraverðum hætti? Hvers vegna hefur hann beðið þangað til núna með að frelsa þá? Hvernig uppfyllast orð Jesú: „Þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd“? (Lúkas 21:28) Og hvernig verða látnir þjónar Guðs frelsaðir? Þessum spurningum er svarað í greininni á eftir.

Upprifjunarspurningar

◻ Hvers vegna er mikil þörf á frelsun?

◻ Hvers vegna ættum við ekki að vænta frelsunar af mannavöldum?

◻ Handa hverjum er frelsun í nánd?

◻ Hvers vegna getum við treyst á frelsun fyrir atbeina Jehóva?

◻ Hvaða fortíðardæmi um frelsun eru hvetjandi?

[Mynd á blaðsíðu 10]

Abraham var einn þeirra manna sem bar fullt traust til Jehóva.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila