Sannur friður — hvaðan?
„[Jehóva] stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar.“ — SÁLMUR 46:10.
1. Hvaða stórfenglegt loforð um frið finnum við í spádómi Jesaja?
„ÁVÖXTUR réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu. Þá skal þjóð mín búa í heimkynni friðarins, í híbýlum öruggleikans og í rósömum bústöðum.“ (Jesaja 32:17, 18) Þetta er sannarlega fagurt loforð! Það er loforð um sannan frið fyrir tilstilli Guðs.
2, 3. Lýstu sönnum friði.
2 En hvað er sannur friður? Er hann einfaldlega það að ekki sé verið að heyja stríð? Eða er hann aðeins það tímabil sem þjóðirnar eru að búa sig undir næstu styrjöld? Er sannur friður aðeins draumur? Við þessum spurningum þurfum við áreiðanleg svör. Fyrir það fyrsta er sannur friður miklu meira en draumur. Friðurinn, sem Guð lofar, nær miklu lengra en nokkuð sem þessi heimur getur ímyndað sér. (Jesaja 64:3) Hann er ekki friður í nokkur ár eða í fáeina áratugi. Hann varir að eilífu! Og hann er ekki bara friður fyrir fámennan forréttindahóp — hann nær yfir himin og jörð, engla og menn. Hann nær til manna af öllum þjóðum, þjóðarbrotum, tungum og litarhætti. Hann þekkir engin landamæri, engar hindranir, engan misbrest. — Sálmur 72:7, 8; Jesaja 48:18.
3 Sannur friður þýðir frið alla daga. Hann þýðir að maður vaknar á hverjum morgni án þess að hugsa um stríð, án þess að hafa áhyggjur af framtíð sinni, framtíð barna sinna eða jafnvel barnabarna. Hann þýðir fullkominn hugarfrið. (Kólossubréfið 3:15) Hann þýðir að aldrei verði framar glæpir, aldrei framar ofbeldi, aldrei framar sundraðar fjölskyldur, aldrei framar heimilislaust fólk, aldrei framar sveltandi eða króknandi fólk, og aldrei framar örvænting og vonbrigði. Og það sem enn betra er, friður Guðs þýðir heim án sjúkdóma, kvala, sorgar og dauða. (Opinberunarbókin 21:4) Hún er stórfengleg vonin sem við höfum um sannan frið að eilífu! Er það ekki þannig friður og hamingja sem við öll þráum? Er það ekki þannig friður sem við ættum að biðja um og vinna að?
Misheppnaðar tilraunir manna
4. Hvaða tilraunir hafa þjóðirnar gert til að koma á friði og með hvaða afleiðingum?
4 Öldum saman hafa menn og þjóðir talað um frið, deilt um frið og undirritað hundruð friðarsamninga. Með hvaða árangri? Síðustu 80 árin hefur nánast aldrei liðið sú stund að einhver þjóð eða hópur hafi ekki átt í stríði. Friðurinn hefur greinilega runnið mannkyninu úr greipum. Spurningin er þess vegna: Af hverju hafa allar tilraunir mannsins til að koma á alþjóðlegum friði brugðist, og af hverju er maðurinn ófær um að koma á sönnum og varanlegum friði?
5. Hvers vegna hafa friðartilraunir manna stöðugt brugðist?
5 Svarið er einfalt. Mannkynið hefur ekki snúið sér í rétta átt til að fá sannan frið. Undir áhrifavaldi Satans djöfulsins hafa menn sett samtök á fót sem verða veikleikum og löstum manna að bráð — græðgi þeirra og metnaði og þorsta þeirra í völd og frama. Þeir hafa leitað til æðri menntasetra og komið á fót stofnunum og hugmyndabönkum sem hafa aðeins upphugsað fleiri leiðir til að kúga og eyðileggja. Hvert hefur mönnum verið beint? Hvert hafa þeir leitað?
6, 7. (a) Hvernig gekk Þjóðabandalaginu að koma á friði? (b) Hvernig hefur Sameinuðu þjóðunum vegnað?
6 Árið 1919 lögðu þjóðirnar traust sitt á Þjóðabandalagið til að koma á varanlegum friði. Sú von fauk út í veður og vind árið 1935 þegar Mussolini réðst inn í Eþíópíu og 1936 þegar borgarastyrjöld hófst á Spáni. Þegar síðari heimsstyrjöldin braust út 1939 lagði Þjóðabandalagið upp laupana. Hinn svonefndi friður hafði ekki einu sinni enst í 20 ár.
7 Hvað um Sameinuðu þjóðirnar? Hafa þær veitt nokkra raunverulega von um varanlegan frið um heim allan? Tæplega. Meira en 150 stríð og vopnuð átök hafa verið háð frá stofnun þeirra árið 1945! Er nokkur furða að Gwynne Dyer, kanadískur fræðimaður í styrjöldum og orsökum þeirra, skuli hafa lýst Sameinuðu þjóðunum sem „samtökum veiðiþjófa sem gerst hafa veiðiverðir, ekki samkundu dýrlinga“ og „að mestu leyti valdalausri skrafstofu.“ — Samanber Jeremía 6:14; 8:15.
8. Hvað hafa þjóðirnar aðhafst þrátt fyrir friðartal sitt? (Jesaja 59:8)
8 Þrátt fyrir friðartal sitt halda þjóðirnar áfram að finna upp og framleiða vopn. Löndin, sem beita sér fyrir friðarráðstefnum, eru oft mestu vopnaframleiðendurnir. Miklir viðskiptahagsmunir í þessum löndum stuðla að framleiðslu banvænna vopna, meðal annars djöfullegra jarðsprengna sem drepa og limlesta um 26.000 óbreytta borgara, fullorðna og börn, á hverju ári. Ágirnd og spilling eru aflvakar alþjóðlegra vopnaviðskipta, mútur og baktjaldamakk þungamiðja þeirra. Sumir stjórnmálamenn auðgast stórum með þessum hætti.
9, 10. Hvað hafa veraldlegir sérfræðingar sagt um styrjaldir og viðleitni manna?
9 Í desember 1995 bað pólski eðlisfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Joseph Rotblat, þjóðirnar að binda enda á vígbúnaðarkapphlaupið. Hann sagði: „Eina leiðin til að koma í veg fyrir [nýtt vígbúnaðarkapphlaup] er að útrýma styrjöldum algerlega.“ Telur þú líklegt að það gerist? Eftir 1928 staðfestu 62 þjóðir Kellogg-Briand sáttmálann, en í honum höfnuðu þær styrjöld sem leið til að skera úr ágreiningi. Síðari heimsstyrjöldin sýndi greinilega að sáttmálinn var ekki virði pappírsins sem hann var ritaður á.
10 Stríð hafa óneitanlega verið stöðug hrösunarhella á vegferð mannkynsins. Það er eins og Gwynne Dyer skrifaði: „Styrjaldir eru grundvallarhefð í siðmenningu mannkyns og saga þeirra er nákvæmlega jafngömul siðmenningunni.“ Já, nánast hver einasta siðmenning og heimsveldi hefur átt sér dáðar stríðshetjur, fastan her, frægar orustur, háheilaga herskóla og vopnabúr. Styrjaldir hafa hins vegar einkennt öldina okkar meira en nokkra aðra, bæði hvað snertir eyðileggingu og manntjón.
11. Hvaða grundvallaratriði hefur þjóðarleiðtogum yfirsést í leitinni að friði?
11 Það er augljóst að leiðtogar heimsins hafa hunsað grundvallarviskuna í Jeremía 10:23: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ Ef Guð er ekki hafður með í ráðum, verður ekki sannur friður. Þýðir þetta þá að styrjaldir verði ekki umflúnar í siðmenntuðu þjóðfélagi? Þýðir þetta að friður — sannur friður — sé aðeins draumsýn?
Komist að rótum vandans
12, 13. (a) Hver segir Biblían að sé hin ósýnilega undirrót styrjalda? (b) Hvernig hefur Satan beint athygli manna frá raunverulegu lausninni á vandamálum heimsins?
12 Til að svara þessum spurningum verðum við að skilja orsakir styrjalda. Biblían segir greinilega að uppreisnargjarni engillinn Satan sé hinn upphaflegi „lygari“ og „manndrápari“ og að ‚allur heimurinn sé á valdi hins vonda.‘ (Jóhannes 8:44; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Hvað hefur hann gert til að koma sínu fram? Við lesum í 2. Korintubréfi 4:3, 4: „Ef fagnaðarerindi vort er hulið, þá er það hulið þeim, sem glatast. Því guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.“ Satan gerir allt sem hægt er til að beina athygli manna frá Guðsríki, lausninni á vandamálum heimsins. Hann blindar fólk og dreifir athygli þess með félagslegum, pólitískum og trúarlegum ágreiningsmálum, þannig að þau virðast mikilvægari en stjórn Guðs. Sú bylgja þjóðernishyggju, sem nýlega hefur risið víða um heim, er dæmi um það.
13 Satan djöfullinn stuðlar að þjóðernishyggju og ættflokkaríg, þeirri trú að ein þjóð, kynþáttur eða ættflokkur sé öðrum æðri. Verið er að endurlífga rótgróið hatur, sem bælt hefur verið niður um aldir, til að kynda undir meiri styrjaldir og átök. Federico Mayor, aðalframkvæmdastjóri UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, varaði við þessari tilhneigingu: „Jafnvel þar sem áður ríkti umburðarlyndi ber æ meira á útlendingahræðslu, og kynþáttafordómar og þjóðrembutal, sem virtist vera liðin tíð, heyrist sífellt oftar.“ Með hvaða afleiðingum? Hin hrikalegu fjöldamorð í fyrrverandi Júgóslavíu og ættflokkablóðbaðið í Rúanda eru aðeins tvö dæmi um þessa þróun sem fjölmiðlar heims hafa fjallað svo mikið um.
14. Hvernig lýsir Opinberunarbókin 6:4 styrjöldum og áhrifum þeirra á okkar tímum?
14 Biblían sagði fyrir að á endalokatíma þessa heimskerfis færi eldrauður hestur, sem táknar styrjaldir, á harðastökki um alla jörðina. Við lesum í Opinberunarbókinni 6:4: „Út gekk annar hestur, rauður, og þeim sem á honum sat var gefið vald að taka burt friðinn af jörðunni, svo að menn brytjuðu hverjir aðra niður. Og honum var fengið sverð mikið.“ Síðan 1914 höfum við séð þennan táknræna riddara „taka burt friðinn“ og þjóðirnar hafa dembt sér út í bardaga og styrjaldir.
15, 16. (a) Hvert hefur hlutverk trúarbragða verið í styrjöldum og drápum? (b) Hvaða augum lítur Jehóva það sem trúarbrögðin hafa gert?
15 Ekki má líta fram hjá þætti trúarbragðanna í þessum styrjöldum og drápum. Að stórum hluta má rekja blóðsúthellingar mannkynssögunnar til áhrifa falstrúarbragðanna. Kaþólski guðfræðingurinn Hans Küng skrifaði: „Um það verður ekki deilt að [trúarbrögðin] hafa haft óhemjuskaðleg og neikvæð áhrif og hafa enn. Svo mikil barátta, blóðug átök, já ‚trúarstyrjaldir,‘ verða að skrifast á þeirra reikning; . . . og einnig heimsstyrjaldirnar tvær.“
16 Hvað finnst Jehóva Guði um hlutverk falstrúarbragðanna í manndrápum og styrjöldum? Í Opinberunarbókinni 18:5 er ákæra Guðs á hendur falstrúarbrögðum skráð. Þar segir: „Syndir hennar hlóðust allt upp til himins og Guð minntist ranglætis hennar.“ Samsekt falstrúarbragðanna og stjórnarherra þessa heims hefur leitt slíka blóðsekt af sér, hefur hlaðið upp slíkt syndafjall að Guð getur ekki með nokkru móti hunsað það. Brátt eyðir hann með öllu þessari hindrun í götu ósvikins friðar. — Opinberunarbókin 18:21.
Friðarleiðin
17, 18. (a) Hvers vegna er það ekki aðeins draumsýn að trúa að eilífur friður sé mögulegur? (b) Hvað hefur Jehóva þegar gert til að tryggja að sannur friður komist á?
17 Ef menn geta ekki komið á sönnum og varanlegum friði með því að beita stofnunum á borð við Sameinuðu þjóðirnar, hvaðan kemur þá sannur friður og hvernig? Er það aðeins óraunhæfur draumur að trúa því að eilífur friður sé mögulegur? Ekki ef við leitum til hinnar réttu friðaruppsprettu. Og hver er hún? Sálmur 46:10 svarar með því að segja okkur að Jehóva ‚stöðvi styrjaldir til endimarka jarðar, brjóti bogann, slái af oddinn og brenni skjöldu í eldi.‘ Og Jehóva er þegar búinn að stíga fyrsta skrefið að því að binda enda á stríð og koma á sönnum friði. Hvernig? Með því að setja Krist Jesú í sitt réttmæta hásæti í Guðsríki árið 1914, og með því að standa að mestu friðarfræðsluherferð í allri mannkynssögunni. Spádómsorðin í Jesaja 54:13 fullvissa okkur: „Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva] og njóta mikils friðar.“
18 Þessi spádómur lýsir lögmálinu um orsök og afleiðingu — það er að segja að öll afleiðing eigi sér einhverja orsök. Í þessu tilfelli er kennsla Jehóva orsökin og breytir herskáum mönnum í friðelskandi menn sem eiga frið við hann. Afleiðingin er sú umbreyting hjartans sem lætur þá elska friðinn. Þessi kennsla breytir huga og hjarta fólks og er nú þegar að breiðast út um allan heim þannig að milljónir manna fylgja fordæmi ‚Friðarhöfðingjans,‘ Jesú Krists. — Jesaja 9:6.
19. Hvað kenndi Jesús um sannan frið?
19 Og hvað kenndi Jesús um sannan frið? Hann talaði ekki einungis um frið á milli þjóða, heldur um frið meðal manna og um innri frið sem stafar af góðri samvisku. Í Jóhannesi 14:27 lesum við orð Jesú til fylgjenda sinna: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“ Hvernig var friður Jesú ólíkur friði heimsins?
20. Fyrir atbeina hvers kemur Jesús á sönnum friði?
20 Í fyrsta lagi var friður Jesú nátengdur boðskap hans um Guðsríki. Jesús vissi að hin réttláta himneska stjórn, sem hann og 144.000 meðstjórnendur hans sætu í, myndi gera styrjaldir að engu og tortíma stríðsæsingamönnum. (Opinberunarbókin 14:1, 3) Hann vissi að hún kæmi á þeim friðsælu paradísaraðstæðum sem hann síðar bauð illvirkjanum sem dó við hlið hans. Jesús bauð honum ekki stað í ríkinu á himnum heldur sagði: „Sannlega segi ég þér í dag, þú skalt vera með mér í paradís.“ — Lúkas 23:43, NW.
21, 22. (a) Hvaða styrkjandi og stórfengleg von felst í sönnum friði? (b) Hvað verðum við að gera til að sjá þessa blessun verða að veruleika?
21 Jesús vissi einnig að ríki hans myndi hugga og hughreysta alla sorgmædda sem sýna trú á hann í verki. Friður hans felur í sér hina dásamlegu og styrkjandi upprisuvon. Minnstu uppörvandi orða hans í Jóhannesi 5:28, 29: „Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.“
22 Hlakkar þú til þess tíma? Hefur þú misst ástvini í dauðann? Þráir þú að sjá þá aftur? Þiggðu þá friðinn sem Jesús býður. Hafðu trú eins og Marta, systir Lasarusar, sem sagði við Jesú: „Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ Og taktu eftir hrífandi svari Jesú til Mörtu: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“ — Jóhannes 11:24-26.
23. Hvers vegna er nákvæm þekking á orði Guðs nauðsynleg til að öðlast sannan frið?
23 Þú getur líka trúað þessu loforði og haft gagn af því. Hvernig? Með því að afla þér nákvæmrar þekkingar á orði Guðs. Taktu eftir hvernig Páll postuli lagði áherslu á nauðsyn nákvæmrar þekkingar: „Vér [höfum] ekki látið af að biðja fyrir yður. Vér biðjum þess, að þér mættuð fyllast [„nákvæmri,“ NW] þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans, svo að þér hegðið yður eins og [Jehóva] er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt, og fáið borið ávöxt í öllu góðu verki og vaxið að þekkingu á Guði.“ (Kólossubréfið 1:9, 10) Þessi nákvæma þekking sannfærir þig um að sannur friður kemur frá Jehóva Guði. Hún segir þér líka hvað þú verðir að gera núna til að þú getir tekið undir með sálmaritaranum: „Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, [Jehóva], lætur mig búa óhultan í náðum.“ — Sálmur 4:9.
Geturðu útskýrt?
◻ Hvers vegna hafa friðartilraunir manna stöðugt brugðist?
◻ Hver er undirrót styrjalda?
◻ Hvers vegna er varanlegur friður ekki draumsýn?
◻ Hvaðan kemur sannur friður?
[Mynd á blaðsíðu 8]
Sannur friður er ekki draumur heldur loforð Guðs.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Hinn táknræni riddari rauða hestsins hefur tekið friðinn burt af jörðinni síðan 1914.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Geta trúarbrögðin og Sameinuðu þjóðirnar komið á friði?
[Rétthafi]
Ljósmynd: Sameinuðu þjóðirnar.